Við Guð erum vinir...

.... er setning sem mér finnst svo falleg, einföld en segir samt svo ótalmargt. Mér slétt sama hvort fólk trúir á einhvern guð/guði eða bara alls ekki og skiptir mig engu máli hvaða nafn/nöfn eru notuð, svo framarlega sem fólk hefur það fyrir sig og lætur vera að reyna að troða því upp á mig og aðra. Ég vinn við að aðstoða fólk inni á heimilum og einn sem ég kem til í hverri viku, er nýorðinn fertugur, greindist með MS sjúkdóminn fyrir þrítugt, þá rétt búinn að klára skóla og nýfarinn að vinna við það sem hann lærði. Hann getur ekki unnið, ber sig núorðið að mestu leiti um í hjólastól og á erfitt með að keyra bíl. En hann er alltaf í góðu skapi og er að öllum öðrum ólöstuðum, jákvæðasta og bjartsýnasta manneskja sem ég þekki. Hann er aldrei reiður, hann er aldrei pirraður, en samt alltaf svo raunsær og með húmorinn í lagi. Ég missti út úr mér um daginn, þegar hann var eitthvað að brasa við helv.... hjólastólinn, hvernig í ósköpunum stæði á því að hann missti aldrei þolinmæðina og af hverju hann væri aldrei fúll yfir neinu ! "Það er einfalt" sagði hann, "við Guð erum vinir". Svo var ekki rætt meira um það. Pabbi heitinn, sagði eitthvað álíka þarna um árið, þegar ég loksins fattaði eftir dúk og disk að hann var hættur að reykja. "Við ræddum þetta vinirnir og komumst að samkomulagi um, að það væri kominn tími á að ég hætti þessu" sagði hann og benti upp í loftið. Sama sagan  þegar hann var hættur að drekka, þeir höfðu spjallað vinirnir og orðið sammála um að það væri kominn tími á það líka. Mér líkar þetta vel og vildi að allir hefðu þetta einhvernvegin svona, þá þyrfti ekkert að vera að rífast og slást og drepa fólk út af trúmálum, nóg er nú samt ! Gangið glöð inn í góðan dag og verið þolinmóð í umferðinniSmile  

"Ertu búin að gera allt fyrir jólin?" ...... hvaða allt ?

Þetta er svolítið skondin spurning.... í mínum eyrum allavega. Ég var spurð að þessu í gær og ég svaraði : já, svona nokkurnveginn, á bara eftir að kaupa fáeinar jólagjafir, setja upp jólagardínur, jólaskraut og skúra. Ég uppskar alveg innilegt aðdáunaraugnaráð ! En ég vissi alveg að konan sem spurði, var að spyrja um fleira en bara þetta, hún var að meina hvort ég væri búin að þrífa alla íbúðina frá gólfi til lofts og jafnvel mála helst líka og viðra og þvo allt út úr öllum skápum og þrífa þá og þvo alla gluggana og fara með gardínurnar í hreinsun og kaupa jóladressið og nýtt sófasett og flísar á ganginn og setja mig svo endalega á hausinn með jólagjafainnkaupum og þá í leiðinni að slátra Visakortinu. Það er nokkurnveginn það, sem þessi spurning raunverulega þýðir hjá svo alltof mörgum. Ef mér dettur í hug að spyrja þessarar spurningar, þá bæti ég við hana :...., sem þú ætlar að gera" ? Ég ætla nefnilega alls ekki að þrífa alla íbúðina, ég þríf yfirleitt jafnóðum, kannski svona aðallega af heilsufarsástæðum, ég ætla heldur ekki að kaupa mér húsgögn eða jóladress, ég á nóg af öllu svoleiðis og gólfin mín duga mér sjálfsagt ein, ef ekki bara fleiri jól í viðbót. En ég er búin að kaupa þó nokkrar jólagjafir og er að fara að kaupa fleiri næstu daga og þó ég telji mig ekki gefa nískulegar jólagjafir, þá setur það mig ekki á hausinn og ég nota ekki kreditkort, þannig að ég kem ekki til með að vera með magasár út af væntanlegum febrúarreikningi. Við eigum allt jólaskraut sem við ætlum að setja upp og þá eru bara matarinnkaupin eftir og þau fara nú frekar rólega fram, svona eitthvað frameftir desembermánuði. En það sem ég ætla að gera, er að fara í Jólahúsið og hlusta á jólalög og fara á rúntinn og borða smákökur og skoða jólaskreytingarnar í bænum og vera með fjölskyldunni okkar eins mikið og við verður komið og tína smám saman upp úr  jólaskrautskössunum og hafa gaman ! Ég hlakka svo innilega til jólannaSmile

Sunnudagur til sælu....

... stendur víst einhversstaðar.... Woundering Ekki var hann nú samt alveg til endalausrar sælu hjá mér í gær. Sumt gekk samt rosalega vel eins og að borða dásamlegar Borgfirskar kótelettur og klára að mála ganginn ! Okkur finnst gaman að vinna saman í svona brasi, spúsa og mér og gærdagurinn var sannarlega engin undantekning að því leiti. En svo fór sælan hratt minnkandi eftir klukkan fimm þegar ég var komin í vinnuna, ég hefði líklega bara átt að vera heima. Ég byrjaði á því að bakka á bíl og það kom mér úr öllu stuði, ég hef alls enga þolinmæði með sjálfri mér í þannig tilvikum. Ég geri mér samt fulla grein fyrir því, að ég á alveg að geta sýnt sjálfri mér sama umburðarlyndi og ég sýni öðrum, sem verður eitthvað svoleiðis á, en ég geri það samt ekkiShocking Ég er svo sem ekkert að velta mér upp úr þessu og fer með tjónaskýrsluna í tryggingarnar í dag, en ég á svolítið erfitt að fyrirgefa sjálfri mér svona hreinræktaðan sauðshátt. Og ekki batnaði það þegar ég var að koma út úr síðasta vinnuhúsinu um 9 leitið í gærkvöldi og flaug, alls ekkert mjög tignarlega, á hausinn á eina litla svellblettinum í Akureyrarbæ og nærsveitum.... Ég er alveg viss um að þetta pínulitla svell, sem mér tókst að renna á, er ekki mikið stærra en brauðdiskur, en mér tókst samt að finna það og detta á því. Í dag er ég öll lurkum lamin öðrum megin og fer ekki rassg.... í vinnuna, af því að ég get það bara ekki með góðu móti. Ég veit alveg að ég er ekkert brotin, nema pínu á sálinni, en það lagast nú líkaWink Gangið glöð inn í góðan mánudag og munið að leggja alls ekki fyrir aftan bílinn minnSmile

Ég er svo hugmyndasnauð !

Ekki var mér búið að detta í hug að fara til Bandaríkjanna til að kaupa jólagjafirnar ! Las í fréttum í gær að stórar ferðatöskur væru allsstaðar að verða uppseldar. Hvarflaði að mér andartak hvort það gæti verið aðaljólagjöfin í ár, ég alltaf að missa af einhverju... en sá svo að það gat ekki passað, pínu hallærisleg jólagjöf það.... Nei, nú á það að margborga sig, að fara sérstaka verslunarferð út til Bandaríkjanna fyrir jólin af því að þar er allt miklu ódýrara en hér. En kostar ekkert að komast þangað ? Er það bara ekki tekið með í dæmið ?  Einhvertímann vissi ég að það kostaði 60-70 þúsund, bara aðra leiðina og ég hef ekkert  heyrt um  að það hafi lækkað nein ósköp. Auðvitað er alltaf gaman að fara til útlanda, en hjá mér yrði það ekki nein skemmtun að fara út bara til að versla, mér finnst ekkert gaman í búðum, alveg sama hvort þær eru hér heima eða í öðrum löndum. Ég mundi frekar nota peningana sem annars færu í flugmiðana til að kaupa fleiri og þá stærri jólagjafir handa öllu liðinu okkar ! En það er bara ég, mér er alveg sama þó fólk geri þetta og vona bara að það hafi gaman og græði alveg helling í leiðinni ! Við aftur á móti ætlum að fara landleiðina, í Hagkaup af því að þar fæst það sem við ætlum að gefa í jólagjafir þessi jólin ! Njótið þessa yndislega sunnudags og látið ykkur líða vel Smile

Allt á mína eigin ábyrgð á þessum fína laugardegi !

Alls ekki af neinu sérstöku tilefni vil ég taka það fram, að ég og ég ein, tek fulla ábyrgð á allri minni stundum kannski skringilegu hegðun, öllum mínum orðum töluðum sem og skrifuðum, dyntóttu skapi mínu þó það sé nú kannski frekar í léttari kantinum svona yfirleitt, akstri mínum, fjármunum og lausafé og mínum eigin, oft á tíðum brengluðu og alls ekki alltaf rökréttu, hugsunum. Þá er það komið á hreint, takk fyrir ! Í dag er eitthvað svona "ekki versla neitt í dag" dagurinn og það er líka eins gott, af því að ég ætlaði alls ekkert að versla neitt í dag. Ég ætla að fara á mánudaginn og kaupa margar jólagjafir, þá er ég ekki að vinna kvöldvinnuna og hef nógan tíma. Ég hreyfi mig ekki í átt að verslun, fyrir minna en 8-10 jólagjafir í einu og þessi 1 og 1/2 tími, sem ég hef á milli vinna  dugar ekki til þess. Spúsi minn fer með mér, það er svo gaman að hafa hann með í jólainnkaupin, hann vill alltaf kaupa miklu meira en nískupúkinn ég og ég þarf oftar en ekki að standa mjög fast á skottinu á honum, svo við hreinlega höfum efni á að gefa öllum eitthvað. Við eigum samtals sjö börn, fimm tengdabörn og tólf barnabörn og reiknið þið svo ! Við erum millar, bara ekki í peningum talið ! Það er svona "heittkakóteppisbókarveður" úti og ég ætla ekkert að hreyfa mig út úr húsi fyrr en ég fer í vinnuna klukkan fimm. Ég var að þrífa ísskápinn áðan og er hrikalega stolt af dugnaðinum í sjálfri mér, þó ég sé að vísu búin að taka nokkrar vikur  í að undirbúa mig andlega fyrir gjörninginn ! Gangið glöð inn í góðan dag og munið að hafa nú vettlingana á höndunum, en ekki bara í vösunum eins og égSmile    

Húsmæðrast pínulítið...

.... í huganum, svona í morgunsárið. Ég ætla að prófa að steikja laufabrauðið upp úr kókossmjöri. Húsmæðraþátturinn búinn, framhald ódagsett og alls óvíst að það verði nokkuð...... Ég er ekki farin að gera neitt fyrir jólin, nema að hlakka til og jú ég er búin að kaupa jólagardínurnar fyrir eldhúsið og það er nú hátt upp í þó nokkuð ! Mig er annars farið að gruna að ég hafi meira í mér af íþróttamannsgenum en ég hélt, ég er með tennisolnboga báðum megin.... Cool Ég þurfti að príla upp á svalir á annarri hæð í raðhúsi í gærkvöldi, til þess að kíkja inn um glugga hjá konu. Já, ég veit þetta hljómar perralega, en þetta er bara satt ! Konan sú er að vísu skjólstæðingur og er í hjólastól og hún kom ekki til dyra þegar ég hringdi bjöllunni og svaraði ekki í símann heldur. Ég varð að vera viss um að hún lægi ekki bara slösuð á gólfinu hjá sér eða eitthvað þaðan af verra ! Ofsalega varð ég fegin að hún var ekki heima... og að hún býr ekki á 4. hæð... Það nefnilega gleymdist að láta mig vita að hún væri farin í hvíldarinnlögn, ekki í fyrsta skipti sem svoleiðis gerist ! Oft hefur mér dottið í hug að sumt fólk sem vinnur hér hjá Akureyrska Slow town batteríinu taki Olimpiuhugsjónina aðeins of alvarlega ! "Ekki málið að vinna, bara vera með" ! Ég verð svo reið þegar svona gerist, það er eins og fólkið skipti ekki máli. Ef þetta væru fiskflök á frystihúsi þá væri mér slétt sama, en við erum að vinna með fólk og svo er ég líka fólk og á ekki að þurfa að fá hland fyrir hjartað, hvað eftir annað, af hræðslu við að eitthvað hræðilegt hafi komið fyrir þann sem ég á að sinna, þegar enginn kemur til dyra... Bara af því að fólk í kringum mig, vinnur ekki vinnuna sínaPinch Og reynið þið svo bara að geta, hvert ég hringi núna strax klukkan átta ! Devil  Gangið nú glöð og hress inn í fínan föstudag... Stekkjastaur kom fyrstur, stinnur eins og tré.....Smile

Elsku píparinn.... !

Ég var búin að ákveða að kvarta hér yfir píparanum, sem ég þurfti að hringja í, í gær í vinnuhúsi, en ég hætti við það. Þess í stað ætla ég að hæla honum. Hann lofaði að senda mann til að skipta um heita kranann, sem ég gat ekki skrúfað fyrir, eftir hálftíma og hann kom eftir 1 og 1/2 tíma ! Ég þurfti bara að hringja þrisvar í hann og hann tók því bara með þónokkurri þolinmæði, að ég skyldi ekki geta sagt honum hvaða tegund af krana um væri að ræða. Þó ég sé búin að fara á  mjög mörg vinnutengd námskeið á síðustu 10 árum, þá hefur bara alveg gleymst að kenna okkur hvaða  tegundir af vatnskrönum eru í boði á markaðnum og hvaða ár hinir og þessir kranar eru framleiddir. Fer samstundis fram á námskeið í pípulögnum ! Og hann útskýrði fyrir mér eins vel og fyrirmyndar leikskólakennari hefði útskýrt fyrir litlu barni, að pípulagningamenn gengju bara ekki með allar kranategundirnar í vösunum. Vá maður, eins gott að hann sagði mér það, ég hefði alls ekki getað fundið það út hjálparlaust.... Og þegar ég hringdi svo í þriðja skiptið, til að gá hvort hann hefði nokkuð gleymt mér og mínu litla vandamáli og hálftíminn væri löngu liðinn, þá var hann svo almennilegur að bjóðast bara til að kalla manninn til baka, fyrst ég væri ekki nógu ánægð með þjónustuna.... Og þarna þegar ég spurði, að sjálfsögðu hrikalega kurteislega, hvort það væri engin samkeppni í bransanum og hvort honum fyndist ekki skipta máli að hafa viðskiptavini, þá var hann svo huggulegur að útlista fyrir mér, að ég mætti bara þakka fyrir að fá pípara á innan við 2 tímum ! Og þegar ég svo svona rétt nefndi það, eiginlega frekar hlýlega, að ég væri ekki að fara fram á að þetta yrði unnið í sjálfboðavinnu, það hefði nú alltaf staðið til að borga, þá var hann svo sætur að tilkynna mér hátt og snjallt, bara svo ég mundi nú heyra það almennilega, að maðurinn væri á leiðinni.... Hm.... kannski eitthvað í ætt við það sem kennarinn sagði : "Skólinn væri fínn vinnustaður ef ekki væru allir þessir krakkar" ! Gangið glöð inn í góðan dag og það fylgir ekkert heilræði með því núna Smile


Hva... veit hún ekki að ég er til ?

Einu sinni bjuggum við í sveit, börnin mín og ég og pabbi þeirra. Sonur yngstu mágkonu minnar  hafði verið í nokkra daga hjá afa sínum, í þorpinu og skrapp í heimsókn í sveitina til okkar. Ég var að skutla honum aftur til afa og yngri sonur minn var með í bílnum. Þeir voru 5 og 7 ára frændurnir, að mig minnir og ég heyrði að þeir voru eitthvað að spjalla aftur í á leiðinni, en heyrði ekkert um hvað þeir töluðu. Á heimleiðinn var sonur minn óvenju þögull, þangað til hann segir allt í einu, upp úr eins manns hljóði : "Mamma, veit ekki mamma hans Árna (frændans) að ég er til "?  Ha ? Jú, auðvitað veit hún það vinur, hún er systir hans pabba þíns. Af hverju spyrðu að því ? "Ehh...já en... hún segir að HANN, Árni, sé besti strákurinn í öllum heiminum ! Veit hún ekki að ÉG er til "? Woundering  Rökrétt?Grin  Ég er farin að leyfa mér að muna svo miklu meira núorðið, frá því þegar við bjuggum þarna í sveitinni. Ég hef aldrei verið nein sveitamanneskja og hef takmarkaða ánægju, æi... best að segja það bara eins og það er : alls enga ánægju af því að umgangast skepnurnar. En ég bjó þar nú samt í 10 ár og ég gerði það eingöngu fyrir tengdamóður mína, að flytjast þangað í fyrstunni. Þóttist svo vera að gera það fyrir börnin mín að halda því áfram... Sem var misskilningur, það var ekkert þess vegna, ég hafði bara ekki þann dug og það hugrekki, sem þurfti til að koma mér í burtu. Svo má  kannski deila um hvort ég fór ekki of seint, getur verið.... En það er samt, held ég og vona innilega, aldrei of seint að reyna að gera gott úr því sem hefur aflaga farið. En ekkert "gráturoggnístrantannablogg" hér, mér datt bara þessi fína saga í hug í morgun, þegar mér varð hugsað til þess, að ég hafði ekkert heyrt í besta stráknum í öllum heiminum, í nokkra daga.  Gangið glöð og hress inn í góðan dag og munið að Cheerios er gott fyrir konurSmile

Allt að því dónalegt.... ?

Þar sem ég sat og drakk kaffið mitt í morgun, var ég að virða fyrir mér jólasveinamyndirnar á bláu mjólkurfernunni, mjólkin okkar hérna fyrir norðan er sem sé komin í jólafötin. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar þessar myndir komu fyrst á fernurnar, að það varð töluverð umræða út af nefjunum á jólasveinunum. Þeir eru með svo stór nef, að þau þóttu minna meira á einhverja aðra líkamsparta, dálítið neðar á líkamanum og þetta væri bara allt að því dónalegt ! Dæmi hver fyrir sig, en ég sé ekkert dónalegt við þessa sniðugu kalla, sem heilsa mér á morgnana þegar ég opna ísskápinn. Skyrgámur og Gluggagægir eru jú með svolítið stór nef, en það geta nú ekki allir verið eins og mér sýnist Ketkrókur og Stúfur bara vera með svona frekar eðlileg nef í andlitunum. Gáttaþefur er að sjálfsögðu með risanef með risastórum nösum og Giljagaur hefur fengið lánað nefið hans Gosa. Mér finnst þeir flottir ! Það er hægt að fara inn á www.jolamjolk.is og sjá allt um þessa kalla og fleira. Mér leið alveg jafn ömurlega í gær eins og ég leit út fyrir og það skal ég segja ykkur er alls ekki nógu gott, enda fær snyrtistofan mín, mig í heimsókn einhvern næstu daga. Það þarf nú að jólaskreyta mig aðeins líka. Mér líður mun betur í dag og þó ég hafi alltaf haldið því fram að ég sé vesalingur af Guðs náð og það er ég, þá má ég nú eiga það að flensur ná mér ekki nema svona einn og einn dag. Sérstaklega eftir að ég hætti að láta sprauta mig fyrir þeim, en á meðan ég gerði það veiktist ég undantekningalaust í viku til tíu daga, svo ég gafst upp á því. Gangið nú glöð inn í góðan dag og ekki láta jólaljósin fara í taugarnar á ykkur, njótið þeirraSmile  

Ég er ómissandi, oj bara.....

Ég held ég sé að verða lasin, en ég má ekki vera að því, ég er nefnilega ómissandi þessa dagana í vinnunniUndecided Sú sem vinnur á móti mér er lasin og afleysingamanneskjan okkar er það líka... Mér er kalt og óglatt og finn allstaðar til og langar bara að vera undir sæng, en ég á svakalega hreint og fínt nýmálað eldhús ! Kannski er ég ekkert lasin, ég er líklega bara búin að þrífa yfir mig og allt orðið of hreint, of mikið hreinlæti getur sko verið heilsuspillandi ! Kannski sérstaklega þegar það er ég sem hef séð um að þrífa... Devil  En það sem drepur mig ekki, herðir bara upp í mér og ég geri ekkert ráð fyrir því að ég sé neitt að fara að hrökkva upp af alveg strax. Það er fullt af fólki út um allt í þjóðfélaginu, í alvöru að velta sér upp úr því hvað hafi nú eiginlega farið fram og hverjir hafi nú mætt í brúðkaup aldarinnar. Mér finnst nú svolítið skondið að kalla þetta brúðkaup aldarinnar, það eru nú ekki liðin nema sjö ár af þessari öld.... Woundering Annars hef ég engar sértakar áhyggjur af þessu, ég vona bara að brúðhjónin verði hamingjusöm og að hamingjan skipti þau meira máli en hversu verðmæt þau eru í peningum ! Ferlega hálfvitalega umfjöllun um brúðkaup finnst mér. Jú ég hlýt að vera lasin, finn ekki húmorinn minn... Gangið glöð inn í góðan dag og munið, að það má alveg fara að hlakka til jólannaSmile  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband