Slow hvað ?

Þegar ég kom heim úr vinnunni í gær, var búið að sturta malarhlassi á bílaplanið okkar. Hélt að spúsi minn væri orðinn leiður á aðgerðarleysi síðustu 3 daga, ekkert verið framkvæmt allan þann tíma hér í FjallakofanumWink En það var ekki það, 4 tímum seinna kom vinnuvél, merkt Slow town, með mann innanborðs og sléttaði úr haugnum, sem kom sér mjög vel, það var erfitt fyrir fólksbíla að komast um planið. Hitaveitugaurarnir voru að laga til eftir sig og ég verða að hæla þeim, planið er orðið fínna núna, en áður en þeir grófu skurðinn um daginn. Svo voru þeir búnir að grafa skurð hérna uppfrá, við veginn og moka ofaní aftur og komu svo aftur í gærmorgun og grófu aftur upp úr og svo ofaní aftur. Hm... Skyldu þeir hafa gleymt að setja eitthvað þarna ofaní, eins og til dæmis hitaveitulögnina eða eitthvað...  Mér telst svo til að það sé mánuður síðan heitavatnslögnin kom hér inn í húsið, en það er ekki búið að tengja neitt ennþá, en það verður vonandi fyrir jól ! Ég var svo bjartsýn að ég ímyndaði mér að í september yrði ég löngu byrjuð að eyðileggja á mér hárið í nýju "hitaveitusturtunni" minni. Af því að heita vatnið fer illa með hárið á mér, þarf ég að fara að leita að viðeigandi sjampói, af því að það er svo langt síðan ég bjó síðast í húsi með hitaveitu, að ég er búin að gleyma hvað var best að nota. Anda.... Það eru sko engin "smá" vandamál að hrjá mig, í aðgerðarleysinu, skal ég segja ykkurTounge Yngri sonur minn, sem er mjög sjálfstæður og frumlegur ungur maður, er núna einn á ferðalagi um vestfirðina í nokkra daga, gamall draumur að rætast ! "Stjúpdóttirin" keypti sér alveg gullfallegan hest og skellti honum upp í kerru í gærkvöldi og brunaði með hann austur á land til að fara á honum í göngur. Svo er allt mögulegt annað að gerast sem ég veit ekkert um og/eða man ekki í augnablikinu og kannski segi ég frá því öllu seinna... eða ekki... Eigið góðan og árangursríkan dag í öllu sem þið takið ykkur fyrir hendurSmile


Mánudagar eru fínir....

....mér finnst það. En mér hefur verið tjáð, af fólki sem þykist vita það, að ef ég væri nú í alvörunni, alvöru sukkari þá fyndist mér það líklega ekki. Það verður þá bara að hafa það þó sukkaraorðstír minn sé hruninnTounge  Ég er að byrja að vinna aftur eftir sumarfrí, núna klukkan 10 og finnst það gott. Ég hef vælt hér og lýst eftir, þó ekki væri nema  einum degi í lífi mínu, þar sem ég þarf alls ekkert að gera neitt, en ég tek það aftur, ég nenni ekki að gera ekki neitt. Það er bara komið að því að ég verð að viðurkenna það, samt er ég ekki að halda því fram að ég sé dugleg, ég er nefnilega í eðli mínu, mjög löt manneskja. Það er ekkert sanngjarnt að væna mig um dugnað, þegar ég er alltaf að gera bara það sem mér finnst gaman ! Síðasta vika var að verða einum of tilbreytingalaus og það sem bjargaði mér frá því að drepast alveg úr leiðindum, var nýja þvottavélin, sem þurfti að komast í gagnið á efri hæðinni. Það tók 3 eftirmiðdaga að græja fyrir vatn að henni og frá og tengja hana svo við rafmagn, það er víst betra. Í dag fer ég í RL húsgögn og kaupi skrifborð fyrir nýjasta og síðasta leigjandann okkar, hún kom í hús í gærkvöldi og þá er þetta búið. Svo tekur bara við smá vinna utan heimilis og svo dúlla mér í handavinnunni minni. Ég er að prjóna peysu á yngsta barnabarnið hana Lindu Björgu, sem hún á að fá í jólagjöf. Og á svo eftir að klára eina smá jólamynd í útsaumi og finn mér svo bara eitthvað fleira í þeirri deild. Eigið góðan dag og munið að mánudagar eru fínirSmile

Sukkararnir svakalegu !

Á þessu heimili var farið að sofa klukkan 4 í nótt, við vorum á balli. Spúsi minn var að spila á gítar með 9 manna harmonikkuhljómsveit í Gamla Allanum, sem er núna orðinn einhverskonar sportbar. Ballið var til 2, spilað til svolítið rúmlega 2 og þá átti eftir að taka saman öll hljóðfærin og að því loknu komu allir saman í brauðkaffi í gamalli aflagðri kirkju rétt fyrir neðan Ríkið/Vínbúðina. Megnið af spilurunum býr á Húsavík og þótti við hæfi að næra þá aðeins áður en þeir legðu af stað heim. Þetta var nú sukkið okkar þessa helgina og ekki farið á fætur fyrr en undir hádegi, eins og almennilegum sukkurum sæmir á sunnudagsmorgni. Að vísu vorum við á sitt hvorum bílnum, en ég segi ekkert frá því, vegna þess að ég er svolítið hrædd um að það gæti dregið allverulega úr sukkaraímyndinni. En, þetta var bara gaman. Í dag kemur síðasti leigjandi vetrarins í hús og þá verður loksins komin ró á og ég þarf ekki að gera neitt, það sem eftir er, fram á vor, nema hugsa um vinnurnar mínar tvær og kannski svolítið um heimilið og spúsa minn og barnabörnin og svo þarf að sinna haustverkunum í garðinum og svo fara jólin að nálgast.......... Það þarf svo sannarlega ekkert að láta sér leiðast hérna í fjallinuWink Ég sé hérna út um gluggann að það hefur gránað í Hlíðarfjallinu í nótt og það er kominn smá haustlitur á sumar trjáplönturnar, það er líka spáð vægu næturfrosti næstu nótt. Ég byrja að vinna á morgun eftir sumarfríið mitt fína og það er bara besta mál, ég er búin að hvíla mig nóg og farin að verða svolítið forvitin að vita hvernig skjólstæðingum/aðstoðarþegum mínum hefir reitt af í fjarveru minni. Eigið góðan og gæfuríkan sunnudagSmile


Leyni hvað ?

Svakalega fer það nú í taugarnar á mér þegar netið virkar ekki almennilega hérna uppi í fjallinu. Það gerist alltaf annað slagið að það "mælist svo mikil deyfing á línunni", eins og þeir kalla það hjá þjónustusímanum mínum. Það fer ekki framhjá mér ! Ég var búin að skrifa langa færslu hér í morgun og vildi svo birta hana, en það var ekki hægt, af því að netið var svo silalegt og hún týndist. Og eins og laxinn sem maður missir er alltaf langstærsti laxinn, þá var þetta nú örugglega langbesta færslan mín hingað til. En, jæja vona bara að þessi komist nú til skila, leiðinlegt að missa tvær "langbestu færslur" á sama deginumWink  Ég las í morgun í fréttum á netinu um hjón, sem elda helling af súpu á Ljósanótt og ekkert nema gott um það að segja, en mér fannst svolítið skondið að maðurinn var titlaður leynilögreglumaður ! Er þá ekki búið að eyðileggja fyrir honum vinnuna hans, með því að birta mynd af honum með fréttinni, ekki mikil leynd yfir þeirri löggu lengur........ Annars er það helst að frétta héðan að það er hellirigning og svolítið hvasst með því, verulega haustlegt núna. Ég fór í verslunarleiðangur með höfuð ættarinnar í gær, hún keypti sér slatta af blómum til að hressa upp á sálartetrið, sagði hún og keypti sér svo páfagauk. Mér fannst það góð hugmynd hjá henni og þessi fugl hefur fengið nafnið Kalli sem er opinbert fuglaættarnafn í okkar fjölskyldu og er ótrúlega gæfur. Hann beit að vísu húsmóður sína í fingurinn í morgun, í stað þess að setjast á hann, en þau verða  örugglega bestu vinir þegar fram líða stundir. Eigið góðan dag og látið ykkur líða eins vel og hægt er Smile

Ég er "forréttindapakk" ;-)

Ég er svo lánssöm, sem eitt út af fyrir sig eru forréttindi, að vera alls ekki alin upp í einhverju trúarofstæki, sem ég er löngu búin að sjá að er bara af hinu illa. Ég veit að það er svolítið sterkt til orða tekið, en það er bara svo satt. Fólk sem aðhyllist trúarofstæki tekur sjálft sig og það sem það trúir á svo hrikalega alvarlega, að það er aldrei til friðs og ímyndar sér alltaf og stöðugt hreint að það sé verið að gera því eitthvað og allir hinir séu að skíta út í þeirra trú, bara með því að trúa ekki því sama og hafa aðra siði. Og það ekki málið, hvort það er mín trú eða annarra, það er allt undir sama hattinum. Fyrir mér er þetta mjög einfalt, þú hefur þína trú og ég virði það og læt þig vera með hana og geri svo ráð fyrir því að þú komir eins fram gagnvart mér og minni trú. Ég reyni ekki að þröngva minni trú og mínum siðum upp á þig og þú gerir eins. Er virkilega svo erfitt að lifa með þessu svona ? Auðvitað er ég ekkert sammála ýmsu í trúarbrögðum og siðum annars fólks, með aðra trú en ég, en það verður þá bara að hafa það. Ég lifi alveg með því og hver er ég líka, að ætla að fara að stjórnast eitthvað í því ? Svo er þetta með að bera virðingu fyrir trúfrelsi annarra, frelsi er forréttindi, en mér finnst það samt ekki gefa mér rétt til að hæðast að trú annarra, vitandi það að liðið sleppir sér við hverja minnstu vísbendingu í þá áttina. Að birta "grínmyndir" af guði og /eða átrúnaðargoði fólks sem aðhyllist aðra trú en okkar, finnst mér alveg óþarfi og örugg ávísun á læti og leiðindi. Mér prívat og persónulega er alveg sama þó einhver annar hæðist að því sem ég trúi á, ef liðið vill vera með einhver leiðindi er það þeirra mál og það gerir mér og minni trú ekkert til, en það eru bara ekki allir sem hugsa svona, því miður kannski. Hvort sem það er í nafni gríns eða listar, er ekki nóg annað sem hægt er að fíflast með ? Ég bara spyr..... Eigið góðan dag og munið, að aðgát skal höfð í nærveru sálarSmile

Ég elska afmælisgjafir !

Líklega besta afmælisgjöf, að öllum öðrum ólöstuðum sem ég hef fengið um ævina er Svíþjóðarferðin um daginn. Móttökurnar og gestrisnin og elskulegheitin hjá henni Kötu dóttur minni og Ninu tengdadóttur er eitthvað sem ég gleymi aldrei. Og fjölskyldan hennar Ninu tók okkur opnum örmum líka, frábært fólk, í yndislega fallegu landi.Ok, þetta átti nú ekki að vera í neinum minningagreinastíl, en svona var þetta bara. Kata og Nina : Enn og aftur, takk fyrir mig elskurnar, ég kem aftur ! Ég á afmæli 3. október og þá verð ég fimmtug og til að fyrirbyggja nú allan misskilning, þá er mér  alveg sama þó afmælisgjafirnar komi ekki á afmælisdaginn, ég tek á móti gjöfum allan ársins hring ! Kissing   Þegar ég var fertug, fékk ég frá mömmu og pabba og systrum mínum, farmiða fram og til baka, til Borgar óttans og miða á skemmtun með Álftagerðisbræðrum, sem voru þá vinsælustu nýju  skemmtikraftarnir. Það var ofsalega gaman og Birna systir fór með mig, fertuga sveitastelpuna, út um allt, þetta var líklega í 4. skipti sem ég kom í stórborgina um ævina. Það eina sem skyggði aðeins á var, að önnur systir okkar, sem var þekktari fyrir flest annað en stundvísi, sá til þess að ég missti af fluginu heim á sunnudagskvöldinu og ég gat þá ekki mætt í vinnuna morguninn eftir og var rekin í kjölfarið. Það var stefna fyrirtækisins sem ég vann hjá þá, að losna við allt þarna "mánudagsveika" fólkið og það skipti engu máli af hverju ég gat ekki mætt þennan morgun og að ég drakk bara alls ekki. En þetta átti líklega að fara svona, ég fór samdægurs og sótti um vinnu hjá bæjarbatteríinu, skilaði inn umsókn á þriðjudeginum og var byrjuð að vinna hjá þeim klukkan 8 á miðvikudagsmorgni og er búin að vinna þar óslitið síðan. Búin að setja inn nokkrar myndir í viðbót frá Svíaríki, notaði USB lykilinn sem ég keypti um daginn og færði myndirnar af fartölvunni yfir í borðtölvuna og er ofsalega góð með mig ! Ég hefði auðveldlega getað brennt þær á disk og fært þær þannig, en það er alltaf svo gaman að læra eitthvað nýtt. Eigið góðan dag og helst þann besta í lífi ykkar hingað tilSmile

Ætli hún kunni nokkuð að hringja lengur ?

Vekjaraklukkan mín er biluð, hún hringir ekki þegar hún á að gera það. Hún hringir nú svo sem ekkert heldur þegar hún á ekki að gera það. Að vísu hef ég ekki hugmynd um hvort hún hefur nokkuð getað hringt í mörg ár, ég er ekkert viss um það, ég er alltaf vöknuð á undan henni. En ég hef samt alltaf stillt hana á kvöldin og slökkt svo á henni þegar ég fer á fætur, áður en hún hringir. Ef hún hefur þá yfir höfuð ætlað sér að gera það. Ég er búin að eiga þessa klukku í ótal ár, alveg frá því í fyrri sambúðinni minni. Og þegar ég var nú orðin ein með börnin mín þrjú, í litlu þorpi á mörkum hins byggilega heims og þurfti á fætur klukkan 5 á morgnana til að fara í vinnuna, á alveg svakalega andlausum vinnustað, þá vaknaði ég aldrei á undan henni, hún þurfti alltaf að hringja, lengi. Þá virkaði hún alltaf, fyrir utan þetta eina skipti þarna, þegar ég þeytti henni í geðvonsku minni í vegginn í svefnherberginu, á laugardagsmorgni, þá var hún eitthvað biluð greyið. Börnin mín röðuðu henni saman á meðan ég var að vinna þennan laugardag og ég var ægilega stolt af þeim. Það var, vægast sagt ekkert gaman, að vakna klukkan 5 á morgnana, seinni veturinn sem við bjuggum í þessu þorpi. Það hafði snjóað svo mikið að gatan var jafnhá húsþökunum og það var norðan stórhríð í margar vikur. Alltaf dimmt inni í húsinu, af því að það var auðvitað snjór fyrir öllum gluggum og fyrsta verkið á morgnana var að opna útihurðina, moka snjónum úr holunni fyrir utan, í bala og setja í baðkerið, klifra svo upp snjógöngin, taka teppið frá, sem var sett þar til að rennan fylltist ekki af snjó um nóttina og gá til veðurs. Klæða sig svo eftir veðri, skríða upp í gegnum  snjórennuna eins og tófa úr greni og arka alla leið niður á bryggju, til að fara að vinna á eina vinnustaðnum sem í boði var, frystihúsinu. Síðan þá hef ég ekki þolað snjó, af einhverjum ástæðumWink Það var tvennt sem hélt mér gangandi þennan vetur, börnin mín og vekjarakukkan. Við fluttum til Slow town, strax um vorið og síðan hef ég alltaf vaknað á undan klukkuskömminni. Til að friða nú spúsa minn, en það var hann sem komst af tilviljun að þessu með klukkuna, þá ætla ég að fara og kaupa nýja vekjaraklukku til að slökkva á, á morgnana, áður en hún hringir. Eigið góðan dag í allan dagSmile

Enginn alvöru bloggari !

Stundum fer ég á flakk á moggablogginu, inn á síður hjá bara hinum og þessum. Sumt líst mér vel á, sumt ekki og annað alls ekki. En hver hefur sína bloggsíðu og skrifar á hana það sem honum/henni sýnist. En, ég er smám saman að komast að þeirri niðurstöðu að miðað við megnið af því sem ég les, þá er ég enginn alvöru bloggari, iss nei, ég er bara einhver svona höktari úti í kanti. Ég til dæmis blogga ekki um neinar fréttir eða stjórnmál eða kynlíf eða trúmál af neinni alvöru og alls ekki af neinum sannfæringarhita heldur. Það er sem sagt ekkert fútt í skrifum mínum, enda aldrei að fá nein gassaleg viðbrögð frá fullt af fólki, hvorki mér kunnugu né ókunnugu. Ég á fáa, en góða, bloggvini sem ég veit að lesa bloggið mitt og setja inn athugasemdir og mér finnst það gaman. Það er töluvert síðan ég komst að nokkuð merkilegri niðurstöðu, um ástæðuna fyrir mínum bloggskrifum. Það var þegar ég var spurð af hverju ég væri yfir höfuð að skrifa blogg, bara um allt sem ég væri að hugsa, í stað þess að skrifa um allt sem ég væri að gera. Ég sem sagt, skrifa blogg af því að ég hef gaman af því og skrifa um það sem mér dettur í hug í það og það skiptið og ég geri það fyrir mig og engan annan. Svo hef ég líka ekkert gaman af því að stuða fólk eða hneyksla og reyni í lengstu lög að særa engan, þannig að ég skrifa alls ekki alltaf um allt, sem mér dettur í hug. Sem betur fer, vil ég meinaWink En, þó ég skrifi ekki allt sem ég meina, þá meina ég samt allt sem ég skrifa, mér finnst það skipta máli hvort sem er í rituðu máli eða á talmáli og hef líka enga sérstaka þörf fyrir að vera alltaf opin oní rassg... Og með allar þessar mikilvægu upplýsingar um mig í farteskinu, vona ég að allir eigi góðan dag í dag Smile  

Ein í afneitun.........

Vitiði hvað, ég er í afneitun. ÉG Á EKKI þurrkarann sem er inni á baði og er alveg eins mikið bilaður eftir tvær ferðir á verkstæðið eins og áður en hann byrjaði að fara í skreppitúrana þangað. Nei, ég geng aðeins lengra, það ER ENGINN þurrkari inni á baði sem er alveg eins mikið bilaður ....... Þetta getur nú ært óstöðugan, ég ætlast til þess að heimilistækin virki og þá sérstaklega þegar þau eru búin að fara tvisvar í viðgerð, á sama verkstæðið, tvo mánuði í röð. Ég þarf að vísu ekkert að nota hann í dag, það er æðislegt veður og þokan sem spáð var að ætti að læðast hingað inn fjörðinn, er ekkert komin, ennþá. Glampandi sól og þurrkur og ég er alveg að verða búin að þvo og þurrka þvottinn sem beið eftir mér þegar ég kom heim frá Svíþjóð, en hann á samt að vera í lagi, helv... þurrkarinn. Ef ég nenni, fer ég í eigin persónu niður á verkstæði og...... Það virkaði að hóta því bara að ég kæmi í eigin persónu niður á pósthús, þegar ég var að berjast í því að fá póstinn borinn út hingað uppeftir, alveg eins og hjá öðrum íbúum þessa bæjar. Ég veit ekki af hverju, en þegar ég nefndi að ég kæmi bara sjálf niðureftir, þá fór ég að fá póstinn, reglulega, í póstkassann minn. Ég ætla ekkert að kaupa nýjan þurrkara, ég ætla að kaupa litla þvottavél til að setja upp í eldhús í gistiheimilinu, svo ég þurfi ekki að þvo af leigjendunum. Ég er alltaf að reyna að koma því þannig fyrir að ég þurfi að gera sem minnst og helst ekkert, gengur ekkert alltaf mjög vel en ég gefst aldrei upp, það er ekki til í minni orðabók. Núna ætla ég að fara að hengja út á snúru í góða veðrinu og slá svo lóðina, ef ég nenni.... Eigið góðan dag og farið varlega í umferðinniSmile

Það stendur eitthvað um haustið..........

Til þess að ná Svíþjóðarmyndunum mínum úr fartölvunni og setja inn í borðtölvuna, keypti ég mér USB lykil. Þetta er í raun lítill harður diskur, svo lítill að það er enginn vandi að týna honum og svo kostar hann heilan helling. Ég get auðvitað sett myndirnar á disk og fært þær þannig, en mér finnst þetta miklu skemmtilegra og þegar ég skrifa um það, þá er ekkert svo áberandi hvað ég stama og þarf að hugsa mig um, til að geta komið allri þessari glænýju þekkingu minni frá mér. En það segi ég ekki nokkrum manniWink  Þar sem ég sit hérna við skrifborðið, með mitt dásamlega útsýni upp í fjallið hér fyrir ofan, sé ég að það hefur gránað pínulítið í nótt, smárönd alveg efst. Það er  greinilega að koma haust, allavega segir dagatalið mér það. Haustið hefur alltaf verið uppáhalds árstíðin mín og ég sem er svo alls ekki talin rómantísk í mér, gæti einna helst á fallegu norðlensku haustkvöldi, fundið fyrir því hugarástandi sem kallað er rómantík. Nú er að renna upp síðasta vikan mín í sumarfríi og ég hef orðið að berjast svolítið fyrir því að fá að vera í friði í fríinu, það er búið að hringja í mig nokkrum sinnum og biðja mig að vinna. Síðast í gær var ég beðin að byrja að vinna á laugardag í stað mánudags. Ég segi alltaf nei Devil  Ég er ekki ómissandi og ég er mjög sátt við það og það hefur ekkert með það að gera að ég kunni ekki að meta sjálfa mig að verðleikum, það geri ég, ég er bara raunsæ. Þetta starf var nefnilega fundið upp, löngu áður en ég kom til sögunnar á vinnumarkaði hjá bæjarbatteríinu og þá gátu þau alveg komist af án mín og geta það líka núna. Ég ætla að gera þetta að góðum degi og gera, næstum því, bara það sem mig langar til að gera. Eigið öll góðan sunnudagSmile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband