Bara framhliðin eða hvað ?

Það er ekki nóg að hafa bara framhliðina í lagi. Á sveitabæ nokkrum, þar sem ég var bóndi í þó nokkur ár, mátti ekki mála bakhliðina á húsunum, það þótti óþarfi að eyða peningum og vinnu í það, þær hliðar nefnilega sáust ekki frá veginum... En, þegar ég var nú orðin bóndi þarna, flestir hefðu líklega viljað kalla mig bóndakonu, en það var bara ekki réttnefni, ég vann öll störf til jafns við minn fyrrverandi og vel það, þá var skipt um gír og ég lét byrja að mála bak við hús. Bæði vegna þess að þar hafði aldrei verið málað áður og ég vissi alveg, að ef byrjað væri framan á þá yrði hitt aldrei málað. Þetta þótti alls ekki fyndið og var ein af mörgum orsökum fyrir því, að ég varð ekkert vinsæl þarna í þessum bransa..... Wink  En, annað hvort gerir maður hlutina almennilega eða bara sleppir því alveg að vera eitthvað að fikta við þá. Þetta er angi af fullkomnunaráráttunni minni, ég veit það alveg, en mér hefur nú tekist að draga allverulega úr henni í gegnum árin, með harðfylgi. Á tímabili var ég orðin svo slæm, að ég byrjaði ekki á neinu, af því að ég var svo viss um að það yrði ekki nógu vel gert. Klikkun, veit það.... Enn þann dag í dag, gríp ég sjálfa mig stundum að því, að ætla ekki að byrja á einhverju, af því að ég er svo hrædd um að geta ekki klárað það, áður en ég fer í vinnuna eða eitthvað. Þá þarf ég aðeins að rífa sjálfa mig upp á rassg... og hrista mig aðeins til, það er svo andsk..... hollt ! Eigið góðan dag elskurnar og munið að það er gott fyrir konur að borða Cheerios, las það einhversstaðar Smile

Getur varla versnað, held ég....

Mér hefur aldrei orði á að blogga um frétt, fyrst var það lengi vel, vegna þess að ég kunni alls ekki að gera það, en nú orðið vegna þess, að það eru nógir aðrir til þess. En mér finnst gaman að fylgjast með þegar bloggað er um fréttir, það koma svo oft fjörugar umræður í kjölfarið. Ég er svo agalega sjálfhverf þessa dagana, að það kemst fátt annað að hjá mér en óttinn við að ég sé að breytast..... í húsmóður ! Og með sama áframhaldi má jafnvel fara að setja "fyrirmyndar" fyrir framan. Vona samt innilega að það komi ekki til þess. Uppáhaldsáhöldin mín þessa dagana eru tuskur fötur og skrúbbar og þá er ég ekki að tala um vinnuna mína, ég er að tala um hérna heima. Ég fór meira að segja spes ferð í búð til að kaupa mér skúringafötu, af því að mín gamla var svo ljót ! Og ég tók ryksuguna og þreif hana, eðlilegt fólk gerir ekki svona... Ekki nóg með það, ég er að fara að gera slátur, sem þýðir ekki nema eitt, ég verð þá fyrst að þrífa frystiskápinn og frystikistuna og þá verður ísskápurinn auðvitað að vera í stíl... Þetta er voðalegt ástand, en verandi nú þessi Pollýanna, sem hefur nú fleytt mér töluvert áfram í gegnum lífið, þá sé ég nú samt smá týru við endann á göngunum : í ljósi reynslu fyrri ára veit ég að það hlýtur mjög fljótlega að fara að brá af mér..... Mér finnst það ætti að vera nóg að gera bara virkilega vel hreint einu sinni á ári hvort sem það þarf eða ekki, mér leiðast þessar sífelldu endurtekningar og ég er ekki einu sinni á kaupi við þetta. Ég heiti Jónína og ég er "næstum því húsmóðir" með tuskuæði...Blush Ég held annars að ég sé búin að finna áhugamál við mitt hæfi og það er ekki húsmóðurstarfið sko, nei, mig langar að teikna og mála myndir af gömlum fallegum húsum...... Eigið góðan dag í allan dag Smile


Góðan dag :-)

Við fórum til Reyðarfjarðar á laugardag og vorum þar í góðu yfirlæti og svo í þessari líka glæsilegu afmælisveislu í gær. Dúllurnar okkar þarna austur frá urðu 7 og 8 ára. Skruppum í gegnum göngin til Fáskrúðsfjarðar í gærmorgun, aldrei farið þau áður, verulega flott göng. Skil samt ekki af hverju gangandi og hjólandi umferð má ekki fara í gegnum svona göng, mér finnst verulega ástæða til að stytta leið þeirra sem ferðast þannig um landið, skil nú eiginlega samt ennþá verr hvers vegna fólk er yfir höfuð að ganga og hjóla um Ísland. En það eru auðvitað útlendingar sem mest stunda þá iðju, við innfædd höfum vit á að keyra. Við skiptumst alltaf á að keyra á lengri leiðum og ég sat við stýrið þegar við lögðum af stað heim í gær. Spúsi minn svaf eða kannski var hann bara í yfirliði af skelfingu, það var ruddaveður megnið af leiðinni, slydda og rokhvasst. Sumstaðar var bara töluvert hált í slabbinu og ég var næstum því búin að keyra niður stóran flutningabíl..... smá kerlingagrobb hérna, þó að jeppinn minn sé ekkert mjög lítill þá geri ég nú ráð fyrir að flutningabíllinn hefði haft betur..... En það slapp til vegna þess að ég er góður bílstjóri, það verður bara að segjast eins og það er. Enda má ég nú vera búin að læra eitthvað smávegis, búin að hafa bílpróf í "nokkur" ár, líklega rétt rúmlega þrjátíu. Það gætir viss misskilnings hjá sumum einstaklingum, mestmegnis af karlþjóðinni, að þú sért bara góður bílstjóri ef þú tekur sjensa og keyrir hratt við aðstæður sem bjóða alls ekki upp á hraðakstur. Átakanlegt hugsanabrengl þar, vegna þess að góður bílstjóri er sá/sú sem hefur vit á að vera hrædd/ur í umferðinni og taka ekki sjensa og kemst þá oftast nær öruggur á leiðarenda. Mesta hugrekkið er nefnilega : að þora að viðurkenna að maður sé hræddur ! Eigið góðan dag og farið varlega við allt sem þið geriðSmile

Almennilegur ráðherra !

Áhugi minn á stjórnmálum er og hefur alltaf verið mjög takmarkaður, spúsi minn sér um þá hlið mála á heimilinu. En ég tek samt alveg eftir og hef jafnvel skoðanir á ýmsu...... Í gærkvöldi var talað við Jóhönnu Sigurðardóttur félagmálaráðherra, um fjárhagsvanda foreldra langveikra barna. Þessi kona er einstök og ber höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálamenn að mínu mati. Hún meinar það sem hún segir og virðist ekki segja neitt, sem hún er ekki viss um að geta staðið við. Að hlusta á hana fær mig alltaf til að finnast vera að koma kosningar, hún talar eins og hún sé í miðri kosningabaráttu, nema hvað það eru engar kosningar framundan. Hún bara virkilega hefur áhuga á því sem hún er að gera og lifir sig inn í starfið. Ég heyri ekki aðra stjórnmálamenn tala af svona sannfæringu, nema fjórða hvert ár, í nokkrar vikur fyrir kosningar, til að reyna að næla sér í sem flest atkvæði frá okkur, hinum misjafnlega trúgjörnu kjósendum. Hún Jóhanna er ekkert að því, hún er að vinna vinnuna sína og við gátum ekki fengið betri starfskraft í félagsmálaráðuneytið. Ég veit að líklega trúa því ekki margir, nema spúsi minn sem þekkir minn aulahátt í þessu, en ég veit ekkert í hvaða flokki hún er og það sem meira er, mér er alveg sama. Ég gæti aldrei tilheyrt neinum flokki, ég rekst svo illa í hóp og það gerir líka ekkert til, ég mundi hvort eð er aldrei muna nafnið á honum........ Í gær hringdi maður og vill fá að skoða Fjallakofann okkar, hann er nefnilega á lista hjá fasteignasölu. Ég hélt ég væri að vera voða sniðug og reyndi að losna við manninn með því að segja að kofinn væri til sölu, ef hann ætti bara nógu mikið af peningum. Helv... manninum brá ekkert og sagðist eiga fullt af peningum, svo ég neyðist til að leyfa honum að koma og skoða..... Eigið góðan dag og njótið þess að vera tilSmile  

Akureyri, öll lífsins gæði.... +

Ójá, það er sko ekkert verið að kasta til höndunum í þessum bæ og allt miðast það við, að við öll, sem hér búum og þeir sem jafnvel gætu hugsanlega flutt hingað, höfum sem mest af sem flestu. Og þá er ég nú ekki bara að tala um skólana..... Akureyrarbær sendi frá sér dagatal með skjaldarmerki bæjarins og máttu sjálfsagt allir fá eitt þannig. Ég var að skoða septembermánuð á einu eintakinu og komst að dálitlu mjög merkilegu. Innifalið í gæðunum, í slagorði þessa ágæta bæjarfélags, er nefnilega lengra ár en allir aðrir fá, það er sko 31 dagur í september 2007 hér í þessum bæ ! Ætli það sé kannski þess vegna, sem mér finnst sumir hlutir ganga frekar hægt fyrir sig hér, við erum jú að verða eitthvað á eftir í tímatalinu, svona miðað við allflesta aðra......

Það er svo ótal margt...

...sem ég skil ekki, sem betur fer vil ég meina. Annars þyrfti ég aldrei að pæla í neinu og þá yrði þessi vöðvi, sem heitir heili og er staðsettur í höfðinu, slappur af notkunarleysi og mundi að lokum líklega bara hverfa. Ég skil til dæmis ekki af hverju útvarpsstjórinn þarf að vera á svo dýrum bíl að það þarf afnotagjöld frá 72 fölskyldum til að borga af honum, í hverjum mánuði. Þarf hann að keyra svona mikið vegna vinnunnar sinnar, ég hélt að hún færi fram í útvarpshúsinu ? Ég er aldrei á sama vinnustaðnum lengur en 2 tíma og alltaf aðra hvora viku er ég á 8-10 vinnustöðum á hverjum degi og keyri á milli. Eftir því að dæma ætti ég þá að þurfa að hafa miklu dýrari og flottari bíl en útvarpsstjórinn, en hrædd er ég um að bæjarbatteríið hér samþykki það aldrei. Enda er það í lagi, ég á rosalega góðan bíl og mér gengi ekkert betur að komast á milli staða þó hann væri miklu, miklu dýrari. Nú er spúsi minn aftur farinn að sinna Landrovernum sínum og það er helv...fínt. Hann setti upp tilraunaeldhús hérna í Fjallakofanum um daginn og ég var bæði ánægð og ekki ánægð með það. Hann gerir góðan mat og bakar líka, það vantar nú ekki. En af því að ég vil helst ekki að neitt gerist hérna á heimilinu sem krefst þess að ég þurfi að fara að þrífa, þá var ég ekkert rosalega hrifin af framtaksseminni, ég verð nú bara að segja það, þó ég komi þá upp um það í leiðinni hvað ég er í eðli mínu, vanþakklát og löt manneskja. Robbi bróðir í Danmörku á afmæli í dag og Andrea tengdadóttir mín líka og ég ætla að skreppa til hennar í kaffi og á laugardaginn förum við svo til Reyðarfjarðar. Þar eru 2 litlar dömur, fyrstu ömmubörnin mín, þær eiga afmæli núna 20. og 23. verða 7 og 8 ára og veislan þeirra er á sunnudaginn. Eigið góðan dag og verið góð við alla sem eiga það skiliðSmile

Orð dagins....

Það stendur til að gera akstursíþróttasvæði hérna allt í kringum okkur. Ég hef skoðað, en bara samt lauslega, teikningar af fyrirhuguðum framkvæmdum og hef í sjálfu sér ekkert út á þær að setja. Þetta er örugglega vel unnið og sniðugt á allan hátt, nema einn : húsið okkar er inni á þessu fyrirhugaða akstursíþróttasvæði. Ég er afar sátt við að það skuli standa til að laga malarnámurnar hérna sunnan við okkur, sem eru eins og stórt sýkt sár á landinu hérna. En mér er samt ekki alveg sama hvað verður gert með það. Það eru tvö hestahverfi hérna og þetta fyrirhugaða svæði er þar mitt á milli. Sko, ég er ekki hestamaður hvorki af lífi né sál, en ég skil þeirra sjónarmið, þetta tvennt fer alls ekki saman, akstursíþróttir og hestamennska. Hestarnir hræða náttulega ekki bílana, en bílarnir hræða hestana. Hingað til okkar hafa komið fulltrúar hestamanna til að fá okkur á sitt band og í gærkvöldi hringdi fulltrúi akstursíþróttamanna og vill fá fund til að kynna þeirra hlið á málinu. Ég skil líka þeirra sjónarmið, þá vantar svæði fyrir sína íþrótt. Það er ekki hægt að segja að það sé mikið ónæði af hestunum hérna, nema svona annað slagið þegar einn og einn gengur laus á veginum hérna. Það getur skapað hættu í umferðinni og þá hringi ég á lögregluna og siga þeim á viðkomandi hross, sem þeir svo fjarlægja einhvernvegin. Það er svo sem heldur ekki hægt að segja að það sé rosalegt ónæði af fólkinu á torfæruhjólunum, sem eru samt oft nokkuð hávær í námunum hérna sunnan við, en ég siga nú ekkert löggunni á þau. Mér þætti bara ágætt að það yrði staðið við það, sem var búið að ákveða, að hérna sunnan við okkur ætti að vera útivistarsvæði fyrir bæjarbúa. Mér er að detta í hug, núna í þessum skrifuðu orðum, að líklega verði ég að fara á stúfana og kynna mér hvaða rétt ég hef hérna í mínum Fjallakofa, í öllu þessu, áður en hinir ýmsustu íþróttaforkólfar fara að hringla of mikið í hausnum á mér. Eigið góðan dag og munið að borða morgunmatSmile

Þú velur spurninguna, ekki svarið við henni

Hérna um daginn var mér sagt frá því, að Páll Óskar heimsótti, fyrir nokkrum árum síðan, framhaldsskóla úti á landi. Hann hefur sjálfsagt verið að fremja tónlist, geri ég ráð fyrir og eitthvað virðist hann svo hafa setið fyrir svörum hjá nemendunum. Viðmælandi minn lét svar Palla, við spurningu eins nemandans fara verulega fyrir brjóstið á sér. Spurningin var eitthvað á þessa leið: "Ef það væri hægt að breyta til baka, mundir þú þá vilja vera gagnkynhneigður ?" Svarið var : "Nei". Viðmælandi minn skyldi ekki af hverju hann sagði nei, hvers vegna maðurinn svaraði svona eins og fífl.... Auðvitað vilja allir vera gagnkynhneigðir ! Eee... ég gat auðvitað ekki sagt neitt um það af hverju hann svaraði svona, nema það að hann bara verið að meina það sem hann sagði eða kannski fannst honum engum koma það við eða kannski var hann bara að ögra..... hvað veit ég ? Mér finnst Páll Óskar vera sjarmerandi og heilbrigður strákur og hann stendur með sjálfum sér og sínum skoðunum. En svo er það aftur á móti annað mál, að við Páll Óskar höfum alls ekki sama tónlistarsmekkinn, en það er allt í lagi mín vegna og hans vegna örugglega líkaWink Mér fannst nú, þegar upp var staðið, bara eitt sem ég gat fullyrt í sambandi við þetta svar Páls og það er, að þú getur valið spurninguna sem þú spyrð viðkomandi, en þú getur ekkert valið svarið. Það var nú mitt, frekar loðna svar........ Eigið góðan dag í allan dag og munið að sólin kemur alltaf upp afturSmile

Leeetin....

Eftir því sem ég vinn minna, þess latari verð ég... Ég nenni engu þessa dagana, nenni ekki að vinna, nenni ekki að ganga frá á lóðinni fyrir veturinn, nenni ekki að þrífa bílinn, nenni ekki að lesa, prjóna eða sauma, nenni ekki að vera húsmóðir, undur og stórmerki eins og þetta síðasta sé nú eitthvað nýtt, en samt..... Hér sem sé hangir andi letinnar yfir vötnum og það er eiginlega verst hvað mér gengur  brösuglega að láta mér líða illa út af því. Mér líður barasta mjög vel með þessu, ef svo væri ekki þá mundi ég líklega gera eitthvað í því, ef ég þá nennti því. Til að eitthvað gerist þá verð ég helst að vinna 24/7 og stoppa aldrei, alltaf að halda snúningnum og þá á ég svo oft erfitt með að stoppa, að jafnvel mér blöskrar. En til þess að fyrirbyggja nú allan misskilning, þá fer ég nú samt í vinnuna sko, það hjálpar að er ég eiginlega mestmegnis hjá skemmtilegu fólki. Auðvitað dettur alltaf inn ein og ein leiðindaskjóða, en það er hverfandi þessa dagana. Ég hef alltaf verið svona löt, þó að ættingjar mínir virðist ekki trúa því upp á mig. Á árum áður, meðan ég var nú virðulegur bóndi í sveit, þá fundu systur mínar það út að ég væri óskaplegur þjarkur og settu Þ í millinafn hjá mér. Auðvitað vann ég rosalega mikið þá, en það var bara vegna þess að ég varð að gera það, ekki vegna þess að mig langaði til þess eða að ég væri svo dugleg. Það er sko meira en að segja það að vera bóndi með ferðaþjónustu, kartöflugarða, rollur, svín, smábörn og fullan eiginmann. Mæli ekki með því að fólk fari út í það, ef það vill halda einhverjum sönsum. En elskurnar mína, nú nenni ég ekki að skrifa meira og segi bara : Eigið góðan dag og munið að leti er einfaldlega mannréttindiSmile

Allt og ekkert :-)

Það er snjór á grillyfirbreiðslunni minni hérna úti í skjólinu okkar, kom að því sem ég hef ekkert verið að bíða eftir, beinlínis með öndina í hálsinum. Ég þoli frekar illa kulda og snjó, líklega hef ég bara fæðst í vitlausu landi, en það er aðeins of seint að fara að ætla að gera eitthvað í því héðan af. Þá er annað hvort að lifa með því eða deyja með því og ég vel með ánægju og án þess að þurfa að hugsa mig um, fyrri kostinn. Það er ekki hægt að neita því að útsýnið er fallegt hérna upp í fjallið, innan við gluggann, sérstaklega ef blessuð sólin vildi nú vera svo góð að staldra aðeins við, rétt svona annað slagið. En hún hefur sjálfsagt nóg að gera við að hlýja öllu fólkinu sem ég veit um á sólarströndum núna og ég öfunda allt of mikið til að það teljist hollt. Verð í hvelli að snúa mér að einhverju öðru og það er svo sem ekki erfitt, ég er ennþá að ylja mér við tilhugsunina um Svíþjóðarferðina okkar og láta mig dreyma um að sænsku stelpurnar mínar geti komið til okkar um jólin. Það væri bara æðislegt!  Það var "smá" afmælisveisla hjá sonardótturinni í gær í tilefni af 2 ára afmælinu hennar. Ég þorði ekki að telja öll börnin, ef ég hefði gert það hefði ég örugglega ekki stoppað þar svona lengi, en þetta var bæði gaman og glæsilegt. Það mætti nú líka halda að ég hefði sjálf fengið að velja mér tengdadætur, þær eru fallegar, vel gefnar, skemmtilegar, skynsamar og duglegar. Svona á lífið að vera og mér er alveg sama þó það sé kalt og snjór, ég á nóg af hlýjum fötum. Eigið góðan dag á þessum fína mánudegi Smile  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband