Voff voff.....

Það var þetta með að taka upp tíkina í sér, það er vel orðað hjá henni Birnu systir minni. Og alveg nauðsynlegt, því miður, alltaf annað slagið. Samt finnst mér ég ekkert vera tíkarleg, þó ég sé ekki alltaf með afsakanir á takteinunum fyrir fólk, sem urrar á mig eða er með einhverskonar leiðinlegheit að ástæðulausu. Vegna þess að hvernig sem ég leita, þá get ég ekki séð að neinn hafi neina nógu góða ástæðu til að láta það bitna á öðrum, þar með talið mér sjálfri, þó svo að viðkomandi sé þreyttur eða eitthvað gengur illa et cetera. Ekki hef ég neinn rétt á að koma þannig fram við aðra og aðrir hafa þar af leiðandi engan rétt á að koma þannig fram við mig. Ég er nefnilega með þeim ósköpum gerð að mér líður alls ekkert betur þó svo ég geti hreytt andstyggilegheitum í annað fólk og sérstaklega þá ekki fólk sem mér er annt um. Ef ég er þreytt, þá er það vegna einhvers sem ég hef gert og þá hvíli ég mig. Ef eitthvað gengur illa í lífinu, sný ég mér að því að laga það eða þá stundum bara gefa skít í það. Ég ræðst ekki að öðru fólki, sem á enga sök á mínum krísum og er með leiðindi, mín vandamál stór eða smá, lagast alls ekkert við það. En svo er annað mál, að sjálfsvörn telst til sjálfsagðra mannréttinda. Ég sit ekki undir einhvers konar skít frá neinum, ef ég á það alls ekki skilið ! Þá kemur tíkin upp í mér og þá gelti ég ekki bara, ég á það til að urra og get  glefsað líka. Ég er ekki kristin og er svo alls ekki með Biblíuna á hreinu, en í þeirri mætu bók, veit ég um eina setningu, sem allir ættu að hafa í huga, alltaf og hún hefur ekkert með trú að gera, bara mannleg samskipti : Það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér, það skaltu ekki gera öðrum ! Ég veit alveg að þetta er ekki orðrétt, þetta er á einföldu mannamáliWink  Og með þetta í huga, megið þið öll eiga góðan dagSmile

Banvænt tuskuæði....

Ég er búin að setja inn myndir af glugganum okkar, fyrir og eftir og á bara eftir að setja upp ljósa þunna vængi á gardínustöngina, saumavélin er alveg að fara að komast út úr geymslunni svo hægt sé að stytta gardínurnar aðeins. Ég er búin að vera með óstöðvandi tuskuæði um helgina, en það fer af, þegar ég er búin að ná í rassg....á sjálfri mér í þrifunum hérna. Eins gott líka, ég er nefnilega sannfærð um, að tuskuæði í of miklum mæli getur verið banvænt ! Við erum eiginlega búin að búa á smíðaverkstæði í tvo mánuði og nú er nóg komið, í bili. Ég hef ekki lesið eina einustu frétt í miðlum í morgun sem hefur vakið sérstaka athygli mína, en ég las færslu hjá Gunnari bloggvini mínum (rannug), bráðnauðsynlegar leiðbeiningar handa flugmönnum, það er frábær lesning sem ég mæli virkilega með að þið kíkið á. Það er svo hollt að brosa á morgnana ! Eigið góðan dag og munið að brosa framan í veröldinaSmile

Góðan og blessaðan sunnudag !

Hér sit ég við stóran og fallegan glugga, sem er alveg að fara að fá gardínur og rimlatjald og skrifa á tölvuna. Ég á von á alveg einstaklega ánægjulegri heimsókn í dag, Anna og Mæja æskuvinkonur mínar úr Innbænum ætla að kíkja til mín í fjallakofann. Það verður gaman. Við erum búin að laga svo mikið til hér um helgina, að íbúðin okkar er alveg að verða fær fyrir fólk án stígvéla og annarra hlífðarfata. Það er rigning núna og kemur sér ekkert sérstaklega vel fyrir mig, ég þarf að þvo af 15 rúmum og fá það helst þurrt í gær. Ég er ekkert búin að fatta að ég er í sumarfríi, en geri mér vonir um að það lagist á morgun, þegar klukkan er orðin 10 og ég er ekki að stimpla mig inn og hendast af stað í eitthvert húsið með vel æft þolinmæðisumburðarlyndisbrosið á andlitinu. Það var að verða svolítið slitið þetta bros síðustu dagana, en það er óðum að lagast. Ég er, eins og venjulega þegar ég byrja í sumarfríi, algerlega ofvirk og læt eins og ég ætli að klára á 2 dögum allt það sem ég hef ekki komist yfir hérna heima í sumar. En ef ég þekki sjálfa mig rétt þá fer ég aðeins að slaka á næstu daga, þegar ég sé fram á að ég virkilega hef tíma til að gera það sem ég vil og þarf að gera. Þetta eru bara fastir liðir eins og venjulega og búið að vera svona svo lengi að það má líklega fara að kalla þetta hefð. Eigið góðan dag og njótið þess að vera í fríiSmile


Ég er komin í sumarfrí !!!!!!!!!!!!!

Má ekki vera að því að skrifa mikið, ég er nefnilega síðan klukkan 9 í gærkvöldi, komin í mitt lang lang langþráða sumarfrí ! Ég fer líklega að fatta það einhvern tíma eftir helgina, þegar í ljós kemur að ég hef ekki mætt í vinnuna í nokkra daga. Sumir eru bara seinni að fatta en aðrir ! Við settum saman nýjasta tölvuborðið mitt í gærkvöldi og ég ætla að taka myndir af því og glugganum og alles og setja hér inn, þegar ég er búin að þrífa og gera fínt. Erna litla systir mín, 6 árum yngri, grennri, hærri og fallegri en ég, hitti gamlan vin hér í Slow town um daginn. Ég beið eftir henni í bílnum, spölkorn frá og þegar hún benti honum á að systir hennar væri að bíða eftir henni þarna í bílnum, spurði hann hvort ég væri ekki miklu yngri en hún. Mikið ógurlega þykir mér vænt um þennan mann ! Ég hef samt aldrei hitt hann og veit ekkert hvað hann heitir og mig grunar að Ernu langi ekkert sérstaklega til að hitta hann aftur..... En kannski hefur nú þarna spölkornið eitthvað hjálpað manninum til að draga þetta stórskrítnu ályktun. En nóg um það, í bili.... Litli engillinn minn hún Linda Björg kemur núna um 10 leitið og ætlar að vera hjá henni ömmu sinni í dag. Hún er alveg með eindæmum hjálpsöm lítil stúlka og er öll af vilja gerð til að hjálpa upp á gömlu konuna hana ömmu sína, en amman er bara svo skrítin að henni finnst eitthvað vanta upp á gagnið sem það gerir. Kannski einhverskonar elliglöp eða eitthvað með það að gera að engillinn er bara tæplega tveggja ára. Núna ætla ég að njóta upphafsins af sumarfríinu mínu og fara út og sópa sólpallinn okkar og þrífa hérna niðri í íbúðinni okkar og bíða eftir því að gestir næturinnar á gistiheimilinu komi á fætur svo ég geti reytt af þeim nokkrar krónur! Eigið góðan og blessaðan dagSmile

Árátta

Í dag er síðasti dagurinn fyrir sumarfrí, "aðfangadagur" sumarfrísins míns upp á sænsku, skilst mér. Stofan okkar er að verða fullkomin, bara eftir að setja upp einn lista og svo gardínur og þá er verkið fullkomnað. Og setja saman nýja tölvuborðið sem ég keypti um daginn, tölvuborð númer tvö. Næst nýjasta tölvuborðið er of breitt fyrir vegginn sem ég vil hafa það við, svo að ég fann fyrir það gott heimili hjá einum næstum því 6 ára sem er að byrja í skóla í haust. Ég er sem sagt haldin svona smá fullkomnunaráráttu, hlutirnir verða helst að passa. Að vísu hefur mér tekist að draga verulega úr þesari áráttu minni á síðustu árum, þetta var eiginlega orðið sjúklegt. Ég var orðin þannig að ég byrjaði bara alls ekki á neinu, af því að ég var svo hrædd um að ég gæti kannski ekki klárað það og það yrði ekki algerlega fullkomið. Rankaði svo smám saman við mér og sá að þetta gat bara alls ekki gengið svona lengur, reif sjálfa mig upp á rassg.... og fór að laga verulega vel til hérna uppi á efstu hæðinni hjá mér. Það er svo sannarlega alls ekki allt í röð og reglu þar í dag, en samt skárra og svo er ég alltaf af og til, að reyna að breyta og bæta. Ég er klukkuð aftur núna, verð að segja eitthvað nýtt um mig, ekki það sama og um daginn:

Ég nota ekki sama númer af fötum og þegar ég var 16

Ég er með smá fullkomnunaráráttu

Ég fer aldrei í fýlu

Ég er minni en öll systkini mín

Ég sofna alltaf á fundum

Ég nennti ekki í framhaldsnám

Ég hreinsa gullfiskaskálina allt of sjaldan

Ég þoli ekki ósanngirni

Eigið góðan dagSmile

 

 


Svo lengi lærir sem lifir....

Mér finnst virkilega gefandi að vinna með fólki og held mér takist yfirleitt vel upp, allavega er ekki búið að reka mig ennþá. Í gærkvöldi var ég úrvinda eftir kvöldvinnuna mína, þó hún byggist aðallega upp á innliti til fólks. Þetta átti að vera svo auðvelt og taka stuttan tíma, nokkrir eru tímabundið að heiman, en raunin varð önnur. Uppáhaldið mitt, 92 ára gömul kona er búin að vera lasin í nokkra daga og í gærkvöldi leist mér ekkert á og hringdi á lækni. Hann vildi leggja hana inn í hvelli og hringdi eftir sjúkrabíl. Sú gamla var nú ekki ánægð með að ég skyldi hringja á lækninn, það var sko alger óþarfi, en þegar það kom svo líka sjúkrabíll, þá varð mín kona stórhneyksluð og neitaði að hreyfa sig. Þetta var nú einum of sko, hún ætlaði sko ekkert að fara liggjandi út að keyra. Hún er ekki stórvaxin blessunin og ég hefði hæglega getað haldið á henni út, en það varð úr að ég keyrði hana á mínum bíl suður á sjúkrahús, í fylgd sjúkrabílsins. En ekki fyrr en ég var búin að lofa að ættleiða páfagaukinn hennar ef hún kæmi ekki heim aftur. Ég hef það fyrir reglu að heimsækja ekki skjólstæðingana mína eftir að þeir eru komnir af mínum höndum, á sjúkrahús eða öldrunarheimili. Það er of erfitt og tekur rosalega af mér. Ég veit að þetta er púra sjálfselska og eigingirni en það verður bara að hafa það, ég verð líka að hugsa um að eiga eitthvað eftir handa mér og mínum. Reynslan hefur kennt mér að ég verð að skilja vinnuna eftir í vinnunni, það er sko ekki alltaf auðvelt, en, svo lengi lærir sem lifir...Eigið góðan dag Smile 


Nokkur tár.......

Sumarið er komið, morguninn heilsaði með sól, en ekki þokunni sem við virtumst vera orðin fastir áskrifendur að, hérna á norðurhjaranum. Erna og börnin fara í dag, það verður agalega tómlegt í fjallakofanum mínum. Sá yngsti hennar, Ísak 4 ára, kom til mín í gærkvöldi og horfði á mig dágóða stund, þangað til ég spurði hann hvort hann vildi segja mér eitthvað. Já, sagði hann, mig dreymdi að ég datt ofan í vatn, svo fór hann bara upp aftur, pollrólegur að venju, þegar honum fannst ég vera búin að svara á viðeigandi hátt. Hann hefur lítið skipt sér af mér, enda höfðum við aldrei sést fyrr þau komu hingað núna. En mér þótti vænt um þetta, ég skipti greinilega einhverju máli í lífi lítils 4 ára frænda míns. Í dag eru, í alvöru, bara 3 dagar þangað til ég fer í sumarfrí, engin rassvasasálfræði í gangi og engin afneitun heldur. Fyrsta daginn ber upp á Þorláksmessu að sumri. Fór að athuga þetta í dagatalinu, þegar ein "gamlan mín" bað mig í gær, að þrífa nú eldhússkápana  sína, þá þyrfti ekkert að gera það fyrir jólin. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið skal ég segja ykkur ! Hér kom pása af því að Erna vaknaði of snemma ! Þurfti svo að fara að vinna og núna á eftir keyri ég Ernu og co á flugvöllinn með tárin falin bak við sólgleraugun..... Eigið góðan dagSmile  

Góóóðir hluuuutir geeeerast hæææægt !

Í öllu mínu brasi um dagana, hef ég tekið þann pól í hæðina að hafa meðferðis sem mest af því sem ég vil kalla þolinmæði. Mjög trúlega er það svo angi af minni eðlislægu leti sem hefur hjálpað mér við að stunda alla þessa þolinmæði. Nenna ekki að takast á við hlutina fyrr en nauðsynlegt er. Að vísu vinn ég ekki svoleiðis, ég þarf að drífa hlutina af þá eru þeir bara búnir og hægt að snúa sér að næsta verkefni og klára það líka og svo koll af kolli. Og þetta með að góðir hlutir gerast hægt, hefur alltaf verið í svolitlu uppáhaldi hjá mér, NEMA, þegar ég er að bíða eftir einhverju eins og til dæmis að komast í sumarfríið mitt.... þá vil ég helst reka tímann áfram með látum. Handsnúa hann áfram með frekju þangað til dagurinn sem ég vil fá, er kominn. Að vísu verður ekki mjög mikil breyting á vinnuframlagi hjá mér, daginn sem sumarfríið mitt byrjar, þann dag þarf ég að hafa tilbúin 14 uppbúin rúm fyrir gesti sem verða um helgina í gistiheimilinu. En jú, sú breyting verður auðvitað, að ég þarf ekki líka að mæta í hinar vinnurnar mínar. Þetta verður sem sé alveg frááábært ! Eitt dæmi um handsnúnu frekjuna í mér er, að ég tel ekki daginn í dag með þegar ég er að telja niður, þannig að núna teljast sem sagt bara 3 dagar þangað til ég kemst í sumarfrí. Hef ég nokkuð nefnt það hér að ég er alveg að komast í sumarfrí ? Ég held ekki............ Eigið góðan og helst dásamlegan dagSmile


Næði....

Hér er allt svo rólegt á þessum fína sunnudagsmorgni. Allir sofandi nema ég og gullfiskarnir, skyldu þeir einhvern tímann sofa ? Ég á bara eftir að vinna 4 daga þangað til ég kemst í sumarfríið, bæði dag og kvöldvinnu og svo verður líka mikið að gera í gistiheimilinu akkúrat þessa 4 daga, það er gott að hafa nóg að gera, en allt er gott í hófi. Ég er búin að lýsa því yfir, hátt og í hljóði, að fyrstu vikuna í fríinu mínu ætlaði ég að gera alls ekki neitt og alveg ofsalega mikið af því. Fleiri en einn hafa sagt mig ljúga því og líklega var ég nú að því. Ég get aldrei gert alveg ekkert, ég nenni því ekki, en ég er samt alltaf að bíða eftir honum þarna deginum þar sem ég vakna og get hugsað að ég þurfi ekkert að gera allan daginn, frekar en ég vil. Hann kemur....einhvern tímann....ef hann er þá ekki bara löngu farinn fram hjá mér án þess að ég hafi tekið eftir honum. Núna finnst mér Svíþjóðarferðin okkar bara vera rétt hinum megin við hornið, kominn miður júlí og bara mánuður til stefnu. Ég hlakka svoooooo til að hitta stelpurnar mínar ! Ég ætla ekki í messu í dag ekkert frekar en aðra daga en ætla að gera þetta að góðum degi samt sem áður. Í kvöld ætla ég svo að passa litlu sonardóttur mína, svo foreldrar hennar geti um frjálst höfuð strokið smástund. Hún er ofsalega góð og ofsalega lífleg, eins árs að flýta sér að verða 5 ára ! Eigið líka góðan dag allirSmile

Klukkan hvað ????

Jæja, nú er víst stund sannleikans upprunnin, Gunnar bloggvinur minn KLUKKAÐI mig. Hvað kemur honum til að láta sér detta svona í hug ? Eitthvað úr uppeldinu kannski, aldrei fengið að ganga í lopaleystum eða eitthvað ! Aldrei heyrt um þetta, en ekki vill maður nú vera félagsskítur.......Tounge

1. Ég er kona

2. Ég á mann

3. Ég er húðlöt í eðli mínu

4. Mér finnst leiðinlegt að borða

5. Mér finnst vatn vont

6. Mér finnst allt fallegt í sól

7. Ég er yfirleitt fremur geðgóð, nema þegar ég er geðvond

8. Ég á afmæli 3.október

Þetta var nú ekkert svo voðalega erfitt og ég KLUKKA auðvitað hann Gunnar og Birnu systir og Jóku litlu systur og Ernu systir auðvitað, leyfi henni að nota tölvuna mína, svo er það hún Hjördís Kvaran, hún sleppur ekki heldur. Ég á ekki svona marga bloggvini ! Verð líklega að fá lánað hjá öðrum. Ok hún Lilja frænka mín og Steinar Óli bróðir hennar fá líka KLUKK frá mér og Svenni bloggvinur Jenna mágs mín og þá er þetta komið. Púff... Eigið góðan dag öllSmile

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband