Uppfinning andsk....

Sit hérna í drasli upp fyrir haus og rétt komst að tölvunni, hrúgaði nefnilega öllu dótinu úr eldhúsinu inn í stofu. Mér er ómögulegt að skilja, hvernig allt þetta drasl sem nú hálffyllir stofuna, kemst fyrir inni í mínu litla eldhúsi... en það kemur í ljós þegar ég er búin að henda einhverjum slatta af því og fer svo að raða inn aftur. Við erum búin að mála fyrri umferðina á eldhúsið, málum seinni núna á eftir og svo ganginn í beinu framhaldi. Veggirnir í eldhúsinu mínu eru núna nokkurnveginn hvítir, áttum afgangsmálningu úr stofunni, með gulum blæ og helltum útí það hvítri málningu, sem heitir samt örugglega ekki hvítt og þá var kominn einhver litur sem heitir örugglega eitthvað. Hef nefnilega aldrei skilið það þegar fólk er að velja liti á veggina sína, það getur velt fyrir sér 6 mismunandi ljósum litum, sem ég sé bara engan mun á. Litakortin voru fundin upp af alveg einstaklega illgirnislegu hugviti sölumennskunnar, til hvers veit ég ekki, nema þá kannski til að rugla mig í ríminu... "Mér er alveg sama svo framarlega sem það er eitthvað ljóst" er uppáhaldsliturinn minn og það er nafnið á litnum á eldhúsinu mínu. Hversu erfitt getur þetta verið ? En allavega... eldhúsið mitt er að verða ferlega bjart og snyrtilegt og það var alveg kominn tími á það, við eiginlega föttuðum það í gær, að við höfum ekkert málað þetta verelsi síðan við fluttum inn fyrir hvað... 5-6 árum síðan... úpps ! Gangið glöð inn í góðan sunnudag og ég vona að öllum líði eins vel og mérSmile

Að mæta sjálfri mér á götu ?

Ef ég mætti sjálfri mér á götu, hvað mundi ég þá hugsa ? Eeee... sniðugt á ég tvíburasystir ? Eða mundi ég kannski bara trítla beint upp á geðdeild... Shocking Ég er nú eiginlega búin að vera að reyna að mæta sjálfri mér við málningarfötuna síðan fyrir hádegi, það gengur ekki vel.... Blush  Þykist alltaf þurfa að klára þetta og hitt fyrst, en nú er ég búin að ákveða að byrja að mála klukkan þrjú. Ég er að láta mig dreyma um, að þá verði ég búin að losa mig við nógu mikið af minni alltumvefjandi leti, til að taka lokið af fötunni og hefja verkið. Ég er samt byrjuð að taka ofan af skápunum og úr hillunum og spúsi verður svo að koma ísskápnum og bakaraofninum fram með mér. Eldhúsið okkar er alveg passlega lítið og þar er allt innan seilingar og veggjaplássið ekki mikið, þannig að þeir eru ekki beinlínis taldir í hundruðum, fermetrarnir sem þarf að mála. En þeir eru held ég, taldir í þúsundum fermetrarnir sem letin í mér nær yfir..... Fór í gær og keypti mér rauðustu rauðu jólaeldhúsgardínur sem ég hef séð og rauðan dúka á eldhúsborðið og borðstofuborðið, rauð jól í ár í Fjallakofanum. Mér finnst gaman þegar það er byrjað að skreyta fyrir jólin, en mér finnst samt að þetta fari aðeins of snemma af stað núna.... Errm Það var búið að spá einhverju skítaveðri hér í dag, en það er bara smáhríðarmugga og ekkert hvasst. Andrea tengdadóttir mín með litlu sprengjuna hana Lindu Björgu, kíkti aðeins inn í morgun og hún sagði að besta veðrið væri hér uppfrá, auðvitað Wink Núna ætla ég að tala í mig smá dug  og klára að fara fram með allt sem ég vil ekki láta mála um leið og veggina í eldhúsinu. Gangið glöð inn í góðan dag og njótið þess að vera í fríiSmile

Vogin... stjörnuspáin mín í dag.... passar alveg.....

"Planaðu ævintýri þitt nú, á eins ástríðufullan máta og unnt er. Hringdu, pantaðu. Þegar þú ert kominn á fulla ferð, dettur sálarlegi bagginn af þér, sem hamlaði þér." Tilvitnun lokið... Ég held ég geti ekki lýst því, svo það skiljist nógu vel, hvað ég varð himinlifandi þegar ég las þetta ! Fyrir þá sem eru að velkjast í einhverjum vafa.... Ég er nefnilega að fara að mála eldhúsið, ég mundi nú kannski ekki alveg kalla það ævintýri, frekar svona að það væri ævintýralega leiðinlegt, en samt alveg hægt að gera gaman úr því. Ég er svo búin að plana að fara í Byko eða Húsasmiðjuna og kaupa pensla, sé samt ekki alveg fyrir mér ekki svona í augnablikinu, hvernig það getur orðið ástríðufullt, þar sem ég fer mjög trúlega ein... en svo verð ég auðvitað að muna að ganga til allra verka með opnum huga ! Samt.... ástríðufullir málningarpenslar... ég veit ekki... Undir niðri var ég nú líka búin að gera mér grein fyrir því að það yrði ekki mikið um eldamennsku rétt á meðan og var þess vegna búin að ákveða að hringja og panta pizzu. Og svo er það nú oft með verk, sem mér finnast vera í leiðinlegri kantinum, að það er erfiðast að byrja, en þegar þeir erfiðleikar eru yfirstaðnir, þá má svo sem orða það þannig, að það detti af mér einhver hamlandi sálarbaggi. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega dramatísk, mér hefði sjálfri aldrei dottið í hug að taka þannig til  orða.... frekar eitthvað eins og : Mikið djö... er ég nú fegin að ég reif mig nú loksins upp á rassg.... og dreif í þessu... ! Hm.... Gangið glöð inn í góðan dag og til hamingju með dag íslenskrar tunguSmile

Bóóóókajóóóól..............

Nú vantar mig helling af góðum hugmyndum ! Við spúsi erum búin að ákveða að öll barnabörnin fái bækur í jólagjafir, það er að segja þau sem skoða/lesa bækur, en slefa ekki bara á þær..... Skyldu þau hafa gaman af Tíu litlum negrastrákum ? Neeei, bara ljótt grín, ekki séns að ég fari að velja þá bók handa þeim, alveg jafnólíklegt og að ég færi að gefa þeim byssur, en það geri ég ekki.Ég hef ekki mikið gaman af því að labba í búðir, þess vegna varð ég alveg himinlifandi yfir því að finna Bókatíðindin í póstkassanum í gær. Næsta skref er svo að labba að borðinu, taka ritið upp og fletta í því..... Wink  Mér finnst svo agalega gaman pakka inn jólagjöfum, sérstaklega þó bókum, vegna þess að lagið á þeim uppfyllir alveg mín fullkomnunaráráttuinnpökkunarskilyrði. Mér hefur samt stundum dottið í hug að kaupa svona litla þar til gerða pappakassa í öllum litum, í stað þess að nota jólapappír, en þá stend ég frammi fyrir því að þegar þessir kassar koma í búðirnar er ég hvork búin að ákveða, né kaupa jólagjafir og veit þess vegna ekkert hvað þeir eiga að vera stórir. Og svo þegar ég er búin að kaupa jólagjafirnar þá eru kassarnir uppseldir... En það er allt í lagi, breytingar eru hvort sem er ekkert alltaf af hinu góða... Devil  Ég fæ útborgað í dag hjá bæjabatteríinu, hef alltaf fengið útborgað 15. hvers mánaðar og finnst það fínt. Að vísu voru í byrjun svolitlir snúningar í kringum það, vegna þess að allar afborganir og þess háttar er stílað á mánaðamót, en það er ekkert mál. Svo á ég líka alltaf pening þegar flestir aðrir eru að verða blankir... jú og öfugt..... Gangið nú glöð inn í góðan dag og mér datt svona aðeins í hug að nefna stefnuljósin... aldrei minnst á þau áður.. held ég..Smile

Örvhent, örvfætt, örvhuxi... !

...held ég sé eitthvað af þessu ölluTounge Mér finnst best að gera allt frá hægri til vinstri, byrja að lesa blöðin á síðustu blaðsíðunni, en ekki bækur ! Svolítið klaufaleg til fótanna oftastnær, kannski skýringin á því af hverju mér finnst ekkert gaman að dansa. Nema stundum gömlu dansana og þá bara valsa, þangað til það er búið að snúa mér einum hring of mikið, þá fæ ég svima. Svo þarf ég svo oft að gera akkúrat öfugt við það sem aðrir gera og stundum einfaldlega "bara-af-því-bara" ! Hélt alltaf að ég væri fædd á einhverju mótþróaskeiði, en ég er búin að komast að þeirri niðurstöðu að ég er örvhuxi.Það á sjálfsagt að vera -gs en mér finnst flottara að hafa x-ið. Mér finnst til dæmis að ég eigi ekki að þurfa að mála íbúðina okkar fyrir jólin, en mér finnst heldur ekki að ég eigi að þurfa að þrífa hana og af tvennu illu mála ég...... en bara eldhúsið og ganginn samt ! En í alvöru talað, það verður að gera eitthvað til að flikka upp á þarna, það er staðreynd og fyrst ég er nú búin að útiloka þann möguleika að kveikja í eldhúsinu og ganginum.... En svona nokkuð, mála og þrífa meina ég en ekki kveikja í, á maður að gera í leiðindunum eftir jólin, þegar mest allt jólaskrautið er farið ofaní kassana aftur og janúar og febrúar taka við. Ég væri alveg til í að hafa bara 10 mánuði í árinu, ef þessum 2 mánuðum yrði sleppt, ég get svo svarið það. Ég stend á því, fastar en fótunum, að ég er aldrei þunglynd í skammdeginu og það er alveg satt, ég er bara geðvond ! En bara í janúar og febrúar.... Wink En sem sagt, við spúsi minn erum að fara að mála eldhúsið og ganginn um helgina og það verður gaman.... þegar það er búið ! Og það verður að gerast núna í nóvember, geri helst ekkert leiðinlegt í desember. Ég ætla að kaupa rauðar jólagardínur fyrir eldhúsgluggann, eitt af örvhuxi dæmunum, aldrei átt rauðar jólagardínur af því að þær áttu að vera rauðar.... Gangið glöð inn í góðan dag og leyfið ykkur að hlakka til jólanna, það  er svo gaman að hlakka tilSmile


Beckham stjarna í nærbuxnaherferð !!

Nennti ekki að lesa fréttina, frægt fólk sem ég þekki minna en ekki neitt, er svo alls ekki eitt af mínum áhugamálum. Miklu meira gaman að snúa bara út úr fyrirsögninni... Mér datt í hug þegar ég las þessa fyrirsögn, hvort allir væru hættir að nota nærbuxur og það þyrfti enskan boltastrák til að hvetja okkur til að taka brækurnar upp aftur. Ég hefði nú haft þetta : nærbuxnaauglýsingaherferð, en... hvað veit ég svo sem... Whistling Nettengingin mín er alltaf að pirra mig með reglulegu millibili, þá fer netið að snúast afturábak, held ég. Ég hringi í Vodafón og þau eru farin að þekkja mig þar með nafni og fengu í langan tíma gæsahúð þegar ég kynnti mig... Devil  En það lagaðist þegar ég lærði á þetta og núorðið förum við bara framhjá öllum formsatriðum, þau sleppa hálfvitaleiðbeiningunum og gera bara strax eins og ég bið : "Viltu endurræsa portið fyrir mig væni/a ?" Þetta hljómar grunsamlega líkt því að ég hafi eitthvað vit á þessu, en svo er ekki. Ég er búin að þurfa að hringja svo oft og stundum með örfárra daga millibili og ég er búin að slökkva á routernum og kveikja á honum aftur, áður en ég hringi og smásýjan hefur ekkert farið á neitt flakk og allar tengingarnar inni í veggnum eru líka á sínum stað og það er ný símasnúra og já hún liggur úr þessu í þetta og svo framvegis. Það eina sem er vitlaust hér er, að netið virkar ekki. Ég hringdi um 7 leitið í morgun: "Þú ert komin í samband við Vodafón, þakka þér fyrir að hringja. Press 0 for english..... veldu 1 fyrir heimasíma og GSM......veldu 2 fyrir nethjálp... ef ekkert er valið gefum við þér samband við þjónustufulltrúa".  Ég valdi 2 fyrir nethjálp : "Opnunartími Vodafón er frá klukkan 8 til... " Var ekki hægt að segja það bara strax ? Mig langar ennþá í og eiginlega sárvantar, sjálfhreinsandi gólf í jólagjöfBlush Gangið glöð inn í góðan dag og njótið þess að vera tilSmile

Sit hérna í "skó" síðum skít !

Smá ýkjur kannski, en gólfin mín þurfa virkilega á því að halda að einhver þrífi þau... Hver er annars þessi einhver ? Æi, fjandakornið það er víst ég og það er nú eiginlega frekar vandræðalegt... vegna þess að ég hef alls ekki hugsað mér að gera það, allavega ekki í dag. Ég var að flakka á blogginu áðan og rakst inná síðu hjá alveg svaaaaðalega trúuðum náunga, hann er svo trúaður að eigin sögn eða skrifum, að það hálfa væri miklu meira en nóg. En mér finnst samt að hann gæti verið ennþá trúaðri, satt að segja, hann nefnilega virðist alveg sleppa því að trúa á það góða í fólki, á umburðarlyndi, á frelsi og á jafnrétti, svo ég nefni nú eitthvað af því sem hann trúir alls ekkert á. En eitt trúir hann ofsalega mikið á, fyrir utan Bibíuna, sem mér finnst nú eitt og sér, alltaf svo agalega furðulegt og það er biskupinn yfir Íslandi ! Hann skrifar um hann eins og ég mundi skrifa um Guð eða Jesú, ef ég bara mundi einhvertímann koma sjálfri mér í þá skelfilegu aðstöðu. Ég fékk alveg upp í háls við að lesa skoðanir hins "trúaða" á manninum, biskupinn er jú bara maður og það næstum því rann marmelaði út úr eyrunum á mér og þá er það orðið slæmt ! Ef þið viljið lesa síðuna hjá þessum manni, þá skal ég hvísla því að ykkur, að hann heitir því sjaldgæfa nafni JónTounge Ég trúi alveg á eitthvað og ef þið viljið vita það þá verðið þið að spyrja mig að því og kannski svara ég, en mér dettur ekki í hug að fara að predika það yfir neinum, án þess að vera alveg sérstaklega beðin um það, hvað þá að fara að halda úti síðu um það. Kannski þess vegna sem ég varð ekki prestur.....  Nei nei, bara grín ! Var að klára dag/kvöldvinnuviku í gærkvöldi og í dag, þennan fína mánudag,  byrjar "bara" dagvinnuvika, alltaf svona pínulítið fegin þegar sá mánudagurinn rennur upp. Svo vil ég fá sjálfhreinsandi gólf í jólagjöf ! Gangið glöð inn í góðan dagSmile


Minna en ekkert ;-)

Það sagði mér kona í gær, að heilinn notaði minni orku þegar við horfum á sjónvarpið, en þegar við gerum akkúrat ekkert. Samkvæmt mínum skilningi er "að gera akkúrat ekkert" það, að liggja bara og horfa upp í loftið og ég nenni því aldrei. Við erum áskrifendur að Stöð 2, Stöð 2 bíó og Sirkus næstu 3 mánuði, ég lét nefnilega gabbast af ofsalega flinkum símasölumanni um daginn. Hann var alveg samkvæmt uppskriftinni, kurteis, áhugasamur, ekki of samt, með passlega miklar glósur á það sem hann var að selja og hann náði mér ! Ég hef lítið sem ekkert horft á sjónvarpið síðan, ekkert meira en venjulega, mér hættir alltaf til að sofna yfir því. Ég læt oft eins og ég eigi mér uppáhalds sjónvarpsþætti, en mér er samt alveg sama þó ég missi af þeim. Horfði samt á eina gamanmynd í morgun og líklega hefur þá heilinn minn verið að gera minna en akkúrat ekkert og mér leið vel með því. Það er mín kvöldvinnuvika núna, henni líkur í kvöld og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fara skjólstæðingarnir aldrei neitt í burtu í minni viku, þannig að ég hef alltaf nóg að gera. Svo tekur önnur við annað kvöld og á morgun fer tímafrekasti skjólstæðingurinn í burtu og kemur passlega  heim þegar ég tek við aftur, eftir viku. Er þetta einelti ? Datt í hug að hringja í bæjarstjórann og kvarta yfir því að ég skuli þurfa að vinna svona fyrir kaupinu mínu. Ég fór ekkert í messu í morgun eða er messutíminn eftir hádegi... Veit það ekki, veit bara að í dag ætla ég að gera næstum því akkúrat ekkert og óska þess að okkur öllum líði eins vel og við eigum skiliðSmile

Þær voru búnar að bíða í tvo tíma...

...eftir bílnum sem flutti líkin, það var alveg að koma miðnætti. Dimmt og kalt þarna úti á planinu, en þær urðu að vera til taks á réttum tíma... Þeirra hlutverk var að koma líkunum fyrir og ganga þannig frá þeim að engin ummerki sæjust.... Loksins kom bíllinn og þá tók við líkburður, upp á þriðju hæð í blokkinni, en sumum líkunum var komið fyrir í öðrum bíl sem beið... Líkin voru öll í kistum, en sem betur fer voru þær úr froðuplasti...... það var samt svolítið strembið fyrir tvær litlar konur að burðast með þær upp alla stigana... Svo þegar upp var komið, tók besta vinkona mín fram poka og fór að tína ofan í þá, læri og hryggi og sneiðar og svo framvegis, af besta lambakjötinu í landinu, sem við kaupum af góðum vini okkar, bónda með meiru, í Borgarfirðinum. Ég fór heim með mitt kjöt og í skottinu á bílnum mínum, bíða núna  í þessum töluðu orðum, 3 flottar froðuplastkistur fullar af kjöti, eftir því að ég dragnist út og sæki þær og fari að pakka kjötinu ofaní frystikistuna. Það er ekki nóg með að þetta er besta kjötið í landinu og þó víðar væri leitað, frágangurinn á því er með því besta sem þekkist ! Ég fann það út af mínu frábæra "hyggjuviti" (flott orð sem ég nota til þess að letin í mér virðist vera eitthvað annað en leti... ) að það væri ómögulegt að fara út klukkan 7 að morgni til og sækja það, ég veit nú svo sem samt ekki, hverju það breytir að fara frekar út klukkan 8.... Ég er frekar syfjuð núna, ekki vön að vera svona seint á fótum og til upplýsinga fyrir hana vinkonu mína,  ég var komin á fætur hálf sex.... stundvíslega... Gangið glöð inn í föstudaginn og munið að það er að koma tveggja daga frí, hjá flestumSmile

Heilinn í mér er allt of oft , algerlega utan þjónustusvæðis...

....eins og til dæmis allan daginn í gær. Mér tókst að detta þrisvar á leið inn og út úr bílnum, ég fann sko mjög samviskusamlega, akkúrat síðustu litlu hálkublettina þrjá sem eru eftir hér í bænum, til að stíga á og ég sem er alltaf að flýta mér. Í tvígang tókst mér svo að stinga mig til blóðs á höndunum, á göfflum... Í annað skiptið var ég að losa stíflu úr ryksuguröri með stórum beittum steikargaffli, ekki spyrja... og í hitt skiptið var ég bara að taka úr uppþvottavél og stakk mig á svona ósköp venjulegum gaffli... líka bannað að spyrja nánar út í það... Og alltaf þegar það kemur gat á mig einhversstaðar, þar sem það á ekki að vera, þá ætlar aldrei að hætta að blæða og ég sóða meira út en ég þríf..... Í gærkvöldi klemmdi ég svo þumalfingur gamallar konu, með hurðinni á ruslaskápnum hennar, þegar ég var búin að hringja dyrabjöllunum á öllum íbúðum í stigaganginum, á leiðinni upp til hennar, á fjórðu hæð. Ég var nú bara að reyna að kveikja ljósin í uppgöngunni, en einhver svívirðilega hrekkjóttur rafvirki hefur viljandi komið ljósarofunum fyrir, rétt við hliðina á öllum dyrabjölluhnöppunum ! Ljósin þarna eru biluð, þau slokkna alltaf þegar ég er komin hálfa leið á milli hæða og ég þyrfti að fara þetta á hraða ljóssins til að ná að komast upp á fjórðu hæð, áður en þau slokkna. Ég sko nota ekki lyftur, en það er önnur saga..... Svo þegar ég kom heim úr vinnunni í gærkvöldi, lagði ég beint fyrir framan ruslatunnuna, á stóra jeppanum mínum, gjörsamlega búin að gleyma því, að á fimmtudagsmorgnum klukkan hálf sex koma blessaðir ruslakallarnir.... Núna fer ég í það verkefni að reyna að snúa heilanum í mér í gang, reyni réttsælis í þetta skiptið.... Svo vona ég að þið njótið öll þessa fína fimmtudags, alveg í botnSmile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband