Hef ekki hugsað mér að drepa neinn í dag....

... algerlega í öðrum gír núna. Á eftir er ég nefnilega að fara í fjarskalega virðulegt hlutverk og skreppa í heimsókn á leikskólann til sonardóttur minnar, hennar Lindu Bjargar. Það er svona ömmu og afa kaffidagur. Það verður örugglega gaman og ég get alveg lofað ykkur því, að ég verð alls  ekkert virðulegri en venjulegaTounge  Sú stutta er tveggja og hálfs árs, að flýta sér að verða fimm ára og er fyrsta barn barnanna minna, fyrsta blóðbarnabarnið mitt... oj það ekkert fallegt að segja það svoleiðis. Það eru fimm ár síðan ég varð amma í fyrsta skipti og ég varð alveg svakalega hrærð og með ólíkindum grobbin ! Þá spurði önnur tengdadóttir spúsa míns mig, hvort stelpurnar þeirra mættu kalla mig ömmu... "Heyrðu... elsku dúllan mín... bara já takk sko" stamaði ég út úr mér afskaplega virðulega, eins og mín er von og vísa. Þessar yndislegu dúllur voru þá 3 og 4 ára og eru fyrstu barnabörnin mínInLove  Síðan leiddi eitt af öðru og flest öll hin kalla mig líka ömmu, meira að segja þær stelpur sem komu með tengdadætrunum inn í hjónaböndin og mér finnst þetta algert æði ! Að vísu eru þrjú af þessum ellefu barnabörnum, sem kalla mig ekki ömmu allavega ekki opinberlega, af því að ég er syndug kona...... við spúsi erum nefnilega ekki gift...Devil  En það er alls ekki frá blessuðum börnunum komið og þá alls ekki mér heldur, það eru foreldrarnir sem velja fyrir þau.....Halo En þessar litlu elskur ruglast oft á þessu og kalla mig samt ömmu og ég elska það og dettur ekki í hug að leiðrétta þaðHeart Vona innilega að þið njótið dagsins, ég ætla að fara að flétta á mér hárið og fara í peysufötinGrin

Ég, vonda konan.......

.... var komin með örugga kosningu í embætti formanns Vondukonufélagsins og átti á hættu að mér yrði útskúfað úr mannlegu samfélagi.... Ég lét mér nefnilega detta í hug um daginn, að taka köttinn ekki með þegar við flytjum. Nei, ég ætlaði samt alls ekki að skilja hann eftir hérna í fjallinu og nei, ekki bara henda honum út á Guð og gaddinn. Ég ætlaði sko að láta.... sem sé lóga honum...Cool  Og álpaðist auðvitað til að segja þetta upphátt ! Mér fannst ég færa ferlega fín rök fyrir þessari djöfullegu ákvörðun minni, en það voru nú alls ekki allir sammála því. Ætt mín eiginlega umturnaðist og á tímabili leit út fyrir að ég yrði munaðarleysingi, ættlaust óbermi sem enginn vildi neitt af vitaFrown En ég stend auðvitað keik með mínum ákvörðunum og hélt því fram að það væri ennþá ljótara að gera einhverjar tilraunir á blessuðu dýrinu og sjá bara til hvort fullorðinn kötturinn, óendanlega sérvitur í þokkabót, mundi fást til að samþykkja nýtt heimili, niðri í bæ. Hann hefur aldrei þolað allt þetta smíðabrölt í okkur hérna uppfrá, en um leið og við flytjum, förum við að rífa allt innan úr eldhúsinu og endurnýja það og það verður ekki flóarfriður eða kattar.... Mér mundi líða illa ef hann bara léti sig hverfa og ég vissi ekkert hvar hann væri og hvernig hann hefði það !Crying Og af því að ég stend keik með mínum ákvörðunum, þá fór ég í huganum að plana, ég er svo mikið fyrir að gera áætlanir og ég byrjaði : Sko, ég þarf fyrst að fá lánað búr og finna upp einhverja aðferð til að koma kettinum inn í það, án þess að standa stórslösuð eftir.... Ég þarf að hringja í dýralækninn og segja hvað ég vil láta gera við köttinn, hvað segir maður ? Ég þarf að setja búrið í bílinn og hlusta á köttinn emja eins og væri verið að pynta hann, alveg eins og þegar ég fór með hann í ormahreinsunina um árið.... Ég þarf að fara með búrið inn til dýra...Blush Og af því að ég stend keik með mínum ákvörðunum, þá er ég búin að ákveða að loka köttinn inni í þvottahúsi á nýja heimilinu, þangað til hann gefst upp og samþykkir að eiga heima þar !GetLost Góðar stundirSmile

Ég gef skít í...

... hverra manna fólk er, hverrar þjóðar, hvernig hárið á því er á litinn, hvað það á mikla peninga, á hvað það trúir, hvort það vill ganga í strigaskóm allt árið, hvað það borðar eða eitthvað annað sem skiptir ekki máli. Mér hefur alltaf fundist að venjulegt og eðlilegt fólk ætti að vera hátt yfir allt svoleiðis smámunakjaftæði hafið ! En mér er alls ekki sama hvernig fólk er innrætt ! Ein frétt er búin að vera að þvælast fyrir mér á netmiðlum og ég ætlaði ekki að lesa hana, vegna þess að ég vissi sem var að mér yrði óglatt af reiði... og gæti alls ekkert gert nema rífa kjaft og ekki náð í helvítin til að lumbra á þeim... Las fréttina svo fyrir rest í morgun.... og varð auðvitað brjáluð og tek það út á ykkur hérna, af því að ég er ein heima, með kettinum og það er ljótt að níðast á dýrum. Fimm menn gabba konu inn í íbúð og nauðga henni.... Hvað fer í gang inni í hausunum á mönnum ??? Hvað hafa þeir lært af lífinu og hefur allt manneskjulegt farið algerlega fram hjá þeim, alla ævina... Ég veit ekki einu sinni hvar ég á að byrja... Hvernig samræður eru það, sem eiga sér stað þegar svona áætlun er búin til ? Ekki það að mig langi neitt sérstaklega til að vita orðaröðun eða annað... en halló ! Þarna er kona, hún er ein, við erum fimm, við ráðum alveg við hana, gefum henni lyf og þá eigum við auðvelt með að nauðga henni..... ???? Nú þarf ég að æla.....  Ég er ekki ofbeldisfull í eðli mínu, en svona nokkuð getur hæglega gert mig að ofbeldismanneskju og ef ég hitti þessa menn mundi ég hiklaust ráðast á þá og reyna að gera þeim allt illt... þó vitandi að það að það lagar ekkert fyrir veslings konuna.... gert er gert.... en ég mundi samt gera það !! Og ég hlusta ekki á neitt kjaftæði um að hún þetta og hún hitt, það kemur málinu ekkert við, hún er fórnarlambið, það var ráðist á hana með ógeðslegum hætti og það kemur bæði út á mér tárum, vekur mér ógleði og hrikalega reiði og nú er ég hætt..... Ég er í drápsstuði, hreinlega....

Frestur er á illu bestur........

Fyrirsögnin á ekki mikið skylt við innihaldið, þetta er bara eini málshátturinn sem ég man eftir með orðinu "frestur" !Crying Nú er búið að fresta því um viku, að ganga frá kaupunum á Fjallakofanum, af því að kaupendurnir eru að stofna hlutafélag um eignina..... Af hverju datt mér það aldrei í hug ? Æi.... asnaleg spurning, af því að mér dettur aldrei neitt í hug í sambandi við peninga nema að eyða þeim... Wink Ég verð aldrei þannig að ég spari við mig í ellinni og leggi aurana mína frekar inn á bók, til að eiga fyrir jarðarförinni minni. Þekkti gamla konu sem gerði þetta.... í alvöru ! Hún ætlaði ekki að tíma að kaupa sér kuldastígvél eitt haustið, af því að þá yrðu kannski færri blóm í kirkjunni.....Shocking Og þegar ég fór í búð fyrir hana, þá átti ég að leita að vörum sem voru komnar fram yfir síðasta söludag og fá þær með góðum afslætti eða helst náttulega ókeypis. Mér datt það ekki í hug, það eru nú takmörk fyrir því hvað ég er góð við gamla fólkiðLoL Þessi samt yndislega kona, var með mynd eftir Kjarval hangandi á vegg í stofunni, metin á einhver hundruð þúsund og ég skil það nú ekki, mér fannst þetta alls ekki falleg mynd. Hún var með fleiri svona rándýrar fjárfestingar á veggjunum í litlu íbúðinni sinni, sem ég auðvitað fattaði ekkert fyrr en hún sagði mér það.... sérfræðingurinn égTounge   Samt sat hún og norpaði í hálfkaldri íbúðinni á veturna, af því að hún tímdi varla að kynda. Hún átti tvö syni sem báðir voru hátekjumenn í Borg óttans og ég hélt því fram að þeir gætu sko gott og vel, borgað fyrir að láta hola henni einhversstaðar niður, enda voru þeir ekki að fara fram á neitt svona, en hún lét sig ekkert með þetta blessunin. Ég vil taka skýrt fram, að þetta er svo sannarlega alls ekki lýsingin á mér sem gamalli konu, ekki fræðilegur möguleikiGrin  Njótið dagsins, það er farið að birta um sjö leitið, æðislegt InLove Smile

Það er svo gaman að hlakka til !

Núna er hún loksins komin á skrið, vikan þegar allt á að gerast í húsakaupa og sölumálunum hjá okkurJoyful Kaupendur Fjallakofans báðu um frest til föstudags til að klára málið og ég á nú frekar von á að það gerist eitthvað áður en hann rennur upp. Annað væri duuulítið dónalegt, vegna þess að þá höfum við bara hálfan mánuð til að losa og afhenda húsið. Þó ég vinni nú hratt í þau fáu skipti sem ég nenni eitthvað að hreyfa mig, þá finnst mér samt hálfur mánuður til að útvega húsnæði og flytja, vera svolítið knappur tímiCool En það er þetta með straxveikina eins og góður mágur minn orðaði það.... ég er líklega frekar illa haldin af henni.... En það er allt í lagi, hún er krónísk hjá mér og ég kann núorðið bara nokkuð vel á hana og skemmtilegra að orða það þannig, frekar að segja að ég sé að drepast úr frekju, sem þó væri kannski nær lagiDevil  Las, heyrði og sá, að í gær var þetta fína veður fyrir sunnan, ekki hér... bara endalaus slydda og hríð og bólar ekkert á neinskonar vorboðum....Tounge Þessa viku vinn ég kvöldvinnuna og fer líka að pakka niður, geri meira hérna heima eftir því sem ég vinn meira úti. Ferlega bjánalegt eiginlega, en ég hef alltaf verið svona og nenni ekkert að vera að breyta því, nóg annað sem þarf að breyta til hins betraWink  Það er endalaust eitthvað til að hlakka til næstu mánuðina fyrir utan flutningana okkar, ég fer i fermingu í Keflavík í apríl, útskrift í Gautaborg í júní og Erna systir flytur til landsins í júlí, með alla fjölskyldunaInLove  Löngu kominn tími á það ! Ætla að fara og finna eitthvað til að hlakka til inn í daginn og vona að þið njótið hans líkaSmile

Húsmæðranámsefni 103

Spúsi minn fékk ekkert að koma nálægt marengsbotnabakstrinum... ok.. kaupunum í Bónus í gær, vegna þess að ég var fullviss um að ég og ég ein, væri fær um að koma þeim heilum í hús. Það var nú eitthvað annað ! Þeir hefðu ekki getað verið meira í maski þó ég hefði setið á þeim í bílnum á leiðinni heim og troðið þeim svo inn í gegnum póstlúguna, ef ég væri með hanaPinch Þannig að ég byrjaði þennan, annars dásamlega sunnudagsmorgun á að messa aðeins yfir þeim Bónusfeðgum, á meðan ég var að reyna að sópa marengskurlinu úr formunum og upp á botnana... Að vísu bölvaði ég ekki þeim feðgum neitt, datt þeir bara alls ekkert í hug fyrr en akkúrat núna, það er bara svo algengt að fólk sé eitthvað að hnýta í þá greyin... ég má líkaTounge Þetta hafðist nú fyrir rest, með flísatöng og stækkunargleri, sóp og fægiskúffu og dyggri aðstoð spúsa míns og með því að fela marengsöreyndirnar svo með þeyttum rjóma og súkkulaðikremi, þá varð útkoman tvær girnilegar tertur... sem ég hef enga lyst á að borða....Grin Enda bakaðar fyrir hina ýmsustu harmónikku-unnendur sem ætla að mæta á tónleika í dag og troða sig út á tertum á eftir. Ég er sko fyrir löngu síðan hætt að nenna að baka, kvótinn kláraðist fyrir þó nokkuð mörgum árum síðan og ég rata líka það vel hérna í bænum, að ég veit alveg hvar bakaríin eruWink Þetta var bara svona smá afgangur af gömlu kerlingagrobbi sem tók sig upp, þegar mér datt í hug að gera þessar tertur svona, í stað þess að kaupa þær bara, ég líka tímdi því ekkert....Devil Njótið sunnudagsins, í messu eða ekkiSmile


145. af 497....

... eða eitthvað svoleiðis... Svona tölur eru svo oft við sápuóperur, datt í hug að setja þetta við mína sápuinnréttingaróperuTounge  Að vísu ekkert að gerast í þeim málum, nema bara að bíða og bíða og bíða..... og bíða aðeins meira, eftir að afhenda hús og fá afhent hús. Svo allt í einu verður allt komið á fullt skrið áður en ég veit af og skil ekkert til hvers ég er nú að sleppa mér út í þessa óþarfa óþolinmæði. Væri nær að eyða kröftunum í að pakka niður eða eitthvað álíka gáfulegt. Þess vegna sit ég auðvitað í tölvu frammi í eldhúsi, ennþá búandi í Fjallakofanum og var í uppáhalds orðaleiknum mínum, Bookworm og núna að bloggaWhistling Ég þarf að baka tvær tertur fyrir morgundaginn og það er minnsta málið í öllum heiminum, ég er búin að baka 2 botna og 2 marengs..... og öll veröldin hlær núna, ég keypti þetta auðvitað í Bónus ! Svo þeyti ég rjóma og sletti út í hann ávöxtum og súkkulaði, dúndra þessu á og þá eru komnar tvær þessar fínu terturGrin  Að vísu er nú eins og mig minni að það sé hægt að gera þetta einhvernvegin öðruvísi, eitthvað með að baka sjálf... iss nei nei nei, það hlýtur bara að vera einhver vitleysa í mérWink  Er að fara að passa örverpið í barnabarna hópnum okkar í kvöld, foreldrarnir, eldri sonur minn og hans ekta kvinna eru svo miklir sukkarar, að þau vilja geta komist út að minnsta kosti eitt kvöld í mánuði ! Svo koma þau alltaf heim rétt eftir að barnið sofnar svo að ég er yfirleitt ekki búin með nema hálfa blaðsíðu í bókinni sem ég er að lesa heima hjá þeim, þegar ég passa þar. Ég er komin á blaðsíðu 5 ! Pinch Þetta eru alvöru sukkarar verð ég að segja, skyldi vera til meðferð við þessu....Wink  Ég er nú að hugsa um að fá bókina bara lánaða, annars verð ég ekki búin með hana fyrr en litla prinsessan mín fermist og líklega verð ég löngu hætt að þurfa að passa hana þáInLove  Njótið þess að vera í fríi í dag, þeir sem eru svo heppnir að eiga frí og þar á meðal er égSmile

Bara grautur....

.... í hausnum á mér þessa dagana.... Crying Var að byrja að stressast upp út af flutningunum og öllu sem ég þarf að gera fyrir mánaðarmótin.... Arg, ég þoli ekki þegar ég fer að stressa mig út af engu, í rauninni. Það sem þarf að gera, veit ég alveg að ég geri bara og nú er ég búin að gera lista yfir það flest og strika svo bara yfir jafnóðum.... að vísu ekki búin að strika yfir neitt, af því að ég er ekki búin að gera neitt... Tounge Stress hægir á mér og það er aldrei hægt að sjá það utan á mér, ég stressast inn á við. Á margan hátt er gott að hafa þessa bremsu, þá geri ég ekki neitt í bráðræði og hugsa, ja svona af og til, áður en ég framkvæmi. En á hinn bóginn getur það líka verið slæmt, af því að ég vel bremsuna ekki sjálf og sumt þarf nú að framkvæma og ákveða í einum grænum..... En þetta hefst allt saman á endanum og eftir á hlæ ég svo að sjálfri mér og skil ekki af hverju í andskotans ósköpunum ég er enn einu sinni, að gera mál úr litluLoL Ég lagast víst ekkert hér eftir... eina ráðið til að útrýma þessum ósköpum væri líklega að skjóta mig, en þá má ekki !Devil Við vorum að láta teikna upp innréttinguna í nýja/gamla eldhúsið í gær og mæ ó mæ.... bara dásamlegt ! Ég ákvað að sleppa innbyggðu kaffivélinni, sem átti að vera í stíl við innbyggða örbylgjuofninn og innbyggða bakaraofninn, hún kostar hundrað og égveitekkihvaðíósköpunumþúsund og kaffi má nú vera helv... gott fyrir þann pening. Enda sko ætlaði ég aldrei að fá hana, sagði bara spúsa það þegar hann fór fram á tvöfaldan ísskáp, til að reyna að ganga fram af honum... og það tókst sko alls ekki ! "Auðvitað færðu innbyggða kaffivél elskan" sagði hann bara og sló vopnin algerlega úr höndunum á mér...GetLost  ... það er alls ekki í fyrsta skipti og líklega ekki síðasta, en ég ætla sko ekkert að fara að segja ykkur þaðBlush  Óska ykkur yndislegs dags, í öllu sem þið takið ykkur fyrir hendurSmile

Innlit/Útlit ;-)

Það er búið að vera dásamlegt að búa hér uppi í fjallinu undanfarin sjö ár, engin bílaumferð við húsið, einungis 2 önnur hús hér, kyrrð og ró og stutt niður í byggðInLove Tekur 7 mínútur að keyra niður í miðbæ, með stoppum á öllum rauðu ljósunum, það eru 5 eða 6 umferðarljós á leiðinni. En það er samt einn og hálfur km bara niður á veg og ég hef svo sannarlega látið það koma í veg fyrir, að ég labbaði spönn úr rassg... í búð eða eitthvað annað. Svo þarf sko að labba upp brekkuna einn og hálfan km, til að komast til baka og það er auðvitað hvorki mögulegur fræðileiki né fræðilegur möguleiki, að ég hafi nokkurn tímann nennt þvíTounge Nú verður aldeilis breyting á, á nýjum stað.... hús báðum megin og á bak við og þessi fína umferðargata fyrir framan húsið. Að vísu stendur þetta hús óvenju innarlega á lóðinni, svo að umferðin er eins langt frá og hægt er, svona í miðað við mannabyggð. Nú er ég á fullu að ákveða hvar allt á að vera í nýja eldhúsinu okkar, fórum í gær og völdum innréttingu og tæki. Eldhúsið okkar hérna uppfrá, er tæpir 6 fm og ég er búin að sitja sveitt við, í nokkra mánuði að reyna að teikna það upp svo að það litla pláss sem þar er, nýtist sem best. En ég er sloppin frá því, en í staðinn farin að reyna að finna út hvað í ósköpunum ég á að gera með allt þetta pláss í tæplega 20 fm eldhúsi, þarna er nefnilega smá munur áGrin  Stóð mig að því í gærkvöldi að vera að velta fyrir mér hvort skápur ætti að vera 40 eða 60 cm breiður..... hvort hann kæmist þá fyrir....W00t Sumir eru bara miklu lengur að fatta en allir aðrir.... Whistling  Njótið dagsins elskurnar, ég ætla að fara að slá um mig með eldhússkápum... á blaðiSmile

Góðir hlutir gerast hææææægt........

.... og ég veit það alveg og skil það stundum, en það er ekki þar með sagt að þolinmæðin mín skilji það endilega.... Blush Ég vil kannski bara hafa það á hinn veginn, láta vonda hluti gerast hægt... eða nei annars, það er kannski bara betra að vondir hlutir gerist hratt, því fyrr eru þeir yfirstaðnir. Og leyfa góðum hlutum að gerast hægt, þá er hægt að hlakka lengur til.... Best að stoppa þetta áður en ég fæ svima, hugsa svo oft í hring og allt of oft í öfugan hring... Shocking Auðvitað er flottara að segja að ég sé að velta hlutunum fyrir mér.... Cool Nú erum við enn og aftur búin að skrifa undir kauptilboð í húsið, sem við erum að falast eftir og fáum endalega endanlegt svar, ekki seinna en á hádegi í dag. Þrátt fyrir alla þessa endalausu skriffinnsku fram og til baka, þá er þetta víst allt lagalega bindandi, en samt með fyrirvörum hér og þar, um fjármögnun kaupanda. Ég hefði nú haldið að það færi engin út í að gera kauptilboð í hús, nema að hafa peninga til að borga það með, en það er víst allt til í því, annars væri þessi fyrirvari líklega ekki til á blaði. Þegar, með einu litlu lagalega bindandi ef-i, við fáum húsið þá byrjum við á að hreinsa allt út úr eldhúsinu og þá meina ég allt ! Innréttinguna, gamla hræðilega ljóta parketið á gólfinu og öll ljósin líkaGrin Það má kannski segja að ég sé komin aðeins fram úr sjálfri mér með þetta, ég á það nú aðeins til, en fasteignasalinn er svo duglegur að telja mér trú um að bara formsatriðin séu eftir, þannig að ég er sko búin að ákveða hvernig nýja eldhúsinnréttingin á að vera ! Og bara svona í leiðinni, þá er ég búin að raða inn í húsið og eiginlega ekkert annað eftir en að flytja allt draslið á staðinnWhistling Ruggustóllinn minn flotti, sem er eiginlega búinn að vera svolítið á hrakhólum, síðan ég laug hann út úr tengdadóttur minn hérna um árið, hann verður til dæmis í suðvesturhorninu á stofunni, bara svo þið fáið nú örugglega að fylgjast með í smáatriðumTounge   Njótið dagsins elskurnar mínar og kíkið inn á vinsældarlistann hérna norðaustan megin á síðunni, frá mér séðSmile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband