Nú er bara gaman !

Það er vitlaust að gera þessa örfáu tíma dagsins, sem ég er ekki að vinna þessa vikuna og fæst af því er fyrir mig gert. En það er gaman og sérstaklega vegna þess, að mér finnst ég aldrei þessu vant, vera alveg afspyrnu dugleg, sem er sjaldgæf tilfinning..... Ég er að fyllast af þessu fína ekkisens kvefi en læt bara eins og ég viti ekki að það sé þarna. Spúsi minn missti röddina í 2 daga og hann er eitthvað að vonast til þess að það gerist með mig líka ! Skil ekki af hverju, ég sem tala bara meðan ég er vakandi og svona smá upp úr svefni líka að vísu......Tounge  Það varð allt vitlaust í vinnunni okkar um daginn, út af því að ein okkar sagði upphátt, að hún hliðraði til tímunum sínum fyrir gamla fólkið sem hún vinnur hjá, ef það kæmi sér vel fyrir báða aðila ! Það voru að vísu einkum tveir millistjórnendur sem fuðruðu upp út af þessu og ég skil það alls ekki. Allavega önnur þeirra vann í mörg ár inni á heimilum eins og við hinar gerum og þá lét hún sko ekkert svona eins og brjáluð raketta. Ég á að vera hjá indæliskonu fyrir hádegi á aðfangadag, vinnum fram að hádegi, en sú gamla bað mig að koma frekar næsta föstudagsmorgun klukkan 8 og hafa þá frí á aðfangadag, af því að henni finnst það betra. Ég samþykkti það auðvitað, þó að föstudagurinn verði þá óvenju langur, af því að ég er í kvöldvinnunni alla þessa viku. En eftir því sem brjálaða rakettan vill meina þá er þetta bara stranglega bannað ! Það á sem sagt að vera stranglega bannað að sýna tillitssemi í þessari vinnu og það er örugglega af því að skíturinn á gólfum gamla fólksins vill hafa mjög strangar reglur á þessu.... eða hvað ? Henni líður eitthvað illa greyinu og ég verð bara vona að það lagist, ekki get ég lagað það fyrir hana.....  Í hreinskilni sagt, þá hlusta ég bara ekki á svona kjaftæði, ef ég er tilbúin til að sýna gamla fólkinu mínu tillitssemi og smá almennilegheit eins og það sýnir mér, þá bara geri ég það og spyr engan að því og segi öllum frá því ef mér dettur það í hug ! Það er nú orðið helvíti hart ef kona má orðið ekki reyna að vera góð án þess að vera skömmuð fyrir það !Devil  Yndislegur dagur framundan og ég óska þess og vona, að sem flestir geti verið sammála mér um þaðKissing Ég er farin á pósthúsiðSmile

Ekki-fréttir !

Nú eru jólakortaskrif í fullum gangi hér í Fjallakofanum.... eða alls ekki. Sú sem á að skrifa jólakortin er í tölvu.... Wink Ætlaði að drífa mig í þetta í gærmorgun en ég gat bara ekki hrist af mér letina fyrr en eftir hádegið þegar ég fór að baka og fann mér alltaf eitthvað allt annað að gera í staðinn. Það er ekki alveg laust við að ég kvíði aðeins fyrir komandi viku, nú er kvöldvinna, alveg þangað til á sunnudag, Þorláksmessu. Ég þarf nú samt ekkert að kvíða þessu, ég er vön að vinna mikið og bæði um jól og á öllum öðrum tímum ársins og á ekkert eftir að gera svo mikið fyrir jólin... Kaupa nokkrar jólagjafir, skrifa nokkur jólakort og svo þessi bara svona venjulegu þrif hérna. Er fyrir löngu síðan búin að draga allverulega úr öllu sem gæti valdið stressi á þessum yndislega skemmtilega tíma, sem aðventan og jólin eru fyrir mér. Ég þykist nefnilega vita það að jólin koma ekki bara þangað sem þau finna mestu sápulyktina eða nýjustu húsgögnin eða flestar jólaseríurnar... Þau koma þangað sem tekið er á móti þeim með gleði og ánægju og tilhlökkun. Hvernig ætli það væri ef engin væru jólin ? Hm... allavega íslendingar mundu samt örugglega hafa einhverja hátíð á þessum tíma sem þá örugglega tengdist ljósum á einhvern hátt. Arfur frá þeim tíma sem forfeður okkar voru moldarhrúgubúar...... Tounge En við höfum jólin og mér er nokk sama af hverju þau eru og hvernig og hvers vegna þau byrjuðu, ég er bara ofsalega ánægð að þau eru ! InLove Gangið glöð inn í magnaðan mánudag og fyrir alla muni ekki vera að stressa ykkur fyrir jólin, leggið áheyrsluna á að hlakka til og hafa gamanSmile

Ég er oft andvaka...

... en ekki á kvöldin eins og flestir... ég er andvaka á morgnanaWink Og mér finnst það bara hið besta mál ! Klukkan hefur líka ekki fengið að stjórna mér svo lengi, ég er t.d. aldrei með kvöldmatinn til klukkan 7 og þar fram eftir götunum.... Var líka fyrir löngu hætt að hafa armbandsúr en fer nú að taka það fljótlega upp aftur, af því að stafirnir á klukkunni í gemsanum mínum eru orðnir svo litlir, en á móti eru handleggirnir á mér ekki lengur nógu langir... Grin Samt mæti ég aldrei of seint þar sem ég þarf að mæta, ég þoli mér það ekki. Enda þarf maður aldrei að koma of seint, það er bara vani eða öllu heldur óvani og ef það er hægt að venja sig á að koma of seint, þá er líka hægt að venja sig á að koma á réttum tíma. Það var dálítil umferð hérna í "hverfinu" hjá mér fyrir ca klukkutíma síðan og þar sem ég þekki þó nokkuð til nágrannanna, þá veit ég að þeir eru alls ekki að koma á fætur á þessum tímaWink  Dagurinn í gær fór í hangs og smá innlit á uppáhalds snyrtistofuna mína, kíkti inn til Auju systur, smá verslunarleiðangur og svo meira hangs... Ég ætla aldrei þessu vant að kæfa mína eðlislægu leti í dag, en samt ekki fyrr en eftir eftir hádegið og baka tvær smákökutegundir sem eiginlega líkjast meira sælgæti en smákökum. Ég er ekki mikið fyrir þessar hefðbundnu smákökur, mér finnast til dæmis piparkökur ekkert góðarBlush  Aðventan hjá mér líður rólega áfram í leti og afslöppun og vinnu, með smá kryddi af jólaskrauti og jólagjafainnkaupum, engir jólatónleikar nema á Létt Bylgjunni og engin jólahlaðborð nema bara hérna heima við eldhúsborðið. Ég vil kenna vinnunni minni um skortinn á þessu og svo því að það virðist ekki vera neinn vilji hjá fólki að byrja tónleika eða bíða með jólahlaðborð, til hálf tíu á kvöldin þegar ég er búin að vinna... skandallTounge   Gangið glöð í bragði inn í daginn og hafið það sem allra bestSmile

Snjórinn er farinn !

Og ég græt hann ekki.... Mér er alveg sama hvort það eru hvít jól eða ekki, það lítur svakalega vel út á jólakortum og í bíómyndum að hafa fullt af jólasnjó, en ef ég mætti ráða þá mundi ég láta snjóa rólega í logni um 6 leitið á aðfangadagskvöld í svona klukkutíma kannski og síðan ekki söguna meir. Spúsi fór í gær austur á Vopnafjörð til að vera þar við jarðarför í dag, keyrði Fjöllin og þar var allt autt, þó að Vegagerðin væri búin að gefa það út að það væri fljúgandi hálka megnið af leiðinni. Skil ekki alveg þetta með hálkuna fljúgandi... en líklega er verið að vitna til þess að það sé svo hált að það er hægt að fljúga á hausinn... Ég hringdi í gær í bílaumboð og sagði konunni á skiptiborðinu að ég væri að leita að orginal drullusokkum... Hún misskyldi mig eitthvað, hélt sjálfsagt að þetta ætti að vera einhver brandari í ódýrari kantinum og sagði að öll símtölin væru tekin upp og það væri ekki vinsælt að fólk væri að hringja þarna inn með dónaskap.... Og þegar ég útskýrði málið að ég væri utan af landi og væri að leita að drullusokkum aftan á gamlan jeppa með merki tegundarinnar, þá eiginlega urraði hún á mig og sagði að þetta hétu aurhlífar ! Fyrirgefðu fimm hundruð sinnum fína frú, en við dreifbýlisdónarnir köllum þetta drullusokka ! Devil  En hún gaf mér samt samband við einhvern mann sem sagði mér að það væri löngu hætt að framleiða þetta. Það var nú svo sem auðvitað, ég sem ætlaði að gefa spúsa mínum, tvær upprunalegar aurhlífar, lesist: tvo orginal drullusokka, í jólagjöf. Jæja ég finn þá einhvertímann og gef honum kannski bara mynd af þeim, með orðunum : þetta er það sem ég ætlaði að gefa þér í jólagjöf.....Tounge Gangið glöð inn í góðan dag... eru ekki annars allir löngu komnir á fætur ?Smile

Verður er listamaðurinn launa sinna !

Ekki ætla ég nú að segja annað, í bili... En það eru fleiri sem eru verðir launa sinna og það eru öryrkjar og eldri borgarar ! Á meðan lífeyrissjóðirnir eru að skera af lúsarlaununum, sem þessir tveir hópar fá og stjórnvöld geta víst bara alls ekkert gert til að hjálpa, þá eru þessi sömu stjórnvöld að úthluta heiðurslaunum til listamanna. Þeir eru að vísu bara 28, ekki 30 eins og í fyrra, sem fá þessi laun núna og upphæðin er aumingjaleg, bara svona ein lítil milljón og átta hundruð þúsund á kjaft ! Og það var ekkert mál að hækka þetta síðan í fyrra, þá fékk hver heiðurslistamaður bara milljón og þrjú eða fimm hundruð þúsund.... nískan ! Þetta kemur sjálfsagt út eins og öfund hjá mér, en er það samt ekki, bara kalt mat. Það er nefnilega frjálst val hjá hverjum og einum, hvort hann gerist listamaður og ætlar að reyna að lifa af því. Ef hann getur ekki lifað af því, er hann þá bara nokkuð nógu góður og ætti hann þá ekki bara að fá sér vinnu við eitthvað annað ? Þar sem hann fær útborgað í hverjum mánuði og verður þá bara að stunda listina í hjáverkum. Þeir sem eru nógu góðir eða flinkir eða einhvernvegin tekst að höfða til lýðsins og selja listaverkin sín grimmt og græða á því, þeir þurfa ekki meira er það nokkuð ? Það þarf ekkert að ríkisstyrkja þá með listamannalaunum, þeir eru þá búnir að fá umbun erfiðisins ! En það alls ekki frjálst val að verða gamall eða öryrki, það býr engin köllun þar að baki, það er óhjákvæmilegt ! Þú verður ekkert gamall eða lendir í slysi eða veikindum og verður öryrki, að eigin vali og færð þér svo bara eitthvað annað að gera með og stundar ellina og örorkuna í hjáverkum. Það er nefnilega sem flest gert, til að koma í veg fyrir það og bannað með lögum að reyna að bjarga sér og ef einhver úr þessum hópum reynir það, er hinum sama refsað allsnarlega með því að taka í burtu helst allt hans lífsviðurværi ! Og eins og ég hef áður sagt, Guð forði þeim frá því að hafa það of gott ! Þessir minnihlutahópar í íslenska þjóðfélaginu, sem eru samt ekki í minnihluta miðað við höfðatölu, eiga að fá heiðurslaun, vegna þess að þeir geta ekki annað en verið það sem þeir eru og það er svo sannarlega ekki sjálfval ! Ég nota hérna einungis fornafnið "hann" og læt það duga yfir allar manneskjur sem eiga í hlut, af því að ég nenni ekki að fara bil allra og skrifa alltaf hann/hún, maður/kona. Konur eru nefnilega líka menn, s.b. kven"menn", karl"menn". Gangið glöð inn í góðan dag og munið að það er gaman að fá pakka, en það er miklu meira gaman að gefa þáSmile

Skyldi Trölli vera að reyna að stela jólunum... viljandi ?

Mikið búin að vera að velta því fyrir mér undanfarna daga.... Það væri svo sem rökrétt, ef það væru til tröll, að þau væru þá ekki langt frá mér, hérna í fjallinu. Annars skiptir ekki máli hvar ég bý í þessu trölladæmi, minn Trölli býr allsstaðar þar sem ég er... Honum stekkur helst ekki bros í desember, ef hann kemst hjá því... Helst ekki að umgangast fjölskylduna meira en venjulega, helst minna ef það er hægt... Og ekki virðist hann hlakka neitt til jólanna... Aðal tilfinningin  virðist vera  ergelsi og pirringur yfir væntanlegum útgjöldum.... Vill helst kaupa bara eitthvað í jólagjafir, bara til að búa til einhverja pakka.... af því að það eiga að vera pakkar... Engan smákökubakstur við jólalög, kertaljós og nammi, vill ekki smákökur... Alls ekki jólalög, hvergi, aldrei... Jólaskraut er svo sem í lagi, ef hann þarf ekki að setja það upp... Helst einn á aðfangadagskvöld.... Og alls ekki of margar seríur, þá er of bjart til að sofa... sofa... sofa... Þessi Trölli hangir á annarri öxlinni á mér og gáir ekki að sér þegar lúmskt jólaþunglyndið læðist aftan að honum.... Á hinni öxlinni trónir annar Trölli, öllu bjartsýnni og glaðlegri, en samt ekki alveg ósnortinn af þunglyndi vinar síns þarna hinum megin við hornið. En hann reynir með sinni óbilandi bjartsýni að halda við jólaandanum. Berst við að leyfa sér að njóta aðventunnar, ljósanna, skrautsins, tónlistarinnar og ilmsins og alls þessa sem er með jól- fyrir framan og svo auðvitað sem flestra samverustunda með fjölskyldunni... það skiptir hann öllu máli. Og hann virkilega reynir af öllu hjarta að fá hinn með, en það gengur nú, svona oftastnær frekar brösuglega.... En það fylgir því að vera hálfgeðveikislega óbilandi bjartsýnn, að vera sem jákvæðastur og gefast aldrei upp við að reyna að gera eitthvað gott.... en stundum er það bara svo andskoti erfitt ! Ég gæti verið að tala um mig og minn klofna persónuleika eða bara eitthvað allt annað eða ekki.... Ef þið viljið, þá látið bara eins og þið hafið aldrei lesið þetta og gangið glöð inn í daginn, ég ætla að fara og tína upp allt það, sem er að fjúka um hérna útiSmile

Hin ýmsu áhyggjuefni hversdagsins.....

Á morgun fer ég í klippingu, sem er nú svo sem ekki saga til næsta bæjar.... Ég var aðeins að hugsa um að fá mér lit í hárið, af því að hárið á mér hefur engan lit sem hægt er að nefna neitt ákveðið... einna helst að megi reyna að sjá fyrir sér heysátu í rigningu. En ég held ég þori ekki... Fyrir nokkrum árum gerðist ég nefnilega verulega frumleg, á eigin mælikvarða og fékk mér ljósar strípur, í fyrsta  skiptið á ævinni og það geri ég aldrei aftur. Morguninn eftir strípulitunina vaknaði ég og leit í spegilinn og sá þar sjálfa mig, með risastóran hlandbrunninn klósettbursta á höfðinu..... W00t Ég setti upp stóra lopahúfu í sumri og sól og læddist með veggjum niður á hárgreiðslustofuna og lét fjarlægja litinn, ég veit ekki hvernig það var gert... var með lokuð augun á meðan. Eftir sit ég bara sæmilega sátt við regnbleyttu heysátuna, sem trónir þarna á höfðinu á mér. Í gær vorum við tengdadóttir mín og ég, að baka smákökur, með dyggri hjálp Lindu Bjargar 2 ára sonardóttur minnar, þetta hefði auðvitað aldrei hafst, ef hún hefði ekki verið með ! Tounge Tengdadóttir mín er frá Sviss og við, mamma hennar og pabbi, skiptum litlu fjölskyldunni á milli okkar á jólum, þau eru alltaf önnur hver jól í Sviss. Þá kemst ég upp með að kaupa smákökurnar í Bónus og steikt laufabrauð,  en ekki núna, þau verða hér um þessi jól. Hún er nefnilega svo undursamlega dugleg, þessi elska, alveg eins og ég var á árum áður, en er alls ekki lengur, núorðið nenni ég engu ! Ég get ekki einu sinni skrifað allt sem hún gerir fyrir jólin, ég verð þreytt bara að hugsa um það. Blush En fyrir þessi jól kemst ég sko ekki upp með neinn moðreyk..... og það er bara gaman ! Gangið glöð inn í góðan dag og verið dugleg að borða smákökur, það er svo hollt... fyrir sálinaSmile

Mánudagar til mæðu ?

Er það ekki bara einhver löngu útrunnin klisja ? Ég meina, þó ég hafi nú lent í þeim undarlegu aðstæðum í gær, mánudag, að geta ekki opnað olíulokið á bílnum mínum til að setja á hann olíu rétt svona í leiðinni í vinnuna.... Það var frosið fast, svo ég þurfti að keyra bílinn á olíugufunum einum, lengst suður í Naustahverfi. Var með hjartað einhversstaðar þar sem það átti alls ekki að vera, af ótta við að bíllinn yrði olíulaus úti á miðri umferðargötu og þá örugglega í beygju og hann er svo stór að það er ekkert auðvelt að ýta honum frá.... En það gerðist ekki, spúsi minn reddaði þessu eftir vinnu, að sjálfsögðu, til hvers haldið þið annars að ég eigi mann ? Og þó að maðurinn, sem ég fór til að hjálpa, hafi fengið þá andstyggilegu hugmynd að láta mig fara út í 10 stiga frostið, með allar pullurnar úr 2 sófasettum og berja þær með teppabankara, af öllum verkfærum.... Ég var nokkuð viss um að ég yrði úti þarna, ca 20 sentímetra frá svalahurðinni hans, en það gerðist nú ekki. Smákal á puttum og sál og þá einna helst vegna þess að mér tókst ekki að brjóta helv... teppabankarann, sem er í mínum huga verkfæri djöf.... fundið upp annað hvort af einhverri sjúklega ofvirkri fyrirmyndarhúsmóður eða bara þeim vonda sjálfum í neðra..... Og þó ég hafi svo sofnað í sófanum fyrir framan sjónvarpið í gærkvöldi og vaknað í einhverskonar hönk, að drepast í bakinu, þá tókst mér þó að sofna inni í rúmi, þegar það var mátulega kominn þriðjudagur samkvæmt klukkunni og fékk enga martröð aldrei þessu vant. Þegar á allt er litið var þetta bara ágætur mánudagur og núna skulum við prófa þriðjudaginn ! Gangið glöð og hress inn í daginn og munið að allt er gott sem endar velSmile


Í tómu tjóni.....

Ég var búin að skrifa langflottasta pistilinn minn hingað til... eins og langstærsti laxinn sem slapp... en hún eyddist þegar ég ætlaði að birta hana. Ég skrifaði um kjaftasögu og lygagenin mín eða öllu heldur skortinn á þeim...... Og auðvitað var þessi færsla meistaraverk á heimsmælikvarða og þó víðar væri leitað og aldrei hægt að endurtaka þessa snilld.... Það er alveg hægt að láta svona nokkuð fara í taugarnar á sér og pirrurnar jafnvel líka, en ég nenni því ekki og má ekki heldur vera að því, það eru nefnilega að koma jól !! En í dag er einn af uppáhaldsdögum vikunnar hjá mér og auk þess engin kvöldvinna alla vikuna, þannig að þegar á allt er litið þá verður þetta örugglega fínn dagur. Gangið glöð inn í meiriháttar mánudag, ég er farin í vinnunaSmile

Góðan dag :-)

Tölvuskjárinn minn dó í fyrradag og ég fór í tölvubúð rétt fyrir lokun í gær og nú ég er komin með nýjan, stærri, flottari, hreinni og auðvitað miklu betri skjá sem virkar, hann gapir ekki bara tómur framan í mig eins og sá gamli. Hann má nú líka alveg vera almennilegur, miðað við hvað hann kostaði..... Cool Ég held þetta ætli nú bara að verða ágætisdagur þó það sé frost og snjór úti og ég þurfi að fara að vinna í kvöld. Ég verð ekki að vinna kvöldvinnuna um jóladagana, en ég vinn fram á Þorláksmessukvöld og svo ekkert aftur fyrr en á Gamlárskvöld. Ég er bara ósköp sátt við þetta svona. Ég var agalega dugleg í gær og jólaðist helling hérna heima, kláraði meira að segja að hengja upp restina af myndunum sem voru ennþá á gólfinu frá því að við máluðum ganginn... Úúú dugleg, ekki nema vika síðan það kláraðist ! Tounge Það er svo gaman að jólast, þó ég sé mestmegnis ein í því, spúsi minn er ekki allra mesta jólabarnið sem ég þekki, hann vill alveg halda jól og hafa fínt og skreytt, bara ef hann þarf ekki að standa of mikið í því sjálfur.... Mér er alveg sama ég jólast fyrir okkur bæði og rúmlega það held ég. Búin að ákveða að baka heilar tvær smákökutegundir og gera laufabrauðsdeigið alveg sjálf, ekki kaupa það tilbúið núna. Vá, brjálað að gera hjá mér fyrir jólin !Wink Prentvillupúkinn vill ekkert jólast með mér heldur, en hann er alveg til í að pólast og jafnvel jónast ! Grin Gangið glöð inn í daginn og gerið eitthvað skemmtilegt, það ætla ég að geraSmile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband