... ef fólki líkar ekki við mig eins og ég er... það er algerlega þeirra vandamál og viðkomandi að sjálfsögðu frjálst að halda sig þá bara í hæfilegri fjarlægð... Ekki ætla ég að fara að eyðileggja hálfrar aldar stanslausa vinnu við sjálfa mig... fela kannski líka allskonar skemmtilegar uppgötvanir um sjálfa mig... og allar betrumbæturnar sem ég hef gert og er alltaf að gera á sjálfri mér... bara til þess að kannski líki einhverjum betur við mig... eða samt bara kannski ekki... Neeeeeei...
Og vitiði annað... síendurtekin fýluköst hjá fullorðnum manni eru andlegt ofbeldi... einfalt mál... Og það versta sem ég held að hægt sé að gera svoleiðis fýlupoka, er að þykjast bara ekkert sjá að hann er í fýlu og halda bara áfram að gera það sem maður er að gera og helst syngja hátt og snjallt á meðan... enda er viðkomandi algerlega einn um að vera í sinni fýlu og fær þá bara alveg að hafa hana í friði...Eitthvað varð ég að gera... ekki breytti ég sjálfri mér... og þá alls ekki heldur einhverri annarri manneskju... Að vísu var ég að sjálfsögðu skömmuð fyrir að kalla þetta fýlu... hefði náttulega átt að gefa þessu eitthvað virðulegt nafn eins og "þögul vandlæting" eða eitthvað álíka... En mér, í mínum endalausu leiðindum datt það sko ekki í hug, vegna þess að fýla er bara fýla og breytist ekkert þó hún heiti eitthvað annað...
Ein af góðu gjöfunum sem ég fékk við getnað er jafnlyndi... en ég fékk ekki bara góðar gjafir... ég fékk líka reiðina... Í þau fáu skipti sem ég reiðist þá verð ég svo agalega reið að ég er uppgefin á eftir... hljómar ekki vel, veit það... en ég hef fyrir löngu lært að hemja skapið mitt, samt þó án þess að láta það verða að fýluköstum... Enda ekki þekkt fyrir beiskju og biturð... ég held nefnilega að það hljóti að þurfa að vera töluvert af þeim leiðindum til staðar, til þess að maður geti orðið fýlupoki... Ég þegi nú langoftast frekar en að sleppa mér í reiði, af því að ég vil ekki segja eitthvað ljótt og særandi og þurfa svo að biðjast fyrirgefningar eftir á... Töluð orð verða ekkert aftur tekin og þau geta sært svo agalega... og það oftast bara í "hita leiksins"... þess vegna vil ég frekar "kæla leikinn" aðeins og tala þá...
Annars er ég bara svo ansans ári góð inn í vorið... og vona að þið séuð það líka...
Bloggar | 23.3.2012 | 11:53 (breytt 2.4.2012 kl. 16:53) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Mér var svona agalega kalt þegar ég var sest niður með prjónana mína hérna heima eftir vinnu í gær... og ekki skánaði það í nótt þegar ég var að gera fátæklegar tilraunir til að sofa... dottaði eitthvað eins og 85 sinnum og hrökk alltaf upp aftur... mér var svo kalt... Ég var komin með tvær sængur, tvö teppi og rafmagnshitapoka... en það skipti engu máli... Ég bylti mér á alla kanta og rausaði við sjálfa mig... vaknaði hvað eftir annað við að ég var að segja eitthvað... sjálfsagt eitthvað rosalega merkilegt, ég efast ekkert um það... en ekkert alveg gríðarlega nauðsynlegt samt, þar sem ég hélt vöku fyrir sjálfri mér með því megnið af nóttunni... Ég var síst að skilja í þessu... fyrr má nú vera vesenið... en svo gerðist það einhvertímann um fjögurleitið í nótt held ég... að það kviknaði ljós í sortanum... ég... Ninna litla... er lasin ! Þess vegna var mér svona kalt.. með hausverk dauðans... hálsbólgu út í eyru og svo stífluð að ég vaknaði hvað eftir annað til að fá mér að drekka... enda eyðimörk í munninum á mér af því að ég gat ekki andað með nefinu... Hef það mér til afsökunar að ég var svo lasin að ég hafði ekki heilsu til að láta mér detta þetta í hug fyrr...
Þurfti að hringja leiðinlega símtalið... í yfirdúlluna mína til að vekja hana svo hún gæti hringt í einhverja aðra og vakið hana til að leysa mig af... átti að vinna frá 8-16 í dag en það varð ekkert af því... Svo er ég í fríi á morgun... passar alveg, ég er svo húsbóndaholl að í þau fáu skipti sem ég er lasin þá er það að sjálfsögðu á frídögunum mínum... þess vegna hef ég svo oft fengið að heyra að ég sé aldrei lasin... en það er nú bara svona mjög vel falið ofurheilbrigði... Annars er ég bara yfirleitt aldrei lasin... nema þá einhverja mánuði í einu eins og í vetur... enda hef ég þá trú að maður eigi að gera hlutina almennilega fyrst maður er að þeim á annað borð...
En þetta kom sem sagt eins og skrattinn úr sauðaleggnum... þruma úr heiðskýru lofti og allt það... og ég hringdi auðvitað í heimilislækninn til að fá hjá honum eitthvað rótsterkt til að rífa þetta úr mér á núll einni, en honum fannst nú ekki nauðsynlegt að nota neinar sprengjur svo sem... sagði að ég yrði bara að bíta í það súra epli að verða af og til lasin eins og venjulegt fólk... En hann sendi mér samt eitthvað sem hann hefur ofurtrú á... en mér finnst vera svona eins og að nota teskeið þegar það þarf virkilega að nota ausu... og sterkar verkjatöflur... sjálfsagt svo ég svæfi bara og væri ekki að angra vinnandi fólk með rausinu í mér...
Ég er nefnilega alveg ömurlegur sjúklingur... og það er afskaplega vægt til orða tekið... ég er alveg hryllilega óþolinmóð og bregst hin versta við þegar allir vilja allt fyrir mig gera... Það er alls ekki vanþakklæti... svo ofsalega langt því frá því... mér finnst bara að ég eigi ekkert að vera veik og að ég geti bara gott og vel gert alla hluti sjálf... hvort sem ég get þá eða ekki...En svo er ég ekkert nema þolinmæðin og elskulegheitin við aðra sem eru lasnir... það virðist nefnilega einhvernveginn vera algerlega hinn handleggurinn...
Ég er búin að dorma í um það bil 12 klukkutíma og ætla bara að halda því áfram... "teskeiðin" og verkjatöflurnar eru auðvitað alveg að gera sitt gagn... og mér er strax farið að líða aðeins betur...
Veriði til friðs greyin mín... ég ætla að leggja mig smá...
Bloggar | 20.3.2012 | 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
... að meta veturinn, en núna finnst mér bara í góðu lagi að hafa hann... Enda ekki við veturinn að sakast þó mér hafi ekki líkað við hann... það var algerlega "my state of mind"... á góðri íslensku En núna þegar mér líður svo miklu betur en undanfarin ár... með sjálfa mig og líf mitt eins og það er í dag... þá er ég eðlilega ánægðari með svo margt... eins og til dæmis veturinn... það fylgir auðvitað bara minni eigin vellíðan...
Hér er glampandi sól og kalt... það marrar í snjónum við hvert skref og sólin blindar mig algerlega... en mér finnst það bara yndislegt... enda á ég hlýtt hús til að fara inn í úr kuldanum... Og ég á svo líka alveg vettlinga... þeir hlýja mér bara ekkert þegar ég gleymi að hafa þá með mér út...
Vinnan mín verður mér auðveldari með hverri vikunni... er víst ekkert alveg þolinmóðasta manneskjan í öllum heiminum og vildi helst geta talið í mínútum hversu hratt þrekið mitt kemur til baka... en það er víst ekki veruleikinn sem ég lifi í... Enda sleppur þetta alveg ef ég fæ góð frí inn á milli og reyni að segja stundum NEI þegar ég er beðin að taka aukavaktir... það er svolítið erfitt að læra það... lesist: ég held ég geti bara ekki lært það... og langar kannski ekkert að læra það heldur...
Búin að vera í fríi þessa helgi og nýt þess virkilega... eyddi gærdeginum með eldri syni, tengdadóttur og barnabörnunum í bústaðnum þeirra í gömlu sveitinni minni... Það var auðvitað frábært, en mikið svakalega var kalt þarna uppi í heiðinni... samt er þetta ekkert svo langt uppfrá...
Sunnudagur til sælu passar alveg við þennan sunnudag hjá mér... væri óskandi að allir gætu sagt það sama...
Hafið það eins gott og mögulegt er... þangað til næst...
Bloggar | 18.3.2012 | 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
... að kona sem ég þekki ekki neitt, deildi síðustu bloggfærslu frá mér... gaman að því... og yfirskriftin hennar var, að þetta væri jákvæð kona... sko ég...
Mér finnst ekki vera neitt annað í boði fyrir mig en að vera jákvæð... ég er það að vísu í eðli mínu og kyndi svo líka vel undir eðlinu svona dagsdaglega... Enda er lífið yndislegt og ekkert að mér sem er ekki bara töluvert auðvelt að lifa með...
Það sem mér finnst samt erfiðast að eiga við er þreytan og þrekleysið... eftir auðveldan vinnudag á ég ekkert að vera svo lúin að ég þurfi að sofa í einn til tvo tíma... Ekki í vinnunni samt... legg mig nú yfirleitt ekki fyrr en ég er komin heim...
Annars finnst mér ég vera að braggast að því leitinu... mér nefnilega "datt alveg í hug" að labba á fundinn sem ég er að fara á núna fyrir hádegið... Veit það er ekkert dugnaðarlegt nema að framkvæma það þá... en að ég skyldi virkilega hugsa um að gera það alveg án þess að stynja þreytulega inni í mér, er töluverð framför skal ég segja ykkur Verð oft gasalega þreytt bara við að hugsa um það sem ég er að fara að gera...
En annars ferlega góð bara... var að passa yngsta barnabarnið mitt í gær... hann var ekki lengi hjá mér en afrekaði mikið á stuttum tíma... pissaði í rúmið mitt, ataði mig alla út í banana og graut, argaði ofsalega hátt á mig þegar ég var ekki nógu handfljót að mata hann, hrellti köttinn alveg mátulega og brosti svo dásamlega brosinu sínu til mín inn á milli... Rafael Hrafn Keel Kristjánsson 8 mánaða er alveg jafn yndislegur og stóru systur hans tvær Og víst er ég hlutlaus... þó þetta séu barnabörnin mín...
Eigið góðan dag elskurnar... það kem ég til með að gera líka... sérstaklega þegar mér verður hugsað til þess sem ég ætla að gera um helgina... sem er: Að vera í fríi...
Bloggar | 15.3.2012 | 09:13 (breytt kl. 09:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þegar ég var búin í geislunum í Stockholm síðasta haust var ég ónýt... og það þótti svo sem ekkert tiltökumál, eins og einn læknirinn þar úti sagði orðrétt: "Það er eðlilegt að þér líði illa, það er búið að grauta svo mikið í höfðinu á þér... þetta lagast á 2-3 vikum..." Hm... ok, en svo leið mánuður og tveir og svo þrír, án þess að mér liði nokkuð betur... alltaf með ógleði, hausverk og svima og þá var ég send í heilasneiðmyndatöku... til að reyna að finna út af hverju ég skammaðist nú ekki til að láta mér batna eins og mér var uppálagt að gera...
Myndatakan tók fljótt af, en læknirinn sem sendi mig í þetta bað mig að doka eftir sér, hann ætlaði að kíkja á myndirnar og koma svo og tala við mig. Ég sat ósköp róleg á bekk frammi á gangi og þegar hann loksins kom var hann mikið að flýta sér, en settist hjá mér í 4 sekúndur og stundi upp lafmóður: "Ég má náttulega ekkert segja... það á eftir að senda þetta suður... en ég get ekki séð að það sé neitt í höfðinu á þér sem skiptir neinu máli" ! Svo var hann þotinn í burtu og ég sat þarna með stórt spurningamerki á andlitinu og stundi á eftir honum: "Ehheeemm... jæja já, takk... held ég..." Það er ekki til eitt einasta gramm af skítahúmor í þessum manni og hann var ekki að hæðast að mér... en hann er svolítið fljótfær og líka dulítið seinheppinn í orðavali stundum... Meiningin með myndatökunni var að athuga hvort það væri bjúgur í höfðinu á mér eða kannski fleiri æxli... sem greinilega var ekki... held ég...
Nokkrum dögum seinna hringdi hann og bað mig að koma og ræða við sig... hann vildi líka fá að sjá hversu lélegt jafnvægið mitt var... en það voru allar stofur uppteknar svo hann spjallaði bara við mig frammi á gangi. Hann bað mig að prófa að labba eftir striki sem var á miðjum ganginum... það gekk vægast sagt illa... strikið færði sig alltaf undan fótunum á mér... eða þannig... og mér fannst þetta svo fyndið að ég skellihló bara og þá auðvitað gekk ennþá verr að halda jafnvæginu... Og ekki hjálpaði að alltaf var fólk að labba framhjá og horfði frekar skringilega á mig... eðlilega, það sá þarna konu sem leit út fyrir að vera vel hífuð... og lækni sem sat flissandi á bekk og fylgdist með... Ég vil taka það fram að ég borgaði ekkert fyrir þessa skoðun...
En... bráðum er ég búin að vinna í mánuð og gengur bara vel... allavega þegar ég segi sjálf fráLegg mig að vísu alltaf þegar ég kem heim... frekar þreytt, eftir samt mjög rólegar vaktir Ég lifi eiginlega í leikriti... þar sem ég er auðvitað í aðalhlutverkinu... leik hrikalega rólega dömu, sem hreyfir sig afskaplega hægt og virðulega... En ég á það stundum... oft... til að gleyma rullunni minni og detta úr hlutverkinu og sný mér þá of hratt við, missi jafnvægið og þá er sko allur virðuleiki úr sögunni og daman auðvitað horfin með það sama... Enda hvorki minn stíll né löngun að vera virðuleg dama... en til að komast í gegnum dagana óslösuð og án þess að skaða aðra og skemma mikið, þá er eins gott fyrir mig að reyna virkilega að einbeita mér að aðalhlutverkinu í mínu eigin leikriti...
Þetta er allt saman æðislegt og mig langar líka að trúa ykkur fyrir því, að ég er óendanlega þakklát þeim sem fann upp verkjatöflurnar... án þeirra væri lífið alls ekki eins skemmtilegt og það er...
Bless í bili...
Bloggar | 13.3.2012 | 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
... svona frekar tilbreytingalausu lífi... hversdagslegu... mætti kannski kalla það leiðinlegt svona á köflum... sérstaklega undanfarna mánuði kannski... en það dugar mér alveg Samt kemur alltaf ýmislegt upp af og til sem litar þessa rólegheita tilveru mína... flest mjög ánægjulegt en annað kannski svona síður ánægjulegt... svona eins og gengur og gerist... Oft kemur þetta síður ánægjulega í skorpum... nokkra daga í röð, eitthvað sem litar tilveruna ekki beinlínis í skemmtilegu og fallegu litunum, en brýtur samt upp tilbreytingarleysið má segja... Mér finnst samt svona síður ánægjulegar óvæntar uppákomur bara yfirleitt ekkert skemmtilegar eins og gefur að skilja... minna mig of mikið á hrekki og hrekkir hafa aldrei verið í uppáhaldi hjá mér...
Á fimmtudaginn fyrir viku síðan tókst mér með einhverjum yfirnáttulegum hætti að týna lyklakippunni minni með bíl og húslyklum og fleiru... hérna inni... í þessari litlu íbúð ! Ég er auðvitað aldrei með allt á hreinu frekar en aðrir, en lyklar og veski er eitthvað sem ég er búin að venja mig á... og eiginlega bara tuska mig til í gegnum árin... að hafa alltaf á sama stað... það kemur sér svo afskaplega vel... sérstaklega þegar ég þarf að nota þetta dót...
En þarna sem sagt klikkaði eitthvað... og kippan hreinlega hvarf... ég tætti alla íbúðina sundur... og fann ekkert... eða jú ég fann auðvitað ýmislegt, en bara ekki lyklakippuna... Ég á alveg varalykla bæði af bílnum og íbúðinni en mér er alveg sama... ég á ekki að geta týnt þessari kippu... þess vegna líka hef ég mikið á henni svo hún sé áberandi og minni líkur á að hún hverfi... en hún gerði það nú samt...
Jæja... daginn eftir var ég að vinna fram undir kvöldmat... kom dauðþreytt heim og ákvað að setjast bara við tölvuna og láta líða úr mér... kveikti á henni eins og lög gera ráð fyrir og beið... og beið... og beið... en ekkert gerðist... Skjárinn var alveg jafn svartur og líflaus eins og áður en ég kveikti á henni... alveg sama hvað ég reyndi... öskra á hana... hrista hana... henda henni í gólfið... hoppa ofan á henni... virkaði samt ekki... kannski svona smáýkjur... Jæja... svo ég fór bara að horfa á sjónvarpið og ákvað að versla mér nýja tölvu daginn eftir... á laugardeginum... gæti örugglega fundið stund til að skreppa úr vinnunni til þess...
Sem ég og gerði... hentist úr vinnunni í tölvubúð eftir hádegið á laugardeginum... valdi eina sem mér leist vel á... rétti kortið yfir borðið... og því var hafnað... ! Þá allt í einu mundi ég eftir bréfinu sem ég fékk þarna einhvertímann um daginn... þar sem stóð að NÝJA kortið mitt væri tilbúið og biði bara eftir mér í bankanum... þarna kortið sem ég ætlaði að sækja daginn eftir að bréfið kom... Og þetta þurfti auðvitað að vera á laugardegi þannig að ég gat ekkert henst í bankann og sótt kortið og klárað málið... svo ég hunskaðist út úr búðinni... með enga tölvu...
Það varð mér til happs að ég var að vinna frá morgni til kvölds þessa helgi og ef ég þurfti að nota tölvu gat ég gert það á vinnustöðunum mínum...
Mánudagurinn var æðislegur... þá fór ég og sótti nýja kortið... keypti tölvuna... og sonurinn fann lyklana mína... Þeir voru á eina staðnum í íbúðinni sem mér fannst engin ástæða til að leita á... það væri nú svo heimskulegt að halda að lyklarnir mínir gætu verið þar: Á gólfinu í geymslunni... undir flöskupokanum..... ! Ég kenni kettinum að sjálfsögðu um það... já, þetta er nefnilega alveg stórundarlegur köttur, hann kemur ekkert inn með mýs eða fugla... nei, hann kemur inn með krossfiska og lifandi ánamaðka... Og dundar sér svo ábyggilega þess á milli við að fela fyrir mér hlutina... ha... ?
Annars bara ferlega góð inn í fína vinnuhelgi...
Bloggar | 9.3.2012 | 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
... ég er byrjuð að vinna aftur eftir næstum því hálfs árs slugs í leti og ómennsku... já eða svima og hausverkjum öllu heldur... Ég er annars ferlega góð, svoleiðis... er á rólegu vöktunum enn sem komið er, en er samt gjörsamlega uppgefin þegar ég kem heim... en ekki lengur óglatt af þreytu eins og fyrstu dagana Fékk svo hjartanlegar móttökur bæði hjá skjólstæðingum og samstarfsfólki að ég er að hugsa um að fara alltaf í löng veikindafrí á hverju ári, það er svo gaman að koma aftur... Nei, bara að bulla... en allt þetta yndislega viðmót minnti mig bara enn og aftur á af hverju ég dýrka vinnuna mína...
Ég vildi svo óska þess að ég gæti haldið því fram með réttu að ég hefði þróað með mér þolinmæði á þessu hálfa ári... en það get ég bara alls ekki, þá væri ég að ljúga... Hefði virkilega þurft rauðvín og róandi í dágóðum skömmtum svona um það bil á hverjum degi, þegar það var farið að grilla í jólin og ég ekki ennþá orðin vinnufær... Hef ekkert lagast í þeirri deildinni... hef enga þolinmæði í svona kjaftæði, sérstaklega þegar lagt var upp með það í upphafi að þetta yrðu bara svona 2-3 vikur... en ekki 23 vikur ! Og svo vissi enginn hvenær þetta mundi lagast og einstaka sérfræðingur var svo farinn að hvísla þarna ljóta orðinu "hvort" í staðinn fyrir fallega orðinu "hvenær" ! Þá var bara um tvennt að velja fyrir mig... spennitreyju og lokaðan gúmíklefa á Kleppi eða vinnuna... og ég valdi vinnuna...
Það voru nú ekki allir sammála mér um að ég gæti farið strax að vinna, en ég er að sanna að ég get það víst... enda með eindæmum þrjósk og gefst aldrei upp... og er komin í vinnuna til að vera... nema á morgun, þá er ég í fríi... og ætla í klippingu...
Góð vinkona mín sem mér þykir undurvænt um er að skilja við manninn sinn... þau eru bæði yndislegt fólk og þetta gengur ótrúlega rólega og friðsamlega fyrir sig eftir því sem ég best veit. Samt er alltaf til fólk sem "heldur með" öðrum aðilanum... það hefur mér alltaf fundist svo innilega fáránlegt... ég held alltaf bara með börnunum þar sem þau eru í spilinu og engum öðrum. Ef þau væru að skilja af því að annað hefði níðst á hinu, þá mundi ég taka afstöðu með þeim/þeirri sem níðst var á... en þegar ekkert svoleiðis er til staðar þá sé ég ekki að það þurfi eitthvað að skipta liði... einmitt ekki !
Ég skildi til dæmis ekki við sambýlismanninn til 10 ára af því að ég er svo vond kona... og ekki heldur af því að hann er svo vondur maður... þannig að það þurfti alls ekkert að skipta í lið þar. En hans fólk "stóð auðvitað með honum" og flest af því hefur ekki talað við mig síðan... en það er auðvitað frjálst val, ég neyði engan til vináttu við mig... Ég skildi við hann af því að mér fannst hann leyfa sér að verða allt of gamall andlega miðað við árin sem hann var búinn að lifa... hann hafði allt of mikla minnimáttarkennd fyrir minn smekk... fannst virkilega passa að reyna að stjórna mér með fýluköstum og var afskaplega ósáttur við að mig langaði ekki að drekka áfengi... Það að ég skyldi ekki gera sjálfri mér það að lifa við þetta miklu lengur, er mitt mál og það þarf enginn að fyrtast neitt fyrir mína hönd... en það gerir mig heldur ekki að vondri konu sem fólkið þarf að forðast í tryllingi... prófi þau bara að búa með honum... Og hann er ekkert vondur maður... þó honum finnist engin ástæða til að vinna í sjálfum sér og reyna að losa sig við hina ýmsustu ósiði, þá er það barasta algerlega og eingöngu hans vandamál Enda vona ég að fólkið mitt sé ekkert að forðast hann... það er enginn mannsbragur á því... það er að segja ef hann er eitthvað að reyna að hafa samband við það... sem ég veit bara ekkert um Við erum alveg sama fólkið og þegar við bjuggum saman... við bara búum ekki saman...
Annars ferlega góð sko... og alveg elska það að vera byrjuð að vinna aftur... ef það skyldi nú virkilega hafa farið fram hjá einhverjum
Og kannski er ég líka bara byrjuð að blogga aftur...
Bloggar | 7.3.2012 | 23:04 (breytt 8.3.2012 kl. 00:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
... og ef ég segi ekki frá því þá kannski fer það fram hjá ykkur öllum... ! Er nefnilega alveg að verða búin að pakka niður jólaskrautinu og það er bara þrettándi janúar... Það var nú samt ekki svo mikið skraut uppi... enda ekkert risastór íbúð, alveg nógu stór samt... held ég sé bara með 1/10 af skrautinu mínu hérna...
Fer alltaf hlutfallslega mest fyrir jólapappírnum og öllu pakkaskrautinu mínu... Ég á alltaf utan um fimm sinnum fleiri pakka en ég gef... og gef þó slatta... og kaupi svo meira fyrir næstu jól af því að ég man ekkert hvað ég á og alltaf viss um að ég eigi aldrei nóg... Ein af skemmtilegu jólahefðunum mínum...
Mér finnst dagurinn í dag miklu lengri en gærdagurinn... en fróðir segja mér að það muni samt bara 7 mínútum... það er sem sagt þetta fræga hænufet.... Ég á mun auðveldara með janúar núna en ég hef átt í mörg ár... ég hlakka bara til að takast á við hann og svo febrúar líka... þetta hafa sko vægast sagt ekki verið uppáhaldsmánuðirnir mínir lengi-lengi... en núna er þetta ekkert mál Enda engir leiðinda "aðskotahlutir" að flækjast fyrir mér lengur... Og heilsan getur ekki gert annað en að batna... ég er búin að ákveða það og ég er þvílíkur þverhaus að það er ekki hægt að fá mig ofan af því...
Málið er að ég hef það rosalega gott í lífinu, ég á allt og hef allt sem mig langar í nema tvennt og ég er að vinna í því... Annað er heilsan... get að vísu ekkert gert til að hraða henni nema að sýna þolinmæði... svolítið mótsagnakennt... En "hitt" sem mig langar í læt ég ekkert uppi um fyrr en ég er komin með "það"...
Eigið góðan dag elskurnar... flýtið ykkur hægt í hálkunni....
Bloggar | 13.1.2012 | 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
... núna skín til dæmis sól hér á norðurslóðum... svona eins glaðlega og hún er fær um á þessum árstíma... dagurinn í dag er lengri en gærdagurinn... veit um slatta af feykilega flottu fólki sem er að hætta að reykja... og ég kemst alltaf aðeins nær því að ná fullri heilsu og komast loksins aftur í vinnuna mína Mér finnst bara full ástæða til að brosa breitt yfir þessu öllu...
Auðvitað er líka alltaf eitthvað... bæði gott og vont... að gerast í þjóðmálunum, en af því að ég setti mér þá reglu þegar ég byrjaði að blogga hérna að blogga ekki um fréttir, þá verðið þið bara að lesa þær sjálf einhversstaðar annars staðar En það skal tekið fram rétt si sona til öryggis, að það er mér og mínum algerlega að meinalausu þó aðrir bloggi um fréttir... ég bara geri það ekki
Þegar ég hætti að reykja... fyrir rúmum 2 árum síðan... þá fóru svo margir sem þá reyktu alveg í flækjur, fóru sumir flikkflakk og heljarstökk líka... Ég held að fæstir hafi fattað þegar ég reyndi að útskýra, að það var bara eitt sem breyttist við það að ég hætti að reykja... og það var það: "Að ég hætti að reykja" ! Mér var og er alveg sama þó fólk reyki... mér kemur það ekkert við... ég bara reyki ekki sjálf
Mér hefur sjaldnast tekist að vera með ofstæki... held ég... sem er eiginlega stundum svolítið slæmt kannski... Það kemur til dæmis algerlega í veg fyrir það að ég djöflist í einhverri líkamsræktarstöðinni oft í viku... enda með aukakíló sem eiga alls ekki að vera... en það er algerlega bannað, eins og auðvitað allir vita En... mér er bara alveg sama... ef mér fer að líða illa með þeim þá losa ég mig við þau... alltaf verið dugleg að losa mig við það sem mér líður illa með... og þangað til hef ég engar áhyggjur...
Búin að prjóna lopapeysu á sjálfa mig... og byrjuð á annarri... grobba mig af því á Feisbúkk og fæ óspart hól fyrir... Það er ferlega fallega hugsað og mér þykir virkilega vænt um það, en mér finnst samt varla ástæða til að hæla mér fyrir að gera bara það sem mér finnst gaman... Ég er nefnilega í þeirri aðstöðu... að vísu ekki að eigin vali... að hafa tíma til að dunda mér við hitt og þetta... og monta mig svo hægri/vinstri af því litla sem ég geri...
Mig langar alveg ofsalega til að fá mér hund... mér hefur tekist að hemja mig hingað til og á svona frekar von á að mér takist það eitthvað framvegis... en mig langar samt í hund... alveg virkilega !
Bara ein tegund af broskörlum hjá mér í dag... bara aþþí bara... vona að ég verði ekki farin að gelta þegar ég skrifa hérna næst...
Bloggar | 12.1.2012 | 13:22 (breytt kl. 13:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
... ég nefnilega steindrap jólatréð mitt ! Ég er trjáníðingur ! Er það ekki eitthvað sollis ?
Ég fékk mér "Jólatré með framhaldslíf" alveg með rótum í potti, þarna rétt fyrir jólin... svakalega góð með mig, nú átti sko að vera umhverfis og náttúruvæn sem aldrei fyrr og planta því svo út, svona einhvertímann með vorinu... Það getur alveg verið að ég hafi eitthvað misskilið þetta með framhaldslífið samt... kannski var bara verið að meina að það gengi aftur... í næsta lífi... eftir jólin... Nú eða þá að ég hef gleymt að lesa leiðbeiningarnar þar sem stóð skýrum stöfum: "Ekki fyrir trjáníðinga eins og Jónínu Dúadóttur, heimilisfangið hennar, kennitalan, öll símanúmerin og skóstærð..."
Ég notaði náttulega margvíslegar aðferðir við drápið... byrjaði á að umpotta hrísluna, tók hana úr stóru svörtu fötunni sem hún kom í og setti í fallegan dall með nýrri mold... og vökvaði greyið og úðaði yfir það vatni... Sinnti því svo ekkert meira þann daginn... bara nennti ekki meiru... en tók mig svo til daginn eftir og slengdi á jólahrísluna 200 ljósa seríu... Það eitt og sér hefði sjálfsagt átt að vera nóg... það er örugglega ekkert grín að vera með svoleiðis hangandi á sér í tvær vikur... en til þess að kóróna nú allt saman hengdi ég svo líka alls konar dót á greyið... næstum því hverja einustu grein... vonda kona...
Jólahríslan var ekkert þakklát fyrir þetta allt saman... og það þó ég vökvaði hana samviskusamlega eins og mér var sagt... hún byrjaði að moka af sér barrinu og skrautdótinu á þriðja degi jóla... ég kenndi að sjálfsögðu kettinum um... hvað annað ? Þegar ég var búin að vera alla jóladagana að elta jólakúlur út um allt og undir allt og sópa endalaust barri upp af gólfunum og slasa mig ef mér svo mikið sem datt í hug að vera berfætt... þá fór ég að bölva kettinum.... en auðvitað bara í huganum, annars hefði elsku kisa litla (lesist:kattarskrattanum) sárnað svo mikið... Já, einmitt...
En þetta var svo ekkert kattarskrattanum að kenna... ég bað hann samt ekkert afsökunar á að hafa bölvað honum... það er þá bara fyrir eitthvað annað Framhaldslífsjólahríslan mín hefur líklega verið í andaslitrunum þegar hún kom hér inn... og það litla sem var eftir af líftórunni í greyinu tókst mér að murka úr henni með ofangreindum aðferðum... auðvitað viljandi
Núna stendur afturgengna framhaldslífsjólahríslan mín úti í snjónum... og bíður eftir því að komast í gám...
Bloggar | 5.1.2012 | 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Bloggvinir
- jokapje
- rannug
- jonhans
- jogamagg
- ammadagny
- hneta
- asthildurcesil
- olapals
- heidihelga
- brylli
- juljul
- naflaskodun
- majaogco
- jyderupdrottningin
- ollana
- skrifa
- tofraljos
- stafholt
- ringarinn
- tigercopper
- engilstina
- himmalingur
- einari
- linka
- duna54
- unns
- skjolid
- kaffikelling
- heidamagg
- heidathord
- lehamzdr
- oliskula
- fjallkona1
- gattin
- sur
- hugskotid
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 173098
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar