Þar sem er líf...

... þar er von ! Í gær hringdi hingað maður, sem spurði hvernig það hentaði að hann kæmi hingað um hádegi í dag. Hann kynnti sig ekkert, svo ég spurði auðvitað til hvers hann ætlaði að koma hingað. "Halló, þetta er ég, píparinn" ! Ha... pípari hvað er það ? Ja hérna hér og ég sem hélt að þú værir dauður, Dánarfregnir og Jarðarfarir farið framhjá mér, eins og alltaf og jarðaförin hefði farið fram í algjörri kyrrþey !! Til hvers ætlar þú að koma hingað ? "Nú að setja upp fyrir þig hitavatnsgrindina" sagði uppvakningurinn... Nú jæja væni minn ætlarðu að koma strax á morgun og hvað tekur þetta svo langan tíma ? "Bara svona tvo dagparta" sagði iðnaðarmaður í útrýmingarhættuDevil  Og það er ekki vegna þess að þeir eru svo sjaldgæfir, heldur er það vegna þess að það sauð næstum því á mér við að fá að vita það, að  verkið sem ég er búin að vera að bíða eftir að láta vinna í 4 mánuði, tekur svo ekki nema svona tvo dagparta ! Ég var nokkuð viss um að þetta hlyti að vera mjög stíf vikuvinna, minnsta kosti, fyrst það tók hann marga mánuði að hafa sig í það.... Pinch  Ég hef, svona  ykkur að segja, ákveðinn byggingameistara grunaðan um að hafa sparkað aðeins í vissan pípara, þegar hann rakst á hann í byggingavöruverslun á mánudaginn ! Sá var nefnilega búinn að taka að sér að finna fyrir mig þessa tegund af iðnaðarmanni eða ýta við eintakinu sem ég var að bíða eftir ! Jæja, jæja, píparinn fær líklega að lifa aðeins lengur, en það veit sá sem allt veit, að hann kemur til með að þurfa að bíða eftir borgun í nákvæmlega jafnlangan tíma og ég er búin að bíða eftir vinnunni hans Whistling Annars er ógeðslegt veður hérna núna, norðan stórhríð og ekki nema eftir öðru að þessi margumtalaði pípari verði veðurtepptur einhversstaðar og komi ekkert um hádegi í dag..... Aldrei á vísan að róa með iðnaðarmennWink Gangið vel klædd inn í fínan fimmtudagSmile

Ætli þetta sé kallað hissukast... ?

Ég verð alltaf svo hissa þegar það er hægt að ausa í tryllingi, tugum og hundruðum milljóna króna í til dæmis listamannalaun, gamla húskofa, utanlandsferðir heilu nefndanna til að skoða eitthvað ofsalega ómerkilegt sem engum kemur að gagni, menningarhús og fleira og fleira, ekkert mál, nóg af peningum ! En svo þegar kemur að því að ræða um að bæta aðstæður fólks, sem hefur ekki efni á að borða, fara til læknis eða eiga hlý föt í kuldanum hérna, svo eitthvað sé nefnt, þá er ekki hægt að gera neitt í neinum hvelli... og þá eru ekki til neinir peningar sko ! Og það er líka svo agalega flókið að taka ákvörðun um, hvernig í ósköpunum á að fara að því... hvurslags eiginlega vanvita erum við með þarna við stjórnvölinn ? Ég  kann ekki að svindla og ljúga mig áfram í lífinu, get ekki með nokkru móti farið flikk flakk og heljarstökk, er ekki háskólagengin og á enga ógeðslega fína og ríka vini, en ég á mjög auðvelt með að útskýra hvernig það er hægt að gera þetta ! Það þarf að taka ákvörðun um að leggja x upphæð strax, við  lúsarlaunin sem þeir tekjulægstu hafa og leggja inn á reikningana þeirra !!! Svo er til þjónusta hjá öllum bönkum í landinu, þar sem boðið er upp á að skrá fasta upphæð í hverjum mánuði, sem fer svo sjálfkrafa inn á vissa reikninga, fyrir þá sem eiga það til að gleyma hvað þeir ætla að gera um hver mánaðamót... Þarf virkilega að senda fólkinu sem stjórnar þessu landi, svona einfaldar hálfvitaleiðbeiningar með þessu ? Er þetta ekki augljóst ? Taka nokkrar milljónir af launum listamanna, ég er ekkert að segja að þeir megi ekki fá neitt... leggja aðeins minni kostnað í menningarhúsin, enginn að segja að það megi ekki byggja þau... senda aðeins færri nefndir í allar þessar tilgangslausu utanlandsferðir, auðvitað verða einhverjir að fá að fara... mikil ósköp, en það er hægt að nota símana og internetið miklu meira en gert er og losa sig við gömlu ónýtu húskofana og leyfa þeim sem eiga peninga að byggja eitthvað sem hægt er að nota. Eyða svo þessum sparnaði í þá sem minna mega sín ! Svo þegar  við öll hin, sem erum ekki á lúsarlaunum og getum alveg keypt í matinn og átt hús og bíla og farið í utanlandsferðir og haldið jól, förum að arga um að við viljum líka fá meiri pening, þá er bara að segja okkur að halda kjafti, rétt eins og  gert er við gamla fólkið og öryrkjana, þegar þeir hópar koma fram með sínar kröfur ! Og gangið svo inn í góðan dag með forgangsröðunina á hreinu Cool      

Nú ætla ég að halda framhjá ...

... píparanum, sem ég er búin að bíða eftir að komast í samband við síðan í október í fyrra ! Góður bloggvinur minn benti mér nefnilega á að píparar nota hvorki klukku né dagatal, þeir miða bara við fyrir eða eftir Krist ! Og til þess að eiga ekki á hættu að þurfa að bíða eftir endurkomu Krists, til að fá hitaveituna virkjaða hérna inn á ofnana, þá er sem sé hafin leit að öðrum pípara. Ég heimsótti aldraða vinkonu mína á sjúkrahúsið í gær, var búin að herða mig upp í það síðan rétt eftir jól... Ég var að segja henni undan og ofan af helstu atburðum mánaðarins í Fjallakofanum og hún var svo hneyksluð á tilfinnanlegum skorti á loforðaefndum píparaskrattans, að hún hringdi í góðan vin sinn, sem er byggingameistari og heimtaði að hann reddaði mér pípara, ekki seinna en í fyrradag ! Bíð eftir að heyra frá honum. Hún er algjör nagli þessi konaHeart Ég er alltaf að reyna að láta eins og janúarmánuðir ævi minnar geti alveg verið skemmtilegir, en það kemur langoftast á daginn að þeir eru það ekki.... Nú er þessi að verða búinn og hann er sko búinn að vera alveg jafn draugalega óskemmtilegur og hinir ca 45 sem ég þykist muna eftir, þýðir ekkert að vera að setja Pollyönnuna á það, svona er þetta bara.... en í næsta janúar verð ég búin að gleyma því og byrja upp á nýtt að ímynda mér...... Wink  Það er ekki mikið að gera í kvöldvinnunni hjá mér þessa viku, ein konan er í hvíldarinnlögn, en fer sjálfsagt að koma heim fljótlega og önnur var hreinlega plötuð til að flytja inn á elliheimili. Mér finnst það svo ljótt, af því að ég veit að börnin hennar láta hana þangað, til þess að þau þurfi ekki að hafa fyrir henni..... Hún vildi alls ekki fara og margir aðrir hafa meiri þörf fyrir það en hún, en henni var fylgt út í bílinn í gærmorgun og látin halda að hún væri að fara í dagvistina og fær svo barasta ekkert að fara heim aftur. Ég er svo að vinna hjá einni, sem vill og þarf að fara á elliheimili, en fær ekki pláss og hjá fjörgömlum hálfblindum og heyrnarlausum manni sem neitar að fara og kemst upp með það, líklega vegna þess að hann á engin börn Devil Legg ekki í að skrifa meira um þetta hérna, fer frekar út og skeyti skapi mínu á snjóskafli eða svellbunka.....Pinch Gangið hress og spræk inn í þennan fína þriðjudag og verið góóóóðSmile

Það var brjálað veður hérna...

... þegar ég vaknaði í morgunJoyful Það var nú eiginlega þjófavörnin á Nissaninum mínum sem vakti mig, þolir ekki vont veður og hefur sjálfsagt viljað komast inn og ég skil það vel. Hann blikkaði ljósunum í erg og gríð og baulaði eins og belja í bráðri lífshættu eða eitthvað. Mér fannst frábært að hugsa mér að ég væri veðurteppt hérna í fjallinu og kæmist bara alls ekkert í vinnuna, enda fer  ég ekki að hætta lífi og limum fyrir ryk í gólfteppi og kusk í glugga, það er ekki þess virði, en ef ég væri að fara að bjarga mannslífi mundi ég náttulega æða út. En það var eins og óveðursguðinn væri bara að bíða eftir því að ég færi að ímynda mér að ég væri eitthvað forréttindapakk sem gæti setið heima á kaupi, á meðan aðrir væru að vinna.... ég var varla búin að sleppa hugsuninni út í loftið þegar  rokið datt niður, rétt eins og það væri skotið á færiCool  Þá er það ónýtt, það er brostið á með algerri rjómablíðu hérna og ég fer í vinnuna klukkan tíu... en það kostar ekkert að láta sig dreyma ! Tounge Það er ennþá ekkert lífsmark með dælunni sem á að dæla heita vatninu á ofnana hérna, að vísu eru ofnarnir uppi allir heitir, hefur eitthvað með einhverskonar uppgufun að gera, nenni ekki að skilja það. Ef það er eins og hel... ég meina auðvitað blessaður píparinn segir, að hann ætli virkilega að byrja á hitaveitugrindinni okkar í þessari viku, þá borgar sig nú ekki að fara að reyna að finna aðra dælu, sem verður svo bara rifin niður eftir nokkra daga, þegar og ef það kemst einhvertímann hitaveita inn í þetta hús. Ætli sé til einhver verndardýrlingur fyrir pípara ?Devil  Gangið glöð inn í nýja vinnuviku og njótið lífsins eins og kostur erSmile    

Hlýtt og gott !

Fórum í leiðangur í gær og fengum lánaða lausa ofna út um allan bæ, svo núna er aftur orðið hlýtt í Fjallakofanum, húsgögnin komin úr hættu og langeldurinn settur á bið. Útsýnið mitt hérna út um stofugluggann er fallegt en ekki að sama skapi hlýlegt, snjór og frost en aðeins farið að birta. Ég sé beint upp á skíðasvæðið, allt uppljómað nema lyfturnar og bílarnir fara bráðum að streyma upp eftir  með skíðafólk á öllum aldri. Ég fer ekki á skíði, mér þykir of vænt um alla mína skanka til þess og sé ekki ástæðu til að leika mér að því að leggja sjálfa mig og aðra í hættu, viljandiGetLost Mér tekst alveg að slasa mig án þess og svo finnst mér ekkert gaman að snjó og kulda, kannski orðin gömul... Tounge Fatta ekki fólk sem fer úr snjónum og kuldanum hérna, til útlanda til að fara þar í snjó og kulda.... ég færi auðvitað þangað sem væri sól og hlýtt ! Annars er þetta allt ferlega fínt, ábyggilega ! Gangið, ja eða skíðið, glöð og hress inn í góðan dag og farið varlega í hálkunniSmile

Þolinmæðin mín.....

... var nokkurnveginn að verða uppurin í gær. Ég komst inn á allar síður í tölvunni minni, nema moggabloggið og ætlaði ekki einu sinni að geta sent póst til umsjónarmannanna til að geta kvartað yfir þessu og það fannst mér eiginlega verst. Ég svo sem gat alveg skammað bara einhvern úti á götu fyrir þetta en það hefði líklega ekki þýtt neitt..... Til að bæta nú gráu ofan á svart, þá datt netið alltaf út annað slagið og þá yfirleitt þegar ég þurfti að nota það. Og til að gera þetta nú virkilega almennilega, þá hætti dælan, sem hafði það hlutverk að dæla heitu vatni inn á ofnana hérna í húsinu, að sinna skyldu sinni og píparinn, sem kom bara 6 tímum á eftir áætlun, hafði engin önnur  ráð en að reyna að finna aðra dælu.... á mánudaginn ! Það er sami píparinn sem ætlar að koma og smíða hitaveitugrindina okkar í október...... 2007 ! Svo kannski, en bara kannski, kemur hann þá með nýja dælu í júlí..... Þá verður mér vonandi aftur hlýtt, en mér kólnaði bara ennþá meira þegar ég sá veðurspána fyrir næstu daga.... 10 stiga frost á þriðjudaginn. Ef þið sjáið mikinn reyk leggja út úr Fjallakofanum næstu daga þá er það bara ég, byrjuð að höggva húsgögnin niður í langeldinn, sem ég er að útbúa hérna á stofugólfinu. Ég veit alveg að ég get unnið mér til hita með því að þrífa hérna inni eða eitthvað svoleiðis, en ég bara nenni því ekki, drepst sjálfsagt frekar úr kulda. Svo í morgun þegar ég ætlaði að koma hérna inn og kvarta yfir þessu öllu saman, þá datt netið út aftur og aftur og aftur..... Það er inni núna samt og þá auðvitað nota ég tækifærið og grenja hérna yfir ykkur. Njótið dagsins og sendið mér nú fullt af hlýjum hugsunum hingað uppeftir í stóra rauða frystigáminn í fjallinuSmile  

Til hamingju með daginn drengir mínir :-)

Las í Sjónvarpsdagskránni auglýsingu frá blómabúð hér í bæ, að allir karlmenn vilja fá blóm á bóndadaginn..... LoL  Helíum rugl, ég þekki einn mann sem hefur gaman af því að fá blóm, það er elskulegur mágur minn á Ólafsfirði og ég færi honum líka blóm þegar ég heimsæki hann. Svo varð einn góður bloggvinur minn uppvís af því að kaupa sér blóm sjálfur og mér finnst það æði. Ég kasta ekki perlum fyrir svín og ég gef ekki spúsa mínum blóm, einfalt mál. Hann er ósvikinn hellisbúi og skilur ekki tilganginn með blómum..."það væri nú nær að kaupa í matinn í staðinn, það er ekkert hægt að borða þetta".... Hann færir mér heldur ekki blóm, nema þá að ég neyði hann til þess, eins og ég gerði t.d. á fimmtugsafmælinu mínu í október í fyrra. Hann kann þetta ekki og lærir varla héðan af og það gerir mér ekkert til, ef mig langar í blóm þá er ég alveg fullfær um að kaupa þau sjálf. Að vísu verð ég að kjafta því um hann, að hann hefur oft komið heim og sagst hafa verið að hugsa um að kaupa handa mér blóm..... þannig að hann er rosalega oft næstum því búinn að gefa mér blóm... Blómahugsunin hefur sjálfsagt bara alltaf tekið snarpa U-beygju og endað í kjötborði í Hagkaupum eða Hrísalundi.... Enda fær hann engin blóm í dag, en ég keypti saltkjöt og baunir til að hafa í kvöldmatinn í tilefni dagsins og ég veit að það gleður hann "skrilljón" sinnum meira en blómvöndur mundi gera og er þá ekki tilganginum náð ?Wink  Há e ell vaff í té i essnetið er búið að detta út nokkrum sinnum í morgun og ég hringdi eins og vant er, í Vodafón og bað þennan yndæla dreng sem svaraði að endurræsa nú portið hjá mér... Setning sem ég er búin að læra í gegnum tíðina af því að það gerist aðeins of oft fyrir minn smekk að þetta er ekki í lagi. En hann kom með nýtt trix, hann er núna í þessum skrifuðu orðum, að uppfæra ráterinn minn.... Ehee... okCool  Gangið eiturhress inn í fínan föstudagSmile

Já er það virkilega ???

Besservisserar eða kannski "beturvitrungar" á íslensku, er tegund af fólki sem ég þoli bara alls ekki og þá er alveg sama hvort orðið er notað, útlenskuslettan eða stirða íslenska orðið, svoleiðis fólk lagast ekkert þó það sé íslenskað..... Pinch  Ég hef aldrei fattað hvaðan b.v.arnir fá þær hugmyndir að þeir séu svo fullkomnir og með allt sitt svo á hreinu, að þeir hafi virkilega efni á að vera að dreifa öllum sínum ráðleggingum í skipunarformi, vel útpældu athugasemdum og leiðinda takkaýtingum yfir allt og alla. Ég held því fram að ég sé eftirlætisbarn tilverunnar, en ég get auðvitað ekki alhæft þannig, ég er nefnilega óheppin að því leitinu til, að ég þekki allt of marga besservisseraDevil  Og allt of oft leyfi ég þeim að fara í taugarnar á mér og þá er ég að tala um mínar þessar allra fínustu... Mér dettur stundum í hug hvort ég líti kannski út eins og hálf, kvart eða vanviti og það útlit mitt gefi þá b.v.unum sjálfkrafa veiðileyfi á mig. Ég lít stundum í spegil og gái, en þó ég sé kannski ekki alltaf alveg fullkomlega ánægð með það sem ég sé þar, þá get ég samt alls ekki greint að það standi neitt sérstaklega skrifað á andlitið á mér, að ég sé kvalin af vöntun á óvelkomnum ráðleggingum og óþarfa leiðinda afskiptasemiWoundering Ég bið um ráðleggingar ef mig vantar þær og það ætti alveg að nægja öllum í kringum mig, ég þarf alls ekkert að láta segja mér einföldustu hluti, ég er fimmtug fjandinn hafi það og hef hingað til bjargað mér að flestu leiti sjálf.Cool Ég þarf t.d. ekki ráðleggingar um fataval, búsetu, orðalag, háralit, matseðil, sambýlismanninn, heimilisstörf, vinnutíma, köttinn, sparsemi, möpputegundir, barnauppeldi, húsgagnauppröðum, bílafjölda heimilisins, hvar og hvað ég á að kaupa í matinn, klósettferðir mínar eða við hvaða banka og tryggingafélag ég á að skipta. Ef ég geri einhverjar yfirgengilega fáránlegar vitleysur, sem gætu skaðað aðra og/eða kannski mig, þá vil ég láta segja mér það, en þá eru b.v.erarnir yfirleitt víðsfjarri, þeir nenna ekkert að standa í einhverju sem skiptir einhverju máli, en þá taka ættingjar og vinir við, sem betur fer. Að vísu hlæ ég alltaf þegar það er verið að segja mér til í barnauppeldinu, ekki vegna þess að ég hafi verið svo frábær uppalandi, heldur vegna þess að börnin mín eru flutt að heiman og löngu búið að segja mér upp uppeldisstarfinu, "litla barnið mitt" er að verða 22 ára..... Gangið glöð inn í góðan dag, ég ætla að fá mér meira kaffiSmile  

Þunglyndi símsvarinn....

Ég stimpla mig inn og út úr vinnunni, með því að hringja í visst númer í símanum mínum og ýta á "eeeeinn fyrir iiinnstiiiimpluuuun" og "tvooooo fyrir úúúútstiiiimpluuuun". Ég er sú eina sem fæ að byrja klukkan tíu á morgnana, hinar mæta átta og sitja á korters starfsmannafundi, áður en þær fara út að vinna. Ég á auðvitað að mæta í aðstöðuna klukkan tíu, stimpla mig inn í stimpilklukkunni og sitja á kortersfundi með sjálfri mér og spjalla við mig og fá mér kaffi með mér, en ég geri það ekki.... mér finnst það svo innilega hálfvitalegtTounge  Ég hringi bara úr gemsanum mínum og stimpla mig inn klukkan tíu og fer beint í vinnuhús. Maðurinn sem var fenginn til að lesa inn á bandið á símsvaranum sem ég hringi í, er með þunglyndislegustu og fýlulegustu rödd sem ég hef heyrt. Ég hef það alltaf á tilfinningunni, að honum sé ferlega illt í maganum og ég sé að trufla hann prívat og persónulega á klósettinu og að hann þurfi alltaf að svara í hvert skipti sem ég hringi... "æi nei, ekki þú enn einu sinni... hvað viltu núúúna"... Crying  Mér hefur alveg dottið í hug að setja það fram sem tillögu, að manninum verði gefið þunglyndislyf og flott afmælisgjöf og látinn prófa aftur....Joyful  Ég tók eftir því í gær mér til mikillar undrunar, að það er alveg að verða bjart um tíuleitið þegar ég er að böðlast af stað í vinnuna. Eðlilega varð ég undrandi, þetta hefur bara gerst á þessum tíma árs, á hverju einasta ári sem ég man eftir og líklega mörg ár þar á undan, ég verð samt alltaf jafn hissa og vil meina að það sé ofsalega hollt að vera með eitthvað svona gullfiskaminnissyndrom.... Líka gott að leyfa því að hafa svona "fínt" læknisfræðilegt heiti...Grin Gangið glöð inn í góðan dag og njótið þess að vera tilSmile

Stjórnmál og heilinn í mér....

... eru tvö afskaplega lík fyrirbæri. Oftar en ekki gerist nánast ekkert sem nokkurt vit er í, starfsemin í algeru lágmarki og heyrist bara smá tuldur af og til. En svo ég segi ykkur nú bara alveg eins og er, þá gerist það nú svona alltaf annað slagið, að það greinist smá lífsmark og þá er bara alveg hægt að hafa gaman... af stjórnmálum. Ég sit stundum við borðstofuborðið og púsla, að vísu bara lítið púsl núna 1000 kubbar, en það er fátt sem getur ýtt svo við heilanum í mér að það takist að draga hann frá þessari mjög svo spennandi heilastarfsemishvetjandi iðju..... Þangað til í gærkvöldi þegar sjónvarpsfréttirnar byrjuðu og ég lagði við hlustir, af því að ég hélt að það væri farið að gjósa í Heklu eða Upptyppingum, æðislegt nafn á náttúrufyrirbæri, eða hvað þau heita nú þessi eldfjöll okkar, sem bíða bara eftir því að fá að hrella kindurnar okkar og draga að túristana. Slíkur og þvílíkur var æsingurinn í fréttaflutningnum að fréttamennirnir voru móðir og másandi. Ég skil ekki helminginn af því sem er að gerast í stjórn Borgar óttans og misskil eflaust afganginn, en það er alveg geysilegt fjör núna og segið svo að stjórnmál séu tilbreytingalaus og leiðinleg.... það er að vísu ég sem segi það.... ToungeÉg er eins og barn á sýningu hjá sjónhverfingamanni, að fylgjast með þessu öllu.... skil bara ekki hvernig þeir/þau fara að þessu, hvernig þau gabba og plata hvort annað alveg upp úr skónum, fara á bak við hvort annað í röðum og dúkka svo upp einhversstaðar allt annarsstaðar en þau voru í upphafi. Svo er nýbúið að kjósa í öll ráðin og allar nefndirnar og fólkið sem í þeim er, svona rétt að byrja að átta sig á því, út á hvað þetta allt saman gengur og smám saman að fatta hvernig allt virkar...... og þá er það rekið og nýir taka við sem þurfa að byrja alveg upp á nýtt að fatta og átta sig..... Það er ekki alveg allt í lagi þarna ! Hvernig í ósköpunum á svo fólkið í borginni að fara að því að vita hverjum má treysta núna, sem ekki var hægt að treysta fyrir 3 mánuðum síðan og þegar það er loksins búið að fatta hvað borgarstjórinn heitir er skipt yfir í nýjan. Mér finnst þetta ábyrgðarlaus bjánagangur og ekki fullorðnu fólki sæmandi, fólki sem gefur sig út fyrir að vilja stjórna borginni með hagsmuni og velferð fólksins í huga ! Þetta ber meiri keim af persónulegum framapotum, ef það orð er þá til í fleirtölu.... Og hafiði það vitleysingarnir ykkar Devil  Stjórnmálaumræðunni á þessari bloggsíðu er formlega lokið, þangað til næst ! Gangið glöð inn í góðan dag og munið að það birtir alltaf upp um síðir.... nema kannski í pólitíkinniSmile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband