Það er ekki margt sem kemur mér úr jafnvægi, en...

... eitt af því eru rafmagnstæki í minni eigu, sem virka ekki eins og þau voru smíðuð til að gera. Tölvuskjárinn við borðtölvuna lognaðist út af í gær og auðvitað rétt áður en ég þurfti að fara að vinna klukkan fimm, svo ég náði ekki að fara með hann í viðgerð. En svona baunaprinsessa eins og ég á auðvitað fartölvu líka og ég er að skrifa á hana núna, þess vegna pikka ég svona hægt.... eins og sést náttulegaTounge  Svaf út í morgun, vaknaði ekki fyrr en hálfsjö... Veit alveg, að vegna almenningsálitsins á ég alls ekki að segja frá þessu, en ég hef bara aldrei fattað þetta með almenningsálitið ! Ég hef nefnilega engan rétt á að skipta mér af því hvað annað fólk hugsar, einfalt mál ! Svo fyrir utan að finnast gaman að fara snemma á fætur, finnst mér mánudagar fínir og vatn vont og já ég veit þetta með vatnið, "það er nú bara vatnsbragð af því" og það er nefnilega það bragð sem mér finnst vont! Ég var að flakka um á blogginu áðan og eitt af því sem rætt er um er blessuð konan sem fannst látin í íbúð öryrkjabandalagsins í Borg óttans, búin að vera dáin í 4-5 daga. Þetta er svo sorglegt, líka  vegna þess að hún er ekki ein um að vera svona mikill einstæðingur. Ég er búin að vinna við heimaþjónustu í bráðum 10 ár og hef séð ýmislegt og við vitum alveg um fólk sem vill ekki þiggja þjónustu okkar. Til þess geta legið margar ástæður og ég þykist ekkert vera þess umkomin að nefna þær allar en oft tengist það auðvitað andlegum veikindum og oftar en ekki, líka einfaldlega bara fátækt. Það þarf nefnilega að borga fyrir hvert og eitt einasta verk sem við innum af hendi. Ég er t.d. skömmuð eins og hundur ef það kemst upp að ég fer í búð fyrir skjólstæðing án þess að skrifa kílómetragjald á það, svo það sé hægt að rukka viðkomandi. Mér er alveg sama, ég geri það samt ef mér sýnist og er búin að stunda það nokkurnveginn frá fyrsta degi og held því áfram eins lengi og mér dettur í hug að það geti komið einhverjum að gagni, öðrum en rukkurunum ógurlegu. Og ég er samt ekkert góð kona, ég geri þetta af hreinræktaðri eigingirni, af því að það lætur mér líða velDevil   Gangi hress og frísk inn í helgina og munið eftir smáfuglunumSmile

Það er fátt sem þeim dettur ekki í hug.....

... fyrir jólin, blessuðum konunum sem ég er að hjálpa í vinnunni.... Ein sem ég kem alltaf til hálfsmánaðarlega, fórnar höndum og ákallar Guð og lofar hann, fyrir að það skuli vera ég sem er komin, en samt bara í nóvember og desember. Hún samþykkir líka allt sem ég segi í 10 mínútna kaffispjalli, áður en hún fer svo að reyna að fá mig til að þvo alla veggina í íbúðinni sinni. Ég neita alltaf, eins kurteislega og ég kann og segi að hún viti nú alveg, að við megum alls ekkert gera það, en hún lofar þá bara að segja engum frá því ! Ég er vön, svo að ég er auðvitað með plan B og fer að finna alveg hreint ofsalega til í tennisolnbogunum mínum, komin með minnsta kosti þrjá, ef ekki fjóra og er búin að vera alveg að kálast frá því að ég var hjá henni síðast.... Devil Auðvitað dettur mér ekki í hug að fara að slíta mér út við að þvo heilu veggina, vinnureglurnar okkar banna það og svo er ég alls ekki á nógu háu kaupi til þess að níðast þannig á sjálfri mér. Og hafiði það ! Þetta gæti alveg orðið þreytandi til lengdar og ég segi eins og Laddi í einu jólalaginu : "Ég er fegin að jólin eru bara einu sinni á ári".... Wink Ég er alltaf að verða svolítið þreytt um þetta leiti í desember, enda mánuður áhættuatriðanna, ég er prílandi upp á skápum og háaloftum og dinglandi í alls konar stigum og tröppum, við að þrífa ímyndaðan skít hjá einstæðum gömlum konum sem sóða bara alls ekkert í kringum sig allt árið, en í desember fara þær að fá gæsahúð út af drulluhaugunum í öllum hornum og hornin eru þá einna helst lengst upp á einhverju eða innst inni í hornum á draugalega djúpum skápum, sem oftast er ekkert gengið um. Ég er búin að hengja upp eitt jólaljós í glugga hérna í Fjallakofanum, kannski kem ég öðru upp í dag. Það eru dálítið margir gluggar á húsinu og með sama áframhaldi verð ég líklega búin að þessu um miðjan febrúar.... Tounge  Gangið glöð í bragði, inn í langþráðan föstudag og verið góð við gamla fólkiðSmile

Koma svo :-)

Stjörnuspáin mín í Mogganum í dag segir að ég sé fín í mannlegum samskiptum, sem ég vissi nú fyrir og að einhver uppljóstri því að hann sé skotinn í mér ! Og.... ? Koma svo.... ! Enginn ? Skil ekkert í þessu, ekki lýgur Mogginn eða hvað.... ? Einu sinni átti ég föðurömmu á lífi, sem er nú líklega ekkert í frásögur færandi, en hún var orðin ævagömul þegar hún tók upp á því að klifra upp á eldhúsborðið hjá sér til að skipta um peru í ljósi yfir borðinu. Það var eins og við manninn mælt, háöldruð konan sem var auðvitað löngu búin að missa bæði stóla og stigaleyfið, datt ofan af borðinu og lærbrotnaði. Það þurfti að gera aðgerð á lærinu svo gamla konan var svæfð, en hún vaknaði aldrei aftur.... blessuð sé minning hennar. Nokkrum árum seinna þegar dóttir mín var rétt um fimm ára, þá spurði hún mig hvernig þessi langamma hennar hefði dáið. Ég var eitthvað að brasa og var eins og stundum, eitthvað utan við mig, en byrjaði að útskýra fyrir barninu: "Sko hún var svæfð......."  en svo missti ég víst þráðinn og það kom ekkert meira. Stuttu seinna kemur pabbi hennar skellihlæjandi innan úr stofu og spyr mig, hvað ég hafi eiginlega verið að segja blessuðu barninu. Hún kom til hans, svona agalega áhyggjufull á svipinn og sagði honum að nú yrðu þau sko aldeilis að passa ömmurnar og afana í sveitinni ofsalega vel, svo að þeim yrði nú ekki líka lógað, eins og henni langömmu á Akureyri. Sú stutta hafði nefnilega fyrr um daginn, verið með pabba sínum í sveitinni hjá afa og ömmu og það þurfti að lóga ketti eða hundi, man ekki hvort og henni var sagt að dýrið hefði verið svæft ! Það snjóar hérna núna í logni, jólalegt ! Gangið glöð inn í góðan dag, með umburðarlyndið og náungakærleikann í hrúgumSmile

Alltaf batnar það..... :-(

Nú hefur tíundi lífeyrissjóðurinn gefið það út að hann ætli að lækka bætur til öryrkja, eftir áramótin.  Og þessi lífeyrissjóður er hérna á mínu kæra norðurlandi, svo að ég sé sæng mína útbreidda ef eitthvað skildi nú koma fyrir mig, þannig að ég neyddist til að hætta að vinna.... Að vísu kom þarna skýring á þessum lækkunum : það eru svo allt of margir öryrkjar, miklu fleiri en búist var við.... Nú, af hverju er það ? Ég þekki prívat og persónulega fólk á örorkubótum, sem hefur alls ekkert þar að gera, gerir allt sem það langar til og leggur ýmislegt á sig í svartri vinnu, en þegar kemur að því að vinna á almennum vinnumarkaði og borga skatta og skyldur, þá verður það allt í einu gjörsamlega óvinnufært. Lið sem nokkurnveginn argar sig inn á örorkubætur ! Þetta er opinbert leyndarmál og virðist ekki vera svo gott við þessu að gera. Það er þetta fólk sem gerir það að verkum að hinir, sem eru öryrkjar í alvöru, af því að þeir hreinlega neyðast til þess og geta alls ekki unnið, fá lækkaðar bæturnar sínar hvað eftir annað. Ég held þessu fram eins staðfastlega og ég heiti Jónína ! Og einhvernvegin er það líka svo, að gremjulega oft eru það "platöryrkjarnir" sem hafa miklu meiri burði til að krefjast "réttar" síns af kerfinu en hinir, sem eru þá í allskonar þannig ástandi eftir veikindi eða slys, að þeir kannski ráða ekki við það og/eða hafa ekki heilsu til þess að berjast í því og það standa líka fáir eða engir með þeim. Það þarf nefnilega sterk bein og heilbrigðan heila og heljar mikið magn að ósvífni og óheiðarleika, til að berjast við kerfið og þá þýðir sko ekkert að vera alvöru öryrki ! Gangið svo eins heilbrigð og hægt er inn í góðan dag, ég ætla að fara að ryksugaPinch    

Ég fatta næstum því þetta með....

... jólaþunglyndið, en bara ekki allar birtingarmyndirnar. Auðvitað er það einstaklingsbundið hvernig þunglyndi kemur fram hjá fólki, hvort sem það tengist jólum, einhverju öðru eða bara alls ekki neinu sérstöku. Ég ætla ekkert að segja ykkur frá þunglyndistímabilunum mínum, þau eru liðin og koma vonandi ekkert aftur. En það sem ég er aðeins að pæla í er, hvernig sumt fólk tekst á við eða  kannski bara, tekst alls ekkert á við jólaþunglyndið sitt...... Ég veit um tilfelli þar sem fólk skreytir alls ekki neitt og tekur ekki þátt í neinu og er ekkert að reyna að leyna því að líðanin er ömurleg, en ég þekki það líka að fólk ofskreytir og virðist vera alveg uppi í sautjánda himni yfir jólunum og reynir að láta eins og þunglyndi sé ekki til. Svo er þessi skrítna birtingarmynd, sem ég á einna erfiðast með að skilja, það er fólkið sem lætur sig hafa það að taka þátt í öllu stússinu en lætur samt, bara rétt sisvona í leiðinni, engin tækifæri ganga sér úr greipum, til að kvarta og setja útá og vera með hin ýmsustu leiðindi, út í alltsaman blessað hafaríið. Það skil ég ekki en ég skil líka ekki allt, sem betur fer.....  Ég var að breiða út laufabrauð í vinnuhúsi í gærmorgun og það var mjög skemmtileg tilbreyting frá öllum skápaþrifum og gluggapússningum. Púkinn vill ekki "gluggapússningar" en hann stingur upp á "gluggapissingum" í staðinn, þetta er algjör púkiGrin  Ég set inn myndir af rauðasta eldhúsglugganum á eftir, ég á sko krúttlegasta rauða eldhúsið ! Gangið kát og hress inn í góðan dag Smile

Aaaarg.... snjór..... ;-)

Snjór, kuldi, snjór, rúðuskafa, snjór, sópur, snjór, skófla...... Shocking Ég þarf svo sem ekkert að vera að væla neitt um skófluna, ég nota hana aldrei ! Ég kem mér alltaf hjá því með klókindum, en ekki segja neinum frá því samt... Halo Ég er ekkert búin að heyra, sjá eða lesa neinar fréttir í morgun. Ég þarf alltaf að fá frí frá öllum hörmungum annað slagið, enda held ég ekki að ég geti bætt neitt úr neinu, því miður og langar ekkert endilega til að fá að vita, að það var ráðist á þennan og þessir voru teknir ölvaðir undir stýri og einhver dó og úti í heimi voru tugir drepnir í árásum og svo framvegis. Eins og þið sjáið er ég samt með fréttirnar á hreinu..... Undecided  Ég eiginlega kemst ekkert lengra en að öllu því, sem ég sjálf þarf að gera í dag og sé alls ekki fram á að koma helmingnum af því í verk og það er eiginlega komið að því eins og stundum áður, að ég sé bara ekki að ég hafi hreinlega tíma til að vera að vinna ! Wink Og þá er nú orðið hart um skít eins og uppáhaldið mitt hann Káinn, tók svo smekklega til orða fyrir þónokkrum árum síðan. Annars er allt gott hér og það eru að koma jól með öllum sínum yndislegheitum, börnunum mínum til dæmis, sem ég er svo heppin að fá að hafa öll hjá mér þessi jólin InLove  Núna rétt bráðum, eftir um það bil korter, set ég upp rauðustu rauðu jólatjöldin fyrir eldhúsgluggann okkar ! Gangið glöð og frísk inn í þennan æðislega mánudag og munið að þolinmæði er þroskamerkiSmile

Þeir sem þurfa að vera á ferðinni núna...

...eiga alla mína samúð. Núna er nefnilega svo gott að geta verið inni í hlýjunni, því að úti er norðan hríð og hefur bætt dálítið á snjóinn í nótt. Orðið virkilega jólalegt að sjá, svona út um gluggannWink   Gærdagurinn fór að mestu í búðaráp, við erum líka að verða búin að kaupa jólagjafirnar og erum byrjuð að kaupa jólasteikurnar og svo auðvitað makkintosið, sem er algerlega ómissandi hjá okkur, um jólin og fram að jólum, verður nú að segjast líka. Ég er nú alls ekki sú hagsýnasta þegar kemur að verslun og viðskiptum, en þegar 2.9 kílóa makkintosbaukur er 1500 krónum ódýrari í Bónus en í Nettó, þá keyri ég í Bónus, þó mér finnist alltaf skemmtilegra á Glerártorginu. Það voru jólasveinar að syngja þar í gær og mig langaði allsvakalega til að slökkva bara á hljóðkerfinu hjá þeim, ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum það þarf að hafa það í botni, það er ekki eins og þetta sé einhver risasalur sem þeir eru að syngja í. Sviðið er beint fyrir framan Netto og að versla þar þegar verið er að flytja tónlist á þessu sviði er vægast sagt vandræðalegt og ég get ekki ímyndað mér að það sé þægilegt fyrir afgreiðslufólkið heldur. Hávaðinn er slíkur að það þarf að nota fingramál og alls konar fettur og brettur, til þess að gera sig skiljanlegan. En það er samt alltaf gaman að sjá jólasveinana, ég er eins og litlu börnin með það, nema að mér er alveg sama þó þeir gefi mér ekki epli og ég fer ekkert að gráta þó þeir tali við mig. Ég var að hugsa um að geysast fram á ritvöllinn í morgunsárið og skammast yfir einhverju óréttlæti í þjóðfélaginu, en því miður þá er það eitthvað svo fjarri mér núna, en einhvern annan dag...... Púkinn hérna býður í alvöru upp á að nota orðið ritböllur !?! Gangið glöð inn í fyrsta sunnudag í aðventuSmile

Skyldu það vera manneskjur sem stjórnar lífeyrissjóðunum ?

Vegna þess að öryrkjar gætu átt það á hættu að hafa það "sæmilegt", út í hött að fara að kalla það "gott", þá hafa stjórnir 9 lífeyrissjóða ákveðið, að skerða bætur til félagsmanna sinna 1.desember ! Fyrir utan að lækka bæturnar, sem er náttulega eitt og sér ógeðsleg hugmynd, þá fundu þeir upp þessa dásamlegu dagsetningu, fyrsta desember ! Jáhá pössum að öryrkjarnir viti að þeir eiga ekki rétt á neinum mannsæmandi lífskjörum og til þess að þeir taki nú almennilega mark á því, þá skulum við sjá til þess að þeir geti ekki með neinu móti haldið jól ! Devil Það er auðvitað bara hreinasti óþarfi !Hver stjórnar lífeyrissjóðunum ? Er það fólk eða eru það bara tölvurnar ? Síðast þegar ég vissi þá gerir tölvan mín það sem ég læt hana gera, nema þegar hún er biluð og þá læt ég gera við hana ! Ef það eru tölvur sem stjórna sjóðum þessum, þá eru þær bilaðar og það þarf þá að setja þær strax í viðgerð. Ef það er fólk sem stjórnar, þá er það líka bilað og varla hægt að gera við það og þá er að henda því út og fá annað fólk í staðinn. Almennilegt fólk sem hugsar ekki bara með rassgatinu þar sem þeirra eigið seðlaveski er staðsett ! Pinch Það trúir því ekki nokkur kjaftur, að lífeyrissjóðirnir sem eru að sýsla með alla þessa peninga, séu svo fátækir að það þurfi stöðugt að vera að klípa af þessum aumingjalegu upphæðum. Það væru nefnilega engir lífeyrissjóðir til, ef fólkið sjálft hefði ekki lagt til peningana í þá. Það borgar sig greinilega að leggja frekar fyrir sjálfur, undir koddann sinn svona til öryggis, til þess að reyna að tryggja sjálfum sér mannsæmandi laun ef eitthvað skyldi nú koma uppá í lífinu ! Það eru nefnilega ekki allir öryrkjar "framleiddir" af kerfinu, langflestir öryrkjar eru alvöru öryrkjar og alls ekki að eigin vali ! Jóhanna Sigurðardóttir, virðist vita um einar hundrað milljónir sem hún ætlaði að nota til að múta lífeyrissjóðunum með, til að þeir mundu hætta við þetta. Þeir afþökkuðu þessa smánarlegu upphæð og eru staðráðnir í að halda þessu til streitu. Ok Jóhanna mín Sigurðardóttir, taktu þá þessar hundrað milljónir sem þú hefur þarna og dreifðu þeim til öryrkjanna, fyrst lífeyrissjóðirnir vilja þær ekki ! Það þarf enginn að segja mér að það sé ekki hægt að finna einhverja aðferð til þess ! Svo spyr ég : eiga öryrkjar sjálfir enga fulltrúa í stjórnum þessara sjóða ? Og þá er ég ekki að tala um forystumenn þeirra, þeir eiga engra hagsmuna að gæta, það eru menn á kaupi, ég er að tala um hann Jón eða hana Gunnu. Og ég er reið núna ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum ! Angry  Gangið hress inn í daginnGetLost

Það er "jólaundirbúningur", ekki "jólastress" !

Það tekur stóra jeppann minn minnst 10 kílómetra, að hitna nógu mikið til að fara að blása einhverju öðru en frostköldum heimskautaísnálum út úr miðstöðinni. Ef miðstöðin á að vera farin að anda bara volgu, áður en ég legg af stað, þá verð ég fyrst að láta bílinn ganga í hálftíma úti á plani. En ég bara man yfirleitt ekki eftir því að fara út og setja hann í gang, fyrr en bara um leið og ég æði af stað í vinnuna. Næst þegar ég fæ mér bíl, þá á hann að vera með fjarstýringu, sem gerir mér kleyft að starta honum þar sem ég stend innan við eldhúsgluggann minnInLove Það er svona "prinsessan á bauninni" útbúnaður, að vísu býst ég ekki við því að það virki að biðja um akkúrat það þegar maður pantar þetta en.... aldrei að vita. Núna hljómar lag í útvarpinu og í textanum er m.a. : ... hjartað ólgar inni í mér..... Ég er líklega með órómantískara fólki, eina sem mér datt í hug að gæti ólgað inni í mér er maginn, þegar ég er búin að borða eitthvað allt of feitt.... Ég hef löngum sagt við og um spúsa minn, að hann sé alveg jafnrómantískur og gaddavírsgirðing með stífkrampa..... Það er nú alveg spurning, hvort okkar hefur betur á þeim vettvangiTounge  Núna verð ég að fara og tæma hillu sem á að fara inn í geymslu, ég fór í fýlu við hana í gær af því að hún er hálfum sentímetra hærri en hurðargatið inn í geymsluna og ég sem ætlaði að auka mér leti, með því að ýta henni bara þangað inn, með öllu draslinu íBlush  Gangið hress og kát inn í fínan fimmtudag og slakið á í "jólaundirbúningi", það heitir nefnilega ekki "jólastress" !Smile

Frumburðurinn minn....

... er 31 árs í dag. Ekkert skil ég í því hvað börnin mín eru orðin gömul og ég alltaf jafn ung ! Hann fæddist á sunnudegi og það var talið sérstakt gæfumerki, enda drengurinn gæfusamur maður. Hann er langflottastur, bráð vel gefinn, duglegur og myndarlegur og á yndislega konu, hún gæti ekki verið betri þó ég hefði fengið að velja hana sjálf og þau eiga tveggja ára dóttur, sem er auðvitað algjör gullmoli ! Ég ætla að hætta að mæra hann, áður en þetta fer að hljóma eins og minningargreinTounge Ég lít út núna í morgunsárið, eins og ég hafi lent í slagsmálum við bílastæði og tapað, enda er það raunin. Ég datt svo tignarlega á sunnudagskvöldið, á bílastæði fyrir utan vinnuhús og er öll lurkum lamin en samt ekkert brotin, ég get líka aldrei meitt mig í neinni alvöru, bara svona allt að því.... Hvítan í öðru auganu er orðin rauð núna, kannski vegna þess að ég fékk hressilegt högg á hausinn í byltunni, kannski ekki, læt athuga það í dag. Ég get svo alveg haldið því fram að þetta hafi verið tignarleg bylta, það sá mig enginn á dimmu bílastæðinu bak við húsið..... að hálfu undir bílnum mínum..... Wink  Í dag ætla ég að gera tilraun til þess að berjast um inn í geymslu smástund og gá hvort ég get ekki lagað til þar, með því að taka alla kassana með jólaskrautinu fram, það verður þá allavega fínt í geymslunniGrin  Gangið glöð og hress inn í þennan yndislega dag og njótið þess að vera tilSmile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband