Ætli hún kunni nokkuð að hringja lengur ?

Vekjaraklukkan mín er biluð, hún hringir ekki þegar hún á að gera það. Hún hringir nú svo sem ekkert heldur þegar hún á ekki að gera það. Að vísu hef ég ekki hugmynd um hvort hún hefur nokkuð getað hringt í mörg ár, ég er ekkert viss um það, ég er alltaf vöknuð á undan henni. En ég hef samt alltaf stillt hana á kvöldin og slökkt svo á henni þegar ég fer á fætur, áður en hún hringir. Ef hún hefur þá yfir höfuð ætlað sér að gera það. Ég er búin að eiga þessa klukku í ótal ár, alveg frá því í fyrri sambúðinni minni. Og þegar ég var nú orðin ein með börnin mín þrjú, í litlu þorpi á mörkum hins byggilega heims og þurfti á fætur klukkan 5 á morgnana til að fara í vinnuna, á alveg svakalega andlausum vinnustað, þá vaknaði ég aldrei á undan henni, hún þurfti alltaf að hringja, lengi. Þá virkaði hún alltaf, fyrir utan þetta eina skipti þarna, þegar ég þeytti henni í geðvonsku minni í vegginn í svefnherberginu, á laugardagsmorgni, þá var hún eitthvað biluð greyið. Börnin mín röðuðu henni saman á meðan ég var að vinna þennan laugardag og ég var ægilega stolt af þeim. Það var, vægast sagt ekkert gaman, að vakna klukkan 5 á morgnana, seinni veturinn sem við bjuggum í þessu þorpi. Það hafði snjóað svo mikið að gatan var jafnhá húsþökunum og það var norðan stórhríð í margar vikur. Alltaf dimmt inni í húsinu, af því að það var auðvitað snjór fyrir öllum gluggum og fyrsta verkið á morgnana var að opna útihurðina, moka snjónum úr holunni fyrir utan, í bala og setja í baðkerið, klifra svo upp snjógöngin, taka teppið frá, sem var sett þar til að rennan fylltist ekki af snjó um nóttina og gá til veðurs. Klæða sig svo eftir veðri, skríða upp í gegnum  snjórennuna eins og tófa úr greni og arka alla leið niður á bryggju, til að fara að vinna á eina vinnustaðnum sem í boði var, frystihúsinu. Síðan þá hef ég ekki þolað snjó, af einhverjum ástæðumWink Það var tvennt sem hélt mér gangandi þennan vetur, börnin mín og vekjarakukkan. Við fluttum til Slow town, strax um vorið og síðan hef ég alltaf vaknað á undan klukkuskömminni. Til að friða nú spúsa minn, en það var hann sem komst af tilviljun að þessu með klukkuna, þá ætla ég að fara og kaupa nýja vekjaraklukku til að slökkva á, á morgnana, áður en hún hringir. Eigið góðan dag í allan dagSmile

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Unnur R. H.

HAHAHA alveg skil ég þig að dúndra klukkunni, hefði gert það sama...En gangi þér vel með nýja klukku í framtíðinni

Unnur R. H., 29.8.2007 kl. 08:48

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 29.8.2007 kl. 09:54

3 Smámynd: Birna Dúadóttir

Oj bara ég man eftir svona andsk snjóakistu á Grenivík.Og ég man líka eftir að hafa rennt mér niður göngin að útidyrahurðinni hjá þérÉg elska snjó,ef hann er bara á Grenivík

Birna Dúadóttir, 29.8.2007 kl. 12:32

4 Smámynd: Erna Evudóttir

Engin smá ævintýr sem þið hafið lent í systurnar, maður er bara alltaf hafður útundan

Erna Evudóttir, 29.8.2007 kl. 13:51

5 identicon

Á að henda klukkunni uss mikið er maður nýmóðins he he he he

Jens Hjelm (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband