Allir mínir, nær og fjær :

Góðan og blessaðan mánudag ! Þá er það frá og ekki mikið meira um það að segja..... Smile Íbúðin okkar hérna í Fjallakofanum er hægt og rólega að breytast aftur í mannabústað, en mjööög hægt og alls ekkert stress í gangi í þeim tilfæringum, enda stress sagt afar óhollt. Ég er verulega flink að finna alls konar afsakanir fyrir letinni í mér og þetta er ein af þeim ! En af einhverjum furðulegum ástæðum er ég alltaf duglegri hérna heima, þá vikuna sem ég vinn líka kvöldvinnuna og þá á ég erfitt með að stoppa, sem er afskaplega fínt fyrir það sem gera þarf hérna, en ábyggilega alveg bráðóhollt... er ég viss um... Wink  Það er 5 stiga hiti í dag og að venju líkist okkar yndislega íslenska veðrátta, heilastarfseminni í brjálæðingi eða ástandinu í borgarstjórnarmálunum í höfuðborginni, ekki nokkurt einasta vit í því... En það er þó ekki tilbreytingaleysinu fyrir að fara, sem er stundum gott. Við eigum þessa fínu kerru hérna úti og hún er að fyllast af alls konar drasli, sem þarf svo að fara með og flokka í gámana hérna niðurfrá. Okkur fannst við svo sannarlega hafa himinn höndum tekið á laugardaginn, þegar maður vildi fá hana lánaða og héldum að þarna væri komin aðferðin til að auka okkur leti og sleppa sjálf við að losa hana. Meðan við þurftum á því að halda að fá lánaða kerru, kom stundum  fyrir að við þurftum að losa sjálf, til að geta notað hana og fannst það allt í lagi, bara svona sem "takk fyrir lánið". En þessi ágæti maður var þá ekki ferskari en það að hann kom uppeftir, sá að það var eitt rúm og smá möl á kerrunni og þurfti þá allt í einu, bara alls ekkert á kerru að halda.... hann um þaðLoL  Við höldum þá bara áfram að safna á hana þangað til einhver þarf virkilega á henni að halda eða við bara losum hana sjálf við tækifæri. Þetta orð þarna "við" lesist: "spúsi", hann fær nú trúlega að hafa heiðurinn af því, á meðan ég er að vinna Tounge  Njótið dagsins í alls konar veðriSmile

Algjör steypa.....

.... einu sinni voru blöðin á þessum fáu blómum sem ég á, græn.... flest húsgögnin eru með grárri slikju, samt er ég nokkuð viss um að ég keypti alls ekkert þann lit..... þegar gengið er of hratt á gólfunum hérna, gýs upp grá þoka sem verður til þess að ég villist í 80 fermetra íbúð.... það eru harðir sólar á öllum sokkunum okkar... þetta sem á höfðinu á öðrum kallast hár, líkist mest hampi á höfðinu á mér.... ég er með kæk, renni fingrunum upp í gegnum toppinn og ryð honum frá, er að verða búin að venja mig af honum af því að hendin festist bara og svo er ég að verða gráhærð á þessu öllu saman..... held að vísu að það sé steinrykið, sem veldur.... WinkAnnars er bara flott að vera gráhærð og þá væri líka einhver nefnanlegur litur á hárinu á mér, skolhært hefur mér aldrei fundist  vera litur. Það er sem sagt allt í steinryki hérna og bætir aðeins á með morgninum, þegar við förum loksins að steypa ofan í helv... skurðinn á ganginum, ofan á vatnslögnina sem er núna komin ofaní hann ! Þá kemur ný tegund af ryki, sementsrykið ! Alltaf gaman að fá svolitla tilbreytingu í lífið.... eða hvað... GrinOg svo er mesta verkið eftir... það er að þrífa eftir þetta allt saman ! Ég vinn við að hjálpa öðru fólki að þrífa, en það er alveg greinilegt á þessari íbúð, að ég er ekki ein af þeim sem tek vinnuna neitt ákveðið með mér heim... yrði sjálfsagt rekin ef einhver sæi þettaTounge Ekki það að mér liggi yfirleitt á að gera hreint hérna, ég er allt of löt til þess en ef oft var þörf, þá er núna nauðsyn.... Spúsi er alveg óður í að fá að fara að þrífa.... eða nei nei, það eru helber ósannindi, ljótt að ljúga svona upp á fólkið sitt og það löngu fyrir hádegiDevil Njótið þess að það er kominn laugardagur og fjúkið nú ekki í vonda veðrinuSmile


Af fólki.......

Ég legg yfirleitt ekki í vana minn að blogga um fréttir og er ekkert að fara að breyta því, er líklega allt of sjálfhverf til þess..... En áðan las ég frétt um fólkið í Laufási, prestsetrinu í Grýtubakkahreppi, minni gömlu sveit. Presturinn er dáinn, hann Pétur, einn mannlegasti prestur sem ég hef kynnst og það er mikið hól frá mér um prest. Ég hef alltaf haldið því fram og stend við það að konan hans hún Inga, var og er að Pétri heitnum algerlega ólöstuðum, alltaf meira en helmingurinn af öllu þarna, ég held það sé ekkert sem sú kona getur ekki gert. Annar sonur þeirra byggði sér hús á jörðinni og er þar með stórt fjárbú, en er nú gert að flytja húsið í burtu, samkvæmt þeim samningum sem voru gerðir þegar hann fékk að byggja þar í upphafi. Sem sagt þegar nýr prestur tæki við, yrði hann að fara í burtu með húsið og nú er komið að því, en þá eru allir og hann líka, algerlega á móti því að hann flytji vegna þess að þá þarf hann líklega bara að hætta búskap. En... æi, var það ekki vitað í upphafi að prestsetur erfast ekki til barna prestsins... í þessu tilviki bara því miður, vegna þess að jörðin Laufás hefur verið rifin rækilega upp í höndunum á þessari fjölskyldu. Ég hefði aldrei lagt á mig alla þessa vinnu við það, einmitt vegna þess að það var alltaf augljóst, að þau mundu ekki fá að halda jörðinni þegar presturinn væri ekki lengur til staðar. Jörðin fylgir algerlega og eingöngu prestsembættinu og einu þakkirnar sem þau fá fyrir að byggja allt upp þarna eru, að þau verða að flytja í burtu. Mér finnst þetta í raun svolítið vandræðalegt mál... Það gekk nýlega undirskriftarlisti í sveitinni til stuðnings prestssyni og ef ég byggi þar ennþá, þá hefði ég svo sannarlega skrifað á hann ! Það er kominn föstudagur, njótið hansSmile


Vegalengdir = hugarástand.... ?

Það er til fólk sem ímyndar sér, að það sé svoooo langt að keyra hingað uppeftir í Fjallakofann og ég veit alveg af hverju það er, það eru engin hús við veginn og þú sérð Hlíðarfjallið koma nær og nær,  við hvern ekinn metra. Frá Hlíðarbraut og hingað heim á plan eru 1,5 kílómetrar... 1500 metrar. Ef ég fer frá sömu gatnamótum út í Síðuhverfi, þá er það miklu lengra í kílómetrum, en það eru bara svo mörg hús á leiðinni og virðist þá ekki eins langt. Þess vegna velti ég því upp, að vegalengdir séu í raun hugarástand. Ég er sjö mínútur að keyra héðan frá húsinu stystu leið niður í miðbæ, á löglegum hraða og þó ég lendi á rauðu ljósi á öllum ljósunum á leiðinni niður Þingvallastrætið, oft búin að taka tímann á því. Þegar ég bjó á Grenivík, þá fannst mér ekkert tiltökumál að renna í bæinn, það er að segja Akureyrarbæ sko, enda þurfti svo mikið að sækja þangað og að gömlum og góðum sveitasið, notaði maður auðvitað ferðina og heimsótti fólk í leiðinniCool En það var sjaldgæfara að fólk kæmi í heimsóknir úteftir enda eru engar stofnanir eða verslanir þarna útfrá, sem fólk þarf eða verður að heimsækja í leiðinni, þannig að það virðist vera miklu lengra þangað. Mér fannst það auðvitað ferlega fúlt á meðan ég bjó þar og gerði óspart grín að kílómetramælum blessaðra malbiksbarnanna, þeir mældu fleiri kílómetra ef ekið var í norður, en ég skyldi þetta samt alvegWink Og ég skil þetta ennþá betur í dag og veit alveg að það er miklu lengra þangað úteftir en hingað í bæinn, það er að segja Akureyri sko. Þarna útfrá er fullt af yndislegu fólki, sem mér finnst gott að hitta, en ég hef ekkert haft mig í þá langferð að renna þarna úteftir, samt verið svo heppin að hitta margt af því hér í bænum af því að það er ennþá, miklu styttra hingað en héðan..... Blush Vegalengdir eru bara hugarástand, ég er búin að sanna það á sjálfri mér, á hávísindalegan hátt ! Gangið kát og hress inn í fínan fimmtudagSmile

Ég er alltaf "fyrirmyndarhúsmóðir"....

... á ÖskudaginnTounge Það er engin hætta á að ég þurfi að standa undir nafni, af því að í dag kemst maður upp með að þykjast vera eitthvað sem maður er ekki.... draugur, Silvía Nótt, kúreki, Solla stirða, Súpermann, prinsessa, indíáni, kokkur eða fyrirmyndarhúsmóðir e.t.c. En ég er ekki í búningi samt, ég á enga svuntu og hef það fyrir stefnu í lífinu að eignast hana ekki, alveg eins og það að ég bóna ekki bíla, moka ekki snjó og fikta ekki við eiturlyf. Það er sannarlega ekki hægt að segja að ég sé stefnulaus í lífinuWink Ég var líka alltaf harðákveðin í að eiga ekki teppabankara, en Birna systir var svo elskuleg að senda mér einn núna fyrir jólin og fyrst ég skrifa þetta núna, þá á ég það líklega á hættu að vera orðin svuntueigandi áður en ég veit af..... svona er það, að hugsa ekki áður en maður talar... skrifar... Blush Ég ætla aldrei þessu vant ekkert að kvarta yfir snjónum, er nú aðeins sáttari við hann þegar hann skammast til að vera til friðs og meðan bætir ekki á. Og þó ég geti átt það á hættu að eyðileggja orðspor mitt sem snjótuðarinn leiðinlegi, þá verð ég að segja að fátt er nú fallegra en snjór í sólskini...... en mér finnst líka allt fallegt í sól.... eða næstum því allt. Annars ættuð þið kannski ekkert að vera að koma hérna inn á síðuna mína, ég held ég sé með ælupest..... Annað hvort það eða ég er ólétt... hahahahahaha ! Sjensinn ! Gangið glöð inn í daginn, ég á stefnumót við fötuSick


Mér finnst liggja í augum uppi....

... að ég er alls ekki mamma kattarins okkar hérna ! Fólk má mín vegna kalla sig mömmur, pabba, syni eða dætur gæludýranna sinna, þó mér finnist það alltaf svolítið furðulegt, en kötturinn er svo sannarlega ekki sonur minn og þar af leiðandi er ég alls ekki mamma hans.... Shocking  Bara svo það sé á hreinu ! Þetta er vinnudýr, sem við fengum okkur fyrir nokkrum árum vegna þess að hér voru mýs og þó ég hafi þá verið löngu hætt að nenna að hafa gæludýr inni á heimilinu, þá vildi ég af tvennu illu frekar hafa kött en mýs. Ég þoli ekki hárin af þessum greyjum út um allt og það má kannski segja að það væri þá betra að hafa mýs upp á það til að gera, það ber örugglega minna á því þegar þær eru með  hárlosTounge  Kötturinn, sem heitir Lúkas er fyrir löngu síðan búinn að gera sjálfan sig atvinnulausan, hann var svo afspyrnu duglegur að hreinsa svæðið í upphafi, að það sést ekki ein einasta mús hérna lengur. Á móti kemur að það sést ekki einn einasti fugl hérna heldur, en það er nú líklegast bara kallað fórnarkostnaður. Við eigum samt eitt sameiginlegt kötturinn og ég, við viljum ekki sjá snjó ! Núorðið liggur hann bara á meltunni og mætir inn í eldhús í hvert skipti sem ég fer þangað, vegna þess að hann veit fyrir víst, að við erum alltaf að fá okkur eitthvað miklu betra en það sem hann greyið er látinn éta..... þurrmatur... ekki enn einu sinniW00t Hann er virkilega snyrtilegur fyrir utan það þegar hann er að bíta af sér heilu dúskana og dreifa þeim hérna á gólfin, en ég er nokkuð viss um að það gerir hann til að hefna sín á mér, fyrir slælega frammistöðu í matarmálunum hans og hann veit sem er, að mér finnst alveg afspyrnu leiðinlegt að þrífa. Blandan steinryk, vatn og kattahár er verulega ógeðsleg...... Gangið glöð inn í daginn og klæðið ykkur vel út í hvíta ógeðiðSmile  

Ég er búin að fá nóg....

... af steinryki, rjómabollum og snjó.... GetLost  Verst með bollurnar ! Mér datt í hug áðan að ef það væri til eins mikið af góðmennsku í heiminum og snjó, þá væri töluvert annar bragur á mannlífinu og þá öllum fréttum líka, á öllum miðlum..... Það væri ljúft ! Það er virkilega til fólk sem elskar snjóinn og saknar þess að hafa hann ekki !! Komið þið þá bara, til dæmis til Akureyrar, við eigum nóg handa öllum. Ég hringdi í yfirmann moksturssveitarinnar hjá bænum í hádeginu á föstudaginn og bað um mokstur á heimreiðina hérna. Það eru líklega um það bil 14 manns sem búa í þessum 2 húsum og nota þessa heimreið og hún er nokkurnvegin ófær fyrir fólksbíla. Við gerðum samning, þessi ágæti maður og ég á árum áður, ég á að hringja þegar mér finnst þurfa að moka og nú finnst mér þurfa að moka og þeir hafa alltaf komið eins og skot. En ekki núna, það er mánudagsmorgun og enginn mættur til að moka, þannig að ég hringi á eftir, á mínútunni átta og endurtek beiðnina, mjög svo kurteislegaDevil  Annars er ég alltaf kurteis og ég meina það í alvöru, það nefnilega kostar ekkert að vera kurteis, en á móti kemur að maður getur grætt helling á því. Bara að passa sig að fólk fái ekki þá fáránlegu hugmynd að kurteisi sé það sama og vesaldómur. Og segja til dæmis frekar : "Þér eruð fífl, herra minn" í staðinn fyrir "Þú ert fífl, mannandskoti". Smá kennslustund í kurteislegum dónaskap eða dónalegri kurteisi, ég er ekki alveg búin að ákveða hvað námskeiðið á að heitaTounge   Gangið kát og hress inn í mánudaginn, ég ætla að gera það líka... kurteislegaSmile

Brotið og bramlað....

Æi, hvaðan kemur allur þessi snjór eiginlega ? Er nú ekki kominn tími til að fara að skrúfa fyrir ?Wink Að vísu hef ég ekkert verið að dunda mér með málband úti í sköflunum, hef átt nóg með að reyna að komast upp úr þeim, en ef smiðsaugað svíkur mig ekki, þá er kominn meira en metri af jafnföllnum snjó og það bara á 3-4 dögum. Og ég sem er að vinna kvöldvinnuna akkúrat þessa dagana og kemst alls ekki upp með að vera bara inni, eins og mig langar mest til að gera.... Blush Það er að vísu fínasta líkamsrækt að klofa svona skaflana í 3-4 klukkutíma á hverju kvöldi, en á það verður að líta að ég var ekkert á leiðinni í líkamsrækt, en ef svo væri mundi ég gjarnan vilja sjálf fá að ákveða aðferðina. Og það yrðu sko alveg örugglega engar vetraríþróttir sem ég mundi stunda ! GetLost En nóg af væli, ég lofaði að næst þegar ég bloggaði yrði ég á kafi í steinryki og stend við það. Spúsi er búinn  að brjóta upp helminginn af rásinni í gólfið og afganginn klárar hann í dag. Áður en við  lögðum í það stórvirki að búa okkur sjálf til íbúð hérna niðri í Fjallakofanum, þá var ég nú á þeirri skoðun að skítur væri bara skítur, en þá var ég sko ekkert búin að kynnast steinryki......Pinch En það er hiti á öllum ofnum, sem hefur komið sér sérlega vel undanfarna tvo daga í 10-12 stiga frostiTounge   Gangið glöð inn í daginn og verið góð við sjálf ykkur og (flest)alla hina líkaSmile   

Ég segi það enn og aftur.....

... að ég er eftirlætisbarn tilverunnar ! Auðvitað mætti píparaskr... passlega í vinnu hingað, til að koma heita vatninu inn á ofnana rétt í þann mund sem mesta frost í sögu þessa vetrar skall á. Mig grunar nú samt að það hafi kannski hjálpað örlítið að ég var ekkert mikið hlýlegri en ofnarnir hérna, þegar ég var að tala við hann og kannski líka það að ég gefst aldrei upp og svo kannski líka það, að ég er svakalega ákveðin (lesist: frek) þegar ég vil fá mitt fram....  En takið eftir því að ég er ekki að fullyrða neitt um neitt, ég setti þarna nokkur kannski !Wink En aðalatriðið er, að þegar ég loksins komst nú heim úr vinnunni í gærkvöldi, rennblaut í fæturna eftir að vaða snjóinn upp fyrir hné við öll húsin sem ég fór í, þá var nú verulega notalegt að koma heim í hlýtt hús með heitum ofnum.  Ég get aldrei hætt að undrast spéhræðslu fólks, held það hljóti að kallast það, þegar fólk klæðist bara því sem er í tísku í svona veðri og færð, en ekki eftir aðstæðum. Alls, alls ekki láta sjá sig í eðlilegum fötum, sem halda á manni hita og skóm sem passa fyrir færðina. Jakkaföt, bindi og blankskór telst alls ekki hentugur klæðnaður og ekki heldur hælahá leðurstígvél, stuttur jakki og flegin bolur innundir. Ég sé alltaf töluvert af fólki svona klæddu í norðan stórhríðinni hérna... Ekki tapa "coolinu" gott fólk Cool Mér er alveg sama þó fólk sjái mig í hlýju úlpunni minni og rúskinnsstígvélunum, í þykkri peysu og með stóra trefilinn minn, en það verður nú líka að segjast eins og er að ég hef aldrei átt gott með að tolla í tískunni..... Hef lítið nennt að standa í því síðan ég var unglingurWink Verkefni þessa fína laugardags er að fara og ná í brotvél og brjóta rás í gólfið frá hitakompunni og hingað inn í íbúðina. Þar ofaní fer rör, sem tekur við affallsvatninu frá ofnunum og kemur því í svelg hérna inni. Gengur ekki að hafa grænu garðslönguna lengi svona yfir gólfið og inn á litla baðið frammi. Ég kem að vísu ekki til með að annast það verk sjálf, spúsi sér um það og ég stunda þrælahald, skilst mérGrin Gangið glöð inn í daginn og látið ykkur líða vel þangað til ég skrifa næst... á kafi í steinrykiSmile


Með allt niður um mig hvað ???

Það kemst fátt annað að á heimilinu þessa dagana en hitaveitan og allt í kringum hana. Píparaskr.. barasta kominn til vinnu hér í Fjallakofanum og það á að klára dæmið í dag. Leit samt ekki vel út í nokkrar mínútur í gær, bæði fyrir mig og svo píparaskr.... hann hringdi í mig í gærmorgun klukkan tíu og sagði að ég gæti ekki fengið heita vatnið inn af því að ég væri með allt niður um mig hjá Norðurorku ! Djö...dóninn eða er þetta einhver spes píparamállýska.... Pinch  Málið var, að ég hafði  ekki fengið neina rukkun fyrir heimtaugargjaldið og á líka ekkert að þurfa að biðja einhvern um að rukka mig, svo ég hringdi í Norðurorku og fékk að vita að ég yrði að borga 260.716 krónur áður en maður frá þeim yrði sendur á svæðið, með eitthvað mæladót og það þurfti þá að gerast ekki seinna en strax... fyrr fengi ég ekki einn einasta dropa af heitu vatni. Jæja manni minn, viltu segja mér hvers vegna í ósköpunum það er ekkert rukkað fyrir þetta, fyrr en píparaskr... er loksins mættur á svæðið og farinn að munda rörtöngina ? "Þú ert alls ekkert með neitt niður um þig hjá okkur, þetta er bara alltaf gert svona". Jæja... þarna bættist mánuður við seinkunina á greiðslunni til píparaskr..., honum hefnist fyrir dónaskapinn Devil  Ég sagði N.O. manninum í símanum að ég mundi hrista þetta út úr annarri erminni Wink strax eftir vinnu, svo hann skyldi gjöra svo vel að taka frá mann og mæladót handa mér og ekki klikka á því takk, það væri aldrei að vita hvað yrði um píparaskr... ef ég sleppti honum núna. Fyrir utan það að dælan sem á að dæla heita vatninu á ofnana, er ennþá biluð og henni virðist ekkert ætla að batna, svo þetta verður að gerast núna eða þá að ég dey langt fyrir aldur fram, úr kulda ! Hvernig er annars hægt að deyja fyrir aldur fram ? Stendur einhversstaðar skrifað hvenær ég ætti annars að deyja ? Get ég dáið áður en ég á að deyja ? Hmm... svakalega eru þetta nú tilkomumiklar og bráðnauðsynlegar pælingar.... Gangið glöð inn í þennan alveg hreint  frábæra föstudag og látið ykkur nú ekki verða kaltSmile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband