Mátti vita það....

.... að ég þyrfti að flýja land til að komast í sumarfrís fílinginn. Hér sit ég í tölvunni meðan dóttir og tangdadóttir elda handa okkur. Ég þarf ekkert að gera sjálf nema mig langi til þess, nema að fara á klósettið og klæða mig, annað kemur bara upp í hendurnar á mér eins og fyrir galdra. Heimili þessara yndislegu stelpna okkar hérna er smart, flott, smekklegt, hlýlegt og hreint, miklu flottara en nokkurntímann hjá mér. Og maturinn æðislegur og allt annað eftir því, ég fer aldrei heim aftur. Það tóku líklega allir eftir því þegar þær fölnuðu, dóttir mín og tengdadóttir, þetta var ekki sólin að skína sko. Nei bara að grínast, ég fer auðvitað heim aftur, búin að kaupa miðann, en ég verð eins og flensan, kem alltaf aftur og aftur og aftur... Á næsta ári ! En blogga samt eitthvað aðeins fyrr ! Eigið góðan dag og kvöldSmile

Við erum komin til Kötu og Ninu !

Sko nú erum við kominn heim til Kötu og Ninu i Gautaborg og erum hér í gódu yfirlæti á ekta sænskan máta. Flugið gekk vel og lendingin gekk vel og við leigðum okkur svo bara bílaleigubíl til að komast yfir meira af umhverfinu. Nú sitja þau hin inni í stofu yfir korti og eru að plana hvað við gerum við morgundaginn, stelpurnar voru svo æðislegar að taka sér frí í vinnunum sínum á meðan við erum hér. Dásamlegar dúllur ! Við komum aðeins til Birnu systir  í gærkvöldi í Keflavík til að gá hvernig hún hefði það. Hún lifir líklega af bæði kvefið og heilsugæsluna í Kef, þóttumst geta séð það. Það var mígandi rigning hér þegar vélin lenti um hádegið en samt 20 stiga hiti. Og það er ennþá svona heitt, yndislegt að vera hérna. Eigið öll góðan dag og ég blogga líklega eitthvað á morgun líkaSmile


Upp er runninn þriðjudagur........

Þá er hann runninn upp, dagurinn sem ég er búinn að bíða eftir í langan tíma. Uppáhaldsferðalagið mitt, án þess þó að vera að lasta önnur ferðalög sem við höfum farið í, er að hefjast núna í kringum hádegið. Svona um það bil, þegar annað okkar er búið að pakka niður í töskurnar, laga aðeins til, henda öllu rusli, skrifa langan lista handa ráðsmanninum, taka til nokkur herbergi fyrir væntanlega gesti, fara í bankann, skella inn auglýsingu í Dagskrána, kaupa fullt af íslensku nammi handa sænsku stelpunum okkar og kokteilsósu handa Jóku litlu systir, kasta kveðju á Höfuð ættarinnar(minnar) og setjast út í bíl. Hitt okkar sér svo um að hlaða í bílinn. Við ætlum að hafa gamla sjónvarpið okkar með til öryggis, nei nei, það hellist nú úr lestinni í Borg Óttans, við vorum svo heppin að finna fyrir það gott heimili þar. Svo ætlum við að reyna að ná í skottið á Birnu systir í Keflavík í kvöld, alltaf svo fín vítamínsprauta að hitta hana. Og klukkan 7 í fyrramálið fljúgum við á vit ævintýranna í Gautaborg, enga væmni Ninna mín. Ég hef auðvitað fartölvuna með, var að fatta það áðan, seint fatta sumir en fatta þó, þá kemst ég inn á póstinn og get, ef tími vinnst til, jafnvel bloggað aðeins. Svo að við bara kannski bloggumst á sænsku næstu viku, sénsinn kann það ekki, tengdadóttirin mín hún Nina er búin að vera á íslenskunámskeiðum undanfarna vetur og talar meiri íslensku en ég sænsku. Eigið góðan dag, hvar í heiminum sem þið eruðSmile


Ekkert gamanmál..... ;-)

Mér finnst nú ekkert rosalega fyndið að það skuli rigna svona mikið í dag. Gistiheimilið var fullt út úr dyrum um helgina og ég ætlaði að þvo og þurrka allan þvottinn eftir það áður en við færum út. Sko þurrkarinn minn er nefnilega aftur farinn í viðgerð. Á nótunni eftir síðustu viðgerð stóð: "Takkaborð hafði færst til". Ok, skal alveg samþykkja það, en mér finnst vanta þarna hina setninguna, sem hefði eiginlega átt að vera þarna líka, sem sé :"takkaborð sett á sinn stað og fest þar". Vegna þess að þegar ég ætlaði að fara að nota þurrkarann eftir viðgerðina, ýtti á fyrsta takkann, þá datt hann inn úr gatinu, sem hann á að vera fastur í og ég náði honum ekkert aftur. Síðan hafa samskipti mín og þurrkarans míns einkennst af illilegu augnaráði frá mér og frá honum glottið á ljósinu, sem kviknaði þegar ég ýtti á takkann og gat svo ekkert slökkt á aftur. En, ég hef nú svo sem engar voðalegar áhyggjur af þessu, það kemst fátt að hjá mér þessa dagana, annað en tilhlökkunin fyrir ferðalaginu okkar til Gautaborgar. Pantaði í gær gistingu í Keflavík, á B&B gistiheimili. Þar fáum við uppbúin rúm, morgunmat, keyrslu á flugvöllinn, geymslu fyrir bílinn og þau sækja okkur svo á flugvöllinn, þegar við komum aftur og allt þetta fyrir 7.500 krónur. Miklu betri þjónusta en hjá mér og miklu betri verð líka! Úps, ekki var þetta nú góð auglýsing fyrir minn Fjallakofa.... Kata mín segir að það sé mjög heitt í Gautaborg núna og það er æðislegt ! Eigið góðan dag í allan dagSmile

Fiskidagurinn mikli ! Þvílík snilld !

Við fórum með tjaldvagninn til Dalvíkur á föstudagskvöldið, komum heim í morgun. Tilefnið var að taka þátt í Fiskideginum mikla þar í bæ. Það var hreint brjálæðislega margt fólk þarna, með húsbíla og fellihýsi og tjaldvagna og hjólhýsi og tjöld af öllum stærðum og gerðum. Þegar tjaldstæðið var orðið fullt og allir grænir blettir í bænum, þá var húsbílum og vögnum lagt á bílastæðin við skólann og annars staðar og bændurnir lögðu túnin sín undir afganginn af gestunum. Það voru settir upp kamrar út um allan bæ og á túnunum og skemmtilegar skreytingar á húsunum og í öllum götunum og ljósastaurum og allir glaðir og brosandi og það voru greinilega allir íbúar Dalvíkur að halda þessa hátíð. Og þarna voru allir svo innilega velkomnir, alveg sama á hvaða aldri þeir voru. Auðvitað var mikið rusl, það er óhjákvæmilegt með allan þennan fjölda í einum litlum bæ, en það var týnt upp jafnóðum af heilum her af sjálfboðaliðum. Og eitthvað las ég um pústra og fyllirí, en fylgir það ekki alltaf öllu fólki, sérstaklega þar sem eru saman komnir tugir þúsunda á einu litlu svæði. Það er svo glæsilega að öllu staðið þarna að ég held að það sé ekki hægt að toppa það. Það voru líka frábær skemmtiatriði á sviðinu niðri við höfnina, stanslaust frá 11 til 5, sem gestirnir fengu að njóta meðan þeir borðuðu sig sadda af alls konar kræsingum. Og allt þetta er þetta gert í sjálfboðavinnu og allt er ókeypis, tjaldstæðin, allur maturinn og öll skemmtiatriðin. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við förum á Fiskidaginn og alls ekki í síðasta skipti heldur. Ferfalt HÚRRA fyrir öllum Dalvíkingum og fyrir Fiskideginum þeirra ! Takk fyrir okkur ! Eigið góðan dagSmile  

Mér telst svo til....

...að ég sé búin að umpotta um það bil 130 plöntur það sem af er sumri. Ca 40 eru komnar í jörð en hérna úti í skjólinu okkar eru núna 80 pottar með reyniviðarplöntum og nokkrir með öðrum tegundum, ekki allar stórar, en samt góð byrjun á  íslenskum skógiWink  Það er helst í fréttum héðan úr Fjallakofanum, að það er búið að setja inn í húsið hitaveiturör, taka inn hitaveitu eða hvað svo sem það kallast. Allavega er inni í litlu hitakompunni okkar, krani út úr veggnum og það fór algerlega fram hjá mér þegar þeir boruðu gatið, skil ekki hvernig það gat gerst, var ekki sofandi svo mikið er víst. Nú kemur til kasta spúsa míns að sjá um næsta skref, sem yrði þá að fá pípara til að gera eitthvað sem kallað er "að smíða grindina". Ég hef einhverjar hugmyndir um skrautlegar röraflækjur og slaufur, með allskonar krönum og mælum, en ég þarf ekkert að vita neitt um það, enda kem ég ekki nálægt því að hringja í einhvern og biðja um eitthvað sem ég veit ekki hvað er. Mennirnir frá Hitaveitunni gengu afskaplega vel frá eftir þetta allt saman og það eina sem ég er ekki alveg ánægð með, er hreint  hrikalega forljótur kassi, sem er staðsettur hérna uppi í miðri brekku, beint á móti eldhúsglugganum okkar. Hann er kúkabrúnn og trónir þarna bísperrtur, í laginu eins og gamall  legsteinn. Það vill mér til happs, að ég eyði alltaf eins litlum tíma í eldhúsinu og ég kemst upp með, þannig að ég hef hann svo sem ekkert fyrir augunum allan daginn, en það er samt sjónmengun af þessu. Hugsið ykkur bara hvernig hann kemur svo til með að líta út í hvítum snjónum....  Hér er 12 stiga hiti, svarta þoka og mígandi rigning, það passar, spáði 20 stiga hita og jafnvel smá sól, kannski. Eigið góðan dag og Kata mín, við sjáumst eftir 5 dagaSmile

Lífsbaráttan

Það er víst hluti af lífinu að reyna að sætta sig við, að það verða alltaf einhverjir undir í lífsbaráttunni. Sumu má að vísu breyta með góðum vilja, eins og kjörum þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. En öðru verður víst ekki breytt og eitt dæmi um það sá ég núna í morgun, þegar ég kom auga á köttinn minn leika sér að litlum þrastarunga, sem því húðlata kvikindi hefur með klækjum tekist að krækja klónum í. Það er nefnilega ekki hægt að hæla kettinum Lúkasi fyrir dugnað, líklega hefur unginn verið eitthvað lasinn, rennblautur í rigningunni eða hreinlega staurblindur og ekki getað  forðast kattarskrattann. Svo kemur kötturinn inn núna rétt áðan, dauðþreyttur eftir erfiði dagsins  og fer beint í matardallinn sinn, vælandi af hungri. Ég er nú ekki svo græn að ég fari að predika yfir kettinum, en mér finnst samt að hann geti bara leikið sér að einhverju öðru. Mér er sagt að ég sé óþarflega aumingjagóð, en nú er ég það ekki, ég þoli bara ekki þegar það er níðst á minnimáttar, bara af því að viðkomandi er minnimáttar. Sá sem er lasinn eða á einhvern hátt heftur úr slysi eða frá fæðingu, er ekki aumingi. Alvöru aumingjar finnst mér vera þeir, sem einfaldlega nenna ekki að bjarga sér sjálfir, þó þeir hafi allt til að bera, til þess að geta það, nema viljann. Ég fæ ekkert út úr því að hjálpa þeim og þá væri ég líka orðin meðvirk með aumingjahættinum, en meðvirkni er nokkuð sem ég eiginlega hræðist og forðast eins og heitan eldinn. Ég veit um konu sem leyfir syni sínum, veikum alkóhólista á fertugsaldri að búa heima. Hún hlúir að honum, passar að hann hafi að borða, þvær af honum og annast hann á allan hátt. Í stað þess að reyna að ýta honum í að losa sig undan drykkjunni, hjálpar hún honum að halda áfram að drekka og það gengur, því miður, bara mjög vel. Verulega sorglegt dæmi um meðvirkni og ég tala af reynslu þegar ég segi að það er alveg rosalega erfitt að losna út úr svona vítahring. En ég tala líka af reynslu þegar ég segi, að það er hægt ! Eigið góðan dagSmile

Á áttunda degi héðan í frá......... :-)

Hitaveitan er ekki ennþá komin í hús hjá okkur, það átti allt að gerast í gær með hana. Brjóta gatið á vegginn inn í húsið og tengja og allt, en það eina sem gerðist var : ekkert. Á föstudaginn síðasta komu mennirnir frá Hitaveitunni og grófu 3 litlar holur og skildu þá eftir jarðýtu með einhverju svona plógdæmi og litla gröfu, hér á planinu. Á sunnudaginn hvarf ýtan og mánudagsmorgun hvarf grafan, en hún var komin aftur þá um kvöldið. Í gærmorgun heyrði ég svo að grafan var sett í gang um 8 leitið, en það var bara gert til að keyra hana upp á kerru og fara með hana í burtu, enn einu sinni.  Síðan hefur ekkert til þeirra spurst, hvorki ýtunnar né gröfunnar, hvað þá mannanna sem eiga að vinna á þessum tækjum. Ekkert endilega að vinna, bara vera með..... Cool Ein af þessum holum sem þeir grófu, er haganlega staðsett við eitt hornið á húsinu okkar, hinum megin við hornið er útihurðin á gistiheimilinu. Ekki mjög hentugt að hafa þetta opið mikið lengur, þó þetta sé ekki stór hola, þá er samt hægt að detta ofaní hana og meiða sig. Þannig að, núna á eftir ætla ég að hringja í Hitaveituna og spurjast fyrir um horfna menn og týndar græjur. Það eru bara 7 dagar þangað til við förum suður og á áttunda degi héðan í frá verðum við komin heim til hennar Kötu minnar í Gautaborg ! Eigið góðan dag í dag, sem og alla aðra dagaSmile  

Greinilega samt kvenmaður..... ;-)

Morgunmaturinn minn þennan ágæta þriðjudagsmorgun, var pizzusneið, afgangur frá í gærkvöldi. Ákveðin vísbending um, að ég virðist eitthvað vera farin að átta mig á að ég er í alvöru, í sumarfríi. Þá fer mataræðið í vitleysu og ég gleymi líka oft alveg að borða. Ég má alveg við því að sleppa úr einni og einni máltíð, það er ekki það, en það er bara svo ansi óþægilegt til lengdar. Ég ætla að fara núna á eftir og kaupa mér föt, ekki af því að mig langar til þess, heldur af því að ég neyðist til þess. Uppáhaldsgallabuxurnar mínar eru sko, fyrir löngu síðan, komnar langt fram yfir síðasta söludag, mér finnst bara svo hrikalega leiðinlegt að fara af stað til að kaupa mér föt. Ég er samt kona, fékk nú eiginlega nokkurskonar fræðilega staðfestingu á því, núna í morgun. Við nefnilega keyptum okkur 40 tommu sjónvarp/flatskjá á föstudaginn. Fyrir utan að vera ofsalega flott og meira að segja fallegt og ofsalega stórt, með ofsalega fínum myndgæðum og ofsalega góðu "sándi" þá er þetta nú bara sjónvarp. Hélt ég..... þar til núna í morgunsárið, þegar yngri sonur minn sýndi mér fram á það, skýrt og skilmerkilega, að ég geri mér svo sannarlega alls enga grein fyrir alvöru málsins : "Nei sko mamma, þetta er alls ekkert bara sjónvarp, oh.... þú ert svo greinilega kvenmaður bahh..... þú skilur þetta alls ekki........" ! Shocking Hm... og hafðu það góða....  Sem sagt ég er samt svo greinilega kvenmaður, þó mér finnist leiðinlegt að kaupa mér föt. Eigið nú góðan dag, þið öll, allsstaðarSmile


Bara allt fínt, er það ekki ?

Þó ég fari snemma á fætur alla daga, hvort sem það er um helgar eða virka daga og hvort sem ég þarf að mæta í vinnu eða ekki, þá er ég samt ekkert svo frábrugðin öðru fólki. Ég er nákvæmlega eins og allir aðrir með það, að ég bara vakna, þegar ég er búin að sofa. Það gera allir, alltaf. Hitt er svo annað mál, að mér er alveg sama hvort klukkan er 6 eða 7 og hvað dagurinn heitir. En þar kannski skilur á milli mín og margra annarra. Í morgun vaknaði ég klukkan 6, af því að þá var ég búin að sofa, og það var yndislegt að horfa hérna upp í Hlíðarfjallið og sjá að sólin var líka komin á fætur. Það er búið að vera kalt undanfarna daga, en ef það er aldrei kalt og sólarlaust, þá kunnum við kannski ekki nógu vel að meta það þegar hlýnar og sólin fer að skína aftur. Það er búið að vera rólegt á Innipúkahátíðinni okkar hérna í Fjallakofanum, bara svona smádútl á gistiheimilinu og svo taka á móti heimsóknum frá hinum ýmsustu fjölskyldumeðlimum og njóta þess að vera til. Svo er ég svo vandlát á hverjir fá að koma í gistiheimilið um Versló, að þar var allt rólegt líka, samt fullt út úr dyrum. Í dag fara allir þeir gestir og nýir koma í staðinn, þannig að það verður slatti að gera í dag. Ég er búin að vera í sumarfríi síðan 20. júlí, en ég er samt ekkert farin að fá neina tilfinningu fyrir því að ég sé í fríi. En það er allt í lagi, ég kem til með að njóta þess úti í Gautaborg hjá Kötu og Ninu, núna eru bara 9 dagar þangað til við förum út. Það virðist af fréttum að hér hafi allt farið vel fram í bænum þessa helgi, bara séð eina frétt í morgun og hún fjallaði um að einn hátíðargestur fékk í sig hluta af flugeldi, en líklega hefur nú ekki verið ætlunin að skjóta hann. Svo finnst mér vert að taka það fram að það er lokað í Bónus í dag, kannski í fleiri búðum, vonandi. Það er nú FRÍDAGUR VAERSLUNARMANNA er það ekki ? Eigið góðan dag og ég vona að allir hafi komi vel undan helginni Smile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband