Stórhreingerningabrjálæðingurinn

Það er kalt og dimmt úti eins og gerist á þessum tíma dags í endaðan október. Jólaauglýsingarnar eru byrjaðar og mér finnst það frábært, mér finnst jólin yndislegur tími. Mér hefur alltaf fundist það og alveg sérstaklega eftir að ég hætti að láta eins og stórbilaður hreingernigabrjálæðingur fyrir hver jól. Ég svitna við tilhugsunina um það hvernig ég gat látið, tók allt og skrúbbaði, þvoði, dustaði, pússaði og bónaði. Og þegar ég segi allt, þá meina ég bókstaflega allt, loft og veggi og glugga og tjöld, allt rifið út úr öllum skápum og þeir og innihaldið sótthreinsað. Þetta er alveg nógu svakalegt verkefni í lítilli íbúð en í 10 ár bjó ég í virkilega stóru, 7 herbergja húsi og klikkhausinn ég, þreif hvern einasta fersentimeter... Úff... Svo hætti ég þessu, þegar ég þóttist loksins vera komin til vits og ára og undur og stórmerki, jólin komu samt ! Jólin koma ekkert í gegnum skápana hjá mér og læðast heldur ekkert með lofti og veggjum og hætta svo bara við, ef þau finna ekki sápulykt. Og þau koma líka alveg þó ég kaupi ekki nýtt sófasett og máli ekki allt og skipti ekki um gólfefni og allar innréttingar í tryllingi. Jólin koma hjá mér af því að mig langar til þess og það á sjálfsagt ekkert að segja það upphátt, enda skrifa ég það bara, að ég held ekki jól af neinum sérstökum trúarástæðum, mér finnst bara allt við þau og kringum þau, svo ofsalega gaman. Ég "baka" örfáar smákökur og laufabrauð í Bónus, skemmti mér við að setja upp jólaskraut hérna heima og hlusta á jólalög og fer í Jólahúsið inni í Hrafnagili og mundi helst vilja fá að hafa alla ættingja mína hjá mér um hver jól. Og svo kaupi ég jólagjafirnar og það er það eina sem ég geri ennþá í tryllingi fyrir hver jól og hef ofsalega gaman af. Jólahugleiðingunni lokið í þetta skipti... Njótið þess nú að sofa út á þessum ágæta sunnudagsmorgniSmile

Helv.... HÁBJARGRÆÐISTÍMINN !

Einu sinni átti ég bara eitt barn, son. Vá, hvað ég man langt aftur í tímann, þessi sonur er núna að verða 31 árs, kvæntur í 7 ár og faðir í 2 ár.... duglegur og yndislegur náungiSmile  Jæja, en þegar hann var lítill, þá vorum við oftast um helgar, hjá tengdaforeldrum mínum í sveitinni, sérstaklega þó á sumrin. Og af því að hann svaf ennþá í úti vagni eftir hádegið, þá lá í hlutarins eðli að ég var ekkert úti á túni í heyskap rétt á meðan hann svaf. Þá átti ég það til að líta í bók eða grípa í prjónana mína, búin að ganga frá eftir hádegismatinn á bænum og kannski hengja út og eitthvað svoleiðis, sem tengdamamma hefði þá annars þurft að gera, áður en hún fór líka út í heyskapinn með hinum. Ef það álpaðist svo einhver inn, af föðurfólki sonar míns og sá mig vera að lesa eða prjóna, af því að það var ekkert annað fyrir mig að gera, rétt á meðan barnið svaf, þá fór allt í háaloft ! Það taldist nefnilega mjög alvarlegur og allt að því bara refsiverður glæpur, að taka sér bók eða prjóna í hönd, um : HÁBJARGRÆÐISTÍMANN Devil  Það virtist ekki skipta neinu máli, hvað annað ég gerði, hvort það var til gagns eða jafnvel til ógagns, bara ekki bók eða einhverja handavinnu ! Þarna um HÁ- helv.. bjargræðistímann ! Og hafðu það þú þarna litla heimska, lata kaupstaðarstelpa, malbiksbarn, borgarbarn, yfirstéttarbjálfi og eitthvað fleira svona lítið og sætt..... Og því miður þá var það ekki bara fullorðna fólkið sem lét svona, það læra börnin sem fyrir þeim er haftAngry  Það ætti einhver að reyna að koma svona fram við mig í dagCool En þarna var ég bara 19 ára, hálfgerður krakki og hafði aldrei kynnst svona framkomu, vissi ekki einu sinni að hún væri til og að því leiti, get ég viðurkennt smá heimsku eða líklega frekar reynsluleysi.... Það gekk ýmislegt fleira á þarna í sveitinni, sem ég vissi bara alls ekki að væri til, þekkti ekki merkin og kunni þar af leiðandi ekki að takast á við, þegar ég rakst á það..... Stundum vildi ég óska, að ég gæti snúið til baka þangað og gert eitthvað í sumum málunum, drepið mann og annan eða fleiri jafnvel.... En, sjáið nú til, einhversstaðar stendur skrifað,  að glæpurinn nái í rassg... á glæpamanninum fyrir rest... eða eitthvað svoleiðis og ég ætla bara að treysta því. En, njótið þess að það er kominn föstudagur og gangið heil inn í helginaSmile

Hvor skyldi nú vera heimskari...

... sá sem fæðist með dökka húð eða sá sem heldur því fram að húðliturinn einn og sér, stjórni gáfnafari, sjálfkrafa ? Það er mikið í tísku og hefur lengi verið, að við sem erum fædd með hvíta húð,  leggjum töluvert á okkur til þess að fá brúna húð. Við liggjum í ljósabekkjum og förum í brúnkuklefa, eyðum bæði tíma og peningum, í að fá sem dekkstan brúnan lit á húðina. Og svo er mikið dáðst að þeim sem eru brúnir og fallegir og heilbrigðir. Og svo hvað... Verða þeir/þær þá ekki sjálfkrafa heimsk og vitlaus, af því að þau eru dökk á hörund ? Mér datt þetta rétt si svona í hug...... Níutíu og tveggja ára gamall maður spurði mig í gærkvöldi, hvort ég vissi af hverjum og af hverju, sturtan hefði verið fundin upp. Það var nú fátt um svör hjá mér, aldrei pælt neitt í því, bara notið þess að hafa sturtu... Jú, sagði sá gamli hróðugur, Ameríkaninn fann upp sturtuna, af því að það var svo vond lykt af svertingjunum..... Æi kallhálfvitinn, byrjaði hann nú enn einu sinni... Þarna upphófst auðvitað hið argasta þras, ég gleypi ekki alveg allt hrátt. Ég á það nú samt til, að sjá í gegnum fingur við fjörgamalt fólk, með kynþáttafordóma, það er að verða svolítið seint í rassinn gripið að ætla að fara að reyna að snúa því við héðan af. En að ungt upplýst fólk árið 2007, skuli vera með kynþáttafordóma, það fatta ég ekkiWoundering

Hvað gera bændur nú ?

Nú veit ég satt að segja ekkert hvað ég á til bragðs að taka...... Las um "jólagjöfina í ár" í pistlum hjá Jenný Önnu og er strax komin í alvarleg vandræði með, hvað spúsi minn á nú að gefa mér í jólagjöf. Það er að segja ef við eigum að teljast menn með mönnum... Stærri demantar en í fyrra, það er jólagjöfin í ár !?! Hvað á hann að gera núna, hann sem gaf mér alls engan demant í fyrra og getur þar af leiðandi ekki gefið mér stærri og mig langar ekki heldur í gylltan síma.... hef aldrei verið mikið gefin fyrir gull, meira silfuraðdáandi... og á líka mjög góðan síma. Þó ég geti átt það á hættu að vera talin hreint ótrúlega hallærisleg, þá ætla ég að segja frá því hér og nú, að mig  hefur aldrei langað til að eiga demanta. Skil ekki tilganginn með þeim, nema það sé bara til að ganga í augun á öðrum og hreykja sér eitthvað. Ef ég fengi demant að gjöf mundi ég selja hann og kaupa mér eitthvað fallegt og eyða svo afganginum í vitleysu. Demantar, sem spúsi minn mundi kaupa handa mér, ef hann væri nú svo vitlaus að gera það, yrðu líklega svo litlir að þeir sæjust varla og til þess að allir mundu nú gera sér fulla grein fyrir því hversu dýra, næstum því ósýnilega, steina ég væri að hengja á mig, þá yrði verðmiðinn að fá að vera hangandi á djásninu.... og það er ekki smart. Ég þekki til á heimili, þar sem fólkið á heilan helling af rándýru gylltu jólaskrauti frá einhverjum þekktum hönnuði, sem ég man auðvitað ekkert hvað heitir og svona til öryggis, fyrir fávísa bjálfa eins og mig sem bera ekkert skynbragð á verðmætin, eru verðmiðarnir ennþá hangandi á ! Ég sá alveg eins jólaskraut í Rúmfatalagernum, bara um það bil 1000 sinnum ódýrara.......  Gangið nú glöð inn í góðan dag og munið að nota öryggisbeltin í umferðinniSmile

Smá kennslustund.....

... í stefnuljósanotkun ! Allir mættir ? Gott.... Ég leyfi mér að fullyrða að allar bifreiðar, allavega í fullorðinsstærðum, eru framleiddar með búnað, sem gerir ökumanninum kleyft að sýna öðrum í umferðinni að hann hyggst beygja og þá svona í leiðinni, hvert hann ætlar að beygja. Þessi búnaður er nefndur stefnuljós og orðið skýrir sig að miklu leiti sjálft. Þessum búnaði er þannig fyrir komið í bifreiðinni, að það er stöng öðru hvoru megin við stýrið, oftast vinstra megin ef mér skjátlast ekki þess meira, en það má leiðrétta mig. Utan á bifreiðinni eru svo 4 lítil ljós, staðsett á öllum fjórum hornum farartækisins. Ef þessi stöng, við stýrið, er nú sett niður, þá blikka tvö ljós utan á bifreiðinni, þeim megin sem bifreiðarstjórinn situr og ef þessari stöng er svo ýtt upp, þá blikka tvö ljós utan á bifreiðinni þeim megin sem farþeginn situr. Svo framarlega sem þessi búnaður er notaður og notaður rétt, gerir það öðrum bifreiðastjórum í umferðinni (það er frekar algengt að það séu fleiri að aka um á götunum), kleift að sjá hvert bifreiðin á undan ætlar að fara að beygja og sá hinn sami getur þá brugðist við því á viðeigandi hátt. Það hefur svolítið borið á því að fólk kunni bara alls ekki að nota þessi stefnuljós og/eða kunni ekki að nota þau rétt. Sumir bifreiðastjórar einfaldlega nota þau ekki og það finnst mér benda til þess að annað hvort séu þeir blindir, sem er hættulegt eða þeir hafi ekki lesið hálfvitaleiðbeiningarnar sem fylgdu bifreiðinni. Aðrir myndast stundum við að nota stefnuljós og þá til að sýna öðrum í umferðinni hvert þeir eru að beygja akkúrat á því augnablikinu, en það þarf ekki, það er ekki hægt að komast hjá því að sjá hvaða stefna er tekin í það og það skiptið, nema viðkomandi bifreiðarstjóri sé blindur og það er hættulegt. Ég vona að þessi kennslustund í notkun stefnuljósa hafi komið einhverjum að gagni og ég þakka góða mætingu ! Eigið góðan dag og notið helv... stefnuljósin og notið þau rétt Smile

Skellurinn....

Fyrstu tvö ár og einn dag ævi sinnar, svaf yngsta barnið mitt, drengur, aldrei meira en fjóra tíma í einu og þar af leiðandi ég ekki heldur. Hálftíma dúr í einu, úti í vagninum, var algert met. Dóttir mín, þá 5 og hálfsárs átti tvær vinkonur á næsta bæ og þær fengu oft að labba á milli og heimsækja hvor aðra, það var stutt að fara. Einn daginn fór mín á móti vinkonunum og litli bróðir var nýsofnaður úti í vagni á tröppunum, þannig að ég bað hana um, að þær reyndu nú að fara svolítið hljóðlega þegar þær kæmu til baka, svo krílið mundi ekki hrökkva upp. Ég get svo svarið það að þær byrjuðu að læðast langt frá bænum og voru svo samviskusamar þessar elskur, að ég fékk tár í augun. Ég held þær hafi ekki einu sinni andað síðustu metrana, læddust ofurvarlega að húsinu, pössuðu sig á að það marraði ekki í mölinni, svifu eins og litlir álfar upp tröppurnar, opnuðu hurðina alveg hljóðlaust, smugu inn fyrir..... og skelltu svo fast á eftir sér ! Það var auðvitað eins og við manninn mælt, litla dýrið vaknaði með orgum og sofnaði ekkert á næstunni. Það var ekki nokkur leið  að skamma þær fyrir þetta, það var svo yndislegt að fylgjast með þeim vanda sig svona mikið.  Morguninn eftir tveggja ára afmæli stubbsins, vaknaði ég vegna þess að mér var svo illt í bakinu enda klukkan orðin átta að morgni og ég hafði ekki legið svona agalega lengi í rúminu í heil tvö ár, við tvö höfðum farið að sofa um miðnættið eins og venjulega. Hann svaf eins og lítill engill í rúminu sínu, en ég var alveg viss um að hann væri dáinn og hentist á fætur og reif hann upp með látum... Aumingja litla barnið mitt var bara sofandi og skildi ekkert í þessu.... Eftir þetta svaf hann yfirleitt 8 tíma á hverri nóttu, en það tók mig langan tíma að venjast því og ég vaknaði sjálf alltaf á 4 tíma fresti, mér var svo illt í bakinu.... Í dag er þessi elska 21 árs og vinnur næturvinnu og líkar það vel ! Eigið góðan dagSmile

Vekjaraklukkan....

Ég veit alveg hvernig hljóðið í vekjaraklukkunni í símanum mínum er... ekki vegna þess að hún fær að hringja á mig morgnana... neibb, hún hringir klukkan 9 á kvöldin... svo ég muni eftir að stimpla mig út úr kvöldvinnunni... í símanum. Ég vakna alltaf án þessa hljóðs, sem er nú svo sem ekkert  verra en öll önnur hljóð, ég vil bara ekki láta eitthvað pínulítið rafhlöðuknúið fyrirbæri, vekja mig á morgnana. Ég vil stjórna því sjálf og stilli þar af leiðandi aldrei klukkunaCool Klukka á nefnilega bara að minna mig á hvenær ég þarf að fara að vinna og hætta að vinna og mæta einhverstaðar, þar sem ég hef pantað mér tíma. Ekki hvenær ég á að vakna og sofna og ekki heldur hvenær ég á að borða. Ég vakna líka klukkan hálf sex eða sjö um helgar sem og aðra daga, ég nefnilega vakna barasta alltaf, þegar ég er búin að sofa.... Wink Og ég get ekkert haldið áfram að sofa þó svo að klukkan sýni að það sé, að flestra annarra mati, óguðlega snemmt og ég viti ósköp vel að það er frí í vinnunni. Ég hef ekki gengið með armbandsúr í mörg ár, keypti mér samt eitt mjög flott, í Gautaborg í haust og það fer rosalega vel á náttborðinu mínu... Þetta er örugglega einhver vöntun á hæfileika..... held ég.... að geta ekki bara litið á klukkuna á sunnudagsmorgni, algjörlega útsofin, séð að hún er bara hálf sjö eða eitthvað og ákveðið að núna ætla ég að halda áfram að sofa í einhvern X tíma og svo bara sofna.... virkar ekki... Og ekki misskilja mig, ég er oft búin að prófa það, en, nei.... Eigið góðan dag í dag og vonandi eruð þið öll vöknuð, en ekki bara komin á fæturSmile


Skassið tamið ? Nei, nei ! ;-)

Fyrir skömmu, byrjaði nýr yfirmaður í vinnunni hjá mér og það er gott og blessað. Vinnan mín er þess eðlis, að ég vinn mest ein, líkist eiginlega meira svona verktakavinnu. Ég ræð mikið til mínum tíma sjálf og þarf að bera alla ábyrgð á því sem ég geri og svara til saka ef eitthvað fer úrskeiðis. Ég ræð mjög vel við það og finnst fínt að vinna ein, en á móti kemur, að ég hef ekki haft neinn til að tala við um það sem gerist, vegna þess að hingað til hefur enginn haft neinn sérstakan áhuga á því sem ég hef verið að gera. "Þú reddar þessu" og "þú ræður alveg við þetta" og "þetta er nú bara vinnan" eru svör sem ég fékk æði oft, á meðan ég hafði fyrir því að vera eitthvað að leita ráða eða reyna að ræða málin. Auðvitað hef ég reddað því og ráðið við það, en svo hefur ýmislegt komið upp á sem mér hefur fundist erfitt, "fólkið mitt"( lesist: skjólstæðingarnir) veikist, slasast og deyr jafnvel, yfirleitt ekki í höndunum á mér, en  það hefur stundum legið við... Nýi yfirmaðurinn er svo áhugasöm um vinnuna mína, að ég var næstum því búin að spyrja hana um daginn, hvað henni kæmi þetta eiginlega við! Tounge Þetta er alveg nýtt og ég er auðvitað fyrir löngu síðan, orðin að heimaríkum hundi í þessari vinnu. Svo verður nú líka að segjast eins og er, að ég læt yfirleitt ekkert vel að stjórn og ennfremur, að ég rekst mjög illa í hóp... En allt um það, mér líkar vel við nýja yfirmanninn minn og hún er alveg með það á hreinu, hvernig best er að koma fram við svona skass eins og mig og mér finnst fínt að fleiri en bara ég, hafi áhuga á því hvernig mér gengur í vinnunni ! Eigið virkilega góðan og innihaldsríkan dagSmile


Orðið "samkynhneigð/ur" er ekki persónulýsing !

Las nefnilega einhversstaðar á blogginu að einhver, sagðist alveg þekkja samkynhneigt fólk og "það er allt hið vænsta fólk" tók hann fram alveg sérstaklega. Það kallar á tvær spurningar hjá mér : "Af hverju skyldi það ekki vera gott fólk ?" og líka : "Af hverju skyldi það endilega vera gott fólk ?" Hvort manneskja er góð eða ekki hefur fj.....kornið ekkert með kynhneigð að gera. Ef ég er að spyrja hvernig einhver manneskja er og fæ svarið hann/hún er samkynhneigð/ur...nú já það segir auðvitað allt sem þarf um viðkomandi... eða bara alls ekki ! Það væri þá alveg eins hægt að lýsa persónu fyrir mér, með því að segja hvaða tegund af bíl hann/hún ekur Tounge  Annars er spurning dagsins samt eiginlega frekar þessi : Hvað í ósköpunum er "fljótandi parkett" ? Ég er aldrei þessu vant að hlusta á útvarp, geri ekki mikið af því, en þar er verslun að auglýsa "fljótandi parkett". Mér dettur nú ýmislegt í hug, en líklega ekkert af viti... Wink   Hér í Slow town er núna sunnan sperringur,(lesist: vindur) og 12 stiga hiti, í gær komst hitinn upp í 16 stig, um miðjan október. Mætti alveg spara þetta bara þangað til næsta sumar og hafa þá bara kalt núna... Verkefni þessa ágæta laugardags er að "skipta um skít" í þessari íbúð hérna. Ég sagði þetta einhverju sinni, þegar litlu gaurarnir mínir, dóttursynir spúsa míns, komu hér og ég var að myndast við að þrífa og þeir horfðu á mig og skyldu auðvitað ekkert hvað ég var að bulla... Ég setti mig þá í virðulegu stellingarnar og sagðist vera að þrífa, einn þeirra leit á mig alvarlegum barnsaugum og spurði : "Nú, af hverju segir þú það þá ekki bara ?" Úps... Þau ná manni alltaf einhvernvegin....Blush  Eigið góðan dag í allan dag Smile

Skammt öfganna á milli....

Það getur verið krabbameinsvaldandi fyrir konur að taka hormónatöflur á breytingaskeiðinu. Það getur líka aukið líkurnar á krabbameini, að borða brennt grillkjöt og sætuefnin, sem notuð eru í "diet" gosdrykki, geta líka verið krabbameinsvaldandi. Og fleira og fleira, við erum hvergi óhult virðist vera. Mér dettur ekki í hug að þykjast vita betur, en er ekki rökrétt að álykta að ofneysla á þessu öllu, geti aukið líkurnar á því að fólk fái þennan ógeðslega sjúkdóm. Svo er líka til að fólk, sem gerir ekkert sem ætti að geta valdið krabbameini, hreinlega deyr úr því. Ég þekkti mann á besta aldri, sem aldrei hafði reykt, aldrei drukkið áfengi eða kaffi og notaði ekki sykur og var á allan hátt fyrirmynd í heilbrigðum lífsháttum, hann dó úr krabbameini í maga og lungum. Og ég vil taka það sérstaklega fram, að það reykti heldur enginn í kringum hann, hann leyfði það ekki ! Lítill drengur sem ég þekki mjög vel, fékk nett hræðslukast þegar hann fattaði að ég drakk bara "diet"kók og vildi ekki fyrir nokkurn mun þiggja "diet"kók hjá mér, bara kók með sykri, sem er nú líka óhollt. En hann ætlaði sko ekkert að fá krabbamein....... Börn sjá auðvitað allt í svört og hvítu, en þegar við verðum fullorðin, förum við smám saman að fatta gráu svæðin í lífinu og tilverunni. Að fullyrða um hlutina hefur mér alltaf fundist vera svolítið fjarstæðukennt, allir karlmenn eru svona og svona ómögulegir, þó að einhver einn sérstakur hafi klikkað.....konur kunna ekki að keyra, þegar ein kona álpast til að keyra á eitthvað..... Það má heldur ekki fullyrða að ég sé einhver fyrirmyndarhúsmóðir, þó ég sé að fara að gera slátur á eftir.... Fyrirmyndarhúsmóðir á svuntu, ég á ekki svuntu.... Eigið góðan dag og ennþá betri helgiSmile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband