Nú er gott að eiga regnhlíf ;-)

Það er regnhlífartæk rigning úti núna, að sænskum sið, nú er gott að eiga regnhlíf skal ég segja ykkur. Ekki það að ég sé að fara neitt út, svona í morgunsárið, með eða án regnhlífar, datt bara í hug að nú er gott að eiga regnhlíf. Við lentum einu sinni í alveg yndislegu úrhelli á leiðinni úr búðinni rétt hjá heimili Kötu og Ninu, það var eins og að vera í risastórri, hlýrri sturtu og þá hafði regnhlífin verið skilin eftir heima. Við forðuðum okkur undir næstu tré, sem er mjög auðvelt, vegna þess að þarna eru tré nokkurn veginn allsstaðar. Meðan við biðum eftir ferju til að flytja okkur út í virkiseyjuna í mynni Gautaborgarhafnar, sá ég að út úr hafnarbakkanum, sem var hlaðinn úr stóru grjóti, óx tré út á milli steinanna rétt fyrir ofan sjávarmál. Það mundi líklega ekkert þýða fyrir okkur að reyna að skýla okkur fyrir rigningunni undir okkar trjám, ekki alveg á næstunni, stærsta tréð er svona tæpur metri á hæð og þess vegna er svo gott að eiga regnhlíf. Við vorum bara rétt rúma viku í burtu, en mér finnst það vera miklu lengri tími, vegna þess að það er eins og svo margt hafi tekið verulegan vaxtarkipp á meðan. Hún Linda litla er farin að segja miklu fleiri orð, fljótlega verður hægt að fara að halda uppi samræðum við hana og langflest litlu trén okkar, sem við gróðursettum nokkrum dögum áður en við fórum hafa vaxið alveg ótrúlega mikið. Ef ég bara nennti svo að labba upp í kartöflugarð og kíkja á uppskeruna, sem var nú á planinu núna í morgunsárið, þá er ég svo heppin að eiga  regnhlíf. Ég bara nenni því ekki. Hér í bæ er Akureyrarvaka, eitthvað í líkingu við menningarnótt, með tilheyrandi uppákomum alls konar listamanna. Með henni líkur Listasumrinu, sem hefur bara alveg farið fram hjá mér og líka er verið að halda upp á afmæli bæjarins, sem ég veit ekkert hvað er gamall. Ef ég fer nú og fylgist eitthvað með einhverjum viðburðum í dag, þá er vissulega gott að eiga regnhlíf. Eigið góðan dag í dag og látið ykkur líða velSmile  

Ráðsmaðurinn !

Við vorum með þennan fína ráðsmann meðan við vorum úti í Svíþjóð, örverpið mitt, hann Inga Stefán. Áður en ég virkilega fattaði hvað þetta orð þýddi, fannst mér það dónalegt, en það er það ekki. Hann átti bara að gefa fiskunum og kettinum að borða og passa að enginn stæli húsinu okkar. Þegar við komum heim hafði hann ekki bara haldið lífinu í húsdýrunum, hann var líka búinn að leigja út síðasta herbergið, græja herbergin sem ég leigði út þegar við vorum á leiðinni suður, þrífa hinn jeppann okkar og íbúðina okkar hérna niðri og gistiheimilið og svara endalaust í gistiheimilissímann og það var ekki alltaf skemmtilegasta og kurteisasta fólkið sem hringdi. Ef ég væri með höfuðfat, tæki ég ofan fyrir ráðsmanninum mínum ! Ég hef víst nefnt það að ég hef ofsalega gaman af að vera í flugvélum, þess minni, því betri, samt er ég heimskulega lofthrædd, bara uppi á stól, ég læt það samt aldrei stoppa mig, þá mundi ég missa af svo rosalega mörgu skemmtileguTounge Hef svo alltaf verið að dragnast með einhvern kvíða fyrir því að villast í stórum flugstöðum, álpast á vitlaust hlið, missa af vélinni eða hreinlega fara inn í vitlausa vél og lenda á Grænlandi eða Kuala Lumpur. Ég er búin að fatta af hverju þetta var, líklega vegna þess að við höfum mest verið í einhverskonar hópferðum, allt of mikið af fólki og ekki þurft að bjarga okkur sjálf. Núna var þetta ekkert mál og flugstöðvar eru eitthvað sem ég hræðist ekki lengur. Alltaf svo gott að losa sig við einhverja svona óþarfa úr sjálfum sér. Í Lisebjerg, tívoli Gautaborgar, fórum við upp í 70 - 80 metra háan turn með glerlyftu sem snerist kringum turninn. Eins gott að ég sat, annars hefði ég dottið, þetta var alveg meiriháttar, að sjá yfir alla borgina og lengra til, í sólskininu. Svo vildi ég fara í rússibana, af því það er enginn maður með mönnum að fara í tivoli en ekki í rússibanann, en við sömdum um milliveg, fórum í bátsferð í svona rennu fullri af vatni og þegar við vorum komin töluvert hátt upp, á færiböndum, þá byrjaði ferðin niður. Ég sat fremst í bátnum og átti þá að verða langblautust, en ég faldi mig á bak við einu flíkina sem ég keypti mér í ferðinni, forláta regnjakka og slapp bara vel en öll hin voru hundblaut. Þetta var "hryllilega" gaman ! Svo kom spilafíkillinn aðeins upp í mér og ég eyddi öllu klinkinu mínu í að reyna að vinna alveg risastór súkkulaðistykki í einhverskonar lukkuhjólum, en ég hef aldrei verið heppin í spilum og vann ekkert, nema meira pláss fyrir meira klink. Ég læt þessum pistli lokið í bili og óska þess að allir eigi góðan dag í dagSmile

Komin heim í Fjallakofann....

..í gott veður og yndislegt sólarlag. Komin með 2 sænska leigjendur, við höfðum þá samt ekki með frá Svíþjóð, þeir komu meðan við vorum úti. Ég er að fara upp að hitta þá og svo kemur íslenskt par á sunnudaginn og leigir líka hérna í vetur. Við vorum í Borg óttans í gær, komum aðeins við í vinnunni hjá Birnu í Besta, það var bara svo mikið að gera hjá henni að það gafst enginn tími til að spjalla almennilega, en ég hitti hana þó aðeins. Við fórum í Ikea og þar eyddi ég stórum upphæðum eins og alltaf þegar ég kem þar, eitt þúsund og fimm hundruð krónur fuku núnaTounge  Skruppum svo inn í Rúmfatalagerinn og keyptum sófa sem kemur norður á morgun. Jói skipti um eina stýrisdælu í bílnum hjá Gunna syni sínum, þeim sem við gistum hjá í borginni, í morgun og svo fórum við með nýja símann hans Jóa í viðgerð. Hann var nefnilega með Jóa í bílaviðgerðinni og þoldi ekki álagið, hann er líka bara 4 daga gamall greyið Wink  Svo núna erum við komin heim og líður vel og ég skrifa meira í fyrramálið. Eigið gott kvöld og góða nóttSmile

Það er svo frábært að vera hérna !

Það var frábært veður hérna í gær, 25 stiga hiti og sem betur fer skýjahula fyrir sólinni, annars hefði líklega verið ólíft hérna. Við fórum á ferju út í eyju í hafnarmynninu hér og á henni er virki frá 17 hundruð og eitthvað, ég er ekkert að grínast með ártalið, man aldrei ártöl. Ég er alveg heillum horfin, þetta er svo æðislegt. Þarna voru leikarar sem léku persónur frá þeim tíma sem virkið var gert að fangelsi, loksins þegar Danirnir voru hættir að reyna að ráðast á Svía og öll dýrin í skóginum voru orðin vinir. Fangelsisstjórinn tróð þarna upp í skotapilsi og þurfti, að eigin sögn, að verjast af öllu afli, ágengni okkar kvennanna þarna í hópnum og alvöru stjórinn í gamla daga var víst svona, agalega kvensamur. Einn fanginn var þarna líka og útskýrði fyrir okkur hvernig líf okkar nýkomnu fanganna yrði þarna næstu 30 árin. Ég get ekki sagt að mér hafi litist mjög vel á það, en hann sagði okkur að sérstaklega við konurnar, gætum alveg átt þarna bærilega vist, ef við yrðum bara svolítið hlýlegar við fangelsisstjórannWink . Þarna var líka kirkja og við urðum að ganga í hana að eldgömlum sið, konurnar fyrst og settust vinstra megin, svo komu karlarnir inn og sátu hægra megin. Þegar Danirnir voru að ráðast á þetta virki, skutu þeir á það úr fallbyssum í gríð og erg og af því að það voru ekki komnar neinar sprengikúlur á þessum tíma, þá eru margar fallbyssukúlurnar fastar í þykkum hlöðnum veggjunum, náðu ekki að bora sig í gegn. Við sigldum auðvitað út í gegnum höfnina  í Gautaborg og það er gífurlegt flæmi og við sáum risastór gámaskip, sem taka einhver þúsund gáma og ofvaxin olíuskip og bílaferjur sem geta flutt 7-8 þúsund bíla, fyrir utan öll hin flutningaskipin. Ég vona ég hafi tekið rétt eftir, að þetta sé stærsta höfn í Evrópu, ég hef vissulega engan samanburð, en ég get alveg trúað því. Við fljúgum heim um hádegi í dag, hálf eitt að sænskum tíma og vegna tímamismunarins þá tekur flugið bara klukkutíma, verðum komin heim klukkan hálf tvö, sniðugt. Þá líkur þessari heimsókn okkar í Gautaborg, í þetta skiptið, en ferðasagan endist eitthvað lengur, vegna þess að besti leiðsögumaðurinn í borginni, hún dóttir mín, sýndi okkur svo margt og mikið sem ég hef bara ekki haft tíma til að segja frá ennþá. Eigið góðan dag í allan dagSmile

Aulavillan :-(

Ég verð ég að leiðrétta agalega villu hérna ! Sko Hjällbo er ekki skrifað Hjellbo, það er skrifað Hjällbo ! Beðist er velvirðingar á þeim mistökum, sem urðu í heilabúi mínu og get fullvissað ykkur um, að svona nokkuð kemur örugglega fyrir aftur ! Í herskipinu sem við skoðuðum hér um daginn í skipasafninu, eru gínur út um allt, liggja í kojum og læknirinn og kokkurinn og allir stjórnendur og allir að gera hitt og þetta, sem þarf að vinna við í herskipum og ég kann svo lítið að nefna. Þess vegna fannst mér ekkert skrítið, þegar við komum ofan í kafbátinn, að sjá að þar lá gína í einu rúminu, rétt við rörið með stiganum innaní,sem er kallað inngangurinn, er í raun niðurgangurinn/ gangan kannski frekar. Ég var í óða önn að snúa mér á alla kanta með myndavélina og ætlaði líka að taka mynd af gínunni, en það tókst nú ekki eins og til var ætlast, vegna þess að helv.... gínan opnaði augun, reis upp og flissaði að mér. Ef það hefði verið pláss þarna, þá hefði ég hoppað hæð mína í loft upp af skelfingu, en það er ekki boðið upp á mikið pláss í kafbátum, hvað svo sem maður vill eða þarf að gera þar. Þá var þetta bara einhver túristahálfv... Jæja nóg um það, en við fórum ein og sjálf niður í bæ, eins og það er kallað hér. Ekkert mál, Kata var búin að fara með okkur áður og lét okkur læra utan að, númerin á þeim vögnum sem við máttum bara fara í, þá mundum við komast rétta leið. Við fórum að vísu stóra hringinn niður í bæ, en það var bara gaman og allar almennings samgöngurnar hérna finnst mér stórflottar. Við fórum í stóra verslunarmiðstöð sem ég held að í daglegu tali sé kölluð Fimman og þar keypti Jói sér nýjan síma, af því að fyrr um morguninn gaf hans sími loksins upp öndina, eftir langt og hundleiðinlegt dauðastríð. Jarðarförin fer fram í kyrrþey í endurvinnslustöð í Angered. Ég keypti mér armbandsúr sem ég hef akkúrat ekkert með að gera, geng ekki með úr, hélt samt að það væri eitthvað svona fullorðins og svo verð ég nú víst að kaupa mér eitthvað í útlandinu skilst mér. Það var 25 stiga hiti og við sátum á bekk undir trjám, við síki og biðum eftir sporvagni. Vá tilfinningin var bara æðisleg !! Í dag fer Kata með okkur í virki á eyju úti í hafnarmynninu og það er líka 25 stiga hiti í dag og ég hlakka til ! Eigið góðan dagSmile


Ég er sem sagt í fríi !

Það er einfaldlega gaman hérna í Hjellbo, sem er í Angered, sem er í Gautaborg. Í gær fórum við á náttúrusafn, með regnskógi og líka risa fisktönkum og vorum næstum búin að týna Jóa þar og svo í skemmtigarðinn Lisebjerg. Vorum auðvitað eins og virðulegir túristar og komum rennandi blaut út úr þessu öllu saman. Í morgun keyrðum við Kata, Ninu í vinnuna, bara svo ég gæti fengið að sjá hvar hún vinnur. Það gekk fínt og þegar við komum heim aftur passaði það alveg að fara beint hérna niður í þvottahúsið þar sem þær áttu pantaðan tíma eða 4 tíma til að þvo og þurrka þvottinn sinn. Það er fína aðstaða sem boðið er uppá þar, tvær þvottavélar og tveir þurrkarar. Það er ekkert algengt að fólk eigi sína eigin þvottavél hérna, hvað þá þurrkara, rafmagnið er svo dýrt. Við erum ekki alveg að fatta þetta heima á Íslandi, höfum allt rafmagn sem við þurfum og viljum hafa og getum þá alltaf bara búið til meira, ef þarf. Við ætlum að fara, bara tvö, niður í miðbæ Gautaborgar núna á eftir, tökum sporvagninn báðar leiðir, það er fljótlegra og einfaldara en að fara á bílnum, það er svo erfitt að finna bílastæði í miðborginni. Það eina sem ég geri hérna er að hafa gaman og hafa gaman og láta stjana við mig og ef ég svo mikið sem hugsa um að gera kannski eitthvað, þá er ég skömmuð og mér sagt á mörgum tungumálum að ég sé í fríi ! Frábært ! Eigið góðan dag, það ætla ég sko að gera líkaSmile

Búin að setja inn nokkrar myndir..........

....frá Gautaborg. Gat bara sett inn þær myndir sem ég tók á vélina hennar Kötu, þegar mín varð batteríslaus, vegna þess að snúran hennar passar ekki í mína vél. Meira seinna Smile

Grænmeti ...

Nina tengdadóttir mín, eldaði hreint stórkostlegan máltíð handa okkur hérna í gærkvöldi og í henni var ekki ein einasta ögn af kjöti. Ég þekki ótal marga karlmenn, oftast um fimmtugt og yfir, sem halda að máltíð úr grænmetisfæði samanstandi af kálblaði og gulrót á diski og kannski svona einni og einni grænni baun til hátíðarbrigða. En núna þekki ég líka einn karlmann um og yfir fimmtugt, sem veit betur. Mér hefur oft dottið í hug að hafa meira grænmeti í máltíðunum okkar heima, en ekki nennt að hafa fyrir því að elda það handa mér einni, bara af því að ég á mann sem er haldinn ranghugmyndum frá steinöld, hvað varðar grænmeti. Ég er samt ekki að gerast grænmetisæta, við fórum til dæmis á frábært steikhús í hádeginu í gær, Jensen´s buffhús, ofsalega góður matur það og frábær þjónusta. Við fórum líka að sigla á Paddan um síkið og höfnina í Gautaborg og fórum á skipasafn þar sem við skoðuðum herskip og vitaskip og togara og hafnsögubát og slökkviliðsbát og kafbát og örugglega eitthvað fleira sem ég man ekki núna. Ég hef misst gleraugun mín á hinum ýmsustu stöðum en aldrei áður ofan í kafbát sem ruggar í rólegheitunum bundinn við bryggju, enda aldrei komið í kafbát fyrr. Í dag held ég að stelpurnar ætli að reyna að týna okkur í risastórum skemmtigarði og ef ég blogga aldrei aftur þá hefur það tekist hjá þeim.... Eigið góðan dagSmile

Hættulegt verkfæri...........

Svo er það þetta með veðrið, alveg sama hvar íslendingar eru í heiminum, fær aldrei að fara fram hjá neinum heima hvernig veðrið er á hverjum stað. Ég elska rigninguna hérna, hún steypist beint niður og það er alltaf 20 stiga hiti, þannig að þetta er eins og að vera úti í hlýrri sturtu. Það er til skiptis heit sól og hlý rigning og nýjasta fjárfesting fjallabúanna úr norðri er regnhlíf. Það þýðir ekkert að reyna að nota svoleiðis verkfæri heima, það er náttúrulega líka beinlínis hættulegt að gera það. Vegna þess að rigningin kemur þversum í andlitið á manni, þá þarf regnhlífin að vera alveg fyrir andlitinu, sem verður svo auðvitað til þess að maður sér ekkert hvert maður er að fara og getur þá álpast fyrir bíl eða ofan í skurð eða eitthvað.... Það ætti auðvitað að banna regnhlífar á Íslandi ! Ég ætla nú samt heim með fallegu bláköflóttu regnhlífina mína og vona bara að hún verði ekki tekin af mér í tollinum........ Eigið góðan dag í dag, líka í rigninguSmile  

Paddan

Við fórum í morgun og skoðuðum gamlan kastala, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Mig langaði svo að finna elsta steininn í byggingunni af því að hann geymir auðvitað flesta sögurnar, þeim hinum fannst ég vera klikkuð. Ég ætlaði ekkert að tala við hann, maður talar auðvitað ekki við grjót, ég þurfti bara að fá að snerta hann. Og ég sem er alltaf svo hrifin af gömlum húsum féll alveg marflöt af hrifningu fyrir kastalanum. Í gærkvöldi hringdi Jóka í Kötu og þá heyrði ég ekki betur en Kata segði í símann : "Ég held að mamma sé að drekka" þarna sem ég sat, sakleysið uppmálað og drakk kók light í kók light. Ég fann að þessu við hana dóttur mína eftir símtalið, en það var hún alls ekkert að ljúga upp á mig einhverjum drykkjuskap, heldur sagði hún: "Ég held að mamma sé að DEKKA" sem þýðir að mamma sé að fara að hátta.........Það er sko stundum svona þegar maður er í útlandinu og tungumálið ekki alveg á hreinu. Við erum búin að hitta tvær systur Ninu og foreldra hennar fáum við að hitta á morgun. Við erum að fara að sigla á pöddu á morgun..... hm já ég veit, skyldi þetta ekki alveg sjálf en báturinn heitir Paddan og það þýðir bara padda á íslensku og líka sænsku. Eigið góðan dagSmile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband