Hann var farinn að drekka....

...ja svona, kannski heldur mikið. En, það var konunni hans að kenna, ekki spurning, hún var alltaf með eitthvað röfl og var aldrei ánægð. Hvað með það, þó hann fengi félagana í heimsókn og þeir fengju sér smá, bara prófa framleiðsluna og þó svo að krakkarnir gætu ekki sofið á meðan, þetta var nú bara um helgar og þá gátu þau sofið út... Svo sem ágætir krakkar sem maður á, en maður verður nú að geta fengið að vera maður sjálfur, svona annað slagið... Og hvað með það þó hann fengi sér af og til í fótinn á virkum dögunum líka, hann bjó það nú til sjálfur, mikill sparnaður, það var ekki eins og hann væri að kaupa það í Ríkinu... Og svo gat hún nú líka farið að argast út af þessu með nýja bílinn, hva.. maður gerði nú við hann... hálfvitalegur staður fyrir skurð akkúrat þarna og það í niðamyrkri... svo vogar hún sér að segja að hann geti bara labbað á milli bæja, þegar maður er að skemmta sér....Hún þurfti líka að jarma út af dauða hundinum, heyrðu, maður lærði nú að skjóta úr byssunni mjög ungur og þó maður skjóti nú í mark annað slagið, hikk..ekki gat hann gert að því þó hundkvikindið væri fyrir, það voru nú samt 3 hundar eftir á bænum... Hún þurfti auðvitað líka að brjálast út af því.... Verra þegar hún var kominn með beitta hnífinn í hendurnar þarna um nóttina, svei mér þá ef manneskjan var ekki eitthvað klikkuð, hikk, hún hefði getað stórslasað hann.... Og hann sem var bara að prófa að elda smá og vakti hana nú bara til að láta hana smakka. Og hún, ekkert nema vanþakklætið, eins og alltaf og vildi ekkert borða.... grenjaði bara.... Annars hafði hann ekki séð hana og krakkana lengi, líklega ekkert síðan þarna um jólin, hikk......  Þessi annars ágæti maður, fór í áfengismeðferð 3 mánuðum eftir að konan og börnin fóru frá honum og undir lok meðferðar á Staðarfelli, kom bréf frá honum til konunnar, þar sem "hann fyrirgaf henni allt", sem hún hafði gert honum... Hann hefur ekki drukkið áfengi síðan, enda kom þessi sínöldrandi, óánægða kona ekki til hans aftur....Wink  Eigið góðan dag Smile

Góðan dag...brrrrr.....

Í gærmorgun var ég næstum því veðurteppt hérna uppi í fjallinu.... Ekki vegna þess að það var svo vont veður og ekki heldur vegna þess að það var ófært, heldur vegna þess að það var svo andsk... kalt ! Mér datt fyllilega í hug að fara bara ekkert í vinnuna, þegar norðan nepjan skall í fangið á mér, á leiðinni út í bíl og ég er að tala um alla 5 metrana að bílnum Frown  Nú á ég fullt af hlýjum fötum, kuldastígvél, þykkar peysur, trefla, hanska og vettlinga, ekki samt húfu, ég nota ekki húfu. En það að eiga öll þessi hlýju föt, hefur ekkert að segja, ef ég nota þau svo bara alls ekki ! Líkt og að kaupa ekki Lottómiða og skilja svo ekkert í því að ég skuli aldrei fá vinning... Það er líka andsk... kalt úti núna, en nú er ég að hugsa um að breyta alveg til og fara út og setja bílinn í gang, nokkru áður en ég þarf að fara að leggja af stað í vinnuna og fara í kuldastígvélin og þykka peysu og setja hanskana á hendurnar á mér, en ekki bara geyma þá í körfunni inni í forstofu og kvarta svo yfir kuldanum úti. Leggja til hliðar afneitunina á veturinn og taka í staðinn upp skynsamlegan klæðaburð, sem hentar veðurfarinu ! Wink  Ég sá í gær fyrirsögn á einu blogginu, sem vakti upp minningar úr bernsku, "það kostar klof að ríða röftum". Ég gleymi því aldrei, þegar ég heyrði mömmu segja þetta fyrst og mér ofbauð svo gjörsamlega hvað hún mamma mín gat verið dónaleg ! Ég skyldi bara ekkert í þessu og aumingja mamma átti í mesta basli við að reyna útskýra þetta fyrir mér og að þetta væri alls ekki meint sem neinn dónaskapur, þetta væri gamalt máltæki. Þarna á tímabili hafði ég svo varan á mér gagnvart öllu sem var gamalt.... Eigið góðan dag og munið sænska máltækið sem segir : það er ekki til vont veður, bara vond föt !Smile

Í fréttum er þetta helst.......

Þrátt fyrir ítrekaða leit í fréttum á öllum netmiðlum, sá ég ekkert sem vakti nógu mikið athygli mína til þess að ég fari að tjá mig um það. Það er rifist hér og slegist þar og þetta margir drepnir og limlestir úti í löndum og svo eru það vitanlega stjórnmálin........ GaspStundum vantar mig svo agalega litlu jákvæðu atburðina sem ég veit að eru alltaf að gerast í heiminum. Systurdóttir ( réttara að segja systurdótturdóttir Wink ) mín er að fara að syngja inn á geisladisk... ungum hjónum í Fnjóskadal fæddust tvíburar, strákur og stelpa, heilsast vel, alveg satt, hef enga hugmynd um hvaða fólk þetta er samt... það hafa enn sem komið er, engir árekstrar orðið í morgun í Slow town, þrátt fyrir leiðinda hálku sumstaðar.... Ok, þetta þykja nú víst ekkert merkilegar fréttir, ég geri mér alveg grein fyrir því og örugglega mundu ekki seljast mörg eintök af fréttablaði þar sem ég væri ritstjóri. Yrði líklega bara að gefa vinum og ættingjum upplagið... Tounge Stundum fer ég bara alls ekkert inn á fréttirnar hérna á netinu í morgunsárið, mig langar ekkert alltaf til að lesa um hörmungarnar sem áttu sér stað á meðan ég svaf. Að allt öðru, við fórum í Húsasmiðjuna á laugardaginn, 13 október, og þar er búið að stilla upp jólavörum handa fólki sem ætlar þá líklega að halda jólin ..... í nóvember. Með sama áframhaldi fer nú samt að verða svolítið jólalegt úti, allavega þangað til á fimmtudag, þá hlýnar aftur og verður upp í 10 stiga hiti um næstu helgi. Núna er ég búin að skrifa heilan helling um alls ekki neitt og líður vel með því..... Eigið góðan dag og akið varlegaSmile


Það snjóaði.....

......hér í nótt. Það er svakalega fallegt að sjá úti, við erum með gömlu timburljósastaurana hérna uppfrá, með gulu perunum og það kemur skemmtilega út í myrkrinu. Ég kann alveg að meta fegurðina í þessu, þó ég kunni ekkert sérstaklega vel við snjóinn sjálfan. Örugglega hefur mér fundist gaman að snjónum þegar ég var krakki, svona eins og gengur og gerist með börn, en það virðast vera margir mannsaldrar síðan. Það hefur ekkert með aðstæður að gera, ég á fullt að hlýjum fötum og gott hús og fínan jeppa, mér finnst snjór bara óþarfiCoolAnnars er húsmóðirin í mér að stinga upp hausnum þessa dagana, ég ætla að fara að taka slátur. Bara að finna góðan dag í vikunni, þegar tengdadóttir mín, hún Andrea, getur verið með mér í því. Það ætti að vísu ekki að heita að taka "slátur" í mínu tilviki, ætti að heita að taka "lifrarpylsu". Ég bý sko ekki til úr blóðinu, það hefur samt ekkert með trú að gera, mér finnst bara blóðmör ekkert góð/ur. Spúsi minn hefur hjálpað mér í slátrum undanfarin ár, en núna er hann á kafi í Landrover-"makeover", svo ég ætla að láta hann í friði þetta árið. Það er engin kvöldvinna hjá mér þessa vikuna og þá hef ég enga gilda afsökun fyrir því að gera ekki neitt, hérna heima. Stundum furðulegur þessi prentvillupúki hérna, núna strikar hann undir með rauðu öll orðin hérna, sem enda á -ur.Tounge Eigið góðan dag og passið ykkur á hálkunniSmile


Litlu sætu lygarnar...........

Ég varð fimmtug um daginn og fór létt með það. Ég geri mér enga grein fyrir því hvernig mér ætti að líða yfir því, nema þá bara vel og svo er annað, ég geri mér heldur ekki grein fyrir því hvort ég lít út fyrir að vera fimmtug eða ekki. Það er nefnilega enginn vandi að fiska út hól í þá áttina. Ég segi einfaldlega að ég sé fimmtug og þá segir fólk : Nehei, ég hefði getað svarið að þú værir fertug eða : jeminn eini, ég hélt þú værir miklu yngri. Mér finnst þetta alveg svakalega yndislegt, þó ég hafi ekki grænan grun um hvort verið er að meina þetta í alvöru eða ekki. En vitiði, mér er bara alveg sama hvort er... í báðum tilvikum gleður þetta mig. Ef er verið að meina þetta og ég lít út fyrir að vera yngri en ég er, þá er það nú alls ekki leiðinlegt, en þó ég líti ekkert út fyrir að vera yngri en aldurinn segir til um, þá er bara verið að gleðja mig og það er alltaf svo notalegt. Ef ég ætla nú að fá úr þessu skorið, með óyggjandi hætti, þá segi ég ekki hvað ég er gömul, heldur  spyr fólk hvað það haldi að ég sé gömul, það er miklu meira að marka. Málið er að ég hef líka gert þetta á þann veginn  og þá fæ ég sömu svör. Ég held nú alltaf að brosmilt fólk sé miklu yngra en fæðingarár þess segir til um og mig rennir grun í að það sé leyndarmálið á bak við unglegt útlit, brostu við heiminum og þá á heimurinn það til að brosa við þér...... Eftir því sem ég best veit, þá lifi ég bara einu sinni og ætla að láta mér líða vel með því og ég er búin að fá margar sannanir fyrir því að það er sko líka líf eftir fimmtugt ! Eigið góðan dag og gangið brosandi inn í sunnudaginnSmile

Úrræðaleysið.....

Sumir skjólstæðingar mínir, sem ég lít inn til á kvöldin, eru utan kerfis... Fötlun þeirra, andleg og líkamleg, er þannig að það eru ekki til nein úrræði fyrir þá í þjóðfélaginu okkar. Það er með öðrum orðum, ekki pláss fyrir þá hérna með okkur hinum, sem teljumst heilbrigð og getum bjargað okkur sjálf að flestöllu leiti. Þeir eru á biðlista, var eina svarið sem ég fékk, þegar ég fór að grennslast fyrir um hvers vegna í ósköpunum ekki væri gert fyrir þá, það sem þarf. Ok, á biðlista hvar ? Já... það er ekki svo gott að segja.. það er verið að reyna að finna eitthvað handa þeim... Þeir sem ég tala um búa einir og fá hjálp við að þrífa og fá heimsendan mat og svo heimsóknir nokkrum sinnum á dag, fer eftir... hverju ? Líkamlegum þörfum þeirra er sæmilega sinnt, en ekki þeim andlegu, það er bara eins og einhverju sé hent í þá og svo eru þeir á biðlista eftir því, sem enginn veit hvað er eða hvar. Það er ekkert nóg fyrir þá að ég komi einu sinni til tvisvar á kvöldi og bulli einhverja vitleysu, þeir vilja ekkert að ég fari, þeir vilja að ég sé þarna alltaf, af því að raddirnar eru svo andstyggilegar og það er svo vont að vera einn...... Ég er alltaf að leita að manneskjunni sem ræður þessu, sem getur sett upp úrræði fyrir þá, sem tekur af skarið og gerir eitthvað sem skiptir máli. Það eru haldnir fundir og það eru settar á stofn nefndir og það er skeggrætt og spekúlerað, en þessum blessuðum mönnum líður alveg jafnilla samt og eru alveg jafnmikið út úr eftir sem áður.... Þetta er dapurleg færsla, en þetta er líka dapurlegt líf fyrir þessa einstaklinga og það dapurlegasta af öllu dapurlegu, finnst mér að geta ekkert gert til að hjálpa þeim....... Eigið góðan dag og ekki vera svona döpur... Smile


Fariði bara í Ríkið !

Það er töluvert í umræðunni að það þurfi að vera hægt að kaupa léttvín og bjór í matvöruverslunum. Af hverju ? Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess, en ég held það sé samt ekki vegna þess að ég sé orðin gömul og hrædd við breytingar. Hingað til hefur fólk alveg getað orðið sér úti um áfengi, ef það hefur á annað borð langað í það, án þess að það hafi verið staðsett við hliðina á gosdrykkjunum í matvörubúðinni eða hvar svo sem sjoppusálfræðingarnir mundu setja það. Það eina sem ég sé kannski jákvætt við það, (æi þegiðu Pollýanna, smástund... ) er tímasparnaður. Það mundi náttulega tvímælalaust spara tíma, til dæmis á föstudegi, að þurfa ekki að gera helgarinnkaupin, bæði í matvöru- og áfengisverslun. En sjáum nú til, ef fólki finnst það ekki hafa nægan tíma til að fara í báðar búðirnar, þá er því í lófa lagið að sleppa bara annarri þeirra, já... hvað hefur maður svo sem að gera með allt þetta brauð...... Nei, án gríns, ég hef ennþá ekki séð eða heyrt, nein haldbær rök sem ég get fallist á, fyrir því að það sé nauðsynlegt að geta keypt rauðvínið á sama stað og helgarlærið og kannski laugardagsnammið og þar að auki er barnið mitt eða í mínu tilviki frekar  barnabarnið mitt, í körfunni líka. Börn og áfengi fara ekki saman, ég fer aldrei ofan af því og léttvín og bjór er áfengi, hvað svo sem hver segir ! Einhvern heyrði ég tala um að það sé brot á almennum mannréttindum að geta ekki gert þetta svona, en er þar nú ekki aðeins of djúpt í árina tekið ? Eigið góðan dag og gangið jákvæð inn í helginaSmile

Gærdagurinn er liðinn.........

Sakavottorðið mitt er "tómt". Ég borgaði 1.300 krónur fyrir að fá að vita það, að ég hef ekkert gert af mér um ævina, ekkert sem nær allavega inná sakavottorðið mitt og svo voru þetta nú bara fjórar línur. Auðvitað var það ekki handa mér, heldur handa Sýslumanninum/Lögreglustjóranum frá Lögreglustjóranum/Sýslumanninum. Skrítið kerfi þarna í gangi.... Fyrst fór ég í Héraðsdóm, sem er á fjórðu hæð í húsinu og sótti vottorð um að ég væri bara að sýsla með mínar eigur en ekki annarra, þaðan niður á þriðju hæð og ætlaði að sækja sakavottorðið. Nei, almennilegi maðurinn í afgreiðslunni þar, sagði að ég þyrfti að fara niður á fyrstu hæð til að ná í það. Niðri á fyrstu hæð, spurði ég í leiðinni um fax frá lífeyrissjóðnum, sem ég hafði beðið um að yrði sent til sýslumanns. Konan sem lét mig borga fyrir sönnun sakleysis míns, horfði á mig og sagði að þarna væri ekkert fax, hún leit ekki í kringum sig, hún fór ekkert og gáði, hún bara vissi allt sem gerðist þarna, án þess nokkuð að þurfa að athuga það. Jæja, aftur upp og nú á aðra hæð og þar var lokað, opnum aftur hálf ellefu góða mín, það passaði, ég var að fara í vinnu klukkan tíu... Ég fór aftur upp á þriðju hæð og spurði almennilega manninn í afgreiðslunni, hvar þetta fax gæti verið. Niðri á fyrstu hæð, sagði almennilegi maðurinn í afgreiðslunni á þriðju hæð. Neibb, konan á fyrstu hæð vill ekki gangast við því, sagði ég. Þá tók hann upp símann þarna á þriðju hæð og hringdi niður á fyrstu hæð og þá gáði konan og komst að því að faxið mitt var hjá henni. Aftur niður á fyrstu hæð og sótti faxið. Þarna á fyrstu hæð hitti ég alveg indæliskonu, sem ég þekki og vinnur á þriðju hæð og hún bauðst til að taka fyrir mig alla pappírana og koma þeim til sýslumannsins, á annarri hæð og reyna að sjá til þess að ég fengi leyfið mitt endurnýjað ! Ég þekki bara gott fólk ! En ég veit ekkert strax hvort ég fæ leyfið endurnýjað og lyftan í þessu húsi þarna er skrifli.... Eigið góðan dag og gangi ykkur allt í haginnSmile

Rautt er nú góður litur samt... ;-)

Þessa dagana sé ég rautt...... Ég sé alltaf rautt þegar ég þarf að fara að vinna einhverskonar pappírsvinnu, þess vegna er ég líka með rándýran bókara á launum, af því að ég er ekkert svo mikið fyrir rauða litinn. En ég get því miður ekki sigað bókaragreyinu í alla skapaða hluti, til dæmis ekki að endurnýja leyfið fyrir gistiheimilið mitt. Ég neyðist til að gera það sjálf...... Og þá þarf ég auðvitað að verða mér úti um allar sömu upplýsingarnar og þegar ég gerði þetta síðast og ég sem þoli ekki endurtekningar. Það er nú að vísu ekki svo að ég þurfi að gera þetta í hverri viku, bara á nokkurra ára fresti, en það er nóg handa mér. Spúsi minn ætlaði nú að vísu að sjá um alla pappírsvinnu þegar við byrjuðum í þessum bisness og einu sinni, annan hvern mánuð sér hann alveg um að reikna út virðisaukaskattinn, ekkert mjög hrifinn að vísu, en það er allt í lagi ég er bara einhversstaðar annarsstaðar á meðan. Ég hef það fyrir reglu, að vita helst ekkert sem ég þarf ekki að vita og kunna helst ekkert sem ég þarf ekki að kunna. Og allt í kringum bókhald og allra handanna pappírsvinnu fer svo í mínar fínustu að ég fæ hreinlega grænar bólur á ... æi þið vitið þarna... hér og þar... Ég þarf að skila 5 mismunandi vinnuskýrslum um hver mánaðamót, núna síðast 35 blöð og ég verð að gera það, vegna þess að annars fæ ég ekkert útborgað. Þær skýrslugerðir eru meira en nóg handa mér...... Ég þarf til dæmis að verða mér úti um sakavottorð núna og það stendur í leiðbeiningunum að ég eigi að sækja það til lögreglustjóra. Ég fann hann nú ekki alveg strax, ekki fyrr en ég komst að því að sýslumaðurinn hér í Slow town, er lögreglustjóri í dulbúningi. Jæja, nautið í flaginu ætlar að halda út í éljaganginn og reyna að verða sér út um hreint sakavottorð á 1350 krónur... Eigið góðan dag og verið nú löghlýðinSmile

Góðan og blessaðan daginn !

Veðrið, mjög íslenskt, vinnan, líka íslenskt og eftirköstin eftir fimmtugsafmælið mitt, eru mér efst í huga þennan morgun. "Eftirköst" er nú kannski ekki rétt orð, en mér dettur bara ekkert annað í hug í augnablikinu.... Tounge Ég er ennþá að fá kveðjur í tilefni hálfrar aldar afmælisins og líka pakka í póstinum og fleiri á leiðinni skilst mér ! Ég fékk tvo stóra pakka frá Birnu systir og afkomendum, hún var búin að gefa út margar yfirlýsingar um "litla pakkann" sem mundi dúkka upp í póstkassanum. Þegar til átti að taka, voru pakkarnir svo stórir að það var varla hægt að ganga um forstofuna þegar pósturinn var búinn að drösla þeim þangað inn ! Bara yndislegt fólk, fólkið mittHeart Lengi vel hefur kvöldvinnan mín verið mjög létt og löðurmannlegt verk, en það er að breytast þessa dagana. Búið að bæta við skjólstæðingum, sem þarf að kíkja til og hjálpa við eitt og annað, þannig að ég er núna að komast í þá skrítnu aðstöðu, að þurfa allt í einu að fara að vinna fyrir kaupinu mínu. Ég er líka búin að fá nýja yfirmanneskju, sem hefur áhuga á því sem ég er að gera, það er alveg nýtt. Það er líka skemmtileg nýbreytni að leggja Ólympíuhugsjónina til hliðar, svona annað slagið, mér finnst þetta nefnilega skemmtileg og gefandi vinnaWink Til að klára upptalninguna í byrjun þessarar færslu, þá er veðrið fínt, það er rigning og frekar kalt, en það er allt í lagi, gæti verið miklu verra ! Eigið góðan dag og klæðið ykkur bara velSmile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband