Það er búið að vera að snjóa hérna alltaf annað slagið þennan ágæta sunnudagsmorgun. Fjöllin eru orðin hvít, vel áleiðis niður undir byggð. Við fórum í gær út í Ólafsfjörð að heimsækja bróður spúsa míns. Sá er, að öllum öðrum ólöstuðum, jákvæðasta og bjartsýnasta manneskja sem ég þekki. Fyrir 4 árum síðan fékk hann heilablóðfall, þá 58 ára gamall. Hann var meðvitundarlaus í 2 vikur og þegar hann vaknaði, var hann að mestu leiti ónýtur hægra megin. En hann er sko ekkert að vorkenna sjálfum sér og sér ótal jákvæðar hliðar á þessu öllu. Hann er svo glaður yfir því að hann missti svo margt sem hann hafði áður, eins og til dæmis löngunina til að reykja og til að drekka. Hann á bíl og keyrir út um allt land, bara þegar hann langar til og þangað sem hann langar til að fara. Auðvitað fær hann hjálp við sumt sem hann á erfitt með að gera en hann leggur ofuráheyrslu á að bjarga sér sem mest sjálfur. Hann fékk sér tölvu og er búinn að læra á hana og er nettengdur og á stafræna myndavél og prentar út myndirnar í alls konar útgáfum og það er bara meira en að segja það fyrir fullorðið fólk að læra þetta, hvað þá hann. En hann gefst aldrei upp. Við gætum öll lært svo margt og mikið af viðhorfum hans til lífsins og tilverunnar. Hann ætlar að koma til okkar í mat í kvöld af því að við ætlum að hafa lifrarbuff og honum finnst það svo rosalega gott. Eigið góðan dag og munið að nota endilega stefnuljósin í umferðinni
Bloggar | 16.9.2007 | 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)

Bloggar | 14.9.2007 | 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Yngsta barnabarnið okkar, hún Linda Björg Keel Kristjánsdóttir, er tveggja ára í dag Til hamingju elsku dúllan
Amma hennar og afi frá Sviss, oma og opa, eru í heimsókn þessa viku. Þau komu á síðasta föstudag og á laugardeginum fóru sonur minn og tengdadóttir með þau heiðurshjónin á Gljúfurárrétt hérna úti í Höfðahverfinu, eins og lög gera ráð fyrir á réttardaginn. Þá vildi nú ekki betur til en svo, að mamma tengdadóttur minnar fótbrotnaði á réttunum og er í gifsi, með fjölskylduhækjurnar sem fasta förunauta. Þá sannaðist hið fornkveðna, nei nei það passar ekkert mér finnst þetta bara svo flott, sannaðist það sem maðurinn á Bjargi sagði mér í vetur, þegar hann ráðlagði mér að kaupa hækjurnar í staðinn fyrir að leigja þær : "Það er alveg bráðnauðsynlegt fyrir hverja fjölskyldu að eiga minnst eitt par af hækjum"! Ég gerði óspart grín að þessari yfirlýsingu hans í pistli hér á blogginu, en ég biðst afsökunar á því og eyði líklega bara þeim pistli
Annars er ekki mikið annað að frétta héðan, nema að það snjóaði í fjöll hér í gær..... brrrr.... En það var nú bara uppi í fjöllunum, rigndi sleitulaust hérna niðurfrá. Mér finnst rigningin góð og líður vel á meðan það snjóar ekki á mig. Lítið að gera í kvöldvinnunni, rétt aðeins skrepp í 1 1/2 - 2 tíma á kvöldi, en ég hef hlerað að það eigi nú eftir að lagast bráðlega. Eigið góðan dag í allan dag
Bloggar | 13.9.2007 | 07:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Það er deginum ljósara, að ég fylgist alls ekki nógu vel með...... Ég til dæmis hafði ekki hugmynd um það, að einhver maður sem ég man ekki hvað heitir og á einhver fyrirtæki, sem hafa eitthvað að gera með fisk og bíla, hann á þyrlu. Í frétt í morgun las ég um að hann á þyrlu, það bjargaði slatta af deginum fyrir mér, svo kom : eins og kunnugt er ferðast hann um á þyrlunni, það bjargaði síðan restinni af deginum. En ég hafði ekki hugmynd um þetta ! Sko.... ef ég ætti þyrlu, þá get ég lofað ykkur því að ég mundi örugglega ferðast um á henni. En þó ég hafi verið virkilega kaupóð, núna í þónokkurn tíma, þá er ég samt ekki að fara að kaupa mér þyrlu, en ég fór í gær og keypti mér hrærivél í staðinn, með hakkavél. Ég ferðast að vísu ekki um á henni, en nú er ég komin á sama ról í heimilistækjaeign eins og ég var á þegar við fluttum hingað upp í Fjallakofann. Aulinn nefnilega týndi hakkavélinni sinni í flutningunum og ég vil taka það skýrt fram að með aulinn, þá á ég við sjálfa mig. Það er sannarlega ekki fyrirmyndarhúsmóðurlegt að týna svona mikilvægu heimilistæki, en það hefur sem betur fer aldrei verið hægt að segja um mig, að ég sé, hafi verið eða verði nokkurn tíma, fyrirmyndarhúsmóðir. Ég var að horfa á hálfgerða hryllingsmynd í gærkvöldi, þ.a.s. veðurfréttirnar í sjónvarpinu. Ekki lítur það vel út, en eins og mig grunaði og sjálfsagt hafa einhverjir fleiri verið farnir að fatta það líka, þá er komið haust og spáin er rigning og hvasst og slydda og kalt og allt þetta "ekki hlýtt" sem ég hef ekki verið að bíða eftir. En, eigið góðan dag og klæðið ykkur bara vel
Bloggar | 12.9.2007 | 07:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)

Bloggar | 11.9.2007 | 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Niðurstöður úr nýlegri þýskri rannsókn benda til þess, að menn séu gáfaðri en apar ! Og hafið þið það svona í morgunsárið á þessum fína mánudegi. Ég prívat og persónulega hef bara kynnst einum apa um ævina, hann var um tíma búsettur í kaffistofunni á vinnustað pabba, fyrir nokkrum áratugum síðan. Af einhverjum furðulegum ástæðum höfðu skátarnir fengið apa að gjöf, en þó ég ætti að bjarga lífinu með því, þá get ég alls ekki rifjað upp, hver hinn uppfinningasami gefandi var. Pabbi lagði þessa kaffistofu undir apann af því að mamma neitaði að hýsa hann, apann. Og þegar hann, apinn, var fluttur inn sáum við krakkarnir, að líklega hefðum við ekki heldur viljað hafa hann heima hjá okkur. Hans helsta skemmtun var, að kasta kúknum úr sér upp um alla veggi og helst að reyna að hitta hvern þann sem vogaði sér inn til hans. Þar fyrir utan var hann svaka sætur og krúttlegur, í gegnum gluggann á kaffistofunni. Ég þarf enga rannsókn, hvers lensk sem hún er, til að finnast ég vera gáfaðri en api, oftast nær. En svo er það aftur á móti allt annað mál, að stundum og kannski líklega of oft í lífi mínu, hefur alls ekki litið út fyrir að vera mikill munur á gáfum mínum og apa. Til dæmis þegar ég tæpra 17 ára, auðvitað ekki komin með bílpróf og búin drekka slatta af áfengi, tók að mér að keyra fyrir kunningja minn, hérna í bænum. Það kom ekkert fyrir, löggan stoppaði mig samt, útaf af brotnu afturljósi, en bað mig ekki um ökuskírteini og fattaði ekki að ég var drukkin. Dæmi svo hver fyrir sig, en api hefði ekki einu sinni látið sér detta í hug að gera svona ! En svo að ég sitji ekki alveg ein í þessari súpu, þá veit ég nú um fólk, sem hefur greinilega ekki verið tekið með í þessari rannsókn og kannski þess vegna kemur þetta svona vel út fyrir okkur mannfólkið, en ekki orð um það meir. Eigið góðan dag og munið að þið eruð ábyggilega öll gáfaðri en apar
Bloggar | 10.9.2007 | 08:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Við fórum í gær og tjölduðum til einnar nætur, í "kjarrinu á bak við hæðina" eins og einn frændi hennar mömmu tók svo skemmtilega til orða, hérna um árið og hann var þá að meina Vaglaskóg. Það var ljúft, gott veður og stillt, smá rigning en hún skaðar nú yfirleitt engan. Seinnipartinn á föstudaginn fór ég á snyrtistofu í plokkun og litun, ekki svo sem í frásögur færandi, nema fyrir þá sök, að á laugardagsmorguninn vaknaði ég svona hræðilega rauðeygð. Þetta hefur aldrei komið fyrir mig áður, fer alltaf á sömu stofuna og þær eru frábærar þar stelpurnar. Ég leit út til augnanna eins og ég hefði verið á stífu fylleríi í marga, marga daga, held ég, ég hef að vísu ekki prófað það. Eini liturinn sem ég bað um var svartur og ég fékk hann nú líka, það var bara þessi rauði, sem ég bað ekki um. Ég er ennþá með rauðar augnhvítur, finn fyrir óþægindum í augunum og ef þetta verður ekki orðið gott í fyrramálið, þá verð ég líklega að ráðfæra mig við lækni. Ég reyni nú að líta sæmilega út, en mér finnst það samt ekki þess virði að líða illa út af því. Það má kannski segja að ég hafi ekki gengið "heil til skógar". Það var brjálað að gera við að skoða allt þetta nýtt og nýju aths. hjá bloggvinunum, ég bregð mér frá í sólarhring og þá blómstra þeir sem aldrei fyrr. Gott mál bara ! Eigið góðan dag, það sem eftir er af honum
Bloggar | 9.9.2007 | 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)

Bloggar | 7.9.2007 | 07:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)

Bloggar | 6.9.2007 | 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Það er yfirleitt ekki minn stíll að hætta mér út í neinar heitar umræður hér á blogginu, skrifa meira um það sem mér er nær. En ég sá margumrædda auglýsingu frá Símanum, eiginlega nokkrum sinnum of oft í sjónvarpinu í gærkvöldi, ég er svo fljót að fá leið á endurtekningum. Hún var sýnd í Kastljósinu og Ísland í dag og spjallað og spekúlerað um hana fram og aftur og fólk á förnum vegi spurt álits á henni. Fyrir utan að vera svo auðvitað líka sýnd í auglýsingatímunum. Það spurði mig enginn, en mér finnst þessi auglýsing og allt fjaðrafokið í kringum hana, vera bara alveg fyrirmyndar markaðssetning. Ef mér hefði dottið í hug að auglýsa að Jesú og lærisveinarnir "hefðu getað" gist hér á gistiheimilinu, ef eitthvað.... þá hefði ég líklega þurft að byggja við húsið í einum grænum hvelli. Mér var bara ekki búið að detta það í hug. Hún sló mig ekkert illa þessi auglýsing, ég vissi bara um leið og ég sá hana að hún mundi örugglega stuða einhverja og fá mikla umfjöllun út á það. Mér finnst þetta ofsalega sniðugur sími, sem verið er að auglýsa, en ég kaupi mér ekkert frekar einn svoleiðis þó svo að Jesú og lærisveinarnir "hefðu getað" notað hann ef þessi tækni hefði verið til, þegar þeir voru uppi. En, ef það er rétt sem ég skil, að venjulegu GSM símarnir komi til með að detta sjálfkrafa út vegna þessara nýju, þá auðvitað verð ég að kaupa einn þegar þar að kemur. En mér finnst þessi auglýsing vel gerð, falleg sviðsmynd og myndarlegir leikarar, þó svo að það megi auðvitað skiptast á skoðunum um það, hvort það hefði mátt nota eitthvað annað myndefni til að auglýsa síma. En til þess að klikka nú ekki alveg á mínum venjulega bloggstíl, þá læt ég það fljóta með hérna, að ég er að fara með stóra jeppann minn í skoðun núna á eftir ! Eigið góðan dag
Bloggar | 5.9.2007 | 07:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bloggvinir
-
jokapje
-
rannug
-
jonhans
-
jogamagg
-
ammadagny
-
hneta
-
asthildurcesil
-
olapals
-
heidihelga
-
brylli
-
juljul
-
naflaskodun
-
majaogco
-
jyderupdrottningin
-
ollana
-
skrifa
-
tofraljos
-
stafholt
-
ringarinn
-
tigercopper
-
engilstina
-
himmalingur
-
einari
-
linka
-
duna54
-
unns
-
skjolid
-
kaffikelling
-
heidamagg
-
heidathord
-
lehamzdr
-
oliskula
-
fjallkona1
-
gattin
-
sur
-
hugskotid
Okt. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.10.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar