"Ein með ....engu ?

Hér í Slow town stendur þessa helgina yfir, fjölskylduhátíðin "Ein með öllu". Hingað til hefur þessi hátíð borið nafn með rentu, fyllirí, slagsmál, nauðganir, eiturlyfjasala og neysla, svo einhver dæmi séu tekin, sem sagt allt með ! Til að slá eitthvað á ófögnuðinn, sem tröllriðið hefur þessari hátíð undanfarin ár, tók bæjarstjóri vor þann pól í hæðina að banna fólki á aldrinum 18-23 ára að koma til bæjarins og tjalda. Málið leyst ? Eða hvað ....... Ég hafði hingað til bara alls ekki gert mér grein fyrir því, hvað fólk á þessum aldri er hættulegt. Ég hélt alltaf að drykkjuskapur, fíkniefnaneysla og svo ofsalega margt annað óhugnanlegt, sem því fylgir væri alls ekki aldurstengt, en nú ætti ég að vera orðin betur upplýst um það. Núna verður þá sem sagt, alls ekkert fyllirí, engin eiturlyfjaneysla og engar nauðganir eða aðrir ofbeldisglæpir, af því að hættulegasta fólkinu hefur verið úthýst..... Við eigum öll að vera búin að sjá það núna, að fjölskyldufólk drekkur ekki áfengi, notar ekki eiturlyf og beitir ekki ofbeldi af neinum toga, nema það sé á aldrinum 18-23 ára. Eða er það ekki ? Maðurinn, sem rekur teríuna inná flugvelli og er þar að auki í minnihluta í bæjarstjórn sýndist í sjónvarpinu í gærkvöldi, alveg vera með á þessu. Hann var búinn að setja skilti á borðin í teríunni þar sem stóð, meðal annars : "Ekki fyrir utanbæjarfólk" og "Ekki fyrir 18-23 ára". Nú vil ég taka það skýrt fram, að þessi ágæti maður var algerlega ósammála ákvörðun bæjarstjórans í þessu máli, eins og meirihluti bæjarstjórnarmanna var líka og hann er þar að auki alveg einstakur húmoristi ! Núna ætla ég að kíkja í blöðin og lesa um allt þetta ljóta og vonda, sem hefur gerst á öllum hinum útihátíðunum, þar sem "hættulega fólkið" fær að vera með ............. Eigið góðan dagSmile

Allt gott og rólegt

Hér gengur lífið sinn gang í rólegheitunum bara. Þegar ég var búin að skipta á öllum rúmunum í gistiheimilinu og taka á móti nýju gestunum, kom sonur spúsa míns, stórútgerðarmaður austan af landi í heimsókn, með konu og son. Þau stoppuðu smástund áður en þau héldu ferðinni áfram til Borgar Óttans. Skyldu eftir fullan poka af fiski handa okkur, frábært, fiskur í kvöldmatinn á þessu heimili. Það er rigning úti og ekkert hægt að hengja út en það er allt í lagi, ég neyðist þá bara til að vera inni og gera sem minnstWink   Henda í þurrkarann, leika mér í tölvunni og borða nammi og horfa svo á sjónvarpið sem við hálfvituðumst til að kaupa okkur í gær. Ég sem sé horfi á sjálft sjónvarpið, ekki myndina, það er mjög flott og mjög stórt og eiginlega bara alls ekki hægt að komast hjá því að horfa á það. Það eru bara 8 dagar þangað til við skellum okkur til Gautaborgar í heimsókn til dóttur minnar og tengdadóttur og ég hlakka ofsalega mikið til. Mér finnst gaman að fara til útlanda, elska að fljúga, þó ég sé svo lofthrædd að ég þori ekki upp í stiga og ég alltaf áhyggjur af því að villast í þessum stóru flugstöðvum. Þyrfti helst kort og áttavita svona til öryggisBlush  Annars hef ég farið flestar ef ekki allar utanlandsferðir mínar undanfarin ár, í fylgd með fullorðnum, þannig að ég hef ekkert þurft að hafa neinar áhyggjur og hef ekkert villst. Eigið góðan dag, skemmtið ykkur vel, en gangið hægt og mjög varlega um gleðinnar dyrSmile

Fúllynd og óþolinmóð eða......... ?

Mér finnst ekkert að ég þurfi alltaf að hafa skoðanir á öllu, þess vegna blogga ég til dæmis ekki um fréttir. En, þegar ég hef skoðun á einhverju þá fer það ekki framhjá neinum, fá sjálfsagt fleiri að heyra en vilja. Ég hef svolítið verið að velta því fyrir mér, hvort það geti verið að ég sé að verða eitthvað fúllynd og óþolinmóð með árunum. Ég, sem hef alltaf stært mig af því að vera jafnlynd, meira þá í átt til "glað" en "fúl" og töluvert yfir meðallagi þolinmóð. Ég læt nú orðið fara í taugarnar á mér ýmislegt, sem ég heyri fólk tala um og þótt það eigi að vera í einhverskonar gríni, þá finnst mér það ekkert alltaf fyndið. Mér finnst til dæmis ekkert fyndið þegar fólk er að tala um að "fá sér eina tælenska" eða "eina svarta" til að vinna skítverkin á heimilinu og fyrir eiginmanninn svo hann geti "hvílt" konuna sína. Mér finnst þetta svo ekki fyndið, mér finnst þetta bara ósmekklegt. Og þá langar mig oft til að hrista eitthvert smá vit inn í hausinn á viðkomandi, í einum grænum hvelli, af því að mér finnst að fullorðið fólk eigi að vera löngu búið að ala sjálft sig upp úr svona heimsku. Og það virkar ekkert á mig að fá að vita að "svona var ég nú bara alin/n upp", það er annað sýnishorn af fyrirmyndar heimaræktaðri heimsku. Þegar foreldrahúsum sleppir og við farin undan verndarvæng uppeldis mömmu og pabba, þá hljótum við að taka sjálf við hlutverkinu. Halló sko, ég fór sjálf að heiman fimmtán ára og ef ég hefði ekki tekið til við að ala mig upp sjálf, hvernig væri ég þá í dag ? Vil ekki hugsa um það ! Ég er ekki að halda því fram, að ég sé eða hafi nokkurntímann verið fyrirmyndar uppalandi fyrir hvorki sjálfa mig né aðra, en ég fæ þó prik fyrir að hafa áhuga á að reyna. Tek það fram að ég fer fram á minnsta kosti 2 prik ! Fúllynd og óþolinmóð eða bara slæmur félagsskapur ? Hvað um það, eigið góðan dag og gangið hægt um gleðinnar dyr um komandi helgiSmile


Engar hremmingar........

Sonardóttir mín gisti hjá okkur síðustu nótt. Hún er rétt tæplega tveggja ára og náttulega yndisleg lítil stúlka. En ég var samt með í maganum yfir þessu, fyrirfram, alveg viss um að grjónið litla yrði með vesen og læti þegar hún ætti að fara að sofa, en það var nú öðru nær. Hún fór bara að sofa þegar ég setti hana inn í rúm og vaknaði svo brosandi í morgun, alveg eins og lítill engill. Ég fór og skilaði henni áðan til réttra eigenda og þóttist góð að sleppa svona vel úr þessum, sem ég hélt að yrðu, voðalegu hremmingum. Þessi myndarlega-í-sér-húsmóðir hérna á Glerá er að sjóða 8 kíló af rabarbarasultu, bara af því bara. Ég hlakka svo agalega mikið til Verslunarmannahelgarinnar. Ekki af því að ég er að fara á rokna fyllerí og/eða á útihátíð, heldur vegna þess að bæjarstarfsmenn Slow town eru byrjaðir að grafa fyrir hitaveitunni hérna hjá okkur !!! Það kom hérna maður í morgun og skoðaði húsið okkar að utan og innan, til þess að finna út hvar hann gæti brotist inn, með lögnina. Eða ég held að hann hafi verið frá Hitaveitunni, kannski var þetta bara venjulegur innbrotsþjófur. En það kemur allt í ljós með tíð og tíma ! Eigið góðan dagSmile

Mér líður miklu betur núna !

Alveg frá því að ég man eftir mér, hefur mér og ofsalega mörgum sem þekkja mig, fundist ég vera hálf sauðaleg, utan við mig, gleymin, í öðrum heimi, bjöllungur, álfur út úr hól, annars hugar og svo framvegis. Í seinni tíð hefur mér stundum dottið í hug "kvarts"heimer og elliglöp ýmiskonar. Ég fer t.d. úr eldhúsinu, inn í stofu, til að gera eða sækja eitthvað og er búin að gleyma því þegar ég kem þangað, eftir alveg 3 metra labb skal ég segja ykkur. Þá þarf ég að fara aftur fram í eldhús og "ná í" hugsunina, það er engu líkara en hún hafi orðið eftir þar ! Ég get ekki sagt með sanni, að ég hafi nokkurn tímann haft áhyggjur af þessu, frekar gert grín af þessu af því að þetta hefur ekki skaðað neinn, getur samt verið leiðigjarnt, svona ef ég er mikið að flýta mér. En við lestur greinar á vísi.is eða á mbl.is, sem sé man ekki hvar, rann upp fyrir mér ljós í myrkrinu : ég er bara mjög eðlileg miðað við aðstæður. Ég hef greinilega fæðst með eitthvað sem kallast : Hómers-heilkennið. Hefði nú eiginlega viljað annað nafn á þetta, Hómer Simpson hefur aldrei verið í neinu uppáhaldi hjá mér, en maður getur aldrei fengið allt. Íslensk kona, prófessor í einhverju, hefur verið að rannsaka þetta fyrirbæri og fundið út að þetta er heilkenni, ekki sauðsháttur. Hún tók sem dæmi að maður setur tannkremið á hárburstann eða fer út í bílskúr til að sækja eitthvað en man ekki hvað, þegar á staðinn er komið. Ég kynnti mér ekkert þessa rannsókn, sá bara þetta tvennt og komst að raun um, að ég er líklega ekkert mjög illa haldin af Hómers-heilkenninu. Ég hef aldrei sett tannkremið á hárburstann minn, oj bara, og ég hef aldrei farið út í bílskúr og gleymt hvað ég ætlaði að ná í. Við eigum nefnilega engan bílskúr. Eigið góðan og blessaðan dagSmile


Aðdáandinn minn......

Ég á aðdáanda, það er víst megaflott að geta sagt það. Að vísu hefur mér aldrei fundist það vera atriði fyrir mig persónulega og alls ekki núna. Þessi aðdáandi minn er að gera mig vitlausa, hangir yfir mér öllum stundum og getur alls ekki látið mig í friði. Meira að segja þegar ég er háttuð inn í rúmi ! Hann er sífellt að snerta mig og það finnst mér bara ógeðslegt, maður veit aldrei hvar þeir hafa verið og með hverjum. Svo lítur hann alls ekkert vel út heldur, það er nú töluvert atriði þegar maður er að grobba sig af aðdáandanum að geta sagt að hann sé myndarlegur, er það ekki ? Það er ekki nóg með hann sé lítill og ljótur, heldur er hann svartur í þokkabót. Ég veit, ég veit, ég veit, kynáttafordómar eiga ekki rétt á sér og það er að mínu mati fáfrótt og ömurlegt fólk sem hefur þá, en núna sko..... ég bara get ekkert gert að því þó ýmiskonar fordómar skjóti upp kollinum. Ég hef brotið heilann um þetta núna í nokkurn tíma og er búin að sjá, að það eina sem ég get gert, til að losna við hann úr lífi mínu, er að drepa hann. Hafið mig afsakaða eitt augnablik...... Það tókst, ég drap hann, ég er nú ekkert ofsalega flink með flugnaspaðann skal ég segja ykkur, ég þurfti um það bil 30 æfingaárásir, áður en ég gat murkað úr honum líftóruna, en það tókst ! Núna ætla ég að fara og rétta við stólana og þurrka upp kaffið mitt, sem helltist niður þegar ég var að drepa fluguna.... Eigið góðan dagSmile

Gildur limur í Harmonikkufélaginu :-)

Loksins þegar við erum nú búin að klára stofuna og laga svo vel til í stóru geymslunni að við gátum fært frystikistuna og frystiskápinnþangað inn, þá var náttulega ákveðið, eins og svo oft áður, að nú væri nóg komið af framkvæmdum. Bara eldhúsið eftir og það verður ekki snert við því á þessu ári og ekkert meira gert, nema gróðursetja allar reyniviðarplönturnar okkar sem eru í pottum hérna úti á pallinum og hafa það svo bara rólegt í öllum fínheitunum. Ætli við eigum ekki ca 40 plöntur, heill skógur á íslenskan mælikvarða.Wink En svo bara ekki óhætt að taka mark á neinu sem við segjum, við fórum og keyptum okkur markísu og settum hana upp fyrir ofan pallinn okkar, núna á föstudaginn. Búin að setja inn myndir. Um fimm leitið, sama dag, ákváðum við svo að skella okkur austur á Breiðumýri þar sem harmonikkufélög Eyfirðinga og Þingeyinga voru með mót, held ég það sé kallað, við erum sko meðlimir í Harmonikkufélaginu. Vorum komin af stað með tjaldvagninn, grillkjötið og sængurnar okkar klukkutíma seinna. Það var gott veður, fullt af skemmtilegu fólki og nikkurnar þandar af mikilli innlifun, gaman að sjá að unga fólkið hefur líka á huga á þessu skemmtilega hljóðfæri. Komum svo heim í gær, beint í góða veðriðhérna, fín helgi. Einhvertímann las ég, að ef ég væri meðlimur í hestamannafélaginu í Færeyjum, þá væri ég gildur limur í Ríðingafélagi Færeyinga, yndislegt tungumál, færeyskan. Eigið góðan dagSmile  

Fín húfa ?

Það telst nú vart í frásögur færandi, en ég fór í klippingu í gærmorgun. Klipparinn minn, sem er mjög flinkur, les allar mínar hugsanir í sambandi við hárið á mér og er þar að auki afar skemmtilegur, hefur samt eitthvað, sem mér finnst líkjast því að vera kækur eða kannski fíkn ? Hann notar allar tegundir, sem til eru á stofunni, af froðu og spreyi og lakki og geli og vaxi og steypu og lími og ég veit ekki hverju og hverju, í hárið á mér þegar hann er búinn að klippa það. Þegar ég fór út af stofunni hjá honum í gær, þá hefði mátt vera svo hvasst að bíllinn minn hefði fokið, en ég hefði samt staðið eftir eins og kvenkynsútgáfan af James Bond, með hárið grafkyrrt í upphaflegu lagningunni. Ég skrapp í heimsókn til sonar og tengdadóttur í morgun, ennþá með allar tegundirnar af klessuefnunum í hárinu frá í gær og litla sonardóttir mín hélt ég væri með húfu og vildi að ég tæki hana niður. Ég ætla að fara í sturtu og gá hvort ég næ þessu ekki úr, ef ég hef nú með mér terpentínu eða eitthvað þaðan af áhrifameira ! Eigið góðan dag allir sem einnSmile

Einu sinni var......

Gafst upp seint á tólfta tímanum í gærkvöldi, að bíða eftir gestum sem ætla að vera hér á gistiheimilinu í nokkrar nætur. Það var orðið dónalega seint, fyrir minn smekk, "prinsessan á bauninni syndromið" kannski. Ég er A manneskja, fer snemma á fætur, af því að mér líður betur þannig og fer þar af leiðandi frekar snemma að sofa, ekki mikið seinna en ellefu helst. Mér finnst æðislegt að geta sagst vera A manneskja í einhverju. Að vísu fékk ég alltaf A og B í öllu í skóla, þangað til í 3. bekk í Gagganum, þegar ég komst á enn eitt mótþróaskeiðið í lífi mínu og þau eru búin að vera þó nokkur í gegnum tíðina. Ég hef ekki grænan grun um, hverju ég var svo sem að mótmæla þarna, með því að hætta að nenna að líta í skólabók. Það var ekkert að mér, ég var ekki þunglynd, ég var ekki í neinu sukki og svínaríi, ekkert meira en gekk og gerðist þá og ég átti frekar auðvelt með að læra. Ég bara hætti að læra, kannski bara af einskærri leti og ómennsku. Ég sótti ekki einu sinni einkunnirnar mínar þá um vorið. En það besta/versta er, að ég hef aldrei séð eftir því, af einhverjum ástæðum. Samt hef ég farið að átta mig á, svona á efri árum, að ég sé frekar eftir einhverju sem ég hef ekki gert, frekar en því sem ég hef gert. Ein af ástæðunum fyrir því gæti verið sú, að ég rembist eins og rjúpan við staurinn við að vera sæmilega góð manneskja og ef ég geri engum neitt, minnsta kosti ekki viljandi, þá þarf ég heldur ekkert að sjá eftir því. En, ef grannt er skoðað þá er þetta í rauninni bara hreinræktuð eigingirni og sjálfselska, ÉG reyni að vera góð við aðra svo MÉR líði vel ! Úps.. ætti kannski bara að hætta þessari naflaskoðun í bili og fara að hengja.... út þvott ! Eigið góðan dag í öllu brasi hvunndagsinsSmile


Ég les og prjóna, þegar ..........

Í dag er fjórði í sumarfríi og ég er búin að gera heilmargt sem telst víst alls ekkert sumarfríslegt, þessa daga. Mér finnst það gaman. Við keyptum okkur skenk/kommóðu inn í nýju stofuna og af því að við verslum öll okkar húsgögn í RL Húsgögnum þá þurftum við að setja hana saman sjálf. Það tókst fyrir rest, en það sem ekki vantaði var sumt gallað og þurfti lagfæringar við, þannig að samsetningarferlið tók eitthvað um fjóra klukkutíma í allt, með tilheyrandi bölvi og ragni af og til. Ég er búin að taka mynd af skenknum við gluggann og setti hana í tölvuna en týndi henni svo af því að ég var kannski að flýta mér aðeins of mikið. Það kemur fyrir besta fólkTounge  Ég missti líka gleraugun mín ofaní fiskabúrið í morgun þegar ég var að gefa fiskunum, kannski af því að ég var að flýta mér aðeins of mikið. Verð líklega að fara að vinda aðeins ofan af sjálfri mér fljótlega, ha... Núna er ég að fara að laga til í geymslunni okkar, svo að spúsi minn komist að til að pípa rörin fyrir ofninn í stofunni, þau liggja þangað inn. Það er meira verk að laga til svo hann komist að, heldur en að leggja rörin. En það hefst. 'Eg sé fram á að um næstu helgi verði íbúðin og umhverfi hússins orðið þannig að ég get farið að taka upp bókina og prjónana alveg án nokkurs samviskubits. Já, já, ég veit að það er mjög heimskulegt að hafa svoleiðis, en mér líður ekkert vel að setjast niður með bók eða prjóna þegar það er allt í drasli og drullu í kringum mig. Ég veit þið hélduð að ég væri fullkomin, en, nei ekki alvegWink  Eigið frábærlega góðan dagSmile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband