Langi fattarinn.........

Stundum er fattarinn í mér agalega langur. Hitti mann í gær sem sagðist hafa verið að kaupa jörð, í félagi við annan og þeir borguðu 35 kúlur fyrir hana. Ok....hvernig.... kúlur......hvað ? Mér fannst þetta alveg óskiljanlegt, en lét auðvitað ekki á neinu bera langt fram í samræðurnar, náttulega veraldarvön og svo framvegis. En af því að ég er eins og ég er og hef þar að auki ekki græna glóru um hvernig maður verðleggur gras og mold og grjót, þá varð ég að spyrja manninn fyrir rest, hvað hann væri eiginlega að meina ! Hann horfði á mig eins og ég væri einhver fornaldarmaður sem hefði allt í einu dottið inn í hans flotta líf, setti svo upp svona umburðarlyndissvip, þennan sem maður notar á börn og gamalt fólk og sagði, að hann væri að tala um milljónir króna. Nú ..já.. þá skildi ég þetta alveg, þó mér væri gersamlega fyrirmunað að skilja af hverju maðurinn sagði það ekki bara strax. Það var nú ekki eins og hann væri að reyna að leyna upphæðinni.......... Ég verð að reyna að fylgjast betur með.... Eigið góðan dag og vonandi vinnið þið margar kúlur í lottóinu, ef þið eruð þá ekki bara eins og ég og fattið ekki, að maður verður að kaupa miða.....Smile


Ti hamingju með daginn Jóka mín :-)

Hún Jóka litla systir í Jönköping í Svíþjóð, á afmæli í dag. Ef við förum út í smáatriði þá er hún að vísu systurdóttir mín, en við systurnar höfum lengi, lengi haft hana fyrir systir okkar og það virkar mjög vel. Hún átti að verða afmælisgjöfin mín, þarna fyrir ca 30 árum, en það klikkaði nú eitthvað, munar alveg 4 dögum. Það er verulega dásamlegt haustveður hérna núna, glaða sólskin og logn, ekkert hlýtt samt. Ég ætla ekki í kirkju í dag, veit svo sem ekkert af hverju ég er að taka það sérstaklega fram, ég fer aldrei í kirkju nema ég neyðist til þess, en ég ætla að fara smárúnt og skoða gamlan Landrover með spúsa mínum. Ætli við kaupum hann ekki bara í varahluti. Við erum líka búin að  kynnast enskri síðu þar sem er hægt að panta varahluti í Landrover og verðin þar eru ævintýraleg miðað við að kaupa þetta hérna heima. Varan bara hækkar í verði um agalega mörg hundruð prósent við að koma til landsins og vera slengt upp í hillu í íslenskri verslun. Skuggalegt bara..... Ég fékk bróðir og mágkonu í annan í afmæliskaffi í gær og það var rosalega gaman. Í kvöld ætla ég svo að passa litla englapúkann hana Lindu Björgu, svo pabbinn og mamman geti skroppið í bíó eða bara eitthvað sem þau langar til að gera. Eigið virkilega góðan dag í dagSmile  

Það er eitthvað rosalega mikið að.....

...í okkar annars ágæta þjóðfélagi, þegar virðist sem eina fjáröflunarleið ríkissjóðs, sé að plokka af bótum öryrkja og ellilífeyrisþega. Það er eins og markmiðið sé, að láta þessa tvo hópa alls ekki hafa það of gott, Guð eða í þessu tilfelli ríkisvaldið, forði þeim nú bara allsnarlega frá því ! Ótalmargt fólk í þeirri ömurlegu aðstöðu að vera annað hvort fatlað eða gamalt, munar um 1000 kall á mánuði og jafnvel minni upphæðir. Og það óhuggulegasta er að gamla fólkið okkar, til dæmis, er löngu búið að vinna fyrir því að fá að hafa það bara sæmilegt í ellinni, en það er eins og sé reynt að koma í veg fyrir það með öllum ráðum. Eftir að pabbi dó þá virðist mamma hafa fengið, í einhverja mánuði, of mikið af lífeyrissjóðnum hans, sem hann var búinn að vinna fyrir alla ævina og borga skatta af, einmitt til þess að þau gætu haft það gott í ellinni. Þegar það svo uppgötvaðist var mánaðaleg útborgun til hennar snarlækkuð svo um munaði og auk þess var hún látin borga töluverða upphæð til baka, í hverjum einasta mánuði í 2 eða 3 ár ! Ég er ekki ein um að finnast að fólkið hjá Tryggingarstofnun sé annaðhvort alls ekki að vinna vinnuna sína eða bara skilji kannski ekkert frekar en aðrir, geðveikislega ruglaða innviði þessa "velferðar"kerfis. Og að láta gamla fólkið svo ofan á allt annað, borga skatt af lífeyrinum sínum, örugglega einu tekjurnar í þessu landi sem eru tvískattaðar. Svo koma hinir og þessir háttsettir pótintátar og halda því fram að það sé ekki "hægt" að gera neitt í þessu en það sé alltaf verið að "reyna" það. Ég skal segja ykkur eitthvað sem er ekki hægt, það er ekki hægt að stoppa vindinn með höndunum, það er ekki hægt að vekja ömmu Jónínu til lífsins, en það ER hægt að hætta að valta yfir gamla fólkið og plokka af því lífsviðurværið. Vilji er allt sem þarf, en hann er bara ekki til staðar þar sem hann þarf að vera, því miður ! Eigið góðan dag og munið að taka lýsið ykkarSmile

Ég hljóp að vísu ekki nakin á Ráðhústorginu, en...

... ég átti samt sem áður alveg yndislegan afmælisdag. Ef öllum hamingjuaugnablikunum sem ég upplifði í gær, væri dreift fram í framtíðina, eitt á dag, þá næðu þau langt fram á næsta árHeart Þá er ég að tala um allar kveðjurnar, sms-in, tölvupóstana, vefkortin, bloggfærslurnar og athugasemdir, símtölin, kortin, pakkana og heimsóknirnar. Þetta var dásamlegt allt saman og ég er að hugsa um að eiga afmæli oftar á hverju ári, þetta var svo agalega gaman. Að hugsa sér og ég sem varð bara fimmtug, hvernig ætli það verði þá, þegar ég verð hundrað ára ? Það vildi nú enginn ræða það neitt í gær, af einhverjum ástæðum.... Wink Ég fékk meðal annars útilegumann ofan af Eyjabökkum í heimsókn og afmælissönginn í beinni frá Århus í Danmörku. Frétti líka af skvísu í Keflavík sem hafði hugsað sér að mæta, mér að óvörum, en vinnan hennar kom aftan að henni á síðustu stundu, þannig að hún gat ekki komið, en ég tek viljann fyrir verkið. Svo á ég fullt af frábærum ættingjum sem fengu þær furðulegu hugmyndir að flytja til annarra landa á árum áður, greinilega alveg án þess að hugsa nokkuð út í það að við hin, sem urðum eftir á mosaþúfunni, mundum sárlega sakna þeirra og vanta rosalega mikið að hafa þau sem næst okkur, bæði á afmælisdögum sem og öllum hversdögum, en ég elska þau samt upp til hópaInLove Eigið góðan dag, til hamingju með öll afmælin ykkar á árinu og takk fyrir migSmile


Ef það skyldi nú hafa farið framhjá einhverjum.....

....þá á ég afmæli í dagSmile Ég er ekki ein af þessum fýlupokum sem sitja bara úti í horni og bíða eftir því að allir muni eftir afmælinu mínu og verð svo sár og reið ef einhverjum verður á að gleyma því. Miklu sniðugra að minna fólk bara á það með góðum fyrirvaraWink Ég er svolítið mikið í svona alls konar forvarnaraðgerðum. Ég er sem sagt fimmtug í dag og það var sem mig grunaði, mér líður ekkert öðruvísi en flesta aðra morgna, nema bara miklu betur ! Búin að fá tölvupósta og sms og bloggfærslur og kort og pakka og sólin er meira að segja að koma upp, í tilefni dagsinsInLove Spúsi minn fór auðvitað á fætur á undan og hellti upp á kaffi handa elskunni sinni, í einhverju öðru lífi kannski.... Aldrei dytti mér í hug að kvarta yfir því að hann hefði ekki fært mér morgunmatinn í rúmið, mér finnst nefnilega sóðalegt að borða í rúminu og alger óþarfi nema þá bara á sjúkrahúsi. En hann mundi eftir að óska mér til hamingju með daginn og sagði mér hvað ég væri þreytuleg, hvort það gæti verið aldurinn, það þarf svo að kenna þessum manni sitthvað um konur.... Ég bara nenni ekki að ergja mig á því, svona er hann bara þessi elska...... Ég kem til með að eiga góðan dag í vinnunni og heima og óska ykkur öllum þess sama, í dag sem og alla aðra dagaSmile


Ég ætla að trúa ykkur fyrir því....

...að ég á afmæli á morgun. Og af því að ég er fædd upp úr miðri síðustu öld, mér finnst svo flott að segja þetta, þá verð ég fimmtug á morgun. Það er örugglega æðislegt að vera fimmtug, ég get að vísu ekkert fullyrt um það, liggur í hlutarins eðli að það hef ég aldrei prófað það áður, en ég er svona nokkuð viss um það samt. Ég geri samt ekkert ráð fyrir því að mér líði neitt öðruvísi þegar ég vakna í fyrramálið, heldur en mér leið í morgun þegar ég vaknaði, sem sagt bara mjög vel. En enginn veit sína ævina... Dagurinn á morgun verður nú samt bara eins og hinir dagarnir, fer í vinnuna klukkan tíu og stimpla mig út úr vinnunni átján mínútur yfir þrjú. Ég nenni ekkert að vinna meira en það, en það hefur ekkert með aldurinn að gera, ég er búin að hafa þetta svona, nokkuð lengi. Að vísu er ég að vinna aðeins á kvöldin en það er bara aðra hverja viku, það er nú varla hægt að hafa þetta minna, ef ég ætla yfir höfuð að geta sagt að ég vinni úti.... Það verður líklega eins og ein kaka á borðinu í Fjallakofanum á morgun og svo hafði ég hugsað mér að nenna að hella uppá kaffi svona í tilefni dagsins, ef það skyldi nú einhver detta inn úr dyrunum. Ég er búin að fá tvo pakka í pósti, annar er frá Kötu og Ninu og hinn frá bæjarstjórn Akureyrar og nei, ég er ekkert búin að opna þá, en mig langar til þess. En af því að fimmtug kona er auðvitað mjög virðuleg og þroskuð og hefur vit fyrir sér og er búin að venja sig af öllum ósiðum...... Hvaða kona ætli það sé ? Ég get varla hamið mig með pakkana og var að hugsa um að fara bara með þá niður á lögreglustöð og láta læsa þá inni ! Þeir/þær sem vilja sjá mig eldast með reisn og nýryksuguðum gólfum eru innilega velkomnir/ar í kaffi í Fjallakofann á morgun, ég vildi að dóttir mín og systur mínar og bróðir og fjölskyldur gætu komið og fleiri sem eru allt of langt í burtu en það verður bara að vera í annan tíma... Eigið góðan dag í allan dagSmile

Smá þus ;-)

Það er til allt of mikið af fólki, sem finnur stöðugt hjá sér þörf fyrir að vera að setja út á, finna að og gagnrýna allt mögulegt, hjá öllum öðrum en sjálfum sér. Sko, ef það er eitthvað að hjá mér, þá lagast það ekkert, þó ég geti sett út á eitthvað hjá náunga mínum í staðinn. Ef mér líður eitthvað illa eða er óánægð, þá hlýt ég fyrst að leita hjá mér og reyna að finna út, af hverju það er. Það getur bara alls ekki staðist að mín vanlíðan og óánægja, sé alltaf bara öllum öðrum að kenna ! Eða er ég bara svona einföld og vitlaus..... kannski, en það verður þá bara að hafa það ! Ég umgengst dálítið af fólki í daglega lífinu, sem virðist hafa þá stefnu í lífinu, án þess að hafa nokkurntímann verið beðið um það og algerlega í sjálfboðavinnu, að laga gallana hjá mér og fleirum. Þetta fólk er aldrei það fyrsta sem kemur og óskar mér til hamingju, ef mér tekst að gera eitthvað gott eða rétt eða hælir mér, ef mér tekst vel upp. Það er eins og jákvæðni, hól og hvatning, sé ekki bara ekki til hjá þessu  fólki. Öll þannig umræða er bara kölluð "andlegt kjaftæði".... Þetta á það til að fara í taugarnar á mér, en því miður þá get ég ekki lagað þetta hjá þeim og ekki lokað þetta fólk út úr lífi mínu heldur. En, heppin ég, að eiga frábærar systur og vinkonur, sem sjá um að hæla mér, þegar ég geri vel og  láta mig líka vita, ef þeim finnst ég ekki vera að gera nógu vel. Þannig þarf það að vera, í báðar áttir, ekki bara einstefnan. Stundum hefur mér jafnvel dottið í hug, hvort mér finnist ég ekki bara svona hátt yfir alla gagnrýni hafin, en ég held alveg örugglega ekki, það bara þolir enginn stöðugar aðfinnslur, hvorki ég né aðrir, það verður líka að vera eitthvað gott með. Það er auðvelt að brjóta niður, það er miklu erfiðara að byggja upp......... Og nú er þusinu lokið ! Eigið góðan dag og farið varlega í umferðinniSmile  

Eftir því sem ég best veit....

... þá lifi ég ekki nema einu sinni og trúi því þangað til ég fæ óræka sönnun um eitthvað annað. Allavega er ég ekki tilbúin til að taka neina áhættu með það og reyni svona á hátíðlegum stundum,  að hugsa aðeins um, í hvað ég eyði lífinu. Eða öllu heldur, í hvað ég vil ekki eyða lífinu, ég nefnilega tími ekki að eyða því bara í eintóma vitleysu. Mér finnst gott að hafa eitthvað sem ég hef aldrei gert, með í því sem ég hef gert. Ég hef aldrei prófað eiturlyf og ætla ekkert að gera það, hef náttulega engan aðgang að þeim í mínu verndaða umhverfi og þori auk þess ekki að fikta neitt við þau. Bakkusi hefur heldur aldrei tekist að verða húsbóndi minn og þar kemur aftur við sögu hugleysi mitt og nirfilsháttur, ég þori ekki að taka áhættuna og tími ekki að eyða lífinu í það. Mér finnst líka svo gott að vakna hress á morgnana og láta mér líða vel og þar kom ég upp um eigingirnina og sjálfselskuna. Ég held hreinlega að mér sé að takast að færa einhverskonar rök fyrir því, að það sé barasta af hinu góða að vera huglaus, nískur og sjálfselskur, en bara þegar það á við samt... Hef alltaf haldið því fram að það verði að nota þau meðul sem duga og það skipti ekki alltaf öllu máli hvernig hlutirnir eru gerðir, heldur hvort þeir eru gerðir. Elskurnar mínar, þið þurfið ekkert að fara í messu á þessum yndislega sunnudagsmorgni, fyrst ég tek það að mér, í sjálfboðavinnu að semja hugvekjuna. Núna ætla ég að vopnast ryksugu og myndavél og fara út á Mýralón, þar er spúsi minn með gamla Landroverinn okkar í andlitslyftingu og veitir ekki af því að þrífa hann líka aðeins, þ.e.a.s Landroverinn ! Eigið góðan dag og gangi ykkur velSmile

Hvernig á að skrifa smásýja/sýa/síja/sía ?

Netið datt út í gærmorgun og kom ekki inn aftur fyrr en í gærkvöldi, vegna þess að einhver skar í sundur ljósleiðara. Mér duga nú alveg mínir erfiðleikar með netið hérna í fjallinu, þó að svoleiðis nokkuð bætist nú ekki við líka. Alltaf af og til, þarf ég að hringja í símafélagið mitt og kvarta yfir því að ég komist ekki inn á netið og mér finnist það ekki sanngjarnt vegna þess að ég er þá að borga fyrir þjónustu sem ég fæ ekki. Svarið sem ég fékk alltaf undantekningarlaust, þegar ég var yfirleitt búin að bíða korter í símanum, var : "Já, ég sé að það er óvenjulega mikil deyfing á línunni hjá þér....." Grrr... já væni, er það virkilega ? Hún er ekki bara deyfð, hún er skal ég segja þér, alveg dáin ! Þá komu spurningarnar, sérstaklega samdar handa fávitum : Ertu tengd við netið ? Er kveikt á tölvunni ? Ertu með smásýju ? Er hún örugglega á símasnúrunni ? Ertu með router ? Hvaða tegund er hann ? Hefurðu prófað að slökkva á honum og kveikja svo aftur eftir 10 sekúndur ? Vantaði bara spurninguna hvort ég væri ekki bara svona hrikalega vitlaus..... Núorðið er ég farin að svara spurningunum fyrirfram, í þeirri von um að ég fái einhver svör, ekki bara spurningar. "Já hálfvitinn hérna, er með kveikt á tölvuninni og er að reyna að komast á netið í gegnum snúru sem liggur ekki ótengd á gólfinu, með nýja smásýju á símasnúrunni og router sem heitir Zyxel og er búið að kveikja og slökkva svo oft á, að takkinn er orðinn rauðglóandi". Þá kemur : "Ha...hm...ja... þá veit ég nú ekkert hvað getur verið að ..." Nei einmitt það, jæja, en þakka þér samt væni minn og eigðu góðan dag....... Svo bíð ég bara þangað til netið kemur inn aftur og velti því fyrir mér af hverju í ósköpunum ég er alltaf að ergja mig á því að hringja, kannski bara af því að það er ókeypis.... Eigið góðan dag og gangi ykkur allt í haginnSmile

Æi jæja....... :-)

Í dag er ég nokkurnveginn laus við að hafa skoðanir á nokkrum sköpuðum hlut, læt ekki einu sinni fara í taugarnar á mér að hér úti er svo sterkur sunnanvindur, að allt er þakið ljósbrúnu ryki hérna inni. Af því að ég er með glugga á húsinu sem mér finnst gott að hafa opna, helst alltaf, þá á rykið greiðan aðgang að íbúðinni. Ég nefnilega skil ekki af hverju maður er yfirleitt með glugga með opnanlegum fögum, ef það má þá ekki hafa þá opna. Ætlarðu að kynda upp alla veröldina kona, er spurning sem ég heyrði oft þegar ég var krakki, hef heyrt hana líka nýlega, núna löngu eftir að ég er hætt að vera krakkiWink Það er hlýtt úti núna og mér finnst það æðislegt. Það verður nú að segjast að þetta er býsna fallegur litur, þessi ljósbrúni, ef hann væri bara einhversstaðar allt annarsstaðar en á borðum og í gluggasyllum inni hjá mér. Af því að, ef ég vil ekki hafa það þar, verð ég sjálf að þrífa og ég sem er nýbúin að losa mig við þetta ferlega tuskuæði, sem hélt mér fanginni í marga daga. Ætti líklega að skoða betur framtíðarspá veðurstofunnar áður en ég leyfi mér að detta í það, sko ferlega tuskuæðið. Talaði við hana Kötu mína í gær, hún og Nina ætla að koma og vera hjá okkur í viku um jólin, búnar að panta flug hingað út á klakann 21.desemberHeart Ég hlakka alltaf mikið til jólanna en bara ennþá meira núna ! Eigið góðan dag og gangi ykkur allt í haginnSmile  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband