Mig langar alveg til að rífast yfir einhverju...

... en ég hef bara hvorki sál né nennu í það og finn í raun heldur ekkert sérstakt til að rífast út af, nema kannski mannvonsku, ósanngirni, kattahárum, siðblindu, glæpum, leti, stjörnustælum, snjó, rasisma, framhjáhöldum, óhreinum þvotti, trúboðum, fíkniefnum, hraðakstri, heimilisstörfum, dónaskap, bakverkjum og kynjamisrétti, annað væri það nú svo sem ekki... Það er alveg hægt að gefa þessu ástandi mínu eitthvert nafn eins og t.d. hugmyndafræðileg stífla, skammdegisandleysi, sálaröldrun, hugsanaskortur..... Þetta síðasta er nú ekki alveg rétt, það flögrar alltaf eitthvað um hugann, sem betur fer. En mér finnst ekki nóg að dunda mér bara við að finna hin og þessi nöfn yfir "ástönd" mín, ég verð alltaf að finna út af hverju mér líður svona eða hinsegin, núna get ég sett þessa andlegu eyðimörk mína á bakverkinn, sem ég finn fyrir og töflurnar sem ég ét við honum, geri það hér með og nenni svo ekki að skrifa meira um hann. Og annað slagið finnst mér nú líka bara fínt að láta aðra um að rífast og það eru líka alltaf nógir til þess. Ég skil samt ekki alltaf hvernig fólk getur verið að rífa kjaft út af einhverju ferlega ómerkilegu, sem mér finnst engu máli skipta fyrir almannaheill eða lífshamingjuna, fótbolta eða hvað einhver trúir eða trúir ekki á svo dæmi séu tekin, kannski er það bara til að rífast. Eitthvað svona eins og að tala bara til að heyra sína eigin rödd eða ég skrifa bara til að geta lesið mín eigin skrif..... Kannski er ég að gera það núna og kannski er bara eftir allt saman enginn tilgangur með neinu af þessu. Nei nei, það mega allir rífa sig oní rassg.... mín vegna, stundum hef ég bara gaman af því, þó ég  nenni yfirleitt ekki að taka þátt og ég þarf þess heldur ekkert ef mig langar ekki til þess. Ég hef heldur ekki skoðanir á öllu, hef aldrei haft þörf fyrir það, en þær skoðanir sem ég hef komast oftast nær vel til skila. Gangið glöð inn í góðan dag og munið að brosa og þá alveg sérstaklega til þeirra sem eiga það ekki skilið, þar er þörfin mestSmile  

Ég er stundum kölluð feministi...

... og þá sem hálfgert skammaryrði, frá karlkyninu. Ég tek því samt ekki þannig, auðvitað hlýt ég að vera feministi, ef feminismi felur það í sér að ég vil ekki láta troða á mér og tala niður til mín, bara af því að ég er kona. Og ég kæri mig ekki heldur um að láta hampa mér neitt umfram aðra, bara af því að ég er kona, nema þá af spúsa mínum en það er ekki til umræðu hér. Og að reyna að telja mér trú um, að ég þyrfti t.d. eitthvað frekar að laga til bara af því að ég var stelpa, fór alveg óendanlega í mínar fínustu í den. Strákar voru sko líka með hendur sem alveg var hægt að nota til ýmissa hluta, eins og til dæmis að drullast bara til að laga sjálfir til í sínum eigin herbergjumPinch Mér fannst það líka alltaf ferlega fúlt að bróðir okkar fékk svo ótalmargt, bara af því að hann var strákur. Hann fékk að prófa allar vélar og tæki langt á undan okkur systrunum, hann fékk fótstiginn bíl strax sem örverpi, hann fékk hjól langt fyrir aldur fram, hann þurfti ekki að ganga í pilsi, hann mátti vera skítugur og allt þetta bara af því að hann var strákur.... ekki fyndið ! W00t Hann hafði sko ekkert fram yfir mig og ég var meira að segja 2 árum eldri ! Kjólar og pils voru að því að mér fannst þá, hálfgerð hegning fyrir þá sök eina, að ég var stelpa. Samt hefur mig aldrei langað til að vera karlmaður, langt í frá, ég vildi bara ekki þá og vil ekki enn þann dag í dag, láta mismuna mér á þeim forsendum einum, að ég er ekki með typpi. Sumt geri ég betur en karlmaður, sumt gera karlmenn betur en ég, það er deginum ljósara, en að reyna að halda því fram að annað kynið sé eitthvað betra en hitt, getur bara á engan hátt talist rökrétt. Ekki kæri ég mig t.d. um að láta troða mér einhversstaðar inn, bara af því að ég er kona og það vantar konu til að fylla upp í einhvern kynjakvóta, það fyndist mér hrikalega niðurlægjandi. Ég væri þar þá ekki vegna þess að ég væri að sækjast eftir því, heldur einungis vegna þess, að fyrir tilviljun var ég stelpa þegar ég fæddist, en ekki strákur og það eiga að vera þetta margar stelpur þarna, bara af því að einhver lög segja til um það. Ef það væru nú einhverjir karlmenn í vinnunni minni, sem er bara því miður ekki.... og einhverjum dytti virkilega í hug, að þeir ættu að fá meira kaup fyrir sömu vinnu og ég, líklega bara út á typpið á sér, þá mundi ég aldrei sætta mig við það og mundi svo sannarlega gera eitthvað í þvíDevil  En ég mundi ekki heldur sætta mig við að þeir hefðu minna kaup fyrir sömu vinnu og ég, af því að hjá mér virkar þetta algerlega í báðar áttir og er þá kannski frekar jafnrétti en feminismi eða bara bæði..... Gangið kát og hress inn í þennan ágæta þriðjudag, ég ætla að fara að taka jólaljósin úr sambandi Smile  Púkinn hérna samþykkir ekki orðin feministi og feminismi..... skamm PúkiTounge

Æðruleysisbænin er ekkert bara....

... fyrir alkóhólista ! Hún er fyrir þig og mig og alla sem vilja tileinka sér þær einföldu, en samt auðvitað í mörgum tilvikum erfiðu leiðbeiningar, sem hún felur í sér.  Ég var spurð að því í vinnunni um daginn hálfbeiskjulega, af hverju ég virtist alltaf vera svona sátt við lífið og tilveruna, spyrillinn er 69 ára andlega heilbrigður einstaklingur, vel menntaður, mjög vel stæður og hefur alla möguleika til að lifa lífinu, þó að það sé hjólastóll í staðinn fyrir fætur. Ég sagði bara að hver yrði nú að liggja eins og hann hefði um sig búið og til dæmis, notaði ég Æðruleysisbænina, hún hjálpaði líka. "Jæja ertu svona drykkfelld" ? Ekki vildi ég nú segja það og spurði til baka hvort viðkomandi hefði ekkert fræðst um ævina, í lífinu og í öllum þessum skólum ? Ó jú jú, viðkomandi vissi vel að þessi bæn er bara fyrir fyllibyttur...... Jamm og jæja og þú ert asni..... ég sagði það ekki.... hugsaði það bara, ég er ekki bara vel upp alin, ég er líka á býsna háu kaupi við að hlusta á svona bull, án þess að hella mér alveg yfir liðiðWink  Nennti ekkert að þrasa mikið, fyrst þetta gat farið svona algerlega fram hjá viðkomandi alla ævina, þá sá ég ekki ástæðu til að sólunda mínum dýrmæta tíma í útskýringar. En fegin er ég, að hafa ekki þurft á andlegri sérfræðingshjálp viðkomandi að halda, á meðan hann var starfandi, er ekki viss um að það hefði komið mikið gott út úr þvi Tounge  En öll mín samúð er hjá þessum beiska einstaklingi... alveg í 2 mínútur, ég er nú ekki betri manneskja en það... Ég elska aðra hverja viku og ein þeirra er einmitt að byrja núna, það er engin kvöldvinna ! Mér finnst samt kvöldvinnan skemmtileg, en maður þarf líka stundum að hvíla sig á gamninu. Gangið glöð og reif inn í þennan góða dag, varið ykkur á beiskjunni, notið stefnuljósin og fylgist vel með hraðamælinum í bílnum ykkar, þ.e.a.s. á keyrsluSmile

Endurtek, legg áheyrslu á...

... og undirstrika, að það sem ég vil ekki láta gera mér, það geri ég ekki öðrum.... það sem ég vil ekki láta segja við mig, segi ég ekki við aðra og ef ég vil ekki láta tala um það sem ég geri, þá er gott ráð að gera það þá bara alls ekki...... bara svona að minna mig á og það er öllum öðrum algerlega frjálst að nota þetta líka Wink 

Í dag, hefði pabbi orðið 85 ára ef ég kann að reikna, til hamingju pabbi minnHeart Hann er að vísu ekki viðstaddur í eigin persónu, dó fyrir rétt rúmum 7 árum síðan. Og ef hann væri viðstaddur, þá mundi hann ábyggilega segja, að hann kærði sig ekkert um neitt "vesen", en það hefði nú örugglega samt orðið eitthvað smá "vesen" í kringum það. Hann eignaðist 9 börn og var svo almennilegur að leggja það ekki allt saman bara á eina konu, hann var tvíkvæntur og báðar konurnar enn á lífi. Árnína, BjörkHeart, Björn, Auður, Helga, Róbert, Birna og Erna, til hamingju með pabba okkarWizard

Það rignir og ég er ekki að fara út að taka niður seríur og er ekkert ennþá orðin alveg brjáluð á jólaskrautinu, en fer að tína það smám saman niður í kassa næstu daga. Ég er lengi að koma því  upp, ennþá lengur að taka það niður. En jólin voru eins yndisleg og hægt var að hafa þau, ég fékk bestu jólagjöfina sem ég get hugsanlega fengið, en það er að hafa öll börnin mín hjá mér. Í byrjun júní erum við, strákarnir mínir tveir, tengdadóttir og barnabarn, að fara til Gautaborgar til að vera viðstödd þegar hún dóttir mín útskrifast sem félagsráðgjafi ! Verkefni þessa fína sunnudags eru aðallega tvö, fara með kerti á leiðið hans pabba frá okkur öllum og vinna svo smá í kvöld. Gangið glöð inn í fyrsta daginn af öllum þeim dögum, sem þið eigið eftir ólifaða og verið ofsalega góð við hvort annað Smile


Það er svo margt skrítið í kýrhausnum :-)

Í fréttum er þetta helst í morgunsárið, að hermaður var rekinn úr þýska hernum af því að hún fór í brjóstastækkun. Og ástæðan sem gefin upp er í raun stórkostleg : "það er aukin hætta á meiðslum" ! Ég er að reyna að sjá fyrir mér, hvernig konan getur mögulega slasað einhvern með brjóstunum á sér, gæti hún rotað einhvern með þeim á æfingum eða yrðu ef til vill fleiri árekstrar á svæðinu af því að allir eru að góna á brjóstin á henni ? Fengi hún nú heiðursmerki, væri þá hætta á að það stingi augun úr einhverjum ? Ætli sú staðreynd að hún vill fá að vinna sem herlæknir hafi kannski eitthvað með þetta að gera, brjóstin svo stór að það er hætta á að hún sjái ekki fram fyrir þau og skeri fingur af við öxl eða..... 

Það eru tveir karakterar svolítið til umræðu þessa dagana og mér finnst þeir báðir frekar skringilegir. Annar er leikhúsgagnrýnandi og heitir Jón Viðar, maður sem ég hélt alltaf að væri bara leikin persóna, svona eins og Silvía Nótt. En hann er til í alvöru og hefur svo sterkar skoðanir á leikhúsum og öllu sem tengist þeim og getur ekki setið á sér að moka yfir liðið, öllu sem honum dettur í hug, að hann er ekkert á frumsýningavinalistanum lengur. Það sem ég hef lesið eftir hann er stundum svo dónalegt að mér finnst það ekkert hafa með gagnrýni að gera, frekar einhverskonar vanlíðan og geðvonsku. Skyldi einhver ímynda sér að það sé hægt að þagga niður í honum, með því að neita að gefa honum miða í leikhúsið. Verður hann ekki bara ennþá fúlli af því að hann þarf að borga sig inn ?

Hinn karakterinn heitir Ástþór og hann ætlar enn einu sinni að bjóða sig fram til forseta Íslands..... Æi, af hverju er hann að þessu ? Er fattarinn í honum alls ekki í lagi ? Eða á hann bara svo mikið af peningum, að hann veit ekki hvað annað hann getur gert við þá ? Ég get gefið honum margar hugmyndir um hvar peningarnir hans kæmu sér betur en í enn einu vonlausu forsetaframboðinu. Annars er honum alveg frjálst að bjóða sig fram, en ég vil fá að sjá að það þurfi fleiri til að skrifa undir hjá fólki sem vill fara í forsetaframboð, svo það sé þá eitthvað að marka.... kannski 5000 en ekki bara 1500 hundruð. Ég gæti örugglega fengið 1500 manns til að skrifa á svona lista hjá mér, mundi kannski nota sömu aðferðina og þegar ég var að koma gamla bílnum mínum gegnum skoðun hérna á árum áður !

Jæja eldsnemmaálaugardagsmorgnihugvekjan mín er búin, enda kominn tími á það, ef þið eruð ekki bara löngu hætt að lesa þegar hér er komið sögu.... Gangið glöð og hress inn í daginn og hafið það sem allra best Smile   


Aldrei að taka vinnuna með sér heim eða......

Eitt af því sem fólki er oft ráðlagt, er að taka ekki vinnuna með sér heim..... ekki satt ? Ég tek það mjög alvarlega, enda hef ég ekkert gert hérna heima það sem af er árinu, nema alveg það allra nauðsynlegasta. Ég vinn við heimaþjónustu, hjálpa til við algengustu heimilisstörf s.s. þurrka af og ryksuga og skúra og set í þvottavél, svona svo eitthvað sé nefnt. Ekkert af þessu hef ég gert hérna heima hjá mér, það sem af er þessu ári, en ég er ennþá að sauma jóladúkinn, sem ég byrjaði á í nóvember og lofaði að yrði til fyrir jól... nefndi ég nokkuð ártal með þeim jólum ? Whistling Ég fór til læknis í gær, vegna þess að hluti af vinstri hendinni á mér plús tveir fingur, sofnuðu með restinni af mér, fyrir rúmri viku en hafa ekkert vaknað aftur og það fer svolítið í pirrurnar á mér, sem eru þó hvorki margar né stórar. Ég vil bara láta þetta virka  eins og það á að gera, en doksa fannst nú ekki ástæða til að vera að hafa áhyggjur af þessu, enda  óstressaðasti maður sem ég þekki, hún mundi nú líklega vakna einhvertímann...Shocking Ok, það er nú út af fyrir sig alltaf ágætt að fá jákvæð viðbrögð, en þar sem það kostar orðið þúsund kall að fara til læknis og ég þessi peningagrútur, þá vil ég láta eitthvað aðeins meira gerast, en bara kollkink og bros. En auðvitað fór ég, sem fatta alltaf allt eftir á og löngu seinna, bara með mína steinsofandi hendi og aulabros á andlitinu út frá lækninum, þúsundkalli fátækari.... æi, hvað það er nú alltaf gaman að hitta jákvætt fólk..... GetLost Það er kominn föstudagur og mér finnst það fínt, ég er ekki í nokkru stuði til að gera neitt og er búin að komast að því að banamein mitt verður letiSleeping   Gangið glöð inn í góðan dag og verið góð, betri og best við allt og alla Smile

Skil ekki tilganginn...

..... með ekta íslenskri ofdrykkju. Þá er ég ekki að tala um þá sem þjást af alkóhólisma, ég er að tala um hrokagikkina, sem aldrei taka sér orðið alkoholismi í munn, nema þá í tilraun til að gera illgirnislegt gys að öðrum með því, af einskærri minnimáttarkennd og dytti ekki í hug að láta grípa sig dauða við að viðurkenna, að þeir þyrftu kannski að fara að hugsa eitthvað lengra en bara til næsta helgarfyllirís. Og ég er að tala um fullorðið fólk..... fullorðna fólkið sem á að vita betur og á að vera komið með meiri reynslu en unglingsbjálfi með brennivínsflösku... Fullorðið fólk sem veit alveg, af margendurteknum tilraunum á sjálfu sér, hvaða áhrif alkóhól hefur ! Fullorðið fólk sem ber virkilega ekki meiri virðingu fyrir sjálfu sér en það, að það drekkur brennivín sér til óbóta og notar til dæmis fj.... áramótin til að afsaka helv....þambið. Það er ein af ástæðunum fyrir því að mér finnst ekkert gaman um áramót, mér finnst langflestir einblína bara á fyllirí. Gamla árið endar kannski ekkert mjög illa, bara svona aðeins "íðí", en dettur ekki í hug að láta þar staðar numið og byrja svo nýja árið mun verr... Bullandi eitthvað helíum rugl, eins og heilinn sé algerlega farinn úr sambandi  og allt dottið úr hillunum þar, jafnvægið fer veg allrar veraldar, týna jakkanum og jafnvel skónum, veskinu, símanum, lyklunum, skynseminni, minninu, vitinu og heilsunni..... Og þetta gerir fullorðið fólk sjálfu sér, í alvöru, fullkomlega viljandi ! Þetta get ég bara ómögulega skilið... mér þykir allt of vænt um sjálfa mig til að geta hugsað mér, að fara svona með mig ! Hvað er svo gaman við að vakna, undir kvöld daginn eftir og þurfa að fara að tína sjálfan sig og veraldlegar eigur sínar saman, drepast úr hausverk, þorsta og alls konar vanlíðan og muna ekkert hvað var gert eða sagt og jafnvel ekki hvar maður var eiginlega... hvernig maður komst heim undir morgun, hverja maður hitti og af hverju er horft svona undarlega á mann lengi á eftir... Fullyrða svo, alveg fram í rauðan dauðann, að maður hafi sko verið úti að skemmta sér og það hafi verið alveg ofsalega gaman..... Ok, ég er hætt, en ég bara varð... Gangið glöð inn í daginn og gætið hófs í helv... áfenginu...ok, ok, ég er alveg hætt... í biliPinch


Er þetta ekki bara orðið ágætt ?

Jú, ég held það barasta.... Wink  Ég er búin að fá upp í háls af stórsteikum, sælgæti og fríum úr vinnunum, jólaseríurnar mínar gefa upp öndina hver um aðra þvera, þær sem ekki fuku um koll úti leggja bara upp laupana hérna inni, jólaskrautið orðið rykugt sökum leiti í húsmóður, sem vill ekki láta nafns síns getið, vatnið í fiskabúrinu þannig á litinn að það er orðið spurning um hvort það eru nokkrir fiskar þar... Blush Ég strengdi engin áramótaheit frekar en venjulega, áramótaskaupið var ekkert skemmtilegt, en mér er svo sem sama um það... þetta er bara sjónvarpsefni og það er ekki allt jafngott. Ég elska jólin og allt í kringum þau, en áramótin hafa í mínum huga yfirleitt ekkert verið neitt sérstaklega skemmtileg og voru það heldur ekkert í þetta skiptið.... Ég man í den, þegar ég var alltaf með ávísanahefti og skrifaði oftast gamla ártalið fram í ca mars á nýju ári... bara alltaf verið að breyta þessu.... ! Tounge Núna byrjar venjulega rútínan aftur og mér finnst það fínt, að vinna mig í gegnum hvern dag fyrir sig og reyna að gera eins vel og hægt er, fer ekki fram á meira af sjálfri mér og ekki af öðrum heldur, það breytist ekkert þótt það sé komið nýtt ártal. Ég get ekki grobbað mig af neinu sérstöku á gamla árinu og ætla ekkert að reyna það heldur, flest fór vel, fátt fór illa og annað sjálfsagt bara eins og það átti að fara.... Og núna er kominn nýr vinnudagur og gott að muna að skila vinnuskýrslunum fyrir desember, annars er hætta á að ég fái ekki útborgað og gamla fólkið fái ekki að borga fyrir þjónustuna og hvoru tveggja væri skandallDevil Mín ósk til ykkar sem álpast hér inn og lesið þetta er, að nýja árið verði miklu betra en það gamla... nú ef þið eruð ekki ánægð, reynið þá að breyta því ef það er hægt eða þá að sætta ykkur við lífið eins og það er, að öðrum kosti..... Gangið glöð og endurnærð inn í góðan dagSmile

Góðan dag og gleðilegt nýtt ár :-)

Eins og vanalega fór ég upp í gistiheimilið um miðnættið og horfði þar út um gluggann á mína einka flugeldasýningu niður á AkureyriWizardÞetta var auðvitað mjög flott eins og alltaf og ég vona sannarlega að allir hafi komist óslasaðir frá ósköpunum. Við fengum nokkur boð um að mæta í partý, en ég nennti ekki í eitt einasta, sérstaklega ekki þegar það á að fara að skella sér af stað klukkan 2 að nóttu til..... þá er löngu komið fram yfir minn háttatíma, þó svo að það séu áramót. Og þá er ég auðvitað fúl og leiðinlegur félagsskítur og svo framvegis, en það er þá bara þannig, ég met það miklu meira að vakna hress og fersk og þá líklega um svipað leiti og partíljónin eru að skrölta heim til sín. Svo skal ég alveg fara og heimsækja þetta sama fólk daginn eftir og þiggja kaffi, en þá er ég ekki jafnvelkomin Tounge Svona í alvöru talað, að sitja og hlusta á misjafnlega drukkið fólk röfla um allt og ekkert og oftar en ekki fara að rífast og vera með leiðindi og stæla, það er sko alls ekki mín hugmynd að skemmtun, ég mundi frekar horfa á eldhúsdagsumræður á Alþingi, sem mér leiðist alveg hreint svakalega að gera. Ég held ég þekki bara eina manneskju sem verður ekki leiðinleg með víni og það er besta vinkona mín, enda er hún damaHeartWink Annars er þetta fínn dagur, svona fyrir utan helv... rokið alltaf hreint.... útiseríurnar eru hreinlega foknar úr sambandi og ég fer kannski, en bara kannski út á eftir og set þær í samband aftur. Það er einhvernvegin miklu huggulegra að setjast bara með kaffibollann og bókina eftir Agatha Christie og halda áfram að reyna að komast að því með Hercule Poirot, hver myrti ræstingakonuna ! Gangið glöð inn í nýjan dag á nýju ári og þakka ykkur öllum fyrir gamla áriðSmile


Hún varð nú ekki löng biðin...

... á slysó í gær. Þegar ég var loksins búin að ákveða hvað af þessum 3 tegundum að blöðum ég vildi lesa, Mannlíf, Uppeldi eða eitthvert danskt blað, sem ég man nú ekki hvað heitir og frá hvaða ári það átti að vera, 2005 eða 2006, þá var biðtíminn búinn. Og ekki var það vegna þess að blöðin væru svo mörg.... Það var bara ekkert að gera þarna og svo tók það nú ekki langa stund fyrir röggsaman lækninn að finna út hvað var að hnénu á honum spúsa mínum og gefa út lyfseðil fyrir sýklalyfjum, sækja lyfin, moka í sig töflunum og hafa hægt um sig í nokkra daga... málið afgreitt.  Nokkrir dagar hjá honum þýðir nú í mesta lagi tveir, svo hann notar þá bara þessa lögboðnu frídaga til að jafna sig og byrjar að vinna á annan í nýjári. Og þá man ég að þetta er síðasti dagurinn á árinu 2007 og á morgun er komið árið 2008, ef það skyldi nú einhver vera að velkjast í vafa um það. Fyrir mér er þetta nú að mestu bara venjulegur mánudagur, ég er að fara að vinna fram að hádegi og svo byrjar ný kvöldvinnuvika alltaf á mánudegi. Á morgun á næsta ári, verð ég að sitja í sirka klukkutíma eða tvo, við að fylla út 28-34 síðna vinnuskýrslu, sem þarf að skila helst svona nokkuð stundvíslega, klukkan 8 á miðvikudagsmorgun á næsta ári. Ég strengi aldrei áramótaheit, sé ekki tilganginn með þeim, ég mundi hvort sem er ekkert standa við þau og til hvers eru þau þá.... Hér kemur samt langflottasta áramótaheitið og alveg í mínum anda : "Ég stíg á stokk og strengi þess heit að verða hundrað ára ellegar deyja við að reyna það....." Elskurnar mínar allar, allir og öll, nú blogga ég ekkert aftur fyrr en á næsta ári og bið allar góðar vættir, guði og engla að gæta ykkar þangað tilSmile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband