Lengst aftan úr grárri forneskju ?

Ég fer til tryggingafélagsins míns til að kaupa mér líftryggingu, þetta er nú bara svona dæmi, dettur ekki í hug að gera það í alvöru. Ok, ég þarf að fylla út helling af pappírum og gefa alls konar upplýsingar um alla galla, sjúkdóma og sérviskur mínar og allrar ættar minnar, alveg aftur í 17 hundruð og súrkál og ég segi auðvitað satt og rétt frá öllu heila klabbinu. Svo þurfa þeir að fá að vita hvort ég reyki og hversu mikið.... en ég er ekkert spurð hvort ég drekki áfengi og hversu mikið.   Það skiptir engu máli, en... ef ég væri nú búin að fara í áfengismeðferð og mundi bulla því út úr mér,  af því að ég get nú aldrei þagað yfir neinu, yrði mér þá snarlega ýtt afturábak út ? Yrði þá sagt við mig eitthvað á þessa leið : " Uhh... nei góða mín, þú hefur sýnt að þér hafi fundist þú drekka of mikið og tekið þá skammarlega skynsamlegu ákvörðun að leita þér hjálpar við að hætta því, reynt að sýna þá hálfvitalegu ábyrgð að halda þig, með Guðs og góðra manna hjálp, frá áfengi með öllum tiltækum ráðum og hreinlega reynt að taka stjórnina á lífi þínu úr höndum Bakkusar..... Svei þér, við seljum þér enga líftryggingu" ! Er þetta eitthvað á þessa leið ? Ef svo er, hvers vegna þá í andskotans ósköpunum ? Er hún virkilega ennþá við lýði þessi norðanhnífapara hálfvitahugsun lengst aftan úr grárri forneskju, að líta á þá sem aumingja og ræfla, sem hafa viðurkennt vanmátt sinn gagnvart áfengi og leitað sér hjálpar við að hætta að nota það. En hinir sem nota það óspart og í óhófi: "Æi... þeir bara drekka svolítið illa greyin, thí hí ...... " Nú er ég hætt að rífa kjaft og ætla að reyna að gera mitt besta í allan dag og vona að þið reynið það líkaSmile


Í gær jólasveinarnir, í dag býflugurnar og blómin !

Eða, nei annars, mér leiðast býflugur og hef ekki hundsvit á blómum... Ég veit alveg að ég ætti að vera úti að skokka núna og/eða fara í ræktina í hádeginu og/eða taka góðan göngutúr eftir vinnu, en ég geri það samt ekki. Fyrir því er afskaplega veigamikil ástæða og alls ekki grín gerandi að því, ég einfaldlega nenni því ekki ! Samt dáist ég að öllu slíku dugnaðarfólki og á örugglega eftir að taka upp þessa góðu og heilbrigðu lífshætti.... einhvertímann... kannski í næsta lífi. Ég finn upp allar mögulegar og ómögulegar afsakanir fyrir því að gera þetta ekki í þessu lífi, það er rigning/það væri gott að hafa rigningu/það er hvasst/það er of lítill vindur/sólin er of heit/það er engin sól..... Og allt þrekið sem ég þarf svo að nota, við að finna upp alltaf nýja og nýja afsökun, stundum oft á dag, gerir mig svo uppgefna, að ég svona rétt hef krafta til að skreiðast í vinnuna. Annars var ég að glotta að því með sjálfri mér í gær, að stundum verð ég að setja mig í stellingar, rétt eins og leikari fyrir leiksýningu, áður en ég fer inn til sumra skjólstæðinganna í vinnunni. Sumt fólk leiðist mér alveg óheyrilega, en nenni ekki að standa í brasinu sem fylgir tuðinu, ef ég fer fram á að skipta um heimili. Annars má eiginlega segja að það sé jákvætt tuð, að einhverju leiti, ef tuð getur einhvertímann talist jákvætt: "Já en sko þú... vilt þú ekki vera þarna lengur... hvað... af hverju...en þú sem kvartar aldrei yfir heimilunum sem þú ert á..." Blehh... ég tek frekar upp smá langlundargeð úr pússi mínu og hugsa eitthvað svona lítið og ljótt, eins og að hún geti nú ekki lifað að eilífu eða hann gæti nú alveg farið að detta inn á elliheimili fljótlega, set upp spariumburðarlyndisþolinmæðisbrosið og skelli mér í slaginn. Það ætla ég að gera í dag líka og vona að þið njótið dagsins í dag og verið svolítið góð við þá sem eiga það ekkert endilega skilið, þeir þurfa mest á því að halda Smile  

Hvernig er hægt að búa til mynd af því.....

....sem er ekki til og hefur aldrei verið til ? Þetta er spurning sem ég fékk frá spúsa mínum áðan, með morgunkaffinu. Ég sat og var að sauma út í jóladúk og á honum er mynd, af litlum sætum jólaálfi, sænskættuðum. Það urðu svo sem engar heitar umræður úr þessu, lognuðust eiginlega út af þegar ég tók undir og sagði, að ég hefði aldrei skilið allar þessar myndir af Jesú. Það féll nú ekki í góðan jarðveg, af því að spúsi minn er mun trúaðri en égWink  Ég tók mig til og útlistaði fyrir honum, þróunarsögu íslenska jólasveinsins. Fyrst voru þeir vondir kallar, sem stálu og hrekktu og áttu verulega andstyggilega foreldra, með ennþá andstyggilegra gæludýr og þau þrjú, áttu það sameiginlegt að borða óþæga krakka og aðrar mannverur, sem af einhverjum ástæðum höfðu orðið undir í lífsbaráttunni. Það var nefnilega enginn vandi, að telja fólki trú um alls konar vitleysu þarna í svartasta skammdeginu, í litlu moldarhrúgunum, sem þá voru kölluð hús. Svo fór nú liðið smám saman að rétta úr sér og byggja hús úr timbri, með gluggum og fólk lærði að lesa og það kom rafmagn og svo kom útvarp og sjónvarp og svo framvegis. Þegar allt þetta var nú komið á rétt ról, þá urðu nú íslensku jólasveinarnir líka að breyta lífsvenjum sínum, vegna þess að þeir komust ekkert upp með andstyggilegheitin lengur og Grýla og Leppalúði og Jólakötturinn voru mikið til sett á pásu, af því að það passaði ekki við tíðarandann að borða fólk. Jólasveinarnir 13, ekki 9, sáu síðan í sjónvarpinu hvað ameríski jólasveinninn var góður og þar af leiðandi vinsæll og líka gasalega  smart í rauða dressinu sínu, svo þeir fóru að herma eftir honum og........ Spúsi var eiginlega löngu farinn í vinnuna þegar hér var komið sögu.... Gangið hress inn í þennan fína mánudagSmile

Engin almennileg

Spúsi minn og fleiri voru að spila á balli í Sjallanum í gærkvöldi og ég nennti ekki með, léleg grúppía það...Wink  Það var árshátíð hjá Félagi eldri borgara og þau vildu fá harmonikkutónlist, svo þeir tóku sig saman, slatti úr hljómsveitinni Strákunum frá Húsavík, hluti af hljómsveitinni Afarnir frá Akureyri og spúsi minn og spiluðu við frábærar undirtektir til tvö í nótt, þrjár harmonikkur, gítar, bassi og trommur. Þeir byrjuðu að spila hálf tólf, sem er svívirðilega seint fyrir minn smekk, svo ég var bara heima og fór að sofa á sama tíma og litlu börnin. Ég hef aldrei skilið almennilega þetta fyrirkomulag á skemmtanahaldi íslendinga, helst aldrei að fara út fyrr en eftir miðnætti. Hvað skildi vera að því, að byrja bara fyrr og hætta þá líka bara fyrr ? Annars er þetta allt í lagi, ég hef svo sem aldrei verið neitt sérstaklega dugleg í skemmtanalífinu og eins og allir vita sem þekkja mig, var orðið "partíljón"  alls ekki fundið upp um mig Tounge  Núna er ég bara iðin við útsaumsjólamyndirnar mínar og nýt þess að vakna hress og spræk, oft á svipuðum tíma og mesta fjörið er að fjara út í skemmtanalífinu, síðla nætur eða snemma morguns, hvernig svo sem það er orðað. Fyrir utan þá sorglegu staðreynd að mjög margir sem fara út að "skemmta sér" hafa ekkert gaman þegar upp er staðið, væri nær að kalla þetta bara það sem það er, að "fara á fyllerí", sjálfum sér og oft öðrum líka til ama og leiðinda. Ég er svolítið farin að hljóma eins og öfundsjúk piparmey á örvæntingaraldrinum, en þetta er bara alveg satt og ég er ekki ein um að hafa upplifað svona "skemmtanahald". Annars er þetta góður dagur og ég ætla alls ekkert í kirkju í dag, frekar en aðra sunnudaga, bara dingla mér og njóta þess að vera í fríi. Vona að þið upplifið öll besta sunnudag í lífi ykkar hingað tilSmile

Hver og einn "engill"....

.... var í fylgd með 2 lögreglumönnum á leið úr landi.... Vítisenglar auðvitað, eitthvað svo ömurleg notkun á þessu annars fallega orði "engill", heyrði þetta í útvarpinu núna í hádeginu. Laugardagar eru einu dagarnir sem ég gef mér tíma til að hlusta á útvarpið. Ég kveiki ekkert á tölvunni þegar ég kem á fætur, eins og alla aðra daga, fer bara fram í eldhús og kveiki á útvarpinu og les eða sauma út. Ég var að klára að sauma jóladagatal núna um hádegið. Þetta er stór mynd 50 x 70 cm, sem tengdadóttir mín tekur svo við og klárar, setur aftan á hana og hengir hana upp handa yngsta barnabarninu okkar, henni Lindu Björgu. Núna er ég byrjuð á næsta útsaumi, jóladúk, fékk hann í afmælisgjöf frá Ernu systir og co, það verkefni endist mér ábyggilega fram að jólum. Ég er farin að hlakka svo mikið til jólanna, krakkarnir verða öll á landinu, Kata og Nina koma frá Svíþjóð, Stjáni og Andrea voru í Sviss á síðustu jólum og eru því heima núna og Ingi Stefán verður aldrei þessu vant, ekki að vinna á jólunum. Alltaf gaman um jólin, bara ennþá meira gaman að fá að hafa þau öll hjá mér InLove ! Vona að þið njótið þess að eiga ánægjulegan og góðan laugardagSmile

Góður dagur, um góðan dag, frá góðum degi ;-)

Þessi dagur byrjar vel, ég vaknaði vel eins og venjulega, það er hláka, það er föstudagur, ég er ekki að vinna um helgina og ég er að fara á pósthúsið með pakka handa henni Kötu minni, hún á afmæli á mánudaginn. Yngsti ormurinn minn bakkaði á, í hálkunni, á bílnum sínum, hann slapp með skrekkinn, en bíllinn ekki alveg. Ég fór í kerfi, smástund, eins og alltaf þegar það kemur eitthvað fyrir börnin mín, en að lagaðist fljótlega, það má alltaf gera við bíl.... Spúsi minn fékk svo símtal frá einum syni sínum í vikunni, sem er útgerðarmaður fyrir austan, útgerðin hans telur tvo báta. Minni báturinn hans hafði sokkið við bryggjuna, af því að einhver hálfv... hafði skilið eftir vatnsslöngu, sem lá út af bryggjunni og ofan í bátinn hans, svo rann bara vatnið þangað til báturinn fylltist og sökk. Þetta er eitthvað svo fáránlegt..... En það má alltaf kaupa nýjan bát eða gera við þennan eða hvað svo sem er gert við þær aðstæður, en mér finnst bara gott að hann sökk ekki úti á helv... rúmsjó með drenginn innanborðs. Mér er illa við sjóinn, hann er búinn að taka allt of marga frá okkur..... Jæja... Gangið glöð inn í góðan dag og munið að það er að koma helgiSmile


Sameiginlegt hvað... ?

.....forræði ! Það ætti ekki að þurfa að ræða það einu sinni, mér finnst það svo sjálfsagður hlutur, það er að segja, ef fólk er eitthvað að hugsa um börnin ! En það er bara ekki alltaf, því miður.... Ég hef þá trú að fæstir hjónaskilnaðir/sambúðarslit fari vel og fallega fram. En það er samt hægt og alveg sérstaklega bráðnauðsynlegt, að stilla sig og það er númer eitt, tvö og þrjú, þegar það eru börn í spilinu. Þegar ég fór frá fyrri manni mínum, með börnin okkar, var ég með tvennt á hreinu, ég varð að komast í burtu frá honum og drykkjunni hans með börnin og sjálfa mig og ég var ákveðin í því að tala aldrei illa um hann, við þau. Þetta tvennt var ég með á hreinu og þetta tvennt stóð ég við. Ég hélt svo, í einfeldni minni, að hann vildi að við hefðum sameiginlegt forræði með börnunum, en hann kærði sig ekkert um það, sagðist ekkert ætla að fara að passa fyrir mig, svo ég gæti farið út að skemmta mér ! Shocking  Ok, brennivín skemmir og líklega var hann orðinn miklu steiktari í höfðinu en ég gat með  nokkru móti ímyndað mér. En hann fór í meðferð og hefur ekkert drukkið síðan, stendur sig vel í því, en hann sýndi samt aldrei neinn áhuga á því að hafa sameiginlegt forræði, þó það væri ágætlega runnið af honum. Stundum liðu mánuðir á milli þess sem hann hringdi í þann yngsta, en samt bjó pabbi barnanna minna sko ekkert í frumskógum Brasilíu og þurfti ekki að treysta á apa með trumbur, til að koma skilaboðum frá sér, til umheimsins. Það var búið að finna upp símann á þeim árum.... Það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum og það eru ekki alltaf bara við mömmurnar, sem reynum að koma í veg fyrir sameiginlegt forræði skal ég segja ykkur. Margar mömmur eru og hafa verið í mínum sporum, að þurfa að ganga á eftir feðrunum til þess að reyna að fá þá til að umgangast börnin, barnanna vegna ! Gangið glöð inn í góðan dag og munið að pottarnir hafa eyruSmile

Ehemm... það sem sagt snjóar !

Það er búið að snjóa um það bil 40 cm hérna, á innan við sólarhring. Hvernig væri að fara að skrúfa bara fyrir núna eða helst ekki seinna en áðan !?! Nei ekki nú aldeilis, það ullar ennþá niður sem aldrei fyrr, greinilega nóg til..... en þetta er nú samt svolítið jólalegtInLove Keyrði spúsa í vinnuna áðan, af því að Súkkujeppinn okkar á það til að leggjast niður og grenja og harðneita að fara í gang, þegar byrjar að snjóa. Og ef það er nú hægt, ýmist með hótunum eða fagurgala, að koma honum í gang svona af og til, þá bara gefst hann upp einhversstaðar niðri í bæ og neitar að fara sjálfur heim, af því að það er upp í móti. Held hann sé bara svona latur... En ég þekki nú að vísu engan bifvélavirkja sem mundi samþykkja það þegjandi og hljóðalaust og ef grannt er skoðað þekki ég mjög fáa, sem taka undir þetta með mér, með letina í bílnum. En það hefur bara ekki verið hægt að komast að því af hverju hann gerir þetta og því þá ekki að kalla það leti eins og eitthvað annað, flensu kannski ? En það er hrikalega hált í snjónum og þá er bara að flýta sér hægt, til að komast heilu og höldnu á áfangastað, en ekki enda utanvegar eða á einhverju sem ekki er ætlast til að sé stoppað á, eins og til dæmis fólki, umferðaskiltum, ljósastaurum eða öðrum bifreiðum. Aksturslagið á mér og sem betur fer fleirum, fer sjálfsagt í taugarnar á einhverjum stressuðum bílstjóranum, en það verður þá bara að hafa það, þá bara brosir maður og veifar...... Gangið glöð inn í góðan dag og brosið hringinn í snjókomunni Smile

Ekki sama hvort það er upp eða niður...

Nú er kominn snjór og ekki bara uppi í fjallinu hjá okkur. Ég var að pirra mig á því þegar ég kom fram í morgun, þangað til ég áttaði mig á að ég er að láta vatn fara í taugarnar á mér... Blush  Ég ætla ekki að fara að halda einhvern fyrirlestur í eðlisfræði hérna, en upphaflega er snjór bara vatn..... Við notum ekki nagladekk á bílana okkar, enda erum við á jeppum með fjórhjóladrifum og alls konar útbúnaði í þá áttina, í massavís. Ég ætla ekki heldur að halda hérna fyrirlestur um af hverju þarf ekki að nota nagladekk á jeppa, nú eru komnir tveir fyrirlestrar sem þið þurfið ekkert að lesa hér. En, það er þetta með brekkurnar, sem ég er svolítið smeyk við, mér er alveg sama um brekkur sem vísa upp í móti, en það eru brekkurnar sem vísa niður í móti, sem ég er að láta svekkja mig aðeins. Ég veit alveg að þetta eru allt saman sömu brekkurnar en þær snúa bara ekki alltaf eins, þegar ég er að keyra þær og það finnst mér í 50% tilfella frekar óþægilegt. Ég er alltaf með það á hreinu þegar ég er að keyra niður brekku, á bíl, í hálku, að nú missi ég stjórn á bílnum og hann blússi þversum niður, á móti umferðinni sem er á leiðinni upp. Það hefur aldrei gerst og í hvert skipti, sem ég er nú komin niður á jafnsléttu, heilu og höldnu og með hjartað á leiðinni upp úr buxunum aftur, flissa ég að vitleysunni í sjálfri mér og skil ekkert í því að ég skuli alltaf láta svona og svo endurtekur þetta sig alltaf, í hvert skipti sem ég keyri niður brekku, í bíl, í hálku..... Njótið þess í botn að vera til á þessum ágæta degi og fyrir alla muni farið varlega í hálkunniSmile

"Hvað ætlar Ninna að gera í dag ?"

Þetta er auglýsing frá "24 stundir", blaðinu sem hét fyrir stuttu síðan bara "Blaðið". Að vísu hef ég ekki séð nafnið mitt í þessari auglýsingu frá þeim, enn sem komið er.... Ninna ætlar að strauja í dag og það er sko frétt, vegna þess að ég strauja alls ekki ef ég get með einhverjum ráðum, komið mér hjá því. Ég á bara einn dúk, jóladúk og hann er straufrír og spúsi minn á eina spariskyrtu, með íslenska búningnum og hún dettur nú alltaf "dauðóvart" með í hreinsunina, um leið og fötin. Nei sko, ég er að fara að strauja risastofugardínur, sem ég á ekki sjálf. Ein "gamlan mín" alveg yndisleg manneskja, verður níræð í næsta mánuði og ég gef henni í afmælisgjöf, að þvo og strauja fyrir hana, stofugardínurnar hennar. Okkur finnst það báðum alveg stórhöfðingleg gjöf, en ástæður okkar fyrir því áliti, eru alls ekki þær sömu. Henni finnst þetta svo frábært, vegna þess að hún sér ekki til við að gera þetta, þvottavélin hennar er í Barbýstærð og hún á í veseni með að koma gardínum í hreinsun. Svo eru þær líka orðnar svo gamlar og slitnar, að þær mundu trúlega leysast upp í frumeindir sínar í hreinsuninni. Mér finnst þetta svo frábært hjá mér, af því að ég hef andlegt ofnæmi fyrir strau-ingum og það er stranglega bannað að segja hinum "gömlunum mínum" frá þessu ! Það er tvennt, sem ég reyni af öllu afli að koma mér hjá að gera í vinnunni minni, að strauja og setja rúllur í hárið á dömunum, segist ekki kunna það, en það er lygi, mér finnst það bara svo ömurlega leiðinlegt... Megi þessi fíni mánudagur verða sá besti í lífi ykkar hingað tilSmile  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband