Komin á vertíð !

Það þótti svalt í den að geta sagst hafa verið á vertíð. Það gat ég ekki, vegna þess að ég fór aldrei á vertíð. Ég flutti hins vegar að heiman 15 ára, til að vinna á hænsnabúi sem "ráðskona". Glætan, ég sem kunni ekki einu sinni að sjóða vatn GrinEn það slapp nú til, ég þurfti ekki að elda mikið, bara steikja egg og sjóða kartöflur og medisterpylsu. Mér fannst medisterpylsa vond þá og þykir hún ennþá vond, burtséð frá því hvort hún er framleidd ennþá eða ekki. Núna er orðið vertíð ekki bara notað í sambandi við fisk, ferðamanna"vertíðin" er til dæmis byrjuð núna og ég er komin á vertíð. Langþráður, eldgamall draumur hefur þá semsagt ræstCool Dagarnir eru auðvitað í lengra lagi á vertíð, eins og vera ber, en ég held þessu áfram á meðan ég hef gaman og nenni þessu. Nennið virðist nú samt eitthvað vera á undanhaldi, ég nenni ekki lengur að selja morgunmat, það voru bara hlaup en ekkert kaup. En ef ég verð vör við, að ég til dæmis fer að hætta að nenna að skipta á rúmunum fyrir nýja gesti eða eitthvað þess háttar, þá ætti ég líklega að snúa mér að einhverju öðru í snarhastiTounge Dagurinn í dag ætti að vera í rólegra lagi, þó það sé aldrei á vísan að róa með það, frekar en íslenska veðrið. Ég ætlaði að dunda á lóðinni í dag í 20 stiga hita, fara í Kjarna og kaupa blóm og trjáplöntur og bjóða tengdadóttur föðurömmu minnar með. Planið með lóðina er lítillega breytt í bili, það er 8 stiga hiti og þoka úti núna, þannig að ég fer þá að leita að gullfiskunum mínum, ég sé ekki alveg hvort þeir eru ennþá í skálinni. Svo setjum við bara upp húfur og lopavettlinga til að fara í gróðrarstöðina eftir hádegi, ef ekkert rætist úr veðrinu og skrepp síðan aðeins í kvöldvinnuna mína frá svona fimm til níu. Þessi leiðréttingarpúki hérna er frábær og honum finnst medisterpylsa líka vera vond, það var eina orðið sem hann setti út á hjá mér núnaWink Eigið góðan og blessaðan dagSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Evudóttir

Frétti að þið hefðuð tæmt gróðrarstöðina

Erna Evudóttir, 9.6.2007 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband